16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. fjhn., er enginn ágreiningur um það hjá n. að vilja gera allt, sem unnt er, til þess að tryggja tolleftirlitið í landinu. Það er rétt, sem hv. frsm. hélt hér fram, að ríkissjóður tekur tekjur sínar í vaxandi mæli með tollum á alls konar vörum, og þess vegna er nauðsynlegt, að tolleftirlitið sé eins öruggt og gott og mögulegt er. Og það er heldur enginn ágreiningur um það í n., að það sé mjög mikil þörf á því að bæta svo úr sem mögulegt er í sambandi við tollgæzluna, því að aðstæður þær, sem hún býr við, eru engan veginn æskilegar. Mér þykir rétt að taka þetta fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning. Um hitt er svo ágreiningur, eins og einnig kom fram hjá hv. frsm., hvort sú löggjöf, sem hér liggur fyrir til umræðu í frumvarpsformi á þskj. 135, óbreytt eða lítið breytt, muni skapa það öryggi í tolleftirliti, sem óskað er eftir af báðum aðilum. Um þetta er ágreiningur og um það eitt. Minni hl. lítur svo á, að það sé betri leið, sem hann bendir á í sínum brtt., og skal ég koma að því nokkru síðar.

Hv. frsm. gat þess hér áðan í ræðu sinni, að frv. hefði fengið einróma samþykki í Nd. Það er rétt, en hann gleymdi að geta þess, að hv. fjhn. Nd. hafði ekki sent þetta frv. til neinna aðila til umsagnar, sem er alveg óvenjuleg meðferð á jafnmerku máli og hér er um að ræða, sem snertir jafnmarga aðra aðila en ríkissjóðinn sjálfan. Hún hafði engum sent frv., og satt að segja bendir nál. Nd. ekki til þess, að málið hafi fengið nema mjög takmarkaða athugun í n., og það hefur ekki verið um það neinn stormur af Barðaströnd, eins og hv. þm. talaði um. En sýnilegt er af þeim gögnum, sem fyrir liggja nú í málinu, að engin vanþörf hefði verið, að málið hefði verið athugað betur en gert var þar.

Hv. frsm. sagði einnig, að skipafélögin, sem sendu langar umsagnir um þetta mál, hefðu talið, að ýmislegt mætti betur fara. Ég tel, að þessi ummæli lýsi ekki hinni réttu afstöðu þeirra til frv., sem hafa sent umsögn um málið, og vildi ég nú gjarnan spyrja hv. frsm., hvers vegna hann lét ekki birta allar þessar umsagnir, úr því að hann vildi láta það koma fram hér, að þetta væri aðeins ábending um, að ýmislegt mætti betur fara. Sannleikurinn er sá, að í umsögnunum er þessu frv. harðlega mótmælt og það með mjög sterkum rökum, og það hefði hv. frsm. getað látið koma fram hér, sannleikann í því máli; hvort hann vill taka þessi rök góð eða gild, er svo annað atriði. En um það verður ekki deilt, að frá þeim skipafélögum, bæði Eimskipafélagi Íslands og Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, komu mjög hörð og sterk mótmæli gegn samþykkt frv. og mjög sterk gagnrýni með mjög sterkum rökum um, að það sé farið með allrétt mál.

Nú skal ég viðurkenna, að ég mundi ekki vilja taka það allt góða og gilda vöru, þó að hinn aðilinn vilji skjóta sér undan ýmsum nýjum álögum í sambandi við tollgæzlu. En ég tel, að meðan ástandið er eins og það er í landinn, að einmitt tollgæzlan verður að nota að mjög verulegu leyti aðstoð skipafélaganna um að halda uppi raunverulega góðri tollgæzlu, þá sé það frumskilyrði til þess, að það verði nokkur árangur af málinu, að hafa samvinnu við þessi félög, en vera ekki á móti þeim um málið. Og ég er alveg viss um, að ef hv. Nd. hefði tekið upp samvinnu við félögin á fyrsta stigi og hinn ágæti embættismaður, tollstjóri, eða hans fulltrúi, sem hefur samið frv., leitað samvinnu við skipafélögin um ný ákvæði, hefði þessu máli verið miklu betur borgið en nú er. Það er ágætt að fá lagaákvæði, en það þarf líka að vera einhver trygging fyrir því, að þau séu uppfyllt, og það er ógerningur frá mínu sjónarmiði, eins og ástandið er í landinu, að ætla sér að tryggja örugga tollgæzlu á móti vilja þeirra aðila, sem flytja vörurnar til landsins í jafnstórum stíl og þessir tveir aðilar gera, og það er þarna sem ágreiningurinn liggur og hvergi annars staðar.

Ég skal þá víkja beint að þeim brtt., sem fyrir liggja. Hv. frsm. hefur rætt um brtt., sem borin er fram á þskj. 428 af allri n. Um hana er enginn ágreiningur. Það fékkst að síðustu samkomulag um það atriði, og hefði að sjálfsögðu ekki orðið neitt samkomulag um það, ef hv. frsm. hefði haldið fast fram þeirri hljóðan á brtt., sem hann og hæstv. fjmrh. vildu hafa, en það var að leggja nýjan toll á þjóðina á þessu ári um rúml. 2 millj. kr. til framkvæmdar þessara mála. Þannig kom fyrst till. frá hæstv. fjmrh., og henni var harðlega mótmælt í nefndinni, enda samkomulag um að breyta henni, eins og hér er nú gert. Þessi till. hafði verið borin fram í öðru frv. nokkru fyrr í vetur í sambandi við framleiðslusjóðinn, og hún var þá felld eða tekin út úr því frv., enda átti hún ekki heima þar, en síðan tekin upp í n. með þeim árangri, sem ég hef lýst. Það er ekki nema eðlilegt, að látið sé renna í sérstakan sjóð ákveðið gjald til þess að koma upp slíkum mannvirkjum eins og hér er ætlazt til, og var þá langeðlilegast, að það væri tekið af tekjum ríkissjóðs án þess að leggja nokkurn sérstakan skatt á þjóðina til þess, eða að fjárveitingavaldið, fjvn. og síðan hv. Alþingi, samþykkti fjárframlög, en væri ekki að leggja sérstakan skatt á þjóðina til þess, eins og ætlazt var til af hæstv. fjmrh. Ég skal svo ekki ræða frekar um það atriði. Um það er fullt samkomulag.

Í sambandi við till. frá minni hlutanum á þskj. 437 er þar fyrst um að ræða till. við 4. gr. frv. Sú grein er í frv. nú þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákveða má með reglugerð, að öll skip skuli á leið frá útlöndum eða áður en lagt er af stað til útlanda, nema tilneydd séu, koma á tilteknar hafnir til að fá fyrstu eða síðustu afgreiðslu hér á landi. Nefnast þær hafnir tollafgreiðsluhafnir. Setja má skilyrði um tilteknar tollafgreiðsluhafnir, að skip fái þar því aðeins fyrstu afgreiðslu, að koma þeirra þangað hafi áður verið tilkynnt með ákveðnum fyrirvara. Ráðuneytið getur, ef sérstaklega stendur á, heimilað skipi að fá fyrstu afgreiðslu utan tollafgreiðsluhafnar, en skylt skal skipi þá að greiða kostnað, sem af því leiðir.“

Þessi orð: „er skylt skal skipi þá að greiða þann kostnað, sem af því leiðir“, sem ég hef þegar lesið í gr., leggjum við til að verði felld niður. Við teljum það engan veginn eðlilegt, að þeir aðilar, sem flytja vörur milli landa, skuli eiga að kosta nokkurn hluta af tollgæzlunni. Kostnaður við tollgæzluna á að vera borinn af

ríkissjóði hvarvetna, hvort sem það er á einni höfn eða annarri á landinu, og ekki gera hér neinn mismun á. Við reyndum einnig að fá samkomulag um, að teknar væru upp í lögin sjálf ákveðnar tollhafnir til tryggingar því, að þær yrðu ekki allt of fáar til erfiðleika fyrir fólkið í landinu. Um það fékkst ekki samkomulag, en hins vegar varð samkomulag um, að þetta skuli ákveðið með reglugerð, og var fallizt á það af minni hlutanum. En það má alltaf hefja sókn til ríkisstj. á hverjum tíma um að fá slíku reglugerðarákvæði breytt. Annars er þetta ákvæði aðallega komið inn vegna afgreiðslu fiskiskipa á stríðstímanum, og áður þekktist þetta ákvæði ekki, að hafa sérstakar tollhafnir. Ég er ekki að segja, að það sé til hins lakara, nema síður sé, en allar slíkar ráðstafanir eiga að vera kostaðar af ríkissjóði, en ekki þeim, sem flytja inn vörurnar. Við leggjum því til, að þessi 1. brtt. verði samþykkt.

Ég vil í samlandi við þetta leyfa mér að lesa hér upp umsögn frá Sambandi ísl. samvinnufétaga, sem ég geri ráð fyrir að hv. frsm. telji ekki vera neinn fjandsaman aðila við hæstv. fjmrh. eða hans flokk, en hér segir í umsögninni, með leyfi hæstv. forseta:

„Telja verður eðlilegt, að ákveðnar séu tilteknar hafnir, sem geti veitt skipum, sem koma frá útlöndum eða fara héðan til útlanda, fyrstu eða síðustu afgreiðslu. Ríka ástæðu tel ég hins vegar til að benda á það sérstaklega vegna þeirra skipafélaga, er halda uppi beinum siglingum til hinna dreifðu byggða og leggja á hana megináherzlu til að forðast óþarfa kostnað, að það er mjög nauðsynlegt, að tollafgreiðsluhafnirnar séu nokkuð margar.“

Þetta er það sjónarmið, sem við í minni hlutanum höfðum einnig, þegar við vorum að reyna að sækja þetta mál. Þar segir enn fremur:

„Það er t.d. næsta sjaldgæft, að skip vor komi til Reykjavíkur sem fyrstu hafnar, er þau koma erlendis frá. Sömuleiðis lesta þau útflutningsvörur á ýmsum smáhöfnum og sigla mjög oft frá Norður- eða Austurlandi beint til markaðslandanna með útflutningsvarninginn. Með tilvísun til þessa viljum vér sérstaklega undirstrika nauðsyn þess, að svo verði frá gengið, að löggiltar tollafgreiðsluhafnir séu margar víðs vegar á ströndinni, og teljum, að af því séu bezt tryggðir hagsmunir fólksins, er býr þar.“

Umsögn frá Eimskipafélaginn er nokkuð í sömu átt, nema hvað þeir benda á, að það sé afar óeðlilegt, að flutningsaðilinn greiði kostnaðinn.

2. brtt. er við 5. gr. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, að síðasta málsgr. þeirrar gr. orðist svo:

„Nú hefur innsigli farmrúms eða annarra staða í skipi áhættu í för með sér fyrir öryggi farms, skips eða manna eða það veldur verulegum töfum á afgreiðslu skipsins, og getur þá skipstjóri krafizt þess, að tollgæzla sé sett um borð í skipið, svo lengi sem áhættan varir, útgerðinni að kostnaðarlausu, en skylt er útgerðinni að láta tollgæzlunni í té allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að auðvelda tolleftirlitið og gera það öruggara, enda hafi það ekki verulegan kostnað í för með sér.“

Ég skil ekki, hvernig þessi breyting, sem við leggjum til á 5. gr., geti dregið úr tolleftirlitinu, eins og ætlazt er til að það verði samkvæmt 5. gr. frv., en hún hljóðar svo, þ.e. síðasta mgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hafi tollgæzlumenn ákveðið að innsigla farmrúm eða aðra staði í skipi, en eigi eru á því tök vegna umbúnaðar skips eða skipstjóri telur slíkt ekki óhætt vegna öryggis skips eða farms, ber skipi að kosta þá tollgæzlu um borð, sem af því leiðir, að framangreindum öryggisráðstöfunum verður ekki komið við.“

Hér er enginn ágreiningur um það, hvort öryggið fyrir tollgæzluna er meira eða minna. Hér er aðeins ágreiningur um það, hver eigi að bera kostnaðinn, og ég tel, að hv. frsm. takist aldrei að sanna, að það verði öruggara að láta þann mann hafa tolleftirlitið á hendi, sem á að greiða það, heldur en hinn, sem á að sjá um það og gæta þess. Það verður engan veginn heppilegra í þessu atriði að láta skipafélögin kosta tollgæzluna um borð. Það getur engan veginn verið öruggara en að láta þann aðila, sem á að hafa tollgæzluna á hendi, kosta það, og það er sannarlega smámunasemi hjá ríkissjóði, sem tekur milljónir í vörutollum, að vera að klína einhverju af þeim kostnaði yfir á aðra aðila, sem eru alveg óviðkomandi þessu máli, enda alls ekki frambærilegt. Og það verður engan veginn hægt að fá nokkurn mann til þess að trúa því, að það orðalag, sem við höfum valið á þessa grein, verði til þess að draga úr öryggi tollgæzlunnar undir neinum kringumstæðum.

Í sambandi við þetta vil ég einnig leyfa mér að henda á, að í umsögn frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og í umsögn frá Eimskipafélagi Íslands er einnig bent á, að það sé óeðlilegt, að þetta sé kostað af félögunum. Ég skal svo ekki ræða frekar um það atriði.

3. brtt. okkar minni hl. er við 6. gr., að 1. tölul. falli niður, en í 1. tölul. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. mgr. bætist: Kostnaður við flutning tolleftirlitsmanns út í skip og í land við komu skips og brottför skal greiddur af skipinu. Kostnaðinn má innheimta með lögtaki, og hefur hann lögveð í skipinu.“

Þetta atriði kemur ekkert við öryggi tollgæzlunnar sjálfrar. Þetta tryggir ekki á nokkurn hátt, að tollgæzlan verði öruggari en hún væri annars. Þetta er aðeins sama eðlis og ákvæði 4. gr. um að seilast eftir fé til að greiða kostnaðinn við tollgæzluna í vasa annarra manna og er algerlega ósæmandi. Um þetta segir Samband isl. samvinnufélaga, að hér sé tekið upp nýmæli, og segir síðast, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir því sem vér bezt vitum, viðgengst slík regla og hér er gert ráð fyrir að taka upp hvergi í heiminum, a.m.k. hafa skip vor, sem viðkomur hafa haft í fjölmörgum löndum í öllum heimsins álfum, Asíu og Ástralíu, aldrei þurft að greiða slík gjöld sem gert er ráð fyrir að taka upp í þessari grein frumvarpsins.“

En þessi lönd eiga ekki heldur hæstv. fjmrh. Eystein Jónsson að fjmrh. Það er þess vegna, sem greinin er sett inn, að það er sýndur slíkur nirfilsháttur hér í sambandi við þessi mál, að það er reynt að láta aðra aðila en hinn rétta bera kostnaðinn. Ég nenni ekki að vera að lesa hina löngu umsögn Eimskipafélagsins, sem mótmælir harðlega þessu ákvæði, en skal aðeins geta þess í sambandi við þetta, að fyrr, á meðan þær reglur giltu, að hafa skyldi sóttvarnir á Íslandi og þá einkum hér í Reykjavík, var hafður hér sérstakur bátur, sem læknir fór til skips með og tók á móti því, þegar það kom frá erlendri höfn, til þess að athuga heilbrigðisástandið um borð, og sá kostnaður var reiknaður lítilfjörlega á hvert skip á sínum tíma og tekið gjald til þess að bera þann kostnað uppi. Það má deila um það, hvort það hafi verið rétt, að heilbrigðiseftirlitið hefði átt að greiða það eða ekki, en það var þó miklu nær, því að heilbrigðiseftirlitið hafði ekki neinar tekjur af þeim vörum, sem var verið að flytja inn til landsins, en eftir að þetta var afnumið, láta þeir aðilar sér það sæma, sem hafa farið með þessi mál, að innheimta alveg óleyfilega þetta gjald og nota það til allt annars en það var upphaflega ætlað, og nú á að lögfesta það, að það sé heimilt að taka þetta gjald til þess að standa undir tollgæzlukostnaðinum.

Fjórða brtt. okkar er við 7. gr., að meginmálsgreinin orðist eins og þar segir. En meginmálsgreinin, 7. gr., er stutt í frv., segir aðeins þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig geta þeir ákveðið, að ferming eða afferming skips skuli fara fram á tilteknum stað í höfn, er hentastur þykir vegna eftirlits hverju sinni.“

Við leggjum til, að þessi grein verði orðuð þannig:

„Ferming og afferming skipa skal jafnan fara fram á þeim stað í höfn, sem tryggir öruggt tolleftirlit“ — ekki getur þetta ákvæði okkar rýrt tolleftirlitið; svo segjum við áfram: „að svo miklu leyti sem því verður við komið að dómi hafnaryfirvalda, enda rýri það ekki öryggi skips, farms eða manna, sem við það starfa, eða torveldi verulega afgreiðslu skipsins.“

Okkur finnst alveg sjálfsagt, að það sé tekið tillit til þessara aðstæðna, og komum við nokkuð að því síðar í okkar till., hvernig sé hægt að tryggja enn betur tollafgreiðsluna en gert er ráð fyrir í 7. gr. En í sambandi við þetta vil ég benda á, að frá höfninni í Rvík, sem er nú aðallega hugsað að þetta nái til í meginatriðum, hafa komið mjög mikil mótmæli gegn ákvæðum 7. gr., eins og hún er í frv. Þar hefur hafnarstjóri sent til mín sem meðlims hv. fjhn. bréf, þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér með sendi ég yður afrit af bókun hafnarstjórnar á fundi í dag. Vænti ég þess, að þér beitið áhrifum yðar til þess, að breyting sú, er hafnarstjórn fer fram á, nái fram að ganga.“

En bókunin er sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir Alþingi liggur nú frv. til l. um breyt. á I. nr. 63 31. des. 1937, um tollheimtu o.s.frv., og breyt. á þeim lögum. 14. gr. laga nr. 59 1939 hljóðar þannig: „Tolleftirlitsmönnum er heimilt að afkvía skip, sem lagzt er að bryggju eða öðru hafnarmannvirki, og að banna mönnum að koma úr landi á skipsfjöl, þar til afgreiðslu er lokið, svo og að mæla svo fyrir, að farþegar og aðrir megi aðeins fara frá borði á tilteknum stað á skipinu.“ Nú er gert ráð fyrir, að aftan við greinina verði bætt: Einnig geta þeir ákveðið, að ferming eða afferming skips skuli fara fram á tilteknum stað í höfn, er hentastur þykir vegna eftirlits hverju sinni. — Samkvæmt hafnarreglugerð fyrir Reykjavíkurhöfn er það hafnarstjóra eða þess, er hann setur til þess, nánar tiltekið yfirhafnsögumanns, að ákveða, hvar skip skuli leggjast að bryggju, enda augljóst, að niðurröðun skipa verður að vera í höndum einnar stofnunar. Viðbótin við 59. gr. brýtur í bága við þetta og mundi geta orðið til þess að torvelda afgreiðsluna í höfninni. Hafnarstjórn Reykjavíkur vill því mótmæla þessari breytingu og óskar eftir, að hún verði felld niður.“

Mér þykir rétt í sambandi við þetta að benda á, að ég tel, að mál þetta hafi ekki fengið fullkomna athugun í hv. Nd., m.a. að það hafi aldrei verið sent hafnarstjóra, sem þó finnur hjá sér hvöt til þess að mótmæla stranglega hér þessu ákvæði. Það gilda alveg sérstök lög um hvaða hafnir sem er á Íslandi, og þetta ákvæði, sem hér á að staðfesta nú, kemur gersamlega í bága við þau ákvæði, sem þar eru. Það verður aldrei hægt að samrýma, að það verði tolleftirlitið, sem á að ráða þessum málum, og verður aldrei fært um að geta ráðið þeim og hefur ekki þá þekkingu á málunum að geta ráðið þeim, svo að vel fari, og hljóta því að verða hér verulegir árekstrar, ef lögin eru samþykkt eins og gert er ráð fyrir í frv. og þeim beitt. Þess vegna höfum við lagt til, að þetta verði orðað á þann hátt, sem ég las hér áðan í sambandi við 7. gr., með 4. brtt. okkar í minni hlutanum.

Það er enginn vafi á því, að ef óvandaðir menn ættu að beita 7. gr. laganna eins og hún er í frv., þá gæti það bakað ekki einungís höfninni stórkostlega erfiðleika, það gæti og bakað stórkostleg útgjöld fyrir skip, sem yrði að víkja í burtu, kannske að ástæðulitlu eða ástæðulausu. Hér þyrfti enga samvinnu um að hafa, aðeins fyrirmæli manna, sem ekkert þekkja inn í þessi mál, auk þess sem það gæti skapað margvísleg vandræði í hafnarmálunum og öryggisleysi.

Ég vil því mjög aðvara hv. deild um að samþykkja ekki þessa grein frv. Þessari grein frv. er líka harðlega mótmælt af báðum aðilum, bæði Eimskipafélaginn og Sambandinu. En höfuðástæðan fyrir því, að við höfum borið þessa brtt. fram, er sú, eins og ég gat um í upphafi, að ég tel, að bezt verði tryggt tolleftirlitið í höfninni eða í höfnum landsins með því að hafa fulla samvinnu við þessa aðila.

Þá höfum við einnig í 5. brtt. okkar borið fram breyt. við 10. gr., en 10. gr. frv. er algert nýmæli og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þess sem tollgæzlumönnum er heimilt að leita alls staðar í skipi, er þeim heimil leit og rannsókn á vörum í geymsluhúsum, bifreiðum, vögnum og öðrum farartækjum, enn fremur í verzlunum og vörugeymslum þeirra. Stjórnendum farartækja er skylt að nema staðar, þegar tolleftirlitsmenn gefa þeim merki um það, svo og að veita tolleftirlitsmönnum þá aðstoð og hjálp, sem þörf er á, til þess að rannsókn geti gengið sem greiðast og án tafa og tálmana.“

Hér er brotin hin almenna regla um, að það skuli þurfa úrskurð dómsvaldsins til þess að gera slíka leit. Það hefur að vísu verið fordæmi um þetta, sem gefið er um að leita eftir brennivíni eða vínanda í bílum, en önnur fordæmi munu varla vera til í þessu landi, nema með úrskurðum. Við teljum, að hér sé allt of langt gengið, teljum ekki heldur þess þörf og teljum ekki, að þetta tryggi frekar eftirlitið en með okkar till., en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðan afferming skips fer fram í fyrstu tollhöfn, sbr. 7. gr., er tollgæzlunni heimilt að afgirða hæfilegt athafnasvæði umhverfis skipið og loka allri umferð um það.“ Það er langöruggasta eftirlitið, og það er engum vandkvæðum bundið. Og svo segir áfram: „Skal þá öll umferð og allar vörur úr skipi fara um þar til gerð tollgæzluhlið. Auk þess sem tollgæzlumönnum er heimilt að leita alls staðar í skipi, er þeim og heimil leit og rannsókn á mönnum, vörum, bifreiðum og sérhverju öðru því, sem um tollgæzluhliðið fer.“ Þetta er almenn regla um allan heim, því að þar er verið að athuga, hvað sé verið að fara með út af afgirtu svæði. „Stjórnendum farartækja og öðrum, sem um tollgæzluhliðið fara, er skylt að nema staðar, þegar tollgæzlumenn gefa þeim merki um það, svo og að veita tollgæzlumönnum þá aðstoð og hjálp, sem þörf er á, til þess að rannsókn geti gengið sem greiðast.“

Getur nú hv. frsm. haldið því fram í alvöru, að þetta ákvæði, eins og við leggjum til að verði samþykkt, geri tolleftirlitið verra, lakara, óöruggara en ef það er ákveðið með 10. gr. eins og hún er í frv.? Er ekki ljóst, að ef 10. gr. frv. er samþykkt óbreytt, skapar hún alls konar vandamál og leiðir ekki til neins öryggis í þessum málum, nema síður sé. Þó erum við allir sammála um, að það sé alveg nauðsynlegt að tryggja, að menn flytji ekki upp í vörugeymslurnar tollsviknar vörur. En einmitt sú aðferð, sem við leggjum til að verði tekin upp, tryggir það, og það er miklu hægara að ganga úr skugga um þetta, áður en varan er flutt frá skipi, en þegar búið er að flytja hana hingað og þangað út um alla borg og bæ. Ef slík aðferð hefði verið tekin upp, þá hefði ekki verið hægt að taka fleiri bíla hlaðna vínanda eða öðrum vörum óleyfilegum og tollsviknum inn í landið, eins og hefur verið gert, eftir að hafa verið búnir að flytja slíkt langar leiðir frá skipshlið.

6. brtt. okkar er við 13. gr. Það er, að 2. tölul. falli niður, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er tolleftirlitsmönnum að skrá og merkja muni, sem hafðir eru um borð í íslenzku skipi, hvort sem um er að ræða skipsbúnað eða einkaeign skipverja. Heimta má aðflutningsgjöld af hinum skráðu munum, ef þeir hverfa úr skipinu, nema gerð sé grein fyrir, að þeir hafi farizt eða verið fluttir úr skipi erlendis.“

Þessi grein er ekki þörf, ef tekin er upp okkar regla, sem við leggjum til að tekin verði upp í 10. gr., og það má geta nærri, hversu ógerlegt það raunverulega er, eins og bent er á í mjög langri grg. frá Eimskipafélagi Íslands, að merkja alla muni t.d. í skipi eins og Gullfossi, þar sem er borðbúnaður fyrir fleiri hundruð manns, lök og rekkjuvoðir o.s.frv., og merkja þetta allt saman og hafa síðan eftirlit með því árlega eða mánaðarlega, hvort þetta sé enn í skipinu og hinar og aðrar vörur, sem tilheyra slíku farþegaskipi.

Það er sýnilegt, að annaðhvort er þetta samið af mönnum, sem alls ekki vita, hvað þeir gera, eða hugsa sér aðeins að hafa það í lögum án þess að láta framfylgja því.

Ég vil ekki vera að eyða tíma hv. d. til að lesa upp öll hin sterku mótmæli frá eimskipafélögunum í sambandi við þetta atriði og ætti ekki að þurfa heldur, því að það er sýnilegt, að hér er verið að kveða á um hluti, sem ekki er hægt að framkvæma að neinu leyti.

7. brtt. er við 14. gr., fyrst, að á eftir orðunum „að eigi sé í skipinu“ í 1. tölul. komi: eftir því sem hann bezt veit. — Hér er gert ráð fyrir því, að skipstjóri eigi að bera ábyrgð á að hafa ekki tekið með aðrar vörur en skráðar eru á skrá og hann skuli gefa skriflegar yfirlýsingar um það, að aðrar vörur séu ekki til í skipinu. Nú er það vitanlegt, að ef vörum er smyglað í skip, þá er það ekki gert með vilja skipstjóra, sem á að gefa þessa drengskaparyfirlýsingu. Við sjáum engin frambærileg rök fyrir því, að skipstjóri skuli ganga lengra en að lýsa því yfir, að það séu ekki aðrar vörur með hans vitund um borð í skipinu en þær, sem hér greinir, því að hann getur engan veginn borið ábyrgð á því, ef einhverjir skipverjar hafa notað sér möguleika, þegar hann ekki gat fylgzt með því, að vörur hefðu verið fluttar leynilega um borð í skipið, og við, sem þekkjum þessi mál, bæði höfum verið að sigla með skipunum og þekkjum þau að öðru leyti, vitum, að öll árin hefur verið gert mjög mikið að þessu í beinni andstöðu við þá menn, sem ráðið hafa yfir skipum, en ekki haft hugmynd um það, fyrr en það hefur komizt upp á síðari höfnum. Því hefur verið smyglað út í erlendum höfnum og inn á Íslandi, án þess að þeir hefðu hugmynd um eða átt nokkurn þátt í þeim verknaði, og það er náttúrlega ákaflega hart að láta samvizkusama menn greiða háar sektir fyrir slíkar aðgerðir, sem þeir eiga engan þátt í og gátta ekki vitað um.

Við höfum líka lagt til í b-liðnum, að í stað orðanna „að láta þeim í té nákvæmar skrár“ í síðustu mgr. komi: að láta þeim í té svo nákvæmar skrár sem mögulegt er. — Teljum við, að meira sé ekki hægt að heimta en að þeir láti í té svo nákvæmar skrár sem mögulegt er, þ.e. eins nákvæmar og þeir bezt vita um sjálfir.

8. brtt. okkar, við 15. gr., er, að 2. tölul. falli niður, þ.e. að aftan við greinina bætist ný mgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákveða má í reglugerð, að flutninga á ótollafgreiddum vörum samkv. þessari gr. megi aðeins fela þeim, sem fengið hafa leyfi ráðuneytisins til þess að annast slíka flutninga. Leyfi má binda nauðsynlegum skilyrðum til, að tryggt sé eftirlit með flutningi. Ráðuneytið setur að öðru leyti reglur um flutning ótollafgreiddrar vöru innanlands og má þar m.a. mæla fyrir um útbúnað og gerð farartækja, sem notuð eru til slíkra flutninga.“

Ég vil taka það fram, að ef 10. gr. okkar í minni hl. á þskj. 437 er felld, þá er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess að breyta þessari grein, en þessi brtt. um að fella þennan tölulið niður er byggð á því, að tollgæzlan fari fram innan hins afgirta svæðis, svo að ekki þurfi frekar að láta fylgja vörunum, þegar þær verða tollafgreiddar þar á svæðinu, og þurfi þar af leiðandi ekki að gera þær varúðarráðstafanir, sem gerðar eru í 15. gr., og tel ég, að þetta sé til þess að tryggja öryggið í eftirlitinu, en ekki til þess að veikja það, en að sjálfsögðu munum við taka þessa till. aftur, ef 5. brtt. okkar verður felld.

9. brtt. okkar er við 18. gr., að b-liðurinn falli niður, en b-liðurinn við 18. gr. er ný grein, sem ætlazt er til að verði 31. gr. í lögunum. Hér er farið inn á nýjar leiðir og óvenjulegar, þ.e. að taka upp þann sið, að enginn megi annast afgreiðslu farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum, nema hann hafi verið til þess löggiltur af ráðuneytinu. Það er sama sem að hvert fyrirtæki, sem hefur afgreiðslumann og hefur haft um mörg árabil, eins og Eimskipafélagið, hefur ekki lengur leyfi til að hafa sína afgreiðslumenn hvar sem vera skal á landinu, heldur skal nú sótt um sérstakt leyfi til þess, að þeir geti fengið að halda sínum starfa, og það er undir ráðuneytinn komið, hver fær slíkt leyfi, hvort sem hann hefur til þess aðstöðu eða ekki, getur vel verið pólitísk úthlutun og eingöngu verið það, undir a.m.k. mönnum, sem ekki fyrst og fremst litu á það, sem sanngjarnt væri. Ég tel, að þennan kafla allan eins og hann er hér, IV. kaflann, sé óverjandi að lögfesta, jafnlítið undirbúinn og hann er af hendi þeirra, sem hafa samið frv. Slíkur kafli á að semjast í fullu samræmi við þá aðila, sem við þessi störf eru og hafa verið um mörg ár, og ég teldi það mjög misráðið, ef nokkur ákvæði væru sett um þetta hér á þessu þingi gegn vilja og samvinnu við þessa menn: Það er ekki af því, að ég sé að taka upp hanzkann fyrir neina af þeim aðilum, hvorki þá, sem kynnu ekki að verða fyrir náð þess ráðh., sem ætti að fara með þessi mál, né hina, sem yrðu fyrir náð hans. En ég tel, að það sé alveg óverjandi að eiga að setja svo viðtæka löggjöf um þetta mál, sem snertir svo mikið hagsmuni ákveðinna margra manna, að gera það án þess, að um það sé fullt samkomulag. Við leggjum því til, að þessi líður verði felldur niður.

Við leggjum enn fremur til við 24. gr., að í stað hennar komi bráðabirgðaákvæði, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skipar 5 manna nefnd til þess að semja heildarlöggjöf um tollgæzlu, er miði að því að gera tolleftirlitið svo einfalt og öruggt sem kostur er á, m.a. með því, að komið verði upp tollbúðum og vörugeymslum fyrir tollskyldar vörur á innilokuðum hafnarsvæðum, sem tryggi hagkvæmari og öruggari tollgæzlu og jafnframt sem minnstan flutningskostnað tollvara á milli tollstöðva, svo og með því að skipuleggja samstarf á milli tollgæzlunnar og þeirra aðila, sem annast flutning og geymslu tollskyldra vara. Skal nefndin skipuð þannig: einn samkv. tilnefningu hvers eftirtalinna aðila, Eimskipafélags Íslands, skipadeildar Sambands ísl. samvinnufélaga og Reykjavíkurhafnar, en auk þeirra húsameistari ríkisins og tollstjórinn í Reykjavík, og er hann formaður nefndarinnar. Skal nefndin hafa lokið störfum og skilað til ríkisstj. áliti, till. og frv. til laga um tollgæzlu fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.“

Þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um þessa gr., sem er síðasta brtt. okkar.

Jafnvel þótt hv. Alþingi felli allar þær brtt., sem minni hl. ber hér fram á þskj. 437, og samþ. að gera að lögum frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 274, með þeim breytingum, sem meiri hl. n. leggur til að gerðar verði á þskj. 428, tel ég alveg óverjandi að fella þessa brtt. Það er vitað, að það er mjög aðkallandi nauðsyn, ekki einungis vegna tollgæzlunnar, heldur vegna margra annarra hluta, sem hafa víðtæk áhrif á þjóðlífið, að loka Reykjavíkurhöfn eins fljótt og unnt er og helzt öllum höfnum, sem hafa beint samband við útlönd. En til þess að það megi verða, þarf vitanlega að hafa samvinnu við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli. Það er ekki hægt að gera í andstöðu við Reykjavíkurhöfn, það er ekki hægt að gera það í andstöðu við skipulagið, og það er ekki heldur hægt að gera það í andstöðu við þá aðila, sem hér eiga að annast flutninga. Þess vegna tel ég höfuðnauðsyn, hvað sem líður samþykkt frv. í heild, að þessi brtt. verði ekki felld. Og mér er ómögulegt að skilja, að þessi brtt. falli undir þær fullyrðingar hjá hv. frsm., að þetta sé til þess að rýra tolleftirlitið. Hann hefur kannske ekki meint það, en hann hlýtur að verða að viðurkenna, að þar fer hann með rangt mál, vanhugsað, að fullyrða, að þetta geti rýrt tolleftirlitið. Þetta hlýtur að verða mál framtíðarinnar, og svo og svo mikið af því fé, sem safnast upp, fer samkv. ákvæðum þeim, sem n. er sammála um, í sérstakan sjóð og hlýtur að verða notað til þessara framkvæmda. Og þá eiga þessir aðilar að ráða því, en ekki vera sett einhliða af neinum þeim aðila, sem annast um tollgæzluna. Ég teldi hins vegar, að það væri mjög vanhugsað og engan veginn til þess að tryggja tollgæzluna að samþ. IV. kaflann í frv. eins og hann liggur fyrir. Þessu hefur verið mjög harðlega mótmælt af Eimskipafélaginu og færð fyrir því sterk rök.

Ég skal láta þetta nægja, þykist hafa bent á þær veilur, sem eru í frv., og að það hafi ekki fengið meðferð í hv. Nd., sem hefði verið æskileg. Og ég vænti þess, að hv. d. taki mjög tillit til þeirra till., sem minni hl. ber fram í þessu máli og eingöngu eru bornar fram til þess að tryggja betur tolleftirlitið en það er í dag og það verður, ef frv. verður samþ. óbreytt.