22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) hefur lýst þeirri brtt., sem hann flytur á þskj. 521. Fyrri liður þeirrar brtt. er við 1. gr. frv. og fjallar um það, að ríkisútgáfa námsbóka skuli láta í té námsbækur öllum nemendum við skyldunám, þ.e.a.s. ekki einungis nemendum barnaskólanna, heldur nemendum í tveim neðstu bekkjum gagnfræðaskólanna jafnframt. Menntmn. hefur komizt að raun um það við athugun á þessu máli, bæði af umsögnum ýmissa aðila, sem n. leitaði til, og eins af ummælum stjórnar Sambands ísl. barnakennara, sem mætti á fundi hjá n. til viðræðu um málið, að meðal skólamanna þeirra, er njóta starfsemi ríkisútgáfunnar að því leyti að fá í hendur þær bækur, sem útgáfan lætur í té, er skoðanamunur um það, hvort rétt sé, eins og nú horfir, að láta útgáfuna ná til skyldunámsins alls eða einungis til barnafræðslustigsins. Það er álit skólamannanna, að starfsemi ríkisútgáfunnar sé komin í nokkurt ófremdarástand nú vegna fjárhagserfiðleika og að óhjákvæmilegt sé að gera stórt átak til þess að rétta fjárhagsgrundvöll útgáfunnar við og hefjast handa um aukna útgáfustarfsemi fyrir barnaskólastigið. Sumir þeirra aðila, sem n. hefur leitað umsagna hjá, eru þeirrar skoðunar, að það sé nægilegt viðfangsefni nú á næstunni að koma útgáfunni í gott horf fyrir barnafræðslustigið, það sé ekki hægt að vænta þess, að ríkisútgáfan geti á næstu árum stigið svo stórt skref að annast fullkomna útgáfustarfsemi fyrir barnaskólana og taka jafnframt á sig þá starfsemi að láta í té námsbækur á unglingastiginu.

Það varð því að athuguðu máli sú niðurstaða í menntmn., að n. í heild gat ekki fallizt á þá till., sem hv. 8. þm. Reykv. flytur og hefur gert grein fyrir. Það var enn fremur álit menntmn., að eðlilegt væri að halda ákvæðum gildandi laga um námsbókagjald, en leggja ekki þann kostnað, sem af útgáfunni leiðir, að öllu leyti á herðar ríkissjóðs.