20.10.1955
Efri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

15. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem nú er tekið til umr., er stjórnarfrv. og gamall kunningi, af því að það er frv. til laga, sem hafa verið framlengd frá ári til árs nálega óbreytt um alllangt skeið. Eins og það liggur nú fyrir, er það alveg óbreytt frá fyrra ári.

Fjárhagsnefndarmenn, fjórir af fimm, mæla með því, að frv. verði samþykkt efnislega óbreytt. Einn nm. aftur á móti, hv. 4. þm. Reykv., flytur á þskj. 36 till. til breytinga á frv. Hún er um það, að B-liður 1. gr. frv. falli niður, þ. e. a. s. álagið á verðtollinn. Sú till. felur í sér a. m. k. 50 millj. kr. lækkun á tekjum ríkissjóðs á næsta ári, ef miðað er við frv. það til fjárlaga, sem fram hefur verið lagt. Vitað er þó, að þetta fjárlagafrv. er þannig, að á það vantar útgjöld svo að tugum milljóna skiptir, sem ég tel víst að hv. 4. þm. Reykv. muni engu síður en aðrir telja óhjákvæmileg útgjöld. Er því till. hans á þskj. 36 a. m. k. allhraustleg, og munu varla aðrir en þeir, sem hafa ekki áhuga á, að fjárlögin verði hallalaus, þegar þingið afgreiðir þau, geta lagt till. lið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um till. fleiri orðum. Meiri hl. fjhn. leggur að sjálfsögðu til, að hún verði felld. En eins og segir í nál., eru á frv. formgallar, sem stafa af því, að það er stílað sem breytingar á lögum um tollskrá o. fl. frá 1939, en í fyrra voru heildarlög um tollskrá o. fl. selt, og misstu þá lögin frá 1939 gildi sitt. Fjhn. leggur einróma til, að frv. verði leiðrétt að þessu leyti, og eru till. hennar á þskj. 42 um það. Ég tel, að þessar till. þurfi ekki skýringa við, en einboðið fyrir hv. þm., hvaða afstöðu sem þeir taka annars til frv., að samþ. þær tillögur.