16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

2. mál, prentréttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Prentfrelsið er einhver dýrmætustu réttindi manna í frjálsu þjóðfélagi og venjulega lögvarin í stjórnskipunarlögum þeirra.

72. gr. íslenzku stjórnarskrárinnar frá 17. júní 1944 hljóðar svo:

„Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti. Þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“

Þessi réttur er ekki aðeins einna dýrmætastur af öllum mannréttindum, heldur hefur sýnt sig, að fyrsta skref þeirra, sem sækjast eftir einveldi og að kúga þjóðir, er venjulega að leggja höft á prentfrelsið. Lýðræðisþjóðskipulag er tæplega hugsanlegt án prentfrelsis. Gagnrýni sú, sem því er ætlað að verja, er hverju lýðræðisþjóðfélagi nauðsynleg. En það er svo með prentfrelsið eins og önnur dýrmætustu mannréttindin, að því má misbelta, og þess vegna er gerður fyrirvari um það í stjórnarskránni, að menn verði að ábyrgjast þær skoðanir, sem þeir láta í ljós, fyrir dómi, en þetta þýðir, að hægt er að refsa, ef hugsanirnar eru refsiverðar að lögum, og að menn verða skaðabótaskyldir, ef þeir með óréttmætum ummælum baka öðrum fjártjón.

Lög þau, sem til þessa hafa verið í gildi hér á landi um prentfrelsi, eru tilskipun um prentfrelsi frá 9. maí 1855, en sumum greinum hennar hefur nokkuð verið breytt með lögum nr. 105 frá 1954. Tilskipun þessi gerir verulegar breytingar á þeim reglum, sem almennt gilda að því er varðar refsiábyrgð og skaðabótaskyldu fyrir ólögmæt verk.

Reglur tilskipunarinnar eru hinar svonefndu belgísku ábyrgðarreglur. Það ábyrgðarkerfi, sem þar er farið eftir, er þannig byggt upp, að einn einstakur aðili að birtingu rits er gerður ábyrgur fyrir efni þess, en öðrum sleppt, sem eftir almennum refsi- og skaðabótareglum hefði unnið til refsingar eða orðið bótaskyldur, og aðilarnir bera þessa ábyrgð í tiltekinni röð, sem efnislega er ákveðin eftir nánari eða fjarlægari tengslum þeirra við efni og útgáfu ritsins og formlega að aðilinn hafi nafngreint sig á ritinu.

Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar frá 1855 hvílir ábyrgð á efni rits, sem prentað er og birt hér á landi, aðallega á höfundi þess, enda hafi hann nafngreint sig og sé auk þess annaðhvort búsettur hér á landi, þegar ritið kemur út, eða sé undir dómsvaldi ríkisins, þegar málið er höfðað. Ef slíkur höfundur hefur ekki nafngreint sig, hvílir ábyrgðin til vara með sömu skilmálum á útgefendum ritsins, því næst á þeim, sem hefur ritið til sölu eða dreifingar, og loks á þeim, sem annast prentun þess.

Hjá öðrum þjóðum er ábyrgðarkerfið á prentuðu máli mismunandi. T.d. hafa Bandaríkjamenn og Bretar látið almennar reglur refsiréttarins og skaðabótaréttarins gilda jafnt um prentað mál sem um önnur refsiverð eða skaðabótaskyld verk. Hins vegar gilda hjá flestum þjóðum sérstakar ábyrgðarreglur, mismunandi víðtækar, og er þá viða lögð megináherzla á, að menn geti leynt nafni sínu í sambandi við ritað mál, og á þetta sér einkanlega stað um ritgerðir í blöðum og tímaritum, þar sem höfundarnir eru ekki nafngreindir, en ábyrgðin lendir á ritstjórum blaðanna eða tímaritanna.

Gallinn á þessu fyrirkomulagi, miðað við almennar refsi- og skaðabótareglur, er sá, að jafnvei þótt upplýst sé, hver sé höfundur greinar, sem talin er refsiverð og skaðabótaskyld, ber hann ekki ábyrgð á efni hennar, ef greinin birtist nafnlaus í blaðinu eða tímaritinu, heldur ábyrgðarmaður blaðsins. Virðist ýmsum hér fulllangt gengið og of mikið frávik frá almennum reglum. Einkanlega á þetta sér stað, ef um skaðabótaskyld ummæli er að ræða og ábyrgðarmaðurinn að blaðinu eða ritinu er þess ekki megnugur að greiða tildæmdar skaðabætur, þó að hinn raunverulegi höfundur væri megnugur að gera það.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er farið bil beggja. Viðvíkjandi blöðum og tímaritum, sem prentuð eru hér á landi, er hin aldagamla regla látin haldast, og er þá aðallega lögð áherzla á nauðsynina til nafnleyndar, en um önnur rit og rit, sem prentuð eru erlendis, svo og blöð og tímarit, sem hvetja til uppreisnar landráða og annarra ódæðisverka, sem refsiverð eru eftir 10. og 11. kafla hegningarlaganna, nr. 19 frá 1940, eru alinennar refsi- og skaðabótareglur látnar gilda. Sama gildir um blöð og tímarit, sem fjalla um afbrot eða lostug efni að meginefni til.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er flutt af dómsmrh. og mjög rækilega undirbúið af Arna Tryggvasyni hæstaréttardómara og dómsmálaráðherra sjálfum. Verður ekki annað séð en að tekizt hafi að meta sanngjarnlega þá hagsmuni, sem taka verður tillit til í sambandi við slíka lagasetningu sem þessa, sem sannarlega er ekki vandalaust verk.

N. hefur rætt mál þetta á mörgum fundum og hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þegar endanleg ákvörðun var tekin í n. um þetta efni, var hv. þm. Str. ekki á fundi. Aftur á móti var hv. 1. þm. N-M. á fundi og samþykkur þessu, þó að hann gæti ekki ritað undir nál. vegna fjarveru erlendis.

Í frv. eru, auk breytinga á ábyrgðarreglunum, mörg ákvæði, sem skýra nánar eldri reglur, sem gilt hafa, og virðast þau öll til bóta, og svo einstaka nýmæli. Er vísað til þeirra í grg., sem er allýtarleg.

Þar sem ég geng út frá því, að hv. dm. hafi kynnt sér grg., sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það, sem þar er sagt, eða fara út í elnstök atriði í greinum frv. Þó vil ég leyfa mér að benda á nýmæli 17. gr. frv., sem virðast sanngjörn og nauðsynleg, enda eru þau í samræmi við reglur, sem teknar hafa verið upp, t.d. í Danmörku, um ábyrgð útgefenda rita.

Ég vil geta þess að lokum, eins og tekið er fram í nál., að frv. þetta var sent til umsagnar Félags íslenzkra prentsmiðjueigenda, Bóksalafélags Íslands og Félags íslenzkra bókaútgefenda. Þessi félög óska öll eftir því, að gömlu ábyrgðarreglurnar verði látnar haldast óbreyttar. Frá þeirra hálfu er þetta ekki óeðlileg ósk, þar sem nokkur aukin ábyrgð er lögð á hendur þessara félagssamtaka með frv. Nefndin hefur ekki getað fallizt á rök þessara aðila. Hún telur útvíkkun ábyrgðarreglnanna til bóta og að þar sé mjög í hóf stillt, þar sem blöð og tímarit eru undanþegin. Nefndinni finnst ekki óeðlilegt, að þessi fyrirtæki, sem lifa á því að vinna að prentun og dreifingu rita, beri nokkra ábyrgð á efni þeirra, ekki sízt þegar það er farið að viðgangast í allmiklum mæli að dreifa út innlendum og erlendum klámritum, sem beinast að lægstu hvötum mannanna.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til fyrir hönd n., að frv. þetta verði samþykkt óbreytt.