16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem nú er tekið til 2. umr. hér í þessari hv. d., er um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit. Það var upphaflega lagt fram í hv. Nd. af ríkisstjórninni. Frv. mun hafa verið samið í samráði við og af þeim mönnum, sem mesta reynslu hafa við tollheimtu og tolleftirlit hérlendis. Vil ég þar til nefna tollstjórann í Reykjavík og fulltrúa hans.

Aðallögin, sem nú gilda um tollheimtu og tolleftirlit, voru sett árið 1937. Litlar breytingar hafa verið gerðar á þeim síðan, og þó voru þau 1937 að mestu nýmæli og sniðin eftir þörfunum eins og þær voru þá. Tímarnir hafa breytzt mikið á þeim nálega 20 árum, sem lögin hafa gilt. Samgöngur eru stórlega breyttar og vöruflutningar frá útlöndum að ýmsu leyti með öðrum hætti. Ferming og afferming skipa er framkvæmd með allt öðrum vinnubrögðum en þá voru viðhöfð. Krefst þetta í ýmsum efnum nýrra fyrirmæla, t.d. um skipaafgreiðslu og meðferð á ótollafgreiddum vörum. Frv. er þess vegna fullkomlega tímabært. Í Nd. var frv. afgreitt með góðu samkomulagi. Fjhn. þar hafði það til athugunar. Stóðu saman í n. allir flokkarnir fjórir, sem þar eiga fulltrúa. Voru að tillögum n. gerðar á frv. nokkrar smávægilegar breytingar. Út úr deildinni var það samþykkt með samhljóða atkv. Það mátti því segja með sanni, að frv. hreppti góð veður í Nd.

Hér í Ed. var frv. vísað til fjhn. Þar fór ofur lítið að gusta um frv., þó að ekki væri í stórum stíl, og var það helzt af Barðaströnd, þó að ekki stórveður væri, miðað við þá stormasömu strönd. N. hefur haft frv. til umr. á mörgum fundum. Að því var horfið að senda það til umsagnar þrem stærstu flutningaskipaútgerðunum, Eimskipafélagi Íslands, skipadeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Skipaútgerð ríkisins. Enn fremur ræddi n. frv. við tollstjórann í Reykjavík, fulltrúa hans og fulltrúa í fjmrn. og fékk margháttaðar skýringar á þeim nýmælum, sem í frv. eru. Skipaútgerðirnar sendu sínar umsagnir. Skipaútgerð ríkisins gerði engar athugasemdir. Skipadeild S.Í.S. og Eimskipafélag Íslands minntust á allmargt, einkum Eimskipafélagið, sem þau félög telja æskilegra á annan veg. Er það mjög skiljanlegt, af því að nokkur kostnaður og fyrirhöfn fellur á skipaútgerðirnar við sum nýmælin, sem eiga að tryggja aðstöðuna til betra tolleftirlits en nú er. Slíku vilja skipafélögin víkja frá sér, ef hægt er. N. sendi tollstjóranum í Reykjavík athugasemdir skipafélaganna til umsagnar, og svaraði hann þeim á svo fullnægjandi hátt, að þrír af fimm nm. fjhn. gera engar brtt. við frv. um það efni. Hins vegar flytja tveir nefndarmenn, hv. þm. Barð. og hv. þm. Seyðf., 10 brtt. við frv. á þskj. 437. Eru því viðtökurnar, sem frv. fær hér í þessari hv. d., nokkuð aðrar en í Nd. Hins vegar lýsa allir nm. yfir, að þeir mæli með samþykkt frv., þótt tveir þeirra hafi tekið sér ákveðna sérstöð u til þess að óska breytinga á frv.

Eina sameiginlega brtt. ber n. fram í áliti sínu á þskj. 4?8. Hún er um það, að eftir að þessu ári lýkur, skuli af vörumagnstolli, verðtolli og öðrum aðflutningsgjöldum, þó eigi söluskatti né framleiðslusjóðsgjaldi, tekið 1% og sú upphæð, sem það gefur, lögð í sérstakan sjóð. Fé sjóðs þessa á að verja til byggingar tollstöðva í landinu eða til kaupa á fasteignum til sömu þarfa. Er mjög aðkallandi að bæta aðstöðu við tolleftirlitið og tollheimtuna hér í Reykjavík og á tollhöfnunum úti um land næð því að koma upp tollhúðum, vörugeymslum og afgirtum svæðum vegna tollskoðunar. Ríkissjóður tekur með ári hverju meira og meira af tekjum sínum með tollum, og um leið verður það sífellt brýnna með ári hverju að bæta skilyrði þeirra, sem við tolleftirlit og tollheimtu vinna, til þess að handsama tekjurnar og gera þó þeim, er vörurnar eiga, er tollafgreiddar eru, sem minnst óþægindi. Slíkt verður ekki gert nema með því að koma upp hagkvæmum tollstöðvum við tollhafnirnar, og þær verður ríkið að kosta. Á fjárlögum í ár eru veittar 800 þús. kr. í þessu skyni. Með þeirri fjárveitingu er viðurkennd þörfin, en stutt stigið í áttina til þess að fullnægja þörfinni. N. taldi þó, að ekki yrði meira að gert í ár. Hún vildi hvorki leggja til, að lagt yrði á aukagjald í þessu skyni fyrir árið í ár né raskað áætlun fjárlaga á þann hátt að ákveða skerðingu á tolltekjum fyrir ríkissjóð með því að taka af þeim tillag til byggingar tollstöðva. Niðurstaðan varð sú að bera fram þessa till. um, að byggingarsjóður tollstöðva fái frá næstu áramótum 1% af áðurnefndum tolltekjum. Eru líkur til, að þessi 1% geti numið 2—21/2 millj. kr. á næsta ári, og er það upphæð, sem um munar, þó að mikils þurfi að vísu með. Leyfir fjhn. sér að vænta þess, að hv. d. fallist á þessa till.

Nú eru fram komnar, eins og ég gat um áðan, brtt. á þskj. 437 við frv. Mér sýnast þessar till. allar miðaðar við það, þó að viljandi muni það alls ekki vera, að draga úr því, að sá tilgangur náist, sem frv. er flutt til að ná, að tryggja strax sem öruggast tolleftirlit og koma í veg fyrir, að undanbrögð og lögbrot í þeim efnum geti átt sér stað. Ég sé þess vegna ekki, að til mála geti komið að samþykkja brtt. Hins vegar vil ég bíða með að ræða um þær hverja um sig, þangað til ég hef heyrt frsm. gera grein fyrir þeim.