23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

3. mál, íþróttalög

Páll Þorsteinsson:

Íþróttalögin, sem nú eru í gildi, eru frá 1940. Þau voru undirbúin af mþn., sem starfaði á árunum 1938–40. Þegar sú mþn. starfaði, kom fram sú skoðun hjá skólamönnum, einkum hér í Reykjavík, að nauðsyn bæri til að setja ákvæði í íþróttalögin, sem kæmi í veg fyrir, að keppni milli skólanna og íþróttafélaga í bænum ætti sér stað um börnin á barnaskólaaldri.

Sigurður Jónsson, þáverandi skólastjóri miðbæjarskólans í Rvík. hafði forgöngu um þetta og færði rök fyrir skoðun sinni með þessum sex atriðum:

1) Það er skaðlegt óþroskuðum börnum, að þau finni, að um þau sé keppt og að þau séu mikilvæg.

2) Útivist barna á síðkvöldum vegna sóknar til kvöldæfinga félaganna er skaðleg heilbrigði þeirra.

3) Æfingar félaganna eru ekki sniðnar við hæfi óþroskaðs barnslíkama.

4) Nemendur vanmeta skólafimleikana og vanrækja þá vegna æfinganna í félögunum.

5) Börnin eru þreytt að morgni eftir æfingar kvöldsins áður og njóta sín ekki við námið.

6) Kennarar skólanna leiðast inn í samkeppni félaganna um börnin, og myndast af því deilur, sem leiða af sér úlfúð innan kennaraliðsins.

Þessi rök þáverandi skólastjóra miðbæjarskólans hér í Rvík tók mþn., sem starfaði á árunum 1938–40, til greina og felldi inn í frv., sem hún samdi, grein, þar sem svo er kveðið á, að skólanemendum er óheimilt að stunda íþróttaæfingar í félögum utan skólanna þann tíma árs, sem skólar starfa, nema með leyfi skólastjóra.

Íþróttafulltrúinn hefur haft með höndum framkvæmd íþróttalaganna, síðan þau voru sett. Hann er eindregið þeirrar skoðunar, að þessari grein eigi að halda áfram í lögum. Um þetta farast honum þannig orð í grg. með þessu frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar ég tók við starfi íþróttafulltrúa 1941, lágu hjá menntamálaráðuneytinu kærur á hendur vissum íþróttakennurum skólanna vegna misnotkunar á aðstöðu, sem sé þeirri að draga nemendur inn í sérstök félög. Hér var samkeppnin um börnin og unglinga á ferðinni. Þá er ég tók að vinna að auknum íþróttaiðkunum innan skólanna, varð ég þess áskynja, að skólastjórar voru hræddir um ofæfingu nemenda, ef íþróttanám skólanna væri aukið og félögin gætu eftir sem áður gert tilkall til nemenda, meðan á skólanámi stæði. Ég tók þá þegar að vinna að framkvæmd 16. gr. Sú framkvæmd mæltist illa fyrir meðal forráðamanna íþróttafélaganna, og stafaði það fyrst og fremst af misskilningi, en í greininni felast fyrst og fremst fyrirmæli um samvinnu milli skóla og íþróttafélaga um heill og heilbrigði unglinganna.“

Íþróttafulltrúinn tekur enn fremur fram, að sú hætta á úlfúð og samkeppni um unglinga, sem var til, áður en íþróttalögin voru sett, er enn til, „og tel ég,“ segir íþróttafulltrúinn, „samkvæmt reynslu minni höfuðnauðsyn, að greinin haldist áfram í lögunum sem fyrirmæli um samvinnu milli uppalenda“.

Um þetta atriði varð ekki samkomulag í menntmn., eins og hv. frsm. n. lýsti, en við þrír, sem sæti eigum í menntmn., flytjum till. á þskj. 540, þar sem lagt er til, að inn í þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði felld ný grein, sem að þessu efnisatriði lýtur, sem ég hef gert að umræðuefni, og er brtt. okkar nákvæmlega samhljóða þeirri lagagrein, sem nú er í íþróttalögunum, en stefnt er að, að felld verði niður með þessu frv., eins og það liggur nú fyrir.

Rök okkar fyrir því að bera fram þessa brtt. eru í samræmi við það álit skólamannanna, sem ég hef nú lýst.