26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, hefur fjhn. reynt að komast að samkomulagi um þetta mál, eftir að brtt. á þskj. 437 voru teknar aftur, og hefur samkomulag orðið á þann hátt, sem hv. frsm. lýsti í sinni ræðu.

Ég tel, að það hefði farið miklu betur á því, að þær brtt., sem bornar voru fram af okkur á þskj. 437, hefðu verið samþykktar eins og þær lágu fyrir. En með því að þetta samkomulag hefur nú náðst, sem er einnig tákn þess, að nauðsynlegt hafi verið að gera breytingar á þeim mjög einstrengingslegu tillögum, sem fyrir lágu, þá vil ég lýsa því fyrir hönd mína og hv. þm. Seyðf. svo og fyrir hönd hv. þm. Vestm., að við munum sætta okkur við þá afgreiðslu málsins, sem feist í brtt. nefndarinnar, og munu því brtt. á þskj. 437 allar verða teknar aftur. Hins vegar væntum við þess, að þótt þetta frv. verði nú samþykkt þannig, þá verði í mörgum tilfellum ákvæðum þess beitt mildilega, því að það er sannarlega hvorki til hagsbóta fyrir tollgæzluna sjálfa né til virðingar fyrir stofnunina, að þeim sé fylgt út í yztu æsar, eins og orðalag sumra greinanna gefur tilefni til.