09.03.1956
Neðri deild: 84. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

158. mál, ríkisreikningar

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. A-Húnv., sem er endurskoðandi ríkisreikninganna, hefur farið að glugga í plöggin upp á nýtt og þó komizt það áleiðis, að hann hefur fundið tvö lögsagnarumdæmi, þar sem tiltölulega er meira óinnheimt en í þeim fjórum, sem ég nefndi og þeir gera aths. um. En ég skal segja honum, að hann má leita betur, því að þau eru miklu fleiri, þessi umdæmi, þar sem eftirstöðvarnar eru hlutfallslega meiri.

Ekki var það rétt hjá hv. þm., að ég hafi sérstaklega verið að tala um Mýrasýslu í gær. Ég nefndi fjögur lögsagnarumdæmi samtímis, sem yfirskoðunarmenn gera aths. um að því er þetta snertir. Það voru Mýrasýsla, Ísafjarðarsýsla og Ísafjarðarkaupstaður, Eyjafjarðarsýsla og Akureyri og Vestmannaeyjar. Og það stendur óhrakið, að það eru allmörg umdæmi, þar sem tiltölulega meira er óinnheimt en á þessum stöðum.

Það er síður en svo, að ég sé að finna að því, þó að yfirskoðunarmenn bendi á, að það sé óinnheimt töluvert af ríkistekjum víða um land, og leggi á það mikla áherzlu, að þessu sé kippt í lag. Ég er þeim alveg sammála um það. En ég finn að því, þegar þannig er frá aths. gengið, að það er tilviljun ein, sem ræður, hverju þeir sletta á blað, eða virðist vera aðeins tilviljun, en þeir gera sér ekki far um það, úr því að þeir nefna einstök lögsagnarumdæmi, að nefna þá þau umdæmin, þar sem lakast er ástatt að þessu leyti. En allur almenningur hlýtur að skilja aths. þannig, ef menn kynna sér þetta, að þar sé verið að benda á þá, sem hafi staðið sig lakast við innheimtu á ríkistekjum. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um þetta.