16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. spurði í upphafi máls síns, hvers vegna ég sem frsm. n. hefði ekki látið birta með nál. erindi þau, sem komu fram í fjhn. í samhandi við athugun málsins. því hef ég til að svara, að þessi erindi voru svo mikil fyrirferðar fyrst og fremst, að ég taldi, að þau þyrftu að vera alveg sérstaklega mikið innlegg í málið, til þess að rétt væri að birta þau. Og ef átti að birta einhver, þá þurfti að birta þau að mér virtist öll. Hann heldur því fram, hv. þm., að það séu mjög sterk mótmæli gegn frv., sem hafi komið frá skipaútgerðarfélögum. Ég lít aftur svo á, að ummælin séu ekki sterk eða mótmælin, þegar þau eru skoðuð í sambandi við svör þau, sem tollstjórinn í Reykjavík sendi fjhn., og ég tel, að svör hans séu miklu mikilsverðari en þau rök, sem við ýmsir aðrir, sem erum ekki sérstaklega reyndir að því er þessi mál snertir, getum fram lagt, og ég mun því í sambandi við till. þær, sem hv. þm. Barð. mælti fyrir, láta tollstjórann sem mest tala.

En áður en ég kem að því, vil ég þó minnast á það, að sú till., sem fjhn. stendur öll að og er á þskj. 42.8, þurfti í raun og veru ekki að mér virtist af hálfu hv. þm. Barð. þeirrar grg., sem hann lét fram koma. Það er sem sé ekki rétt, að fjmrh. hafi samið till. þessa eða krafizt samþykktar hennar. Till. kemur einmitt fram í bréfi tollstjórans í Reykjavík til fjhn. Hann óskar eftir því, að fjhn. taki hana upp. Hún er þess vegna frá tollstjóranum. Það varð gott samkomulag í n. um afgreiðslu till. á þann hátt, sem hún kemur fram frá n., en aðspurður kvaðst ráðh. ekki gera aths. við þá breytingu, sem á till. var gerð.

Allt það, sem hv. þm. Barð. sagði í sambandi við þetta frv. um, að hæstv. fjmrh. sýndi í því einhverja sérstaka innheimtufrekju og ásælni í garð annarra, er staðlausir stafir og alveg óviðeigandi, vegna þess að það er ekki fjmrh., sem hefur lagt sérstaka hönd að þessu frv. Það er nefnilega hinn ágæti embættismaður — ég segi ágæti embættismaður í fullri meiningu — tollstjórinn í Reykjavík, sem hefur mestan þátt átt í að semja frv., og hann er flokksbróðir hv. þm. Barð. Þegar það er vitað, þá þykir mér vafasamt, að hann vilji láta hin stóru orð sín áfram gilda um ásælni í garð þeirra, sem hafa þarna skipti við ríkið.

Ég hafði þann hátt að biðja tollstjórann í Reykjavík um umsagnir um brtt., sem eru á þskj. 437, en eins og ég sagði áðan, tel ég, að hann sé allra manna bærastur að gera grein fyrir þessum málum, og ég ætla nú að leyfa mér að lesa upp umsagnir hans. Að sumu leyti vitnar hann til bréfs, sem hann hafði sent fjhn., og mun ég þá lesa upp úr því bréfi einnig.

Við 1. brtt. gerir tollstjórinn þessa umsögn: „Þegar fjmrn. hefur veitt leyfi til fyrstu afgreiðslu utan tollafgreiðsluhafnar, hefur það að undanförnu verið gert að skilyrði, að kostnaður við tollafgreiðslu skipsins verði greiddur af útgerð þess. Hefur þetta ekki sætt mótmælum og kostnaðurinn ávallt verið mjög hóflegur. Er sjálfsagt, að þessari reglu verði haldið.“

Nú skilst mér sem leikmanni í þessum efnum afar eðlilegt, að þegar beðið er um undanþágu frá því, að skip sé tollafgreitt í tollafgreiðsluhöfn, þá beri sá að einhverju leyti, sem um undanþáguna biður, þann aukakostnað, sem af því leiðir fyrir tollgæzluna. Ákveðnar tollafgreiðsluhafnir eru 12 í landinu. Aðallega eru skip þar tollafgreidd, en þegar beðið er um undanþágu frá því einhverra hluta vegna, þá þykir vitanlega útgerð skipsins það ávinningur að þurfa ekki til þessara ákveðnu tollafgreiðsluhafna, og er ekki ósanngjarnt, að útgerðin að einhverju leyti beri þann aukakostnað, sem af því leiðir. Tollstjórinn upplýsir, að út af þessu hafi ekki orðið árekstrar. Þetta eru ekki nýmæli, þetta eru reglur, sem gilt hafa.

Þá er 2. brtt. Hún er við 5. gr., um það, hvernig síðasta málsgr. gr. skuli orðast. Um hana segir tollstjórinn:

„Í þessari brtt. er gengið inn á næsta nýstárlega leið. Hingað til hefur það verið talið eitt af aðalverkefnum tollgæzlunnar að hafa eftirlit með áhöfnum aðkomufarartækja, og eiga reglur tolllaganna að tryggja vald tollgæzlumanna til að framkvæma slíkt eftirlit. Hér er hins vegar gert ráð fyrir, að skipstjóri skipi tollgæzlumönnum fyrir verkum við framkvæmd skyldustarfa þeirra. Virðist miklu einfaldari og kostnaðarminni leið að leggja tollgæzluna niður og fela skipstjórum að sjá um, að aðflutningslöggjöfin sé ekki brotin. Í núgildandi tolllögum er óskoruð heimild fyrir tollgæzlumenn til að innsigla farmrúm, vistargeymslur og aðra staði í skipi. Er þetta í samræmi við reglur annarra nágrannaþjóða okkar. Hins vegar gera tolllögin ekki ráð fyrir því tilviki, að lokun á farmrúmum og jafnvel öðrum stöðum 1 skipi getur stöku sinnum haft hættur í för með sér, og fjallar ákvæði það, sem brtt. á við, um, hvernig þá skuli fara að. Ákvæðið í frv. er sniðið eftir norsku tolllögunum.“

Nú sagði hv. þm. Barð., að eftir frumvarpinu ætti skipstjórinn að hafa tollgæzluna á hendi, og vék því til mín sem spurningu, hvort ég sæi mér fært að leggja slíkt til. Auðvitað er þetta mikill misskilningur. En það er ætlazt til, að skip undir þessum kringumstæðum, sem er ekki svo vel útbúið, að það sé hægt að framkvæma tollgæzluna á venjulegan hátt, kosti þá aukafyrirhöfn, sem af því leiðir, og það virðist ekki óeðlilegt. Menn taki eftir því, að tollstjóri segir líka: „Hér er hins vegar gert ráð fyrir því“ — þ.e. í brtt. hv. þm. Barð. — „að skipstjóri skipi tollgæzlumönnum fyrir verkum við framkvæmd skyldustarfa þeirra“. Þannig er þetta nákvæmlega öfugt við það, sem hv. þm. hélt fram.

Þá segir tollstjórinn um 3. brtt., hún er við 6. gr., að töluliðurinn falli niður: „Reglugerðarákvæði þau, sem gert er ráð fyrir

í 6. gr. frv., má væntanlega setja samkv. hinni almennu heimild í 48. gr. núgildandi tolllaga, en réttara er að hafa einnig hina sérstöku heimild, sem tekin er upp í 6. gr. frv. Ákvæði frvgr. er í samræmi við löggjöf nágrannalandanna. Taka reglur nágrannalandanna um starfstíma að sjálfsögðu til íslenzkra skipa, ef þau eru stödd þar, og hefur ekki heyrzt undan því kvartað. Rétt er, að hliðstæðar reglur gildi hér á landi, bæði gagnvart íslenzkum og erlendum farartækjum. Á það má og benda, að það er varla rétt, að skipstjórar og afgreiðslumenn ráði því, hvernig ríkissjóður þarf að greiða tolleftirlitsmönnum fyrir aukavinnu, og er miklu eðlilegra, að útgerðir, sem láta afgreiða skip sín í eftir- eða næturvinnu, beri hinn aukna kostnað, sem af því hlýzt fyrir tollgæzluna.“

Þetta segir sig nú raunar sjálft, að tollgæzlan á ekki að ráða, hvenær afgreitt er, en þegar útgerðin vill leggja áherzlu á, að unnið sé í eftirvinnu, falli sá kostnaður á hana.

Þá er það 4. brtt.; hún er við 7. gr. Í því sambandi vitnar tollstjórinn í 3. lið í bréfi sínu frá 13. f. m., en 3. liðurinn um þessa 7. gr. hljóðar svo:

„Í bréfum skipafélaganna, einkum Eimskipafélags Íslands h/f, er mjög fundið að því, að upp í 7. gr. frv. skuli vera tekið ákvæði um, að tolleftirlitsmönnum sé heimilt að krefjast þess, að ferming og afferming skips skuli fara fram á tilteknum stað í höfn, er hentastur þyki vegna eftirlits hverju sinni. Er í bréfunum talið, að með þessu ákvæði sé um of skert vald hafnastjórna og að oft verði að taka meira tillit til annarra en tolleftirlitsins. Við affermingu skips er tolleftirlitið eitt þeirra atriða, sem óhjákvæmilega verður að taka tillit til, og er þess alls staðar annars staðar gætt, að afferming fari fram þannig, að eftirlitinu verði örugglega við komið, og tollgæzlunni fengið víðtækt vald í því sambandi.“ Í því sambandi bendir hann á ákvæði hjá nágrannalöndunum og segir, að af þeim megi sjá, að það er ekkert einsdæmi, þótt tollgæzlunni hér verði fengið það vald, sem um ræðir í 7. gr. frv.

„Það er augljóst mál, að eitt af höfuðverkefnum tollgæzlunnar við eftirlit með innflutningi varnings er að staðreyna, að ekki séu í farmrúmum aðkomufarartækja aðrar vörur en farmskrá greinir. Þetta eftirlit er hægt að hugsa sér framkvæmt á tvennan hátt, annaðhvort með nákvæmri skráningu á öllum vörum, sem affermdar eru, um leið og afferming fer fram, og samanburði þeirrar skráningar við farmskrá skipsins eða þannig, að vörurnar séu fluttar í vörugeymsluhús undir nákvæmu tolleftirliti og kannaðar þar annaðhvort samstundis eða síðar, eftir því sem hentara þykir. Reynslan sýnir, að skráning á vörum í skipi, um leið og afferming fer fram, er ekki einhlít til eftirlits, eins og hér háttar. Er á þetta bent í bréfi Eimskipafélags Íslands í athugasemdum við 14. gr. frv. Sú aðferð að hafa eftirlit með affermingu skips, án þess að vörurnar séu skráðar jafnóðum, er hins vegar óframkvæmanleg, nema skip liggi þannig, að mjög skammt sé frá skipi að húsi því, sem vörurnar eru látnar í til geymslu. Það verður auðvitað að vera á valdi tollgæzlumanna að ákveða, hvenær afferming fer fram undir tolleftirliti, og ef beita á hinni síðarnefndu aðferð, verður það að vera á valdi hennar að ákveða, hvar skipið liggur, meðan það eftirlit er framkvæmt, en að sjálfsögðu er gert ráð fyrir fullri og velviljaðri samvinnu milli tollgæzluhafnarstjórna og farmflytjenda. Það er að jafnaði hagsmunamál farmflytjenda eigi síður en tollgæzlunnar, að skipi sé lagt sem næst þeirri vörugeymslu, sem við farminum tekur, og að full vitneskja sé um það, hverju upp er skipað.“

Þá er 5. brtt. á þskj. 437. Um hana segir tollstjórinn:

„Í fyrri hluta tillögunnar er kveðið á um heimild tollgæzllumanna til að afkvía skip, meðan afferming fer fram. Nú er um þetta ákvæði í 2. málsgr. 10. gr. og 14. gr. tolllaganna. Brtt. fjallar aðallega um framkvæmdaatriði, sem ef til vill væri eðlilegra að setja í reglugerð eða fela tollstjóra að ákveða eftir aðstæðum á hverjum stað. Ég skal benda á, að ákvæði brtt. kemur því að eins að verulegum notum, að skip liggi á hentugum stað í höfn. Tillögumönnum hefur hins vegar ekki þótt rétt að veita tollgæzlunni heimild til að ákveða, hvar skip liggur í höfn, meðan afferming fer fram, sbr. brtt. við 7. gr. frv. Er augljóst mál, að ef t.d. á að flytja vörur úr skipi í vörugeymsluhús S.Í.S. við Grófarbryggju eða skála Eimskipafélagsins við austurbakkann hér í Reykjavík, en skipi er lagt við Ægisgarð og vörurnar fluttar þaðan á bifreiðum í vörugeymslurnar, þá kemur tollgæzlunni að sáralitlu haldi, þótt hún megi girða skipið af á affermingarstaðnum. Aðalatriðið hlýtur að vera, að sem skemmst sé frá skipshlið í vörugeymsluhús. Með því einu móti getur eftirlit með skipi og affermingu þess orðið framkvæmt með nokkru öryggi og þó án verulegra óþæginda fyrir farmflytjanda.

Flm. brtt. sýna fullkominn skilning á þessu atriði í nál. sínu, minni hl. fjhn. Ed., þar sem þeir ræða um lokaðar tollhafnir, en þar sem þær eru hvergi fyrir hendi, er nokkurs árangurs að vænta af ákvæðum 7. og 10. gr. frv. í svipaða átt.

Í 18. gr. tolllaganna er tollgæzlumönnum veitt víðtæk heimild til að leita í farartækjum og vörugeymsluhúsum, þar sem ástæða þykir til að ætla, að tollsviknar vörur kunni að finnast. Þessari heimild er oft beitt með árangri. Nú virðast tillögumenn ætla að takmarka þessa heimild við menn og farartæki, sem eiga leið um hugsað tollhlið, þegar skip hefur verið afkvíað í höfn.

Eins og háttar til í höfnum hérlendis, mundi afkvíun skipa ekki verða beitt nema sem undantekningu, þegar ástæða þætti til sérstaklega strangs eftirlits. Er fráleitt að ætla sér að takmarka heimild tollgæzlumanna til eftirlits með vörum eða farartækjum, sem hafa samband við skip eða önnur aðkomufarartæki, við það, að aðkomufarartækið sé undir sérstöku óvenjulega ströngu eftirliti. Má undir engum kringumstæðum binda tolleftirlitinu þann fjötur í starfi sínu.

Þá er í till. felld niður heimild tollgæzlumanna til að leita að tollsviknum varningi í geymsluhúsum. Það ákvæði hefur verið skilið þannig, að um væri að ræða geymsluhús, þar sem ótollafgreiddar vörur eru geymdar. Nær hefði verið að setja ákvæði, sem tryggðu stöðuga návist tollgæzlumanna í slíkum húsum, en það torveldar þeim eftirlit þar.

Loks má benda á, að tillögumenn gera skarpan greinarmun á eftirliti með skipi á fyrstu höfn, sem það tekur við komu frá útlöndum, og síðari höfnum. Frá sjónarmiði tollgæzlu er enginn munur á þessu gerandi. Eftirlit er nauðsynlegt jafnt í síðustu sem fyrstu viðkomuhöfnum skips.“

Þá er 6. brtt., við 13. gr. Þar er vísað í bréfið frá 13. f.m., 5. lið þess; og skal ég nú lesa hann upp:

„Þetta meinlausa ákvæði um heimild til að merkja muni, sem hafðir eru um borð í skipi, hefur sætt hörðum og lítt skiljanlegum mótmælum, þar sem m.a. er talað um tortryggni tollgæzlunnar í garð skipverja og skipafélaga. Allt tolleftirlit er fyrst og fremst vegna tortryggni, og má vel til sanns vegar færa, að þetta ákvæði sé þar ekki undantekning. Hins vegar hefur sjálfsagt engum heilvita manni dottið í hug að ganga svo langt í tolleftirliti að fara að merkja bolla og teskeiðar með tollinnsigli. Ákvæðið er til orðið vegna þess, að skipverjar hafa tíðum í klefum sínum dýr tæki, svo sem útvarpstæki, myndavélar, sjónauka o.s.frv. Þessi tæki eru ekki talin tollskyld, meðan þau eru um borð, en séu þau ekki á einhvern hátt merkt og skráð, er enginn vegur að koma í veg fyrir, að þau séu flutt úr skipi, án þess að gjöld séu greidd eða öðrum lögmæltum skilyrðum fullnægt. Um skipsbúnað mundi þessu ákvæði að jafnaði alls ekki verða beitt, en rétt þykir þó, að heimild til þess sé fyrir hendi.“

Þá er 7. brtt., við 14. gr. Um hana segir í umsögn tollstjórans:

„Í 14. gr. frv. er dregið úr refsiábyrgð skipstjóra frá því, sem er í 24. gr. gildandi tolllaga, með því að fella niður ákvæði 24. gr. um vottorð samkvæmt 155. gr. hegningarlaganna. Hins vegar verður einhver að bera skilyrðislausa ábyrgð á því, að rétt sé skýrt frá farmi og farangri í skipi, og er þá ekki um annan að ræða en skipstjóra. Brtt. mundi gera þessa ábyrgð skipstjóra að engu.“

Þetta segir um a-liðinn. En um b-liðinn er sagt:

„Um þennan lið brtt. vísast til 6. liðs í bréfi tollstjóra frá 13. f. m. Leggja verður áherzlu á, að skrárnar séu nákvæmar, en segja má, að brtt. breyti ekki miklu í því efni.“

En í 6. lið bréfsins, sem vitnað er í, segir: „Ákvæði 14. gr. frv., sem heimíla tolleftirlitsmönnum að krefjast þess, að skipstjóri eða afgreiðslumaður láti þeim í té nákvæmar skrár um talningu á vörum þeim, sem losaðar hafa verið úr skipi, sætir mótmælum skipafélaga á þeim grundvelli, að ekki sé unnt að gera skrár þessar nákvæmar. Það mun vera rétt, að skrár þessar hafa að undanförnu ekki verið svo nákvæmar sem skyldi og að nokkrir erfiðleikar séu á því að gera þær vel og nákvæmlega. Hins vegar er það höfuðatriðið bæði fyrir skipafélögin og tollgæzluna, að sem allra nákvæmust vitneskja fáist um, hvaða vörur séu losaðar úr skipi á hverjum stað, með því að leggja áherzlu á, að uppskipunarskrárnar verði framvegis vandlega og nákvæmlega gerðar. Á Norðurlöndum tekur tollgæzlan almennt við vörzlu þeirra vara, sem ekki eru tollafgreiddar við skipsfjöl. Fer að sjálfsögðu fram nákvæm talning á vörunum, um leið og þær eru fluttar úr skipi í tollvörzluna. Í Englandi, þar sem tollgæzlan er ekki ein um vörzlu ótollafgreiddra vara, ber farmflytjanda eða þeim, sem uppskipun hefur á hendi, að afhenda tollgæzlunni nákvæma skrá yfir talningu varanna upp úr skipi. En það fer eftir atvikum, hvort tollmenn eru viðstaddir talninguna eða ekki. Er rétt, að sami háttur verði hafður á hér.“

En um þessa liði er svo annars að segja það frá mínu sjónarmiði, að mér finnst, að þó að þær breytingar séu gerðar á frv., sem þessir liðir eru um, þá skipti það ákaflega litlu máli, vegna þess að þó að tekið sé fram, að skýrslur skipstjóra eigi að vera gerðar eftir því, sem hann „bezt veit“, eða þær skuli vera „svo nákvæmar sem mögulegt“ sé, þá verður aldrei meira krafizt af honum en einmitt þessa. Og mér er sagt, að í lögfræðinni sé setning, sem talin sé grundvöllur í þessum efnum, setning svo hljóðandi:

„Umfram það mögulega er engin skylda.“ Þess vegna held ég, að þessar breytingar séu bara óþarfaútfærsla á því, sem ákvæðin annars gilda um, það verði aldrei hægt að ætlast til af neinum meira en hann getur mögulega og hann verði aldrei talinn bera skyldu, sem lengra nái en að gera það, sem hann mögulega getur.

Þá er 8. till., við 15. gr., um, að tölul. falli niður. Þar segir tollstjórinn:

„Eins og á er bent í 8. lið í bréfi tollstjóra frá 13. f.m., er varzla ótollafgreiddra vara mikið trúnaðarstarf. Á þetta ekki síður við flutning varanna milli tollhafna, hvort sem fer fram á sjó, í lofti eða á landi. Er því rétt, að heimild sú, sem felst í 2. lið 15. gr. frv., verði felld inn í tolllögin. Má í þessu sambandi minna á flutninga á ótollafgreiddum og tollfrjálsum vörum til varnarsvæðanna.“

Þá er 9. till., brtt. við 18. gr. Um hana segir tollstjóri:

„Um þessa brtt. vísast til 7. og 8. liðs í bréfi tollstjóra frá 13. f.m. með þeirri athugasemd, að höfuðnauðsyn er á því að ekki hafi aðrir á hendi afgreiðslu aðfluttra vara en þeir, sem hafa til þess hús, er hæf séu til geymslu varanna og viðurkennd hafa verið af tollyfirvöldunum, svo og að tollgæzlan fái þá aðstöðu við vöruskoðun, sem gert er ráð fyrir í 2. málsgr. b-liðs 18. gr.

En þessi 7. liður í bréfinu, sem vitnað er til í umsögninni, sem ég er nýbúinn að lesa, hljóðar svo:

„Í b-lið 18. gr. er ákvæði um, að til þess að hafa á hendi afgreiðslu farartækja, sem flytja vörur frá útlöndum, eða geymslu ótollafgreiddra vara þurfi leyfi fjármálaráðuneytisins. Aðflutningsgjöld falla á innfluttar vörur, um leið og skipið, sem þær flytur til landsins, hefur hafnað sig þar, sem gjöldin eiga að greiðast. Á ríkissjóður lögveð í vörunum fyrir aðflutningsgjöldunum, en þau eru nú í mörgum tilfellum hærri en cif-verð vörunnar. Er af þessu og öðru ljóst, að varzla og afgreiðsla á ótollafgreiddum varningi er svo mikið ábyrgðarstarf, hæði gagnvart ríkinu og viðskiptamönnum, að rétt þótti að leggja til, að það væri einungis falið mönnum, sem fengið hafa löggildingu í því skyni. Hér í Reykjavík annast skipafélögin yfirleitt sjálf afgreiðslu þeirra vara, sem þau flytja til landsins, en út um landið fela þau það öðrum aðilum, einstaklingum eða félögum, og er þá mikilsvert, að vei sé vandað val þeirra. Auk þeirra skipafélaga, sem halda uppi föstum ferðum milli landa, kemur árlega fjöldi erlendra skipa til landsins, sem enga fasta afgreiðslumenn hafa hér. Eins og nú standa sakir, geta þessi skip falið hvaða manni sem er að veita farminum viðtöku, og verður það að teljast viðurhlutamikið, bæði gagnvart ríkissjóði og viðskiptamönnum skipsins. Ef litið er á, hve mikilla hagsmuna ríkið á að gæta í sambandi við innflutning vara, þá er ekki óeðlilegt, að það taki vörzlu þeirra, meðan ótollafgreiddar eru, að meira eða minna leyti í sínar hendur eða hafi afskipti af, hverjum varzlan er falin. En þó að ekki væri krafizt persónulegs leyfis fyrir afgreiðslumenn varanna, er mjög mikilsvert, að tryggt sé, að vörurnar séu aðeins fluttar í hús, sem séu hæf til geymslunnar og viðurkennd af tollyfirvöldunum, og er það lágmarkskrafa, að það ákvæði verði sett um þetta.“

En 3. liðurinn hljóðar þannig, sem líka er vitnað til:

„Í þessari málsgr. er ákvæði um, að afgreiðslumenn innfluttra vara skuli leggja tolleftirlitsmönnum til án endurgjalds aðgreint rúm í hverju vörugeymsluhúsi til rannsóknar á vörum. Sætir þetta mikilli gagnrýni af hálfu Eimskipafélags Íslands. Þetta meinlausa, en þýðingarmikla ákvæði er tekið upp eftir enskri fyrirmynd, en í Englandi eru vöruhús ekki viðurkennd sem geymslur fyrir aðfluttar vörur, nema þessi aðstaða til skoðunar sé látin í té ókeypis og hún sé auk þess þannig útbúin, að tollgæzlan geti læst þeim með sérstökum lásum, öðrum en lásum afgreiðslumannsins, ef hún telur ástæðu til. Með framangreindu ákvæði er stefnt að því að skapa möguleika til skoðunar á innfluttum vörum í öllum þeim húsum, sem notuð eru til að geyma í aðfluttar vörur. Hefur þetta mikla þýðingu, vegna þess að það bæði auðveldar skoðunina og sparar kostnað við flutning varanna í tollbúð og úr vegna skoðunar, en í bréfum sínum gera skipafélögin mikið úr þeim kostnaði. Skoðanaplássin þurfa ekki að vera stór, og er kostnaðurinn við þau ekki meiri en svo, að full sanngirni er að leggja hann á skipafélögin, meðan þau njóta þeirrar fágætu aðstöðu að mega sjálf annast gegn endurgjaldi geymslu og afgreiðslu á vörum, er þau flytja til landsins.

Í 2. málsgr. b-liðs 18. gr. er einnig ákvæði um, að ótollafgreiddum vörum skuli haldið aðgreindum frá öðrum varningi. Er þetta í bréfi Eimskipafélagsins talið óframkvæmanlegt. Aðgreining þessi er mjög þýðingarmikil og verður að komast á hér um leið og vöruskoðun verður aukin. Aðgreiningin er ef til vill einhverjum örðugleikum bundin í bili, en reynist væntanlega framkvæmanleg hér sem alls staðar annars staðar.“

Þá er síðasta brtt., sú 10., sem er um, að 24. gr. falli niður og bráðabirgðaákvæði komi í staðinn. 24. gr. í frv. gerir ráð fyrir því, að þegar frv. hafi öðlazt staðfestingu, sé orðið að lögum, sé það fellt inn í stofnlögin, svo að heildarlöggjöf verði til. En tillögumennirnir leggja það til, að kosin verði 5 manna nefnd til þess að semja heildarlöggjöf. Og þeir stinga upp á því, að þessi nefnd sé skipuð á sérstakan hátt, og eftirtektarvert er það, að mér virðist, hvernig nm. eiga að veljast, að fjmrn. á engan sérstakan fulltrúa að eiga þar, og virðist þó, ef á um fullkomið samkomulag að verða að ræða og sjónarmið allra höfuðaðila eiga að koma fram í þessari n., að fjmrn. sé ekki minnsti aðilinn. (Gripið fram í: Er ekki tollstjóri fulltrúi þess?) Spurningin er það, hvort hann getur beinlínis skoðazt sem fulltrúi ráðuneytisins. Það er spurning. Hann er maðurinn, sem hefur þekkinguna í þessu efni. En hins vegar á hann ekki þarna hlut að sem maður, sem er fyrir hönd þess aðilans, sem fjármunanna nýtur, og veit ég það, að tollstjóranum sjálfum þótti þetta allkyndugt. Það sagði hann í viðtali við mig.

Jæja, heildarlöggjöfin á að verða til eins og tillögumennirnir vilja. Hún verður til, ef frv. verður samþykkt. En þá er mér spurn, hvort nokkur ástæða geti verið til þess, þegar unnið hefur verið eins rækilega að undirbúningi máls og að þessu frv., að skipa nefnd ofan á til þess að vinna verkið á ný. Við höfum nóg af nefndum og nóg verkefni fyrir nefndir og nógan kostnað af nefndum, þó að við skipum ekki nefnd til að vinna verk, sem þegar má telja að sé búið að vinna mjög forsvaranlega. Hitt held ég að væri skynsamlegra, að samþykkja frv., það hefur verið undirbúið af þekkingu og reynslu, og bíða svo átekta og sjá, hvernig ákvæði þess gefast í framkvæmd.

Ég hef valið þann hátt að láta tollstjórann í Reykjavík sem mest tala, því að ég viðurkenni það, að leikmannsþekkingin í þessu efni er miklu minna virði, þegar á að kryfja málið til mergjar, heldur en þekkingin hjá þeim, sem hafa haft þessi mál með höndum í framkvæmd.