06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

127. mál, félagslegt öryggi

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja nema örfá orð varðandi þetta frv. á þskj. 230, sem er um heimild fyrir ríkisstj. til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um félagslegt öryggi.

Á félagsmálaráðherrafundi Norðurlanda í haust í Kaupmannahöfn um miðjan september var þessi samningur undirritaður af fulltrúum allra Norðurlanda, og eins og fram er tekið í athugasemdum við þetta frv., er hér fyrst og fremst um að ræða að setja í eitt kerfi marga samninga. sem áður hafa verið staðfestir af Norðurlöndum varðandi þetta efni, varðandi félagslegt öryggi. Í þessu eru þó nokkur ný atriði, eins og greinilega er fram tekið einnig í athugasemdunum. Ríkisstj. Íslands stóð að því, að þessi samningur yrði undirritaður á þann hátt, sem hér er um að ræða, í haust, og það er því hún, sem nú leggur þetta frv. hér fyrir hið háa Alþingi og æskir þess, að Alþingi staðfesti hann.

Ég sé í raun og veru ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, greinargerðin er það glögg, að hv. alþm. geta áttað sig algerlega á því, hvað eru eldri samþykktir, sem aðeins er verið að sameina nú, og hvað er nýtt í því, sem hér er um að ræða, og hygg ég, að það muni ekki verða meiningarmunur um það, að afgreiða beri þetta mál í því formi, sem hér er lagt til.

Ég vil því leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.