21.10.1955
Efri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

2. mál, prentréttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. því, sem hér er lagt fram, er ætlað að koma í staðinn fyrir tilskipun um prentfrelsi frá 9. maí 1855, sem verið hefur í gildi að meginefni til og er enn, þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar ekki alls fyrir löngu, eins og mönnum er kunnugt.

Frv. er samið af Árna Tryggvasyni hæstaréttardómara, sem ég fékk til þess starfs á s.l. ári, en siðan hefur hann borið sig saman við mig um einstök atriði og vikið nokkrum við, eftir því sem okkur sýndist betur fara að athuguðu máli.

Meginákvæði frv., eins og það liggur fyrir, er um það, að sérstök ákvæði skuli gilda um ábyrgð manna á því, sem ritað er í blöð og tímarit, og gilda um þetta sömu meginreglur og verið hafa. Tiltekin er sérstök röð manna, sem ábyrgð eiga að bera, og er ekki heimilt að rannsaka frekar, hvort þeir, sem þarna koma fyrst og fremst til greina, en það er ritstjóri fyrst og fremst, siðan útgefandi og loks prentari, eftir því sem nánar er tiltekið, séu hinir raunverulegu höfundar þess, sem skrifað hefur verið. Þetta veitir sem sagt ekki rétt til leitar um það, hverjir í blöðin rita, og hefur verið talið stuðla mjög að því, að prentfrelsið héldist í raun og veru. Hins. vegar er ætlazt til þess samkv. frv., að venjulegar ábyrgðarreglur komi til greina um önnur rit og einnig um hin svokölluðu sakamálarit og önnur svipaðs efnis, þannig að þeir, sem í þau rit skrifa, njóta ekki hinna sérstöku hlunninda, sem blöð og tímarit njóta venjulega. Liggur það m.a. í því, að heimilt er, ef efni standa til, að rannsaka, hver hinn raunverulegi höfundur slíkra rita er.

Það má segja, að það séu a.m.k. á yfirborði nokkuð flóknar reglur, sem um þetta gilda, en þessi eru meginefnin, og tel ég ástæðulaust að rekja það frekar, enda er ýtarlega gerð grein fyrir því í aths.

Enn fremur eru í frv. gerðar ráðstafanir til þess, að hægt sé að hafa hendur í hári þeirra, sem ábyrgð bera á prentuðu máli, þar með er tilkynningarskylda um prentsmiðjur, sem eru starfandi, viss skilyrði sett um ritstjóra blaða og tímarita, strangari en áður hafa gilt. Sú regla helzt, sem verið hefur í l., að skylt er að afhenda eintak af blöðum og tímaritum, sem ekki fara fram úr vissri stærð, til lögreglustjóra, og nær það raunar til allra rita, þótt ekki séu blöð og tímarit, ef það fer ekki fram úr vissri stærð. Enn fremur er sett viðbótarákvæði um það, að lögreglustjóri getur, ef þörf þykir, krafizt afhendingar til sín á eintaki stærra rits. Sums staðar annars staðar er skylda að afhenda öll rit til lögreglustjóra, jafnskjótt og þau koma út. Mér sýndist það vera of umfangsmikið að hafa slíka reglu hér á landi, við höfum ekki færi á því einu sinni að láta lesa öll þau rit og mundum bara lenda í vandræðum með geymslu á þeim, en nóg, að lögreglustjóri getur heimtað afhendingu, ef sérstakar ástæður taka til. Sama er um rit, sem prentuð eru erlendis og höfð eru til sölu hér á landi, að lögreglustjóri getur, þar sem ritið er fyrst flutt inn, krafizt afhendingar á einu eintaki þess, en afhending fer ekki fram, nema slík krafa sé fyrir hendi.

Það kom nokkuð til athugunar, hvort setja ætti aðrar sérreglur um sakamálaritin en þær, sem settar eru í 14. gr. frv., til þess að standa á móti útbreiðslu þeirra og draga úr líkum til þess, að þau hefðu spillandi áhrif, sérstaklega á æskulýð, en að vei athuguðu máli þótti okkur ekki henta að hafa rækilegri fyrirmæli um þetta en sett eru í þessu ákvæði. Það mál var m.a. athugað af þeim mönnum, sem eru að endurskoða hegningarlögin, og einn þeirra, dr. Juris Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, hélt erindi um það efni á fundi menntamálaráðherranna norrænu, sem haldinn var í Reykjavík í sumar, og þar urðu allir sammála um, að svo mörg vafa- og vandamál kæmu upp í sambandi við ýtarlegar reglur um þessi rit eða bönn á þeim, að öll þau atriði yrði að kanna mun betur en enn þá hefur verið gert, og þess vegna væri almenn löggjöf um þau efni ekki tímabær, heldur var því beint til menningarmálanefndarinnar norrænu, að hún rannsakaði það mál betur, og síðan yrði að betur athuguðu máli reynt að hafa samráð um sameiginlega löggjöf eða svipaða löggjöf á Norðurlöndum um þessi efni. Það, sem okkur skiptir mestu máli nú, er það, að allir komu sér saman um, eins og ég segi, að enn væri ekki tímabært að setja fyrirmæli þess efnis í lög, ókostirnir við það og hættan fyrir prentfrelsið væri meiri en sá ávinningur, sem kynni að fást, menn yrðu fyrst um sinn að vinna meira á móti þessum skaðræðisritum með almennri fræðslustarfsemi og almenningsáliti en með beinni lögþvingun. Ég er sannfærður um, að þetta eru rétt sjónarmið, þó að ég efist ekki um, að sumir hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum af því, að ekki þykir tímabært að setja slíka löggjöf. En þetta mál hefur verið athugað viða um lönd á seinni árum, og ég hygg, að það sé sameiginleg skoðun manna, að enn sé þetta ekki kannað nægilega til þess, að fært sé að setja löggjöf um þessi efni.

Þá er rétt að geta þess, að ýtarlegar reglur eru settar um leiðréttingarskyldu útgefenda eða ritstjóra. Er það í sama stíl og verið hefur, en nokkru ýtarlegra en áður hefur þekkzt hér á landi.

Í 17. gr. er enn fremur nýmæli, þar sem segir, að ef ritstjóri, sem ekki er jafnframt útgefandi blaðs eða tímarits, er dæmdur til greiðslu sektar eða fébóta, málskostnaðar eða til greiðslu kostnaðar af birtingu dóms vegna efnis í ritinu, megi samkv. ákvæðum dómsins innheimta greiðslur þessar eða eftirstöðvar þeirra með fjárnámi hjá útgefanda eða útgefendum ritsins. Þetta er tekið eftir erlendum fyrirmyndum, m.a. því, sem lögboðið hefur verið í Danmörku og reynzt hefur þar vei. Svipað ákvæði þekkist einnig hér á landi í sambandi við togara og skipstjóra á þeim. Ef þeir fremja afbrot, ber eigandi útgerðarinnar ábyrgð á því, að fjársektirnar greiðist, svo að næg fordæmi eru fyrir þessu sanngjarna ákvæði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. Ég tel, að í því felist nauðsynleg endurskoðun á ákvæðum, sem nú eru orðin 100 ára gömul, og þess vegna tímabært að fara yfir að nýju og færa til rétts samræmis við nútímahætti, en að öðru leyti eru litlar gerbyltingar í frv. frá því, sem verið hefur.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.