26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

166. mál, vinnumiðlun

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. til laga um atvinnuleysistryggingar hefur þegar verið afgr. úr þessari hv. d. Það er talið óhjákvæmilegt, að um leið og lögfest er frv. um atvinnuleysistryggingar, sé jafnframt lögfest frv. um vinnumiðlun, til þess að yfirlit fáist yfir það, hvort um atvinnuleysi er að ræða og að þær kröfur um tryggingafé, sem aðilar kunna að bera fram, séu eðlilegar. Þetta frv. um vinnumiðlun, sem hér liggur fyrir, er samið af sömu n. og þeirri, sem samdi frv. um atvinnuleysistryggingar, og má skoða þetta sem sjálfsagðan fylgifisk með því frv.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta mál og leggur til, að það verði samþ. með lítils háttar breytingu á 2. gr. frv. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skipaðir verði fjórir menn til aðstoðar sveitarstjórn eða þeim, sem hún felur að hafa með höndum framkvæmd vinnumiðlunar, þessir trúnaðarmenn verði skipaðir þannig, að tveir verði tilnefndir af verkalýðsfélögum eða fulltrúaráði þeirra, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands eða af deild þess eða meðlim og einn af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna eða af deild þess eða meðlim.

Sú breyting, sem heilbr.- og félmn. leggur til á þessari grein, er sú, að í Reykjavík skuli þó trúnaðarmenn atvinnurekenda báðir tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, en þegar um er að ræða málefni, sem varða Vinnumálasamband samvinnufélaganna, skuli þó í stað annars trúnaðarmanns atvinnurekenda kveðja til trúnaðarmann frá því.

Það er, eins og ég hef þegar tekið fram, till. n., að frv. verði samþ. með þessari breytingu.