22.03.1956
Efri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

158. mál, ríkisreikningar

Fram. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fyrir lítilli stundu voru fjáraukalög fyrir árið 1953 afgr. sem lög í Sþ. Með því hefur Alþ. raunverulega kvittað fyrir ríkisreikninginn fyrir þetta ár og samþ. þær umframgreiðslur, sem orðið hafa fram yfir fjárlög. Ég hef ákaflega lítið að segja um þetta mál, sem hér liggur fyrir.

Fjhn. hefur athugað ríkisreikninginn og borið frv. tölulega saman við hann, og eru tölurnar rétt upp teknar í þetta frv. Enn hefur fjhn. athugað athugasemdir yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna, svör ráðh. við þeim og úrskurði yfirskoðunarmanna um athugasemdirnar.

Það verður ekki sagt, að athugasemdir yfirskoðunarmanna séu margar, þegar tekið er tillit til þess, hversu ríkisreikningurinn er orðinn mikið bákn. Athugasemdirnar eru 23, því að 24. liður er aðeins um það, að leitað skuli samþykkis Alþ. fyrir umframgreiðslum í fjáraukalögunum.

Úrskurðir yfirskoðunarmanna eru með ýmsu móti. Stundum segja þeir út af athugasemdunum, að við svo búið verði að standa eða það sé til athugunar framvegis og til eftirbreytni framvegis. Flestar aths. eru afgreiddar á þann hátt. Einni aths. sinni vísa yfirskoðunarmenn til aðgerða Alþingis, og er það út af umframgreiðslum hjá Skipaútgerð ríkisins. Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi verið beinlínis út af þessari till. yfirskoðunarmanna, að Alþ. hefur nú hafið aðgerðir út af þessu máli, þar sem það hefur samþykkt að kjósa nefnd til þess að athuga um samgöngur innanlands, þar með strandferðirnar. Má því segja, að þessu sé fullnægt, að Alþ. hafi tekið þetta til greina að vissu leyti. Annars hefur það oft verið svo, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa vísað ýmsum af aths. sínum til aðgerða Alþ., og þá er venjan sú, að þeir gera engar till. um það, hvað Alþ. eigi að gera út af þeim málum. Þó að svo standi á, að tveir af yfirskoðunarmönnunum séu alþm., sem báðir eiga sæti í hv. Nd., — svo hefur verið um mörg undanfarin ár, — hefur aldrei komið nein till. frá þeim um það, hvað Alþ. skuli gera, þó að þeir hafi vísað aths. til aðgerða Alþingis.

Fjhn. þessarar hv. d. hefur ár eftir ár látið í ljós, að hún teldi þetta ekki rétta starfsaðferð, og óskað eftir því, að þegar athugasemdum er vísað til aðgerða Alþ., liggi fyrir ákveðnar tillögur frá yfirskoðunarmönnum. Vil ég endurtaka það hér, að þetta væri æskilegt.

Enn fremur er það um athugasemdir, sem þeir úrskurða með því að segja, að þetta sé til eftirbreytni framvegis, til athugunar framvegis eða jafnvel til viðvörunar framvegis, að þá liggur lítil grg. fyrir frá þeim um það, hvort slíkir úrskurðir liðinna ára frá þeirra hendi hafa verið teknir til greina. Þyrfti að sjálfsögðu að fást bót ráðin á þessu, því að það fer að verða mjög vafasamt gagn að vinnu yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna, ef látið er við það sitja, að þeir benda á, að eitt eða annað sé til viðvörunar eða til eftirbreytni, en líti svo ekki eftir því, að ábendingar þeirra séu teknar til greina.

Eins og ég gat um í upphafi, hafa nú verið samþykkt fjáraukalög fyrir þetta ár, og þar með hefur Alþ. lagt sinn úrskurð á ríkisreikninginn að vissu leyti. Og með því, eins og ég einnig gat um í upphafi, að þessu frv. ber tölulega saman við ríkisreikninginn, þá leggur fjhn. einróma til, að frv. sé samþ. óbreytt, en þó með þeim fyrirvara, sem ég hef getið um.