28.11.1955
Neðri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í þessu frv. eru talsvert mörg ákvæði, sem öll eru til styrktar tollgæzlunni. Ég mun ekki rekja öll þessi atriði, en drepa á nokkur þau veigamestu.

Það fyrsta, í 4. gr. frv., er nýmæli um, að setja megi þau skilyrði fyrir því, að skip fái fyrstu afgreiðslu á tilteknum tollafgreiðsluhöfnum, að koma skipsins á staðinn sé tilkynnt með talsverðum fyrirvara. Þetta er mjög nauðsynlegt, en hefur ekki verið í lögum áður eða heimilt að áskilja slíkar tilkynningar fyrir fram. En það getur verið nauðsynlegt fyrir tollgæzlumenn að vita með nokkrum fyrirvara, að skips sé von, til þess að hægt sé að senda tollgæzlumenn til að taka á móti skipinu.

Þá vil ég næst drepa á nýmæli í 10. gr. frv. Þar er ákvæði um, að það megi efna til húsleitar í verzlunum og vörugeymslum þeirra, en fram að þessu hefur í lögum aðeins verið heimild til þess að ganga um og leita í húsum skipaafgreiðslnanna sjálfra. Eins og menn vita, hefur verið talið, að nokkur brögð væru að því, að tollsvikinn varningur væri á boðstólum í verzlunum. 1lfenn hafa talið sig vita slíkt, og mikið er rætt um, hvað hægt væri að gera til þess að gera slíkt óaðgengilegra, og er þetta ákvæði sett hér í frv. með tilliti til þess, að þá sé heimild til þess að láta fara fram húsleit í verzlunum og vörugeymslum þeirra, ef menn hafa rökstuddan grun um, að þar sé tollsvikinn varningur geymdur.

Þá er í 11. gr. frv. nýmæli, og er það eitt höfuðnýmæli frv. Þar segir að efni til, að ef tilteknar vörur séu háðar ströngum innflutningshömlum eða aðrar ástæður valdi því, að nauðsynlegt sé að fylgjast sérstaklega vel með innflutningi tiltekinna vörutegunda, þá geti fjmrn. með auglýsingu ákveðið, að þeim, sem hafa þessar vörur á boðstólum, skuli skylt að gera fulla grein fyrir því, hvaðan þær eru fengnar, að viðlögðum sektum og upptöku varanna. Þetta er mikilsvert nýmæli, og ég get vísað í því sambandi til þess, sem áður hefur verið upplýst hér á hv. Alþingi í umr. um þessi mál. Það hefur sem sé ekki verið mögulegt að fylgja eftir rannsókn á uppruna ýmissa þeirra vara, sem á boðstólum eru í verzlunum, þó að grunur hafi leikið á, að þær væru tollsviknar, vegna þess að sönnunarbyrðin hefur alveg legið á yfirvöldunum. En þarna er gerð sú undantekning frá þessu, að ef sérstaklega stendur á með vörurnar, þá sé heimilt að skylda þann, sem vörurnar hefur á boðstólum, til þess að sýna beinlínis fram á, að hann hafi greitt lögmæta tolla af vörunum, ef slíks er krafizt. Það hefur ekki þótt fært að leggja til að hafa þetta ákvæði fortakslaust um allar vörur, heldur haga þessu þannig, að ráðuneytið gæti gefið út tilkynningu um tilteknar vörur, sem skylt væri þannig að gera grein fyrir, ef krafizt væri.

Þá er í 15. gr. frv. ákvæði um, að ráðuneytinu sé heimilt að setja sérstakar reglur um það, hversu fara skuli með flutning ótollafgreiddra vara á milli hafna innanlands, og að það skuli vera hægt að ákveða, að það þurfi sérstakt leyfi til þess að hafa slíkan flutning með höndum á vörum, sem ekki hafa fengið tollafgreiðslu, en eru fluttar áfram frá einum stað á ströndinni til annars staðar, og jafnframt heimilað að setja sérstök ákvæði um, hvernig með þessar vörur skuli farið yfirleitt og umbúnað þeirra og jafnvel gerð sjálfra farartækjanna til þess að tryggja betur en með öðru móti er hægt, að þarna geti ekki átt sér stað nein misnotkun.

Þá eru í 18. gr. frv. þrjú mikilsverð nýmæli og eru það mikilsverðustu nýmælin í frv. ásamt því, sem ég greindi um heimildir til húsrannsókna og heimildir til þess að láta gera sérstaka grein fyrir tilteknum vörum. Vil ég gera dálitla grein fyrir þessum nýmælum, enda þótt það sé mjög ýtarlega gert í sjálfri grg. frv.

Hingað til hefur ekki þurft að sækja um neitt sérstakt leyfi til þess að fá að annast afgreiðslu farartækja, t.d. farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum, eða til þess að geyma ótollafgreiddar vörur. Það hefur yfirleitt verið „praksís“, að skipafélögin hafa valið sér sjálf aðila til þess að hafa þetta með höndum eða haft það með höndum sjálf í eigin nafni, en í 18. gr. frv. er ákvæði um, að enginn megi annast afgreiðslu farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum eða geymslu ótollafgreiddrar vöru, nema hann hafi fengið til þess sérstakt leyfi frá fjmrn. Er þá gert ráð fyrir því, að þessum leyfum fylgi skilyrði um, hvernig umbúnaður þarf að vera og framkvæmd þessara mála þarf að vera yfirleitt, til þess að fjmrn. geti á það fallizt, að hann hafi með höndum afgreiðsluna.

Þá er annað nýmæli í 18. gr. mjög þýðingarmikið. Þeir, sem fá leyfi til að hafa með höndum skipaafgreiðslu og þar með leyfi til að geyma ótollafgreiddar vörur, því að það verður að fylgjast að, eins og aðstæður eru hér á landi, skulu leggja tolleftirlitsmönnum til án endurgjalds hæfilegt rúm í hverju vörugeymsluhúsi til rannsóknar á vörum. Það eru ekki í lögum nú nægilega skýr ákvæði um þetta og ekki hægt að leggja fullnægjandi kvaðir á skipafélag eða afgreiðslu í þessu tilliti. Heimildirnar eru ekki nógu glöggar í löggjöfinni eins og hún er, og þess vegna er lagt til, að tekið sé fram berum orðum í þessari nýju löggjöf, að þetta húsnæði verði aðilar að leggja til. Mundi þá að sjálfsögðu verða tekið fram, þegar leyfin væru veitt, hvað mikið þyrfti til að leggja til þess að uppfylla þetta skilorð.

Þá er þriðja atriðið í 18. gr., sem er líka talsvert þýðingarmikið, heimild til þess, að rn. geti mælt svo fyrir, að vörur sem fluttar eru til landsins í lokuðum umbúðum, til að mynda í kössum eða þess konar umbúðum, eða af öðrum ástæðum þurfa sérstaks eftirlits eða rannsóknar við, megi aðeins flytja úr flutningatækjum í tiltekin vörugeymsluhús, sem eru vel til þess fallin að geyma í slíkar vörur, og geymdar þar þangað til full athugun hefur farið fram. En eins og nú er háttað, er ekki hægt að hafa þessa íhlutun um starfsemi þeirra, sem flytja vörurnar til landsins, og þess vegna vill það nú verða svo, að afgreiðslu skipanna er ekki hagað á þann hagfelldasta hátt fyrir tollgæzluna. Stundum eru þau hús, sem bezt eru fallin til þess að taka við kassavöru, sem sérstakra rannsókna þarf við, ekki notuð til þess, heldur notuð til þess að taka við sekkjavöru, en kassavaran aftur flutt lengra til í geymsluhús, sem sum standa lengra frá höfnunum, og því miklu erfiðara að gæta þess, að engin misnotkun geti átt sér stað á leiðinni, þegar vörurnar eru fluttar þangað.

Öll þessi ákvæði miða að því, á meðan tollgæzlan ræður ekki yfir svo miklu húsrými, að hún geti tekið heila skipsfarma til sín og haft þá beinlínis í sinni vörzlu og afhent þá smátt og smátt til innflytjendanna, sem er hið æskilegasta fyrirkomulag, sé hægt að leggja þeim, sem flytja vörurnar til landsins, þær skyldur á herðar, sem greinir í frv., og styrkja þannig eftirlitið.

Ég vil geta þess, að rn. hefur látið athuga, hvernig þessu er fyrir komið í nálægum löndum. Í Svíþjóð eru bæjarfélögin eða hafnirnar skyldar til að leggja tollgæzlunni til geymsluhús og geymslusvæði, og fyrir þetta fá bæirnir eða hafnirnar ákveðinn hundraðshluta af aðflutningsgjöldunum. Ef varan er ekki tollafgreidd beint við skipshlið, er hún öll sett inn í þetta húsnæði, sem tollyfirvöldin beinlínis ráða yfir, og þannig er reynt að gæta þess með samanburði, að allt standi heima við farmskrárnar. Allt er í höndum tollgæzlunnar frá fyrstu byrjun og þangað til vörurnar fara til réttra móttakenda. Í Noregi á tollgæzlan eða leigir vörugeymsluhús við hafnirnar og varan flutt úr skipunum í þessi hús tollgæzlunnar og síðan afgreidd þaðan smátt og smátt til móttakendanna. Í Englandi er þessum málum þannig fyrir komið, að tollyfirvöldin eiga sumpart sjálf hús, en þó algengara, að viðurkenndir eru sérstakir uppskipunarstaðir í höfnunum og viðurkenndar vissar vörugeymslur til þess að taka við ótollafgreiddum vörum. Þessi hús eru ýmist í eign hafnanna eða í einkaeign, en eigendur þeirra verða að undirgangast ýmis skilyrði, sem sett eru til þess að tryggja, að tollgæzlan hafi hæfileg afnot húsanna, enda þótt þetta séu einkahúseignir, en ekki hús tollgæzlunnar sjálfrar. Enn fremur er reynt að koma því svo fyrir, að þessi hús standi þannig, að auðvelt sé að fylgjast með flutningi varningsins frá skipshlið og í húsin.

Það er mín skoðun, að stefna þurfi að því, að tollgæzlan eignist eigin vörugeymsluhús fyrir vörur, sem ekki er hægt að tollafgreiða við skipshlið, og að það sé heppilegasta framtíðarlausn þessara mála, að tollgæzlan eigi a.m.k. talsvert af húsum, sem hægt er að nota í þessu skyni. En það er óralangt fram undan, að slíkt geti orðið, því að það þarf feikilega mikið fé til þess að reisa tollgæzlustöðvar, er hafi ráð á svo stórum vörugeymsluhúsum. Má líka vera, að slíku marki verði hér aldrei náð vegna þess, hversu þar væri um mikla fjárfestingu að ræða, en ríkið á í mörg horn að líta.

Ég hef haft mikinn hug á því undanfarið að byrja á byggingu vöruskemmu fyrir tollgæzluna, en það hefur verið svo mikil ásókn um fjárframlög í aðrar opinberar framkvæmdir, að þetta hefur setið á hakanum. Ég mun þó beita mér fyrir fjárframlögum í þessu skyni, og er dálitil byrjun á fjárlagafrv. Það er nokkur fjárveiting til tollgæzlustöðvar í Reykjavík. Gæti líka komið til mála að hafa þann hátt á þessu, sem hafður er t.d. í Svíþjóð, þar sem sérstakt gjald er tekið til þess að koma upp þessum byggingum. En eins og ég sagði áðan, mundi þurfa að byggja hér frá grunni. Það verður þess vegna að fara aðrar leiðir um langa hríð en þá að leggja vörurnar í hús, sem tollgæzlan á sjálf, og þess vegna er þetta frv. allt miðað við, að það verði að búa við það fyrst um sinn, að aðrir en tollgæzlan eigi vörugeymsluhúsin. Frv. er byggt á því að leggja þeim, sem eiga slík vörugeymsluhús, auknar skyldur á herðar, svo að hægt sé að koma við skipulegri vinnubrögðum en unnt hefur verið fram að þessu. Og það má segja, að það sé talsvert mikið stuðzt við enska fyrirkomulagið, sem ég var að lýsa áðan, eins og ég veit að hv. þingmenn hafa komið auga á.

Þessi eru þá stærstu nýmælin, sem í frv. felast, en svo eru mörg önnur atriði, sem öll miða í sömu átt og eru til þess ætluð að taka af tvimæli og gefa aukið vald á þessum málum. Þetta er um þá hlið tollgæzlunnar, sem snýr að löggjafarstarfinu, og vænti ég, að hv. Alþingi sjái sér fært að samþykkja frumvarpið. Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn., og vonast eftir því, að hv. Alþ. taki þessu máli með velvild og skilningi.