23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

129. mál, náttúruvernd

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Hugmyndin um náttúruvernd mun fyrst hafa komið fram meðal náttúrufræðinga. Fyrir aldarfjórðungi var um málið rætt í Náttúrufræðingafélaginu, og fyrir forgöngu þess félags var skipuð nefnd til að semja frv. um náttúrufriðun, friðun sögustaða o.fl.

Magnús Jónsson, þáverandi þm. Reykv., flutti þetta frv. á Alþingi 1932, en það hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu á því þingi. Á þingi 1934 flutti allshn. Ed. að ósk þáverandi dóms- og menntmrh. annað frv., sem gekk í sömu átt, en það hlaut ekki heldur fullnaðarafgreiðslu á þinginu.

Á þingi 1948 var samþ. till. frá Páli Þorsteinssyni og Jóni Gíslasyni með svofelldri ályktun: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um verndun staða, sem eru sérstaklega merkir af náttúru sinni eða sögu.“

Í framhaldi af þessari ályktun fól fyrrv. menntmrh., Björn Ólafsson, þeim Ármanni Snævarr prófessor og dr. Sigurði Þórarinssyni að semja frv. til laga um náttúruvernd. Þegar þeir höfðu lokið því verki, skiluðu þeir frv. í hendur menntmrn. Núverandi hæstv. menntmrh. lagði frv. fyrir hv. Ed. á síðasta þingi. Frv. var þá afgreitt frá þeirri hv. deild með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að ríkisstj. leiti umsagnar sýslunefnda, bæjarstjórna og Búnaðarfélags Íslands um málið og leggi fyrir næsta þing niðurstöður sínar, að undangenginni endurskoðun á frv., tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Á milli þinga hafa bæjarstjórnir og sýslunefndir og enn fremur Búnaðarfélag Íslands athugað frv. Þegar umsagnir frá þessum aðilum höfðu borizt til menntmrn., fól hæstv. ráðh. höfundum frv. að athuga umsagnirnar og gera breytingar á frv. í samræmi við þær, eftir því sem þurfa þætti.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur því fengið mjög mikla athugun og góðan undirbúning. Samkvæmt, frv. skal heimilt að friðlýsa sérstæðar náttúrumyndanir, svo sem fossa, gígi, hella, dranga, svo og fundarstaði steingervinga og sjaldgæfra steintegunda, ef telja verður mikilvægt að varðveita þær sakir fræðilegs gildis þeirra eða þess, að þær séu fagrar eða sérkennilegar, jurtir eða dýr, sem miklu skiptir frá náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt, friðunin getur ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls, enn fremur landssvæði, sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstæðs gróðurfars eða dýralífs Og loks á að verða heimilt samkv. frv. að friðlýsa landssvæði, sem eru ríkiseign og sérstæð eru um landslag, gróðurfar eða dýralíf, í því skyni að varðveita þau með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að þeim.

Stjórn náttúruverndarmála á að verða þannig hagað, að í hverju sýslufélagi skal skipa 3 manna náttúruverndarnefnd. Sýslumaður er formaður nefndarinnar, en sýslunefnd kýs hina nefndarmennina tvo til 4 ára í senn og jafnmarga varamenn. Menntmrh. skipar síðan náttúruverndarráð með aðsetri í Reykjavík til 4 ára í senn. Á það að vera skipað 7 mönnum, forstöðumönnum 3 deilda náttúrugripasafnsins, einum manni með sérþekkingu á búnaðarmálum samkv. till. Búnaðarfélags Íslands og einum manni, sem Ferðafélag Íslands nefnir til, einum verkfræðingi samkv. till. Verkfræðingafélags Íslands og einum embættisgengum lögfræðingi, sem menntmrh. skipar. Menntmrn. hefur svo yfirstjórn náttúruverndarmála.

Störf náttúruverndarnefndar verða í því fólgin, að aðili, sem óskar að fá friðað landssvæði, á að snúa sér til náttúruverndarnefndar í héraði með beiðni um það, og greiðir nefndin þá fyrir því, að friðunin komist á. Rísi ágreiningur í héraði um mál, sem varða friðunina, reynir náttúruverndarnefnd að leita samkomulags milli aðila, en fellir úrskurð um málið, náist ekki samkomulag. Náttúruverndarnefnd getur einnig átt frumkvæði að því, að ákveðið sé að friða landssvæði eða jurtir eða dýr, ef hún telur það miklu máli skipta. Komi til þess samkv. úrskurði náttúruverndarnefndar, að bætur verði greiddar, þá fellir náttúruverndarnefnd úrskurð um hæð þeirra bóta. Úrskurðir, sem náttúruverndarnefnd fellir í héraði, skulu síðan lagðir fyrir náttúruverndarráð, og getur það breytt úrskurðum nefndarinnar eða staðfest þá, eftir því sem ráðinu virðist efni standa til. Náttúruverndarráð skal kynna sér eftir föngum náttúruminjar, sem ástæða er til að friðlýsa, og getur ráðið átt frumkvæði að því að stofna til náttúruverndarmáls. Náttúruverndarráð skal enn fremur samkv. frv. semja skrá um náttúruminjar, sem æskilegt er að friðlýsa, og fá á þann hátt heildaryfirlit yfir landið allt um þau verkefni, sem fyrir liggja á þessu sviði.

Ef greiða þarf bætur vegna þess, að eigandi lands eða rétthafi verði fyrir tjóni vegna friðunarinnar, verður meginreglan sú samkv. frv., að bæturnar greiðast að 3/4 hlutum úr ríkissjóði, en að 1/4 úr sýslusjóði hlutaðeigandi sýslu, ef það landssvæði, sem friðað er og bæturnar eru greiddar fyrir, liggur í byggð. En ef náttúruminjar, sem á að vernda, eru ofar byggð, greiðir ríkissjóður einn óskiptar bætur. Undantekning frá þessu er þó sú, að ef land er tekið og friðlýst og gert að fólkvangi eða almenningssvæði í því skyni að veita almenningi færi á að njóta náttúrunnar, þá skal ríkissjóður einn greiða bætur, sem af slíkum skiptum kann að leiða.

Menntmn. telur tímabært, að þetta frv. verði lögfest. Liggja því til grundvallar fyrst og fremst menningarleg sjónarmið. Sú kynslóð, sem nú býr í landinn, harmar það, hvað þær kynslóðir, sem liðnar eru, voru hirðulausar um eyðingu skóganna. Dró það úr fegurð landsins, rýrði gróðurfar þess og gerði það miklum mun verra til búskapar en ella. Af brýnni nauðsyn eru nú gerð stór átök í skógræktarmálum með fjárframlögum af almannafé, og enn fremur er lögð fram mikil sjálfboðavinna í sama skyni til að reyna að bæta það, sem eyðzt hefur, og hefur þó ekki tekizt nema að litlu leyti. Aukin ræktun prýðir landið, jafnframt því að hún eykur hagsæld þeirra, er hennar njóta. En fleira þarf að koma til. Íslenzk náttúra, bæði hin dauða og lifandi, er um margt sérstæð. Landið er strjálbyggt, og til skamms tíma hafa áhöld, sem völ hefur verið á, ekki verið stórvirkari en svo, að framkvæmdir hafa valdið tiltölulega litlum breytingum á yfirborði landsins og náttúrufari þess. En á síðustu árum hefur orðið gerbreyting í þessu efni. Með hinum stórvirku tækjum má á stuttri stund raska jarðlagi og sérkennilegum og fögrum náttúruminjum, ef gálauslega er að farið. Má þegar sjá dæmi slíkra framkvæmda á ýmsum stöðum. Er því fullkomin ástæða til að setja í lög ákvæði, sem ætlað er að girða fyrir spjöll á náttúruminjum og náttúrumyndunum, sem gildi hafa til fegurðar- og skilningsauka á náttúrufari landsins, og að búa svo um eftir föngum, að náttúruminjum sé ekki spillt að þarflausu í sambandi við framkvæmdir og mannvirki.

Sama sumarið og íslenzka þjóðin valdi í fyrsta sinn fulltrúa á Alþingi, eftir að það var endurreist, var kvöld eitt í júnímánuði bát hrundið úr vör á Reykjanesi og róið að eyju allfjarri landi. Í þeirri för voru veiddir 2 geirfuglar. Þegar í land kom, létu veiðimennirnir hina dauðu fugla af hendi fyrir nokkra skildinga, en það voru hinir síðustu einstaklingar þeirrar tegundar. Þetta óhappaverk verður aldrei bætt. Geirfuglinn verður ekki vakinn til lífs, hve mikið fé sem í boði væri til þess, en þær fáu leifar fuglsins, sem til eru og geymdar í söfnum í nokkrum löndum, þykja nú svo dýrmætar, að ein eggskurn er metin á þúsundir króna. Þegar svo er um dauðar leifar þessarar tegundar, má af því ráða, hvers virði það væri, ef geirfuglinn hefði fengið að eiga friðland á íslenzku útskeri, hvílíka eftirtekt það hefði vakið, hve mikill menningarvottur það væri talinn, ef þjóðin hefði borið gæfu til þess að þyrma hinum fágæta fugli. Þetta dæmi á að verða til viðvörunar. Fjölbreytt dýralíf og gróðurfar eykur fegurð landsins og gildi þess. Lagaákvæði, sem að því lúta að veita vernd í þessu efni, eru áreiðanlega ekki sett að ófyrirsynju.

Íslenzka þjóðin getur notið þess í æ ríkara mæli, að hún á víðáttumikið land og fagurt. Hvert sem farið er, blasir við fjölbreytt landslag og náttúrufegurð. En umgengni manna við náttúru landsins er stundum þann veg, að ástæða er til, að löggjafinn veiti aðhald í þeim efnum. Saga landsins og þjóðarinnar er tvinnuð saman. Orð skáldsins um föðurlandið eru í fullu gildi:

„Þú ert allt, sem eigum vér, ábyrgð vorri falið.“

Það er menningarleg skylda, að reynt sé að varðveita fögur landssvæði, að stuðla að góðri umgengni um náttúru landsins, að koma í veg fyrir óþörf tiltæki og ósmekkleg, svo sem að letra auglýsingar og áróðursmál á mannvirki og náttúrumyndanir úti á viðavangi, að friða jurtir eða dýr, sem miklu skiptir frá náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt.

Menntmn. telur, að í frv. þessu felist merkileg nýmæli í íslenzkri löggjöf, og leggur til, að frv. verði samþykkt.