26.03.1956
Efri deild: 97. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

180. mál, loftflutningar milli landa

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir á þskj. 464, er stjórnarfrv. og er um breyt. á l. nr. 41 25. maí 1949, um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa.

Ísland gerðist aðili að alþjóðasamningi um loftflutninga 1929, og var sá samningur lögfestur 1949. Á árinu 1955 var gerð nokkur breyting á samningi þessum með viðbótarsamningi, sem samþykktur var í Haag í september þ. á. Nú hefur verið ákveðið, að Ísland gerðist einnig aðili að nefndum viðbótarsamningi, og því hefur ríkisstj. borið fram frv. það, sem hér liggur fyrir.

Samgmn. hefur athugað þetta frv. og mælir einróma með því, að það verði samþykkt óbreytt. Einn nm., hv. 10. landsk. þm., var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins.