26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og segir í áliti heilbr.- og félmn. á þskj. 578, kynnti n. sér frv. þetta með yfirlestri og umr. allýtarlega eða eftir því sem föng voru á. Við þá athugun kom fram, að ýmislegt er í frv., sem nm. hefðu kosið á annan veg, enda er löggjöf sú, sem verið er að stofna til með frv., algert nýmæli hérlendis og því frumsmíð að öllu leyti. Hún er samin af n., sem að vísu mun hafa kynnt sér nokkuð slíka löggjöf erlendis, en torvelt mun hafa reynzt að fá beinar fyrirmyndir þar, af því að aðstaðan er svo ólík þar og hér. Sérstaklega gerir hin árstíðabundna atvinna og svo ólíkar ástæður innanlands málið mjög flókið og vandasamt innbyrðis í landinu. Höfuðatriði frv. voru ákveðin með samningi, sem ríkisstj. átti hlut að til þess að leysa verkfallsdeiluna vorið 1955. Að hagga þeim höfuðatriðum með breytingum á frv., kemur að sjálfsögðu ekki til mála, það væri að stofna til samningsrofs. Hins vegar eru vitanlega smærri atriði, sem ekki væri samningsrof að breyta. En þar kemur til greina, að nú er þetta þing að enda, breytingar gætu sett málið í þá hættu, að það gengi ekki fram á þessu þingi, og það væri samningsrof. N., sem undirbjó frv., lagði í það mikla vinnu og mikill tími gekk hjá n. í að sættast á sjónarmið þeirra aðila, sem hlut eiga að máli og áttu fulltrúa í n. Breytingar, þótt smávægilegar kynnu að sýnast, mundu ef til vill valda mikillí óánægju, tefja málið og eyðileggja þann frið, sem um það virðist vera eins og það er nú. Í Nd. Alþingis var t.d. engin brtt. borin fram við frv. Loks er á það að líta, að í frv. eru fyrirmæli um, að löggjöf þessi skuli endurskoðuð eftir tvö ár, og það skiptir máli í þessu sambandi. Að öllu þessu athuguðu ákvað heilbr: og félmn. að leggja til, að frv. verði samþ., og bera ekki fram neinar brtt. við það.

Hv. 4. þm. Reykv. (HG), sem átti sæti í undirbúningsnefnd þeirri, sem frv. samdi, skírskotar í nál. heilbr.- og félmn. til sérálits síns í athugasemdum, er fylgja frv. Aðrir heilbr.- og félmn.- menn hafa ekki skráð þau atriði, sem þeir hefðu kosið á annan veg í frv. Ég vil fyrir mitt leyti taka fram nokkur dæmi um það, sem ég tel að átt hefði að vera á aðra leið.

Ég tel óeðlilegt, að hinir tryggðu greiði ekki sjálfir eitthvað í tryggingasjóðinn. Mér þykir óeðlilegt, að sveitarstjórnir eigi ekki fulltrúa í úthlutunarnefnd bóta, bæði vegna þess, að sveitarsjóðir greiða að 1/4 iðgjöld til trygginganna og sveitarstjórnir annast fátækramál byggðanna og hafa af þeirri ástæðu öðrum betri skilyrði til þess að vita, hvar skókreppur eru mestar. Ég tel mjög óheppilegt, að atvinnuleysistryggingasjóðnum skuli nálega öllum vera skipt í séreignir félaga. Með því móti má segja, að þangað gangi auðurinn, sem hann er fyrir. Atvinnusælustu landssvæðin fá á þennan hátt mest í sjóðinn, þótt þau þurfi þess í raun og veru sízt. Í stað þess að atvinnuleysistryggingarnar vinni að því að tryggja, að jafnvægi haldist í byggð landsins, gerist með þessu móti í raun og veru hið gagnstæða.

Sums staðar eru lögin varla nógu skýr. Sem dæmi um það vil ég nefna, að ekki er æskilega augljóst, hvernig fara skuli að, þar sem eitt verkalýðsfélag nær yfir tvö eða fleiri sveitarfélög, sem lögin taka til. Dagsbrún nær t.d. yfir þrjú sveitarfélög a.m.k., Reykjavík, Kópavogskaupstað og Seltjarnarneshrepp. Aðalatriðið í þessu sambandi er auðvitað það, að bæði skyldur og réttindi samkvæmt lögum þessum haldist í hendur fyrir fólkið í öllum sveitarfélögunum. Þess vegna verður að treysta því, að í framkvæmdinni verði fundin leið til þess að láta skyldur og réttindi haldast í hendur einnig, þegar svona stendur á. Og ég efast varla um, að þetta takist í framkvæmdinni. Ég minnist á þessi dæmi, þó að engar brtt. fylgi.

Ástæðurnar fyrir því, að n. leggur til, að frv. verði samþ., þótt hún sé ekki ánægð með það, hef ég tekið fram. Þær liggja ljóst fyrir, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær. Reynslan sker vitanlega bezt úr um það, hvað laga þarf. Ekki seinna en eftir tvö ár gefst tækifæri til endurbóta, ef mönnum þá sýnist þeirra þurfa með, sem telja má sjálfsagt, af því að allt þetta frv. er nýmæli.