22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ríkisútgáfa námsbóka hefur nú starfað um það bil 20 ára skeið. Tekjur ríkisútgáfunnar hafa verið sérstakt námsbókagjald, sem er ákveðið í lögunum, en þróun verðlagsmála á undanförnum árum hefur verið sú, að kostnaður allur við bókaútgáfu, eins og aðra starfsemi í landinu, hefur farið ört hækkandi, svo að þær fjárhæðir, sem ríkisútgáfan hefur fengið með námsbókagjöldum, hafa hvergi nærri hrokkið til þess að standa straum af þeim kostnaði, sem af útgáfustarfseminni hefur leitt. Fjárskortur hefur því staðið útgáfunni mjög fyrir þrifum nú hin síðustu ár. Af þessari ástæðu er tímabært að endurskoða lögin um ríkisútgáfu námsbóka, eins og stefnt er að með frv. því, sem hér liggur fyrir.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að 1/3 hluti kostnaðarins við útgáfuna greiðist úr ríkissjóði, en 2/3 hlutar greiðist af sérstöku námsbókagjaldi, sem lagt skal á hvern þann, sem hefur á framfæri sínu eitt eða fleiri börn við skyldunám á barnafræðslustiginu. Alþingi á að ákveða hverju sinni í fjárl. framlag ríkisins og námsbókagjald, með hliðsjón af kostnaði við útgáfuna og fyrirhuguðum framkvæmdum á hverju fjárhagsári.

Menntmn. mælir með því, að frv. þetta nái fram að ganga, en n. ber fram brtt., sem fela þó ekki í sér efnisbreytingu á frv., heldur orðalagsbreytingar við þrjár greinar þess.

Í 3. gr. frv. er svo fyrir mælt, að námsbókanefnd skuli sjá um, að á hverjum tíma séu fyrir hendi a.m.k. tvær námsbækur í hverri grein. Menntmn. finnst ástæðulaust að binda þetta í l., heldur leggja það á vald námsbókanefndar hverju sinni, hvernig á því er haldið.

Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja frekari brtt. við frv., og munu þær þá koma fram annaðhvort við þessa umr. eða ekki fyrr en við 3. umr. málsins.