23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

129. mál, náttúruvernd

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Hv. 4. landsk. þm. hefur lýst hér till., sem borizt hafa þinginu frá Skógræktarfélagi Íslands og snerta þetta mál. Þessar till. hafa ekki verið ræddar eða athugaðar sérstaklega af menntmn. Þær voru ekki sendar n., heldur munu þær hafa verið lagðar fram í erindi hér inni á lestrarsal og höfðu af þeim ástæðum farið fram hjá n. Það hafði farið fram hjá n. að þær lægju fyrir.

Ég vil út af þessu benda á það, að þetta er 2. umr. málsins, og ættu að verða tök á því að athuga þessa till. nánar á milli umræðna, þó að 2. umr. yrði lokið og atkvgr. um frv. eftir 2. umr.

Annars er það öllum ljóst, sem um þetta mál hafa fjallað, að hér er á ferð nýmæli og erfitt að sjá í öndverðu fyrir öll þau atvik, sem kunna að koma fram í sambandi við framkvæmd þessa máls, og má því búast við, að ef það kæmu fram einhverjir annmarkar á löggjöfinni, þá yrði áður en langir tímar líða að taka lögin til endurskoðunar, og ég held, að það sé miklu eðillegri háttur en að fresta afgreiðslu málsins nú á þessu þingi vegna þess, að einhverjar ábendingar kunna að liggja fyrir um að haga ákvæðum frv. á annan veg.

Ég mun að sjálfsögðu verða fús til þess að athuga nánar en orðið er þær till., sem hv. 4. landsk. gerði hér grein fyrir, en í fljótu bragði virðist mér, að þar sé ekki um að ræða mikilvæg efnisatriði. Það er augljóst, að ákvæði 10. gr. frv. um skipun náttúruverndarráðs er sniðið með það tvennt fyrir augum, að ráðið sé skipað sérfræðingum, sem þekkingu hafa á því málefni, sem þeir eiga að fella úrskurð um og veita leiðbeiningar um, og hins vegar að girt sé fyrir það, að ráðið verði svo fjölmennt, að störf þess verði mjög þung í vöfum eða torveld af þeim sökum. En þó að lagt sé til í 10. gr. frv., að náttúruverndarráð verði svo skipað sem þar er fyrir mælt, þá er jafnframt tekið fram, að náttúruverndarráð skuli kveðja sérfræðinga á fundi ráðsins til ráðuneytis, eftir því sem ástæður máls liggja fyrir hverju sinni, svo sem skógræktarstjóra, skipulagsstjóra ríkisins, vegamálastjóra og raforkumálastjóra.

Þetta virðist höfundum frv. hafa þótt eðlilegur háttur, þótt þeir hafi ekki treyst sér til þess að láta alla þessa aðila, sem nauðsyn kann að bera til að leita ráða hjá, eiga sæti í náttúruverndarráði og atkvæðisrétt þar, þegar úrskurðir eru felldir.