09.03.1956
Neðri deild: 84. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

158. mál, ríkisreikningar

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. A-Húnv. segir, að ég hafi við 2. umr. málsins haldið því fram, að í fyrstu athugasemd þeirra yfirskoðunarmanna við þann ríkisreikning, sem hér liggur fyrir, hefðu þeir sýnt hlutdrægni. Ég mun nú ekki hafa haft þetta orð yfir það, en ég býst við, að þetta sé meir fyrir óvandvirkni hjá þeim eða hroðvirkni. Ég get vel fallizt á, að það muni frekar vera þannig.

Hv. þm. segir, að þeir hafi viljað benda þarna á nokkur umdæmi, þar sem eftirstöðvar væru sérstaklega miklar. En ég sýndi fram á það við 2. umr. málsins, að að því er varðar fjögur af þessum umdæmum er það þannig, að þar hefur verið innheimt meira tiltölulega af því fé, sem sýslumaður og bæjarfógetar á þeim stöðum áttu að innheimta, heldur en hjá allmörgum öðrum embættismönnum, sem þó eru ekki nefndir í athugasemdinni, og það var þetta, sem ég var að vekja athygli á og finna að, vegna þess að ef menn lesa á annað borð þessar athugasemdir yfirskoðunarmannanna, hljóta þeir við athugun á fyrstu athugasemdinni að skilja þetta svo, að í þessum 8 umdæmum, sem nefnd eru, sé ástandið lakast að þessu leyti. En svo er ekki, eins og ég sýndi fram á áður. Hv. þm. segir, að ég hafi ekki fært nein rök fyrir þessu. Ég held því fram enn, sem ég benti á við 2. umr., að það séu allmörg lögsagnarumdæmi önnur en þessi fjögur, sem ég nafngreindi og þarna eru talin, þar sem eftirstöðvarnar eru tiltölulega meiri. Þetta er þannig, og þetta getur hv. þm. sannfært sig um, ef hann fer yfir þá skýrslu, sem birt er í ríkisreikningnum. Ég sé ekki ástæðu til, nema frekara tilefni gefist, að fara að nefna þessi umdæmi, en þetta er svona, og það geta allir þm. sannfært sig um með athugun á ríkisreikningnum. Þar er að finna næg rök fyrir þessari athugasemd, sem ég bar fram.

Hv. þm. segir, að þeir hafi ekki nefnt þarna Reykjavík, þó að upphæðin væri þar hæst, sem væri óinnheimt, og hann benti á það, að eftirstöðvarnar væru þar hlutfallslega lægri en viða annars staðar. Þetta er alveg rétt. En ef sú regla á að gilda um Reykjavík að miða við það, hvað mikið er innheimt hlutfallslega af því, sem þar á að innheimta, þá á hún auðvitað að gilda jafnt um önnur lögsagnarumdæmi, og það er, álít ég, sú eina regla, sem hægt er að miða við í þessu efni, vegna þess, hvað það eru ákaflega mismunandi miklar fjárhæðir, sem þessir innheimtumenn eiga að krefja um og standa skil á.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar út af þessari athugasemd hv. þm. A-Húnv.