24.02.1956
Efri deild: 75. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

160. mál, almenningsbókasöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er flutt vegna þess, að á síðasta þingi var ákveðið, að Kjósarsýsla skyldi um bókasöfn tilheyra Kópavogskaupstað. Komið hefur á daginn, að þetta er heppilegt fyrir hvorugan aðilann, og þykir því réttara, að sérstakt bókasafnshverfi verði sett í Kjósarsýslu, og er þá ætlunin, að hún hafi miðstöð í Hlégarði. Úr því að á annað borð þurfti að breyta lögunum, þótti heppilegra að leggja einnig Vatnsleysustrandarhrepp undir Hafnarfjörð í staðinn fyrir Keflavík. Vonast ég til, að þetta verði ekki að ágreiningsmáli, en legg þó til, að málinu verði vísað til hv. menntmn.