09.03.1956
Neðri deild: 84. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

158. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls á síðasta fundi hv. deildar reis hér upp hv. þm. V-Húnv. (SkG) og flutti fram ásakanir í garð okkar yfirskoðunarmanna um, að við hefðum sýnt einhverja hlutdrægni, að því er virtist, varðandi eina athugasemd við þennan reikning. Þessu var að sjálfsögðu beint til mín og hæstv. forseta sameinaðs þings, sem erum yfirskoðunarmenn, en það mun hafa vakað fyrir okkur báðum jafnt að svara ekki strax til þess að athuga þetta mál nokkru nánar, því að umr. um reikninginn er að sjálfsögðu ekki lokið fyrr en 3. umr. hefur farið fram.

Nú er það svo, að það mál, sem hér er um að ræða, óinnheimtar tekjur ríkisins, er þó nokkuð alvarlegt mál og miklu viðtækara en það, sem athugasemd hv. þm. V-Húnv. gaf tilefni til.

Ég skal nú leyfa mér mönnum til glöggvunar að lesa upp athugasemdina og svar ráðherrans. Athugasemdin er á þessa leið:

„Eftirstöðvar hjá innheimtumönnum voru í árslok kr. 20560854.17. Er það nokkru lægra en í árslok 1952. Þá voru eftirstöðvar kr. 22424842.18.

En á árinu hefur verið fellt úr eftirstöðvum kr. 1812049.59. Á nokkrum stöðum eru eftirstöðvar allmiklar.“ Svo teljum við upp nokkur lögsagnarumdæmi, þar sem eftirstöðvar eru töluvert miklar, og segjum svo: „Hefur verið gerð sérstök gangskör að því að innheimta þetta fé?“ Það datt okkur náttúrlega ekki í hug, að sú upptalning, sem við höfum hér, sé tæmandi að neinu leyti, en bendum á sem dæmi lögsagnarumdæmi, sem eftirstöðvar eru sérstaklega miklar í.

Svar ráðherrans við þessari athugasemd er á þessa leið:

„Eftirstöðvar eru óeðlilega háar í Neskaupstað, Keflavík, Akranesi og Hafnarfirði, og hefur alvarlega verið brýnt fyrir innheimtumönnum að herða á innheimtunni. Þótt eftirstöðvar séu háar í hinum umdæmunum, sem nefnd eru í athugasemdinni, eru þær miklu lægri í hlutfalli við tilfallnar tekjur. Einnig við innheimtumennina úr þessum umdæmum hefur ráðuneytið rætt sérstaklega um eftirstöðvar þessar og lagt fyrir þá að herða á innheimtunni.“

Þetta létum við yfirskoðunarmenn í bili okkur nægja, þannig að við vísuðum ekki athugasemdinni til aðgerða Alþingis. En ég verð að segja það, að hér er um talsvert alvarlegt mál að ræða, sem er ekki nýtt, því að það er áframhaldandi frá fyrri árum líka. Árið 1953 var eitthvert bezta ár, sem hér hefur komið, tekjur almennt miklar og afkoma almennings góð, og ég held, að því trúi enginn, að það hafi verið alveg nauðsynlegt, að það væru útistandandi af tekjum ríkisins hjá innheimtumönnum yfir 20 millj. í lok þessa árs, einkum þegar þess er gætt, að reikningum ríkisins er venjulega ekki lokað fyrr en talsvert er komið fram á næsta ár, oftast undanfarin ár ekki fyrr en í apríl eða maí. Þess vegna er talsvert færi á því fyrir innheimtumenn að laga innheimtuna á því tímabili, sem liðið er, á næsta ári.

Það atriði, sem ég var sérstaklega að hugsa um í gær, var, hvernig stæði á, að við hefðum ekki tekið með tollstjórann í Reykjavík, þar sem eru hæstar eftirstöðvar að sjálfsögðu, þær eru þar í árslokin 9½ milljón. En þegar ég fór að athuga þetta, sá ég, að við höfðum ekki tekið það sérstaklega með vegna þess, að á árinu höfðu lækkað eftirstöðvar á þessum stað um hátt á þriðju milljón frá því árið áður, og auk þess eru þær hlutfallslega töluvert lægri en í þeim umdæmum, sem við tilnefndum.

Nú er það svo um þessar skýrslur, sem hv. þm. geta kynnt sér í ríkisreikningnum, sem þeir hafa allir að sjálfsögðu fyrir augunum, að það er auðsætt, að það er hægt að hafa innheimtuna í betra lagi en er í mörgum umdæmunum, því að það er sums staðar, sem eru sáralitlar eftirstöðvar og gengið þar betur að innheimtunni en gerist annars staðar. Nú færði hv. þm. V-Húnv. engin rök fyrir sinni athugasemd hér í gær, aðeins sló því fram, að það sýndi sig, að það væri einhver hlutdrægni frá hálfu okkar yfirskoðunarmanna varðandi þetta mál. Fyrir því færði hann engin rök, og skal ég þess vegna ekki fara nánar út í það. En mér skildist á honum, að þegar miðað væri við prósentuútreikning á eftirstöðvunum, væru þær sums staðar hlutfallslega hærri en í þeim fjórum umdæmum, sem hann vildi telja að við hefðum ekki haft ástæðu til að nefna í þessu sambandi. Nú er það svo, að það koma fleiri atriði þarna til greina, og skal ég ekki mikið fara út í það. En ég held, að mér sé óhætt að segja, að fyrir engum okkar yfirskoðunarmanna hefur vakað að sýna nokkrum manni, hvorki innheimtumanni né öðrum, neina hlutdrægni á þessu sviði og sízt að okkur dytti heldur í hug, að sú upptalning, sem við nefnum hér, sé tæmandi um það, sem í rauninni er athugavert. Aðalatriði athugasemdarinnar er það, að okkur þykir ár eftir ár og höfum fundið að því á hverju ári mjög lengi, að að innheimtunni væri ekki gengið svo rækilega sem æskilegt væri. Og það má geta nærri, hvernig fer, þegar þrengir að, þegar ekki tekst betur á ári eins og árinu 1953 að hafa hreinni uppgerð í þessu efni en þessi reikningur sýnir.