27.03.1956
Efri deild: 101. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

129. mál, náttúruvernd

Páll Zóphóníasson:

Það skiptir nú ekki miklu máli, sem ég ætla að benda á, en ég ætla þó að benda á tvö atriði, annað, sem sýnilega hefur farið fram hjá n. í Nd., þegar hún gerði sínar brtt., og hitt, sem ég tel að hefði þurft að breyta.

Hið fyrra er það, að önnur brtt. í Nd. við 10. gr. er í því innifalin að setja Skógræktarfélag Íslands inn í staðinn fyrir Ferðafélag Íslands sem aðila, sem á að tilnefna mann í stjórnina, en áður var það haft Ferðafélag Íslands, og þá var ætlazt til þess, að náttúruverndarráð kallaði skógræktarstjóra til skrafs og ráðagerða, þegar eitthvað væri, sem snerti hans mál. Nú er búið að setja hann eða aðila frá honum inn í sjálfa stjórnina, en þó er enn ætlazt til að kalla hann til skrafs og ráðagerða, hann er ekki tekinn út á hinum staðnum, eins og náttúrlega hefði átt að gera. Þetta er ekki svo mikilsvert mál, að það sé ástæða til þess að vera að senda það á milli deilda fyrir það, ég vil ekki segja það, en það væri þó eðlilegt, að það væri gert.

Hitt er það, að ákaflega mörgu, sem getur snert náttúruverndarráð, er þannig háttað, að náttúruverndarráð þarf að fá upplýsingar frá öðrum mönnum. Það er ákveðið í 10. gr. og greinin er látin vera tæmandi um, hverja eigi að kalla til upplýsinga. Það má kalla skógræktarstjóra, skipulagsstjóra ríkisins, vegamálastjóra og raforkumálastjóra. Aðra er ekki ætlazt til að það kalli á sinn fund. Ég held, að þetta hefði ekki átt að vera tæmandi, og ef það hefði átt að vera tæmandi, þá hefðu átt að vera þarna fleiri menn, þ. á m. maður, sem hefði haft sérþekkingu á sjúkdómum bæði jurta og dýra, sem kemur mjög til greina, ef náttúruverndarráð fer að gera ráðstafanir til þess að breyta að einhverju leyti náttúru landsins með nýjum gróðri eða nýju dýralífi eða takmarka það dýralíf, sem er til í landinu. Þess vegna hefði þessi upptalning ekki átt að vera tæmandi, heldur bara átt að vera ábending um, að það mætti kalla til sérfræðinga.