20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er til þess að svara fsp. frá hv. síðasta ræðumanni. Vil ég taka það alveg skýrt fram, að mér hefur ekki komið til hugar, að greiða ætti þessa skuld ríkisins af þeim gjöldum, sem nú á að leggja á. Ég sé, að hv. þm. muni vera meiri fjárheimtumaður en ég, og er ekki nema gott um það að segja, að einhverjir séu ákafari í fjárheimtunni en ég er, en mér hafði ekki enzt hugmyndaflug til þessarar skýringar. Hitt var eðlilegt, að það kæmi fram, að þetta hefur verið talin skuld og er auðvitað stofnuninni nú mjög fjötur um fót.

Um það, að uppi séu ráðagerðir um að leggja þessa starfsemi niður, þá hygg ég, að þetta frv. sé öruggt vitni þess, að ég hef ekki gerzt talsmaður slíkra ráðagerða. Hinu er ekki að leyna, að þær hafa verið uppi. Ég hygg, að ég hafi lesið það t.d. í tillögum frá eyfirzkum kennurum, að þeir benda á, að fáist ekki leiðrétting frá því, sem verið hefur, þá sé betra að leggja starfsemina niður, og þessu er ég sammála. En sú hugmynd er samt hvorki frá mér komin né frá nokkrum illviljamönnum þessarar starfsemi, heldur kennurunum sjálfum, sem hafa fundið, að starfrækslan eins og hún hefur verið er allsendis ófullnægjandi. — Öðrum atriðum, sem rædd voru, hygg ég að ég hafi svarað áður, og er ástæðulaust að rifja það upp.