16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. n. byrjaði á því að lýsa því yfir, að hann hefði talið mótmæli skipafélaganna svo veik, að ástæða hefði ekki verið til að svara þeim og ekki heldur ástæða til að láta þau koma fram sem fylgiskjöl með nál. Nú hefur hann varið alllöngum tíma til þess að lesa hér upp svör tollstjórans við ummælum skipafélaganna, sem þó hefur fundizt ástæða til þess að skrifa um þau langt mál. Nú hefur hv. þm. haft þá aðferð í þessu máli að lesa upp öll þessi ummæli, án þess að fyrir lægju hjá þm. bréfin, sem þessar umsagnir eru um. Hefði nú ekki verið miklu eðlilegra, að hann sem frsm. hefði látið birta öll skjölin og látið ekki mig og sig vera að deila um það hér í d., hvort þessi rök, sem koma fram, eða umsagnir, sem koma fram hjá skipafélögunum annars vegar og tollstjóranum hins vegar, væru lítils virði eða einskis virði eða mikils virði, heldur lofa hv. þm. að sjá þessi gögn og hafa nægan tíma til að athuga þau? Ég held, að það hefði verið eðlilegasta meðferð málsins. Ég vil ekki fara að nota hér a.m.k. heilan klukkutíma eða tvo til þess að lesa upp öll þau mótmæli, sem komu frá eimskipafélögunum. Það hefði kannske verið eðlilegast eftir þessa ræðu hv. frsm. að birta nú öll ummælin, og hefði ég talið það heppilegri meðferð málsins, að þetta hefði verið birt allt með nál. Ég veit, að það finnast mörg þskj. lengri og það í málum. sem eru ekki eins. merk og þessi mál, svo að það hefði átt að birta öll fskj. raunverulega.

Þá sagði hv. frsm., að þessar till. væru ekki samdar af fjmrh. Hann veit það ákaflega vel, að allt frv. er samið í fullu samráði við fjmrn. og að hæstv. fjmrh. tók málið til sín og óskaði eftir, að umræðu væri frestað hér, vegna þess að hann vildi athuga brtt., svo að hann gæti sagt, hver væri sín skoðun á því máli, sem kæmi frá minni hl. Hann þarf því ekki að vera að halda það, að hæstv. fjmrh. eigi ekkert í þessu máli, þó að tollstjórinn eða einhver annar hafi undirbúið málið, og er undirbúningurinn fullkomlega á ábyrgð ráðh. Hann veit einnig ósköp vel, að það var hæstv. fjmrh., sem ætlaðist til þess, að kostnaðurinn yrði tekinn inn með nýjum tolli, eins og ég gat um í minni framsöguræðu, en það var komið í veg fyrir það í n., og þá varð hann að sætta sig við að fá ekki þetta fé fyrr en á næsta ári, vegna þess að hann taldi sér ekki mögulegt að láta rýra þannig tekjur þessa árs. Hins vegar hafði ekki hv. frsm. þann skilning á þessu máli í fjvn., að hann vildi taka upp baráttu fyrir því, að það yrði lagt nægilega mikið fé til þess að byggja þessar tollbúðir, þ.e.a.s. að minnsta kosti 2–3 millj. á ári.

Þá sagði hv. þm., að sér fyndist það vera eðlilegt, og hafði það eftir tollstjóra, að sá, sem biður um undanþágu, verði að greiða fyrir það. Það getur verið, að það sé út af fyrir sig eðlilegt. En hvers vegna er bara ekki verið að hafa eina tollhöfn á landinu, Reykjavík, og láta síðan skipaútgerðirnar eða þá, sem flytja vörurnar, greiða allan kostnað við tollgæzlu um allt land? Það má alveg eins gera það og skipta því í 8 staði eða 7 eða 12. Hvar er svo línan um réttlæti? Er það, að öllum þessum 60–70 stöðum á landinn sé skylt að bera sérstakan kostnað, en undanþiggja 12 staði? Ég get ekki fallizt á, að í slíkri reglu fælist nokkurt réttlæti, eða að aðeins einn staður á landinu, Reykjavík, skuli njóta þessara fríðinda, af því að hún er höfuðstaður landsins, og láta svo aðra aðila greiða allan annan kostnað. Þessi rök eru engin rök til þess að verja það að leggja þennan kostnað á skipaútgerðina.

Svo segir tollstjóri, eftir því sem kom fram í bréfinu, að það sé miklu betra að afnema alla tollgæzluna en að hafa hana eins og við leggjum til í minni hl. Ja, ég veit, að ef allar þær aths., sem hafa komið frá þessum ágæta manni, eru mældar á sömu vog, þá eru þær ekki mikils virði, því að það verður ekki hægt að koma því inn hjá neinum manni, að það sé sama og að afnema tollgæzluna að gera þær brtt., sem við leggjum til í þeirri grein.

Og ég vil nú spyrja: Heldur tollstjóri í raun og veru eða hv. frsm., að þetta sé algild regla, sem hér er höfð uppi? Ég veit ekki til þess, að hún hafi nokkurs staðar verið tekin upp. Ég hef siglt í a.m.k. 25 ár og komið á margar erlendar hafnir, og ég hef hvergi vitað, að þessari reglu væri fylgt á þann hátt, sem hún er tekin upp hér.

Þá segir einnig hv. frsm., að tollstjóri haldi því fram um þá reglu, sem ákveðin er í 7. gr., að tollgæzlunni sé alls staðar gefið þetta vald. Ja, ég veit, að hann hefur þá, ef það er skoðun tollstjóra, allt aðra reynslu af þessum málum en ég hef haft þann tíma, sem ég hef verið í siglingum milli landa. Ég veit ekki til, að tollgæzlu sé gefið neins staðar þetta vald. Og að segja, að það verði að vera á valdi tollgæzlunnar, hvar og hvenær affermt er, er áreiðanlega nýmæli í íslenzkum lögum og hvergi annars staðar. Það eru alls staðar hafnaryfirvöldin, sem ákveða, hvar eigi að afgreiða skipin, en ekki tollyfirvöldin. Og tollyfirvöldin haga sér þar af leiðandi eftir því og senda sína afgreiðslumenn til þeirra staða. Og það getur verið þannig, að það sé ógerlegt að afgreiða skip á þeim stað, sem tollafgreiðslan vildi hafa, á ákveðnum tíma. Það geta veríð þar önnur skip fyrir, og hvað á þá að gera? Á þá að láta skipið bíða kannske í heila viku, þangað til búið er að afgreiða hitt skipið. Það getur verið vindur og veður, sem orsaka, að ekki yrði hægt að koma skipum þar að. Hvað á þá að gera? Láta líka skipið bíða á kostnað eigendanna, af því að það má ómögulega hafa fulla samvinnu um það við tolleftirlitið að láta tollafgreiða skipið á einhverjum öðrum stað, þó að það væri ekki nema nokkra metra frá? Og sú fullyrðing, að það sé aðallega framkvæmdaratriði, sem kemur fram í okkar 5. brtt., er byggt á misskilningi, því að ef það væri aðallega framkvæmdaratriði, þá ætti tollstjóri að ganga inn á það og meiri hl. n., að það væri samþ., því að þá er enginn skaði að hafa það í lögunum. Hitt er svo fjarstæða, að halda því fram, að tolleftirlitið komi ekki að haldi, nema skipið sé nálægt geymsluhúsi. Skip eru aldrei afgreidd hér í Reykjavík nálægt geymsluhúsi yfirleitt eða svo að segja aldrei. Vörurnar eru fluttar hingað og þangað út um bæinn, sem við viljum fyrirbyggja með því að láta tollafgreiða vörurnar í sambandi við ákveðna girðingu, sem sett sé utan um skipið, þar til hægt sé að loka höfninni.

Þá segir hv. frsm., að við viljum fella niður heimild til þess að leita að tollsviknum vörum í geymsluhúsunum. Ef nú á að halda rökræðunum áfram á þeim grundvelli að snúa alveg kjarna málsins við, eins og hér er gert, þá er ekki von, að hægt sé að ná neinu samkomulagi um málið. Og ég á ákaflega bágt með að trúa því, að hinn ágæti lögfræðingur, Torfi Hjartarson tollstjóri, hafi sjálfur sent út frá sér svona lagaða umsögn, því að það er vitanlegt, að það er ekki farið fram á það af okkar hálfu að fella niður þessa heimild. Það er aðeins krafizt þess, að það sé ekki leitað nema með dómsúrskurði, það á að fá fullan úrskurð fyrir því, að það megi leita í húsunum.

Ég hef ekki átt kost á að kynna mér umsögn tollstjóra, en væni ekki hv. frsm. um, að hann hafi ekki lesið hér rétt upp. En ég efa, að tollstjóri hafi samið þetta bréf, heldur hafi einhver annar verið þar að verki, því að það er áreiðanlegt, að það getur ekki verið hans skoðun, að við séum hér með þessari brtt. að fella niður heimildina til þess að leita að tollsviknum vörum, nema síður sé. Við erum að tryggja það, að vörurnar fari ekki tollsviknar í land, og eftir er það í landslögum að mega hvenær sem er láta rannsaka tollsvikna vöru eða annað, sem rannsaka þarf, samkv. fyrirmælum dómstólanna, en þarf aðeins úrskurð til þess að gera það, það er allt og sumt.

Svo segir hv. frsm., að það eigi ekki að beita þessu ákvæði um að innsigla vörur skipverja. Hvers vegna á þá að vera að setja það í lögin? Það á ekki að beita því að innsigla vörur skipanna, hvorki bolla né borðbúnað, oft og tíðum silfurborðbúnað, sem kostar mikla peninga. En til hvers á þá að gera það með lögunum? Hann viðurkennir þannig það, sem ég hef haldið fram, að það er gersamlega útilokað að framfylgja því ákvæði.

Svo sagði hv. frsm., að með okkar brtt. væri verið að gera ábyrgð skipstjórans að engu og það, sem sé umfram það, sem mögulegt er, sé í lögum engin skylda. En ef það ekki er mögulegt að afgreiða skip á þeim stað, sem tollstjóri ákveður, þá er heldur engin skylda til að gera það. En sannleikurinn er sá, að dómstólarnir hafa hvað eftir annað dæmt menn seka um hluti, sem þeir áttu engan möguleika til þess að geta haft eftirlit með að væru framkvæmdir. Ég get í því sambandi bent hv. frsm. á, að það hafa gengið hvað eftir annað dómar um það, að eigendur skipa skuli sæta háum sektum, allt upp í 1/2 millj. kr., fyrir hluti, sem þeir hafa aldrei komið nálægt, slys, sem orsakazt hafa og þeir hafa ekki átt nokkurn einasta þátt í. Ég held, að þessari reglu sé ekki alveg fylgt alls staðar.

Ég sé nú ekki ástæðu til að vera með sparðatíning út af þessu, en vil aðeins benda á síðast, að það er mjög eftirtektarvert, að tollstjóri, hinn ágæti maður, hefur sama sem ekkert sagt um okkar síðustu brtt., því að þau orð voru mest frá brjósti hv. frsm., að því er mér skildist. Hann sagði sjálfur, að hann sæi enga ástæðu til þess að vera að skipa nefnd til þess að vinna þetta verk á ný, sem svo vel hefði verið undirbúið. Mér skildist, að það væru ekki ummæli tollstjórans. Fer ég ekki þar rétt með? Já, um þetta atriði segir tollstjóri ekki neitt. En ég hef einmitt bent á, að þetta verk er ekki þannig undirbúið og það verður áreiðanlega ekki sætzt á það atriði, þó að það verði að lögum núna. Það verður áreiðanlega af einhverjum öðrum en mér, þó að ég komi ekki til þess að eiga sæti hér á þingi, tekin upp barátta fyrir því, að það verði annar háttur hafður á en að setja ákvæði um þessi mál einhliða, og það leiðir ekki til neins góðs, eins og ég tók fram áðan. Það kann vel að vera, að lögin verði samþ. núna, en ef þessi till. verður felld, þá verður áreiðanlega tekin upp hörð barátta fyrir því, að þau ákvæði fái ekki að standa óbreytt um langan aldur. Og það er ekki viturlegt að setja ákvæði svo einhliða sem hér er gert gegn svo sterkum mótmælum sem hér liggja fyrir, þegar á sama tíma þarf að nota alla samúð þessara manna og aðstoð til þess að halda uppi tolleftirliti í landinu. Og sú löggjöf, sem byggð er á slíku, er ekki vel undirbúin. Ég vænti því a.m.k., að sú till. okkar verði samþ.