26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

3. mál, íþróttalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt. við þetta frv.

Önnur er á þskj. 571 og fjallar um það, að ákveðið verði fast framlag á fjárlögum næstu fimm árin til íþróttasjóðs og verði það framlag 2 millj. kr. á ári. En eins og 5. gr. frv. er nú, þá er aðeins gert ráð fyrir því, að sjóður þessi fái nokkurt framlag árlega samkvæmt því, sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni, en ekkert tiltekið nánar um það, hvað þetta framlag skuli vera mikið. Reynslan hefur sýnt á undanförnum árum, að íþróttasjóður hefur haft allsendis ónóg fjármagn til allrar sinnar starfsemi, og því hefur það gengið svo, að hann hefur á engan hátt getað staðið við þær skuldbindingar, sem hann hefur annars tekið að sér. Hann hefur ekki getað fullnægt öllum þeim beiðnum, sem fyrir hafa legið og sjálfsagt hefur þótt að verða við, fyrr eða síðar.

Yfirleitt hefur það verið svo nú í nokkur ár, að framlagið til íþróttasjóðs hefur verið 600–700 þús. á ári og upp í 1 millj. kr., en það er alveg augljóst, úr því sem nú er komið, að ef ekki á að stöðva um nokkurra ára bil allar byggingar íþróttamannvirkja, verður að hækka þessa upphæð, enda er vitanlega full sanngirni til þess, þegar þess er líka gætt, að upphæðin hefur raunverulega verið að fara stórlækkandi vegna breytts verðlags í landinu, á sama tíma sem krónutalan, sem veitt hefur verið, hefur sáralítið sem ekkert hækkað. Ég legg því til, að við ákvæði 5. gr. verði bætt, að næstu fimm árin eftir gildistöku laga þessara skuli ákveða sjóðnum eigi minni tekjur á fjárlögum en 2 millj. kr. á ári.

Þá flyt ég aðra brtt. við þetta frv. á þskj. 583, en sú breyting er við 8. gr. frv., 4. tölulið. 4. töluliður 8. gr. er nú á þá lund, að veita skuli til íþróttamannvirkja allt að 40% í styrk af stofnkostnaði viðkomandi mannvirkis, en framkvæmdin hefur verið á þessa leið, eins og segir í þessum 4. lið, á undanförnum árum, að styrkur hefur numið til langflestra íþróttamannvirkja 40%, en til nokkurra aðeins 30%.

Nú finnst mér full ástæða til þess að ákveða, að öll viðurkennd íþróttamannvirki skuli njóta a.m.k. 40% styrks, en hins vegar er opin helmild til þess að veita þennan styrk nokkru hærri í þeim tilfellum, sem íþróttanefnd þætti ástæða vera til.

Það hefur oft verið fundið að því og kom hér fram í umr. um þetta mál, þegar það var lagt hér fyrir þingið, m.a. af hálfu hæstv. menntmrh., að það hafi þótt óþægilegt það ákvæði í íþróttalögunum, þar sem styrkveitingar út á íþróttamannvirki eru ekki fastbundnar með lögum, heldur ákveðnar af íþróttanefnd hverju sinni, og hefur þá gengið miklu verr að fá lánsstofnanir til þess að lána út á væntanlegt framlag ríkisins, þar sem það var á engan hátt bundið fast í lögum, hvað það yrði. En eins og 8. gr. er orðuð í frv., þá er þetta ekki bundið enn. Enn er það mjög óbundin tala, þar sem segir, að þessi styrkur megi nema allt að 40%, og er því engu betra, þó að þetta frv. verði samþykkt, fyrir lánsstofnanir að lána út á þennan væntanlega styrk heldur en verið hefur. Er það alveg rétt, eins og hæstv. menntmrh. benti á, þegar frv. var hér lagt fram, að þessu atriði hefur ekki verið breytt á þá lund, sem menn töldu þó að æskilegt hefði verið. Ég vil hins vegar með minni till. gera þetta miklu ákveðnara en er í frv. og ákveða beinlínis, að öll viðurkennd íþróttamannvirki skuli fá 40% styrk sem lágmark.

Annars vildi ég segja það hér um þetta frv. sem heild, að ég tel, að það sé í mesta máta ófullnægjandi, þegar tillit er tekið til þess, að hér er um frv. frá mþn. að ræða, sem átti að endurskoða þessa löggjöf. Þessi endurskoðun, sem nú hefur farið fram, felur í rauninni ekki í sér neina merkilega stefnubreytingu eða neinar nýjar framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á sviði íþróttamálanna.

Þegar íþróttalögin voru sett um 1940, var stigið mjög myndarlegt skref fram á við í sambandi við íþróttamálin í landinu. Þá var t.d. ákveðið, að taka skyldi upp sundskyldu í öllum skólum landsins. Það var í rauninni mikið þrekvirki að ráðast í það, eins og málum var þá háttað, því að þá vantaði alveg stórkostlega mannvirki, til þess að hægt væri að koma þessari skyldu við. En að þessu hefur nú verið kappsamlega unnið á undanförnum árum, og búið er að koma upp myndarlegum sundmannvirkjum svo að segja um allt land, og nú er orðið fullkomlega tiltækilegt að halda uppi sundskyldunni. En vissulega eru til enn ýmsir þættir í sambandi við íþróttamál okkar, sem eru jafnóleystir og þessi mál voru, þegar íþróttalögin voru sett, og það hefði verið full ástæða til þess að taka slíka þætti inn í þetta frv. nú, þegar lögin voru endurskoðuð eftir 15 ár.

Ég tel, að það sé miður farið, að n. hefur ekki komið auga á þetta eða gert um þetta till. Ég skal aðeins nefna það, sem nú er að verða mjög aðkallandi í þessum efnum, en það er, að íþróttasjóður eða hið opinbera á einn eða annan hátt taki meiri þátt en það gerir nú í rekstri þeirra íþróttamannvirkja, sem eru að komast upp úti um allt land.

Það er vitanlega alveg augljóst mál, að það þýðir ekki að byggja í kaupstöðum og kauptúnum úti á landi íþróttamannvirki eins og fullkomna íþróttaveili, sem kosta orðið nokkur hundruð þúsunda króna, ef ekki er jafnframt séð um, að það sé einhver aðili til, sem á að reka þessi íþróttamannvirki. Nú verða einstök íþróttafélög að sjá um rekstur þessara mannvirkja, og komið hefur í ljós, að þau hafa á engan hátt fjárhagslega getu til þess að annast rekstur mannvirkjanna. Verði tekjur íþróttasjóðs auknar, eins og ég geri till. hér um, væri þó lítill vegur fyrir íþróttasjóð að hlaupa hér undir bagga og styrkja þau félög, sem nú hafa með rekstur þessara íþróttamannvirkja að gera. En eins og fjárhag íþróttasjóðs hefur verið varið, er augljóst mál, að ekki reynist unnt að reka þessi íþróttamannvirki, sem upp eru að komast um allt land. Það er líka þegar orðið þannig, að bæði sundlaugar og eins íþróttavellir, sem gerðir hafa verið, eru ekki notaðir til hálfs vegna fjárskorts.

Ég vil svo vænta þess, að þessa tvær till. mínar, sem tvímælalaust eru til verulegra bóta á þessu frv. og mér finnst vera það skemmsta, sem hægt er að ganga, þegar þessi löggjöf er nú tekin til endurskoðunar eftir 15 ár, verði samþykktar. Teldi ég þá þess virði að samþykkja þessi lög, en að öðru leyti tel ég, að það skipti ekki verulegu máli, hvort þau ná fram að ganga í þeim búningi, sem frv. er nú.