20.03.1956
Efri deild: 88. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það eru vissulega mikil og góð tíðindi, að frv. sem þetta skuli nú vera lagt fyrir Alþ. af ríkisstj. og að svo skuli horfa, að alger eining verði um málið á þessu þingi. Ég hef sérstaka ástæðu til þess að fagna þessum tíðindum. Það eru nú liðin 14 ár síðan ég bar fyrst fram frv. hér í þessari hv. d. um atvinnuleysistryggingar, sem í meginatriðum gekk í sömu átt og þetta frv., enda þótt nokkru lengra væri gengið og verkalýðssamtökunum gefnar á alla lund rýmri hendur um framkvæmdir.

Um langt árabil hefur Sósfl. flutt þetta frv. á hverju einasta þingi og málið ekki fengið þær undirtektir, að það tækist að fá það afgreitt úr nefnd, og gekk svo ár eftir ár. En fylgi verkalýðsstéttarinnar við málið hefur sífellt farið vaxandi, og var nú svo komið, að verkalýðsstéttin stóð algerlega einhuga að baki þessu frv. Þetta var hennar mál, og eitt hennar mesta mál. Fá mál, sem Alþ. hefur fjallað um, hafa varðað verkalýðsstéttina meira, enda var svo komið, að flest verkalýðsfélög á landinu höfðu þaulrætt málið og skorað einróma á Alþ. að samþykkja það og einmitt í þeirri mynd, sem það var flutt af þm. Sósfl. Í fyrra náðist svo nýr áfangi í málinu, þar sem frv. var flutt sameiginlega af þm. Sósfl. og Alþfl.

Það eru því mikil gleðitíðindi, að nú skuli allir viðurkenna, að hér sé um mikið og gott nauðsynjamál að ræða. Það er gleðilegt að heyra, að það skuli vera viðurkennt í stjórnarblöðunum, að hér sé verið að fara þá hyggilegu leið að safna á góðu árunum til vondu áranna. Það er gott, að það skuli viðurkennt, að slíkir sjóðir sem atvinnuleysistryggingasjóðir séu mikil nauðsyn fyrir efnahagslíf landsins og að með slíkri löggjöf skapist nýir fjárhagslegir möguleikar til þess að leggja í framkvæmdir til að tryggja atvinnuöryggi landsmanna. En það er hins vegar til lítils sóma fyrir stjórnarvöld og Alþingi, að það skyldi þurfa 14 ár frá því að frv. var fyrst borið fram þar til stjórn og Alþingi áttuðu sig á þessum einfalda og mikilvæga sannleika. Það er til lítils sóma fyrir þessa aðila, að það skyldi þurfa fimm vikna verkfall eða nokkru betur þó til þess, að hæstv. ríkisstj. og þeir, sem að henni standa, léðu máls á því að ganga að þeim kostum, að slík nauðsynjalöggjöf yrði sett. Það er hart, að atvinnuvegir landsins skuli þurfa að stöðvast vikum saman til þess að koma vitinu fyrir löggjafann í svo einföldu og sjálfsögðu máli. Það er þó ekki vegna þess, að þau rök, sem allir virðast nú sammála um, hafi ekki verið borin fram áður. Þing eftir þing höfum við sósialistar flutt þessi einföldu rök og hamrað á þeim, en alltaf höfum við talað fyrir daufum eyrum. Það þurfti sex vikna verkfall til þess, að ríkisstj. og Alþingi fengju þessi rök inn í höfuðið, og þó munu nú flestir játa, að við værum öðruvísi á vegi staddir, ef frv. hefði orðið að lögum fyrir 14 árum. Þá mundi hafa verið hægt að leggja í ýmsar stórmikilvægar framkvæmdir, sem í öll þessi ár hafa orðið að bíða. Það hefði verið hægt að hyggja fleiri verkamannabústaði. Húsnæðismál verkalýðsins hefðu ekki þurft að vera í því ófremdarástandi, sem þau eru nú. Það hefði verið hægt að leggja grundvöll að tryggara atvinnulífi á mörgum stöðum, sem hafa góða möguleika, en þar sem nú liggur við landauðn. Böl atvinnuleysisins hefði ekki orðið eins þungbært, og verkalýðsstéttin mundi búa við meira öryggi. Ef hún hefði slíkan bakhjarl sem sjóði, er numið gætu hundruðum milljóna kr., mundi hún ekki þurfa eins að kviða hverju skakkafalli í atvinnulífinu og eiga skort og allsleysi yfir höfði sér, eins og oft er raunin á. En þetta er ein og einhver hin ljósasta sönnun þess, hvílík höfuðnauðsyn það er fyrir þessa þjóð, að Alþingi verði skipað í meira samræmi við hagsmuni hins vinnandi fólks.

Þetta frv. er í samræmi við það samkomulag, sem gert var milli deiluaðila í verkföllunum í vor, svo langt sem það samkomulag nær. Ég mun því ekki bera fram brtt. við þetta frv. Það ríður á því, að engin snurða hlaupi á þráðinn og að tryggt sé, að stranglega sé haldið sér við samkomulagið. En þetta þýðir hins vegar ekki, að ég sé ánægður með frv. í öllum greinum. Þvert á móti. Í ýmsum efnum tel ég, að það þyrfti mikilla lagfæringa við, og vona, að það verði endurbætt, þó að síðar verði.

Ég tel það ekki galla á frv., að sjóðirnir skuli vera á sérreikningi hinna einstöku verkalýðsfélaga, heldur þvert á móti einn helzta kost þess. Með því einu móti er tryggt, að sjálf tryggingastarfsemin geti verið í höndum verkamanna sjálfra með fullkomlega lýðræðislegum hætti. Með því einu móti er hægt að haga framkvæmdum og fyrirkomulagi öllu í samræmi við hinar breytilegu aðstæður á hinum ýmsu stöðum og óskir verkamanna sjálfra, sem líka geta verið breytilegar í ýmsum félögum og á ýmsum stöðum. Tryggingar, sem ekki eru á valdi verkamannanna sjálfra og þeim eru skammtaðar ofan frá, geta verið hermdargjöf og valdið mikilli óánægju, sem oft getur verið á rökum reist, og ég tel því ekkert nauðsynlegra en að koma svo sem unnt er í veg fyrir misnotkun slíkra trygginga. Jöfnun milli staða og félaga er hægt að koma fyrir á annan og hagkvæmari hátt en þann, að það sé einn og óskiptur sjóður, en einnig sú jöfnun tel ég að eigi að vera sem mest í höndum verkamanna sjálfra. Í 19. gr. þessa frv. er einmitt gert ráð fyrir slíkri jöfnun, og ég tel, að við það megi vel una í bráð. síðar mætti finna leiðir til þess að efla heildarsjóðinn, sem nú er stofnfé trygginganna. Þetta atriði, að verkalýðsfélögin hvert um sig ráði sjóðum sínum, að því er til trygginganna tekur, er að þeirra dómi svo mikils háttar, að þau gerðu það beinlínis að skilyrði fyrir samningum. Annars vil ég taka það fram, að þegar margra ára atvinnuleysi ber að höndum, t.d. vegna langvinns aflabrests eða því um líks, þá er fjarri lagi, að þessir atvinnuleysissjóðir geti eða eigi að standa undir því. Til þess þarf sérstakar ráðstafanir.

En hér hefði átt að ganga lengra. Þessir sjóðir eru eign verkalýðsfélaganna. Þeir eru hluti af samningsbundnu kaupi verkamanna. Þess vegna eiga verkalýðssamtökin að hafa öll umráð yfir sjóðunum, einnig því, hvernig þeir eru ávaxtaðir og hvernig þeim er varið að öðru leyti. Þessari kröfu mun verða haldið fram, þar til hún verður borin fram til sigurs.

Ég tel það fráleitt fyrirkomulag, að tveir menn frá atvinnurekendasamtökunum skuli vera skipaðir í úthlutunarnefndina. Þetta er líka í ósamræmi við það, sem nefndin, sem frv. samdi, hafði hugsað sér, og er komið frá ríkisstj. Þarna höfum við enn hina frægu helmingaskiptareglu. Það er í alla staði óeðlilegt, að þeir, sem mest greiða til atvinnuleysistryggingasjóðanna, bær og ríki, skuli ekki eiga þarna fulltrúa, úr því að úthlutunin er ekki með öllu á vegum verkalýðssamtakanna. — Í annan stað er það óeðlilegt, að stjórn heildarsjóðsins skuli vera skipuð á þann veg, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Þarna álít ég að hefði nægt að hafa þriggja manna stjórn, eins og líka upprunalega var gert ráð fyrir, þ.e.a.s. einn frá Alþýðusambandinn, einn frá vinnuveitendum og einn skipaður af ráðherra. Einnig þessi till. er frá ríkisstj. komin og líka með hliðsjón af helmingaskiptareglunni.

Bótaupphæðirnar eru að mínum dómi allt of takmarkaðar í 18. gr. frv. Hámarkið er allt of lágt. Í því efni sem öðrum tel ég, að verkalýðsfélögin ættu að hafa sem allra frjálsastar hendur, og getur ekki verið nein hætta fyrir tryggingarnar fólgin í því. Fráleitt tel ég að miða bótaupphæðirnar við bætur almannatrygginganna. Þetta eru algerlega sjálfstæðar tryggingar og geta aldrei komið að fullum notum, meðan miðað er við þá hungurlús, sem bætur almannatrygginganna eru í flestum tilfellum eins og lögin eru nú.

Eitt atriði virðist óljóst í frv. Þar, sem svo stendur á, að ekki eru verkalýðsfélög í bæjareða sveitarfélagi, en margir íbúanna hafa atvinnu sína utan sveitar, er spurningin: Hvaða sveitarfélag eða bæjarfélag á þá að greiða iðgjöld vegna þessara manna, sem vinna utan sveitar ? Er það heimilissveit eða sú sveit, þar sem vinnan er unnin? Mér virðist, að samkvæmt bókstaf frv. ætti það að vera það bæjar- eða sveitarfélag, þar sem atvinnan er rekin, þar sem atvinnureksturinn fer fram, enda væri það eðlilegt. Það er nú ekki viða, sem svona stendur á. Hér koma Kópavogur og Seltjarnarnes helzt til greina. Ef þetta yrði skilið á annan veg, gæti hér verið um þungar búsifjar að ræða fyrir þessi sveitarfélög. Þetta atriði þarf því að verða fullljóst og ótvirætt og nauðsynlegt, að n. athugi það og taki af öll tvímæli.

Flestar af þessum mjög æskilegu lagfæringum, sem ég hef bent á, rúmast innan samkomulagsins, sem gert var í vor.

Ef n. gæti orðið sammála um þær lagfæringar, sem enginn ágreiningur er um að séu í samræmi við samkomulagið, væri það vel, þá væri það mjög gott og gæti orðið til stórbóta á frv. Hins vegar mun ég sjálfur ekki bera fram brtt. við frv. af þeim ástæðum, sem ég hef áður nefnt. Til þess að ekki verði vaktir upp nýir örðugleikar, sem kynnu að torvelda framgang frv., er nauðsynlegt, að hægt sé að ná sem mestu samkomulagi um öll atriði. Og ég vænti þess, að aðrir hv. þm. hafi sömu afstöðu og ég í þessu efni.