09.01.1956
Efri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

128. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta og d. fyrir að hafa frestað fundi, meðan ég var bundinn í hv. Nd., en þar var til umr. merkilegt löggæzlufrumvarp, sem ég þurfti að segja nokkur orð um, og var því ekki viðlátinn að mæla fyrir þessu frv.

Um það frv., sem hér liggur fyrir, er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Það er samið í stíl við afgreiðslu þingsins á ríkisborgararéttarlögum undanfarin ár og þá sérstaklega síðasta ár, þegar segja má að komizt hafi á samkomulag innan þingsins um tilteknar reglur, sem fylgt væri. Ég hygg, að frv. sé að öllu leyti samið í samræmi við þær reglur, sem fylgt var á síðasta þingi, og ætti að því leyti ekki að geta orðið deiluefni. Hins vegar er töluvert af umsóknum um ríkisborgararétt, sem ráðuneytinu þótti ekki fært eða ástæða til að taka upp í frv., þar sem það var utan þess ramma, sem Alþ. síðast ákvað.

Ég hygg, að í einstökum tilfellum megi segja, að slíkar reglur komi alltaf nokkuð ósanngjarnlega niður, en svo er um allar reglur, að það eru viss vafatilfelli, og verður því að hlíta og er í raun og veru ekki mikið um að segja.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið. Hv. n. fær sjálfsagt til meðferðar allar umsóknir, sem rn. hafa borizt, þannig að hún getur þá endurskoðað, hvort frv. sé samið svo sem ætlunin var. Að öðru leyti legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.