26.01.1956
Neðri deild: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

89. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er sízt ofmælt, sem hv. frsm. meiri hl. n. (PÞ) sagði áðan, að lögin um almannatryggingar voru mikið nýaraæli í íslenzkri löggjöf og færðu mörgum íslenzkum þegni mikla réttarbát og aukið öryggi. Það var því ekki nema eðlilegt, þegar átti að fara að framkvæma það ákvæði almannatryggingalaganna að endurskoða löggjöfina í heild, gagngert, þegar nokkur reynsla hefði fengizt á framkvæmd hennar, að þeirri endurskoðun væri fylgt með miklum vonum, og það hefur líka verið svo, frá því að mþn. var skipuð til þess að endurskoða almannatryggingalögin fyrir rúmlega tveimur árum, að menn gerðu sér vonir um, að af almannatryggingalögunum yrðu sniðnir ýmsir annmarkar, sem komið hefðu í ljós, og að réttindi hinna tryggðu mundu vafalaust verða aukin verulega við þá endurskoðun og löggjöfin fullkomnuð á ýmsan hátt. Hitt munu áreiðanlega fáir eða engir hafa látið sér detta í hug, að endurskoðunin leiddi til þess, að hopað væri af hólmi í sambandi við verkefni almannatrygginga hér á landi eða spor stigin aftur á bak í sambandi við endurskoðunina. Þó verð ég að segja það, að þessi endurskoðun, sem nú eftir meira en 2 ár er nú lokið, hefur ekki vakið óblandna gleði manna, en einmitt valdið vonbrigðum að ýmsu leyti. Það er hins vegar rétt hjá frsm. meiri hl., hv. þm. A-Sk., að þeir ágætu menn, sem mþn. skipuðu, hafa alveg óefað lagt mikið starf í endurskoðunina, og því neita ég ekki, að þeir hafa með ýmsum breytingum bæði á formi og efni frv. bætt tryggingalöggjöfina eða lagt drög að því, að hún verði bætt, svo að það er hér um það að ræða, að ýmislegt er í frv., eins og það liggur nú fyrir Alþ., til bóta frá tryggingalöggjöfinni eins og hún hefur verið, en því miður einnig nokkuð, sem veldur vonbrigðum.

Endurskoðun tryggingalöggjafarinnar átti að vera lokið fyrir meira en ári, en n. hafði þá ekki lokið störfum, og framlengdist því hennar starfstími við endurskoðunina um eitt ár í viðbót. Endurskoðunin er því rúmlega ári seinna á ferðinni en upphaflega var ráð fyrir gert.

Það, sem einkum veldur mönnum vonbrigðum í sambandi við þessa endurskoðun, er það, sem nú skal greina: Í fyrsta lagi, að ekki hefur verið afnumin skerðing á ellilífeyri. Í öðru lagi, að ekki hefur verið afnumið það ákvæði, að landinu skuli vera skipt í tvö tryggingasvæði með mismunandi háum iðgjöldum og mismunandi háum bótum. Vonuðu menn ákveðið, að landið yrði eitt tryggingarumdæmi með sömu iðgjöldum og sömu bótum um land allt, eftir að þessari endurskoðun væri lokið. Í þriðja lagi, að með þessari endurskoðun er afnumin sú sjálfsagða milliganga Tryggingastofnunarinnar, sem stofnunin hafði á hendi um skilvísa innheimtu barnsmeðlaga. Í fjórða lagi hafa nú verið skert áður umsamin og lögfest réttindi til fjölskyldubóta með öðru barni í fjölskyldu. Kem ég að því síðar. Og í fimmta lagi hefur endurskoðunin ekki fullnægt þeim vonum og fyrirheitum, sem gefin voru í upphafi, þegar lögin voru sett, að fullkomin heilsugæzla skyldi tekin upp í landinu og sjúkrasamlögin sem sérstakar stofnanir lögð niður. Og það eru vafalaust mestu vonbrigðin, sem menn verða fyrir í sambandi við endurskoðun tryggingalöggjafarinnar, alveg án tillits til þess, hvað ummæli sveitarstjórnanna, sem vitnað var til hér áðan, segja um það atriði.

Það er ljóst af frv. sjálfu, að þeir ágætu menn, sem unnu að endurskoðuninni, voru ekki, þegar þeir stóðu upp að loknum sínum langa starfstíma við endurskoðunina, allir á eitt sáttir. Í grg. með frv. er skýrt frá því, að einn nm. hafi skrifað undir með fyrirvara og látið í ljós í sérstakri álitsgerð með frv., í hverju hann teldi því áfátt sérstaklega, og þar bent rækilega á þau meginatriði, sem hann hefði. gert ágreining um og viljað fá á annan veg í frv. Einnig er skýrt frá því, að þær tvær konur, sem tóku þátt í endurskoðuninni og fengu sæti — um síðir að vísu — í mþn., hafi einnig óskað eftir einni breytingu á frv., sem þær komu ekki fram og sáu því ástæðu til að geta um í grg.

Það eru svo mörg og þýðingarmikil atriði, sem Haraldur Guðmundsson, forstjóri trygginganna, lætur í ljós, að hann hefði viljað fá á annan hátt í frv. en n. að öðru leyti gat fallizt á, að ég sé ástæðu til að rifja hér upp hans sérálit. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar það svo, það er kafli um afstöðu einstakra nm.:

„Haraldur Guðmundsson hefur fyrirvara um ýmis efnisatriði frv. Hann hefur haldið því fram í n., að nauðsynlegt sé að hækka lífeyrisgreiðslur til gamalmenna og öryrkja umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir, og er andvigur því, að felldar verði niður fjölskyldubætur með öðru barni, nema veruleg hækkun á lífeyri og lækkun iðgjalda, sérstaklega unglinga, sé þá lögfest samtímis. Þá telur hann, að nauðsyn sé að rýmka skerðingarmark lífeyris frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, nema lífeyrisupphæðir séu þá hækkaðar verulega. Enn fremur telur hann, að sá hluti rítgjaldanna, sem hinum tryggðu er ætlað að greiða, þ.e. 33% af lífeyristryggingum og 60% af sjúkratryggingum, sé óeðlilega mikill, og vill auka þátttöku annarra aðila, svo að iðgjöld hinna tryggðu þurfi ekki að hækka svo sem ráð er fyrir gert í frv. Hann hefur lagt til, að dánarbætur slysatryggingarinnar almennt yrðu ákveðnar hinar sömu og dánarbætur lögskráðra sjómanna, að greiddar verði bætur til lífeyrisþega vegna fráfalls maka og að sjúkrasamlögin skuli endurgreiða samlagsmönnum læknagjaldið, 5 kr. og 10 kr., þegar það fer fram úr ákveðinni upphæð á ári. Flutning á greiðslu sjúkradagpeninga telur hann varhugaverðan, án þess að leitað hafi verið umsagnar sjúkrasamlaganna um það atriði, og telur sjálfsagt, að sjúkrasamlögin innheimti með iðgjöldum það fé, sem til greiðslu sjúkradagpeninga þarf, ef þau taka að sér greiðslu þeirra. Hann hefur og lagt til, að hlutur sveitarfélaga af uppbótargreiðslum samkvæmt 23. gr. frv. verði ákveðinn jafn hluta Tryggingastofnunarinnar, Auk þess hefur hann fyrirvara um nokkur smærri atriði. Samkvæmt þessu má vænta þess, að hann flytji brtt. við frv. eða fylgi till., sem fram kunna að koma í þá átt, sem að framan greinir.“

Þetta er grg. Haralds Guðmundssonar um það, í hvaða atriðum hann hefði óskað, að frv. væri í annarri mynd en það er að vilja meiri hl. nefndarinnar.

En þær Auður Auðuns og Rannveig Þorsteinsdóttir hafa enn fremur flutt till. um að fella niður 2. málsgr. 16. gr. frv.. sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við ákvörðun fjölskyldubóta skulu ekki talin með þau börn í fjölskyldunni, sem eiga framfærsluskyldan föður utan hennar.“

Þessa málsgr. vilja þær frú Auður Auðuns og Rannveig Þorsteinsdóttur fella niður, en fengu því ekki ráðið, og það er þeirra fyrirvari um afstöðu sína til frv.

Nú er það viðurkennt, að Haraldur Guðmundsson er sennilega sá núlifandi manna, sem er gagnkunnugastur öllu tryggingakerfinu og veit gerst um, hvernig það er í framkvæmd. Er því áreiðanlega mikið leggjandi upp úr öllum þeim atriðum, sem hann gerði fyrirvara um og vildi fá breytt í þá átt, sem hann gerði grein fyrir. Það er því áreiðanlegt, að það væri til verulegra bóta á frv., ef hans till. næðu fram að ganga og fengjust samþykktar sem brtt. við frv. hér á Alþingi.

Nú á Haraldur Guðmundsson ekki sæti í þessari hv. d., hann á sæti í Ed., eins og kunnugt er, og geta því hans till. ekki komið fram fyrr en þar. Hins vegar skal ég upplýsa það, að ég hef haft við hann nokkurt samráð um mótun nokkurra af mínum brtt., og eru þær í samræmi við þessi atriði flest, sem hann hefur gert grein fyrir. Aðrar till., sem ég flyt, eru eingöngu á mína ábyrgð og í samræmi við minar skoðanir, sem ég veit að eru jafnframt skoðanir fjöldamargra annarra í landinu.

Heilbr.- og félmn., sem fékk frv. í hendur, starfaði á þann hátt, að fyrst var frv. lesið og athugað sameiginlega af heilbr.- og félmn. beggja deilda, en það samstarf náði þó ekki lengra, því að þegar því starfi var lokið, skildi leiðir með nefndunum. Eðlilegt hefði þó verið að mínu áliti, að n. hefðu starfað lengur saman um endurskoðun frv. og athugun, og jafnvel að leitað hefði verið eftir að ná samkomulagi manna í báðum deildum um afgreiðslu frv. En þau vinnubrögð voru ekki viðhöfð, og má því búast við, að þegar afgreiðslu frv. er lokið í þessari hv. d., fari það á ný í gegnum annan hreinsunareld og að nefnd þar verði óefað klofin um afstöðu til frv. og að meiri hl. og minni hl. beri þar fram till. til breytinga á því. Þetta hlýtur auðvitað að leiða til þess, að afgreiðsla frv. mun taka nokkurn tíma og vafalaust verða að öllu leyti þunglamalegri en ef fullkomið samráð hefði orðið til enda á milli nefnda beggja deilda.

Meðan heilbr.- og félmn. þessarar deildar starfaði að athugun á frv., bárust n. erindi frá ýmsum félagssamtökum, og minnist ég þá sérstaklega erinda frá kvennasamtökunum í landinu. Við fengum brtt. frá Kvenréttindafélagi Íslands, og tveir fulltrúar frá þeim félagssamtökum komu á fund n. og lögðu þar fram brtt. félagsins og gerðu grein fyrir þeim. Við fengum einnig brtt. frá Menningar- og friðarsamtökum íslenzkra kvenna. Margar af þeim breytingum, sem þau félagssamtök báru fram, voru svipaðs eðlis og gengu í sömu átt og till. Kvenréttindafélagsins. Þó voru þar nokkrar nýjar till. eða öðruvísi fram settar. Í þriðja lagi fékk n. einnig brtt. við frv. frá Mæðrafélaginu. Ég held, að það hafi verið aðallega þessi þrjú erindi, sem n. bárust til breyt. á frv. Það er enginn vafi á því, að þessi erindi bera þess ljósan vott, að ekki aðeins einstaklingar á hverju einasta heimili á Íslandi, heldur líka flest félagssamtök landsins fylgjast af athygli með því, hvernig tryggingalagafrv. verði nú afgreitt, og sem betur fer hafa verið látnar í ljós ákveðnar og allvel undirbúnar till. um það, í hvaða átt óskir hnígi um breyt. á frv.

Ég hef gaumgæfilega, ekki aðeins á nefndarfundum, heldur einnig utan þeirra, athugað þessi erindi og komizt að niðurstöðu um það, að nálega allar till. eru til hóta, nokkur efnisatriði í sumum till. eru að vísu, þegar betur er að gáð, inni í frv., en sumar till. eru til stórra bóta, og virðist svo sem sjálfsagt væri að samþykkja þær. Þetta hefur þó allt saman fengið heldur daufar undirtektir í n., og meiri hl. n. hefur, eins og frsm. meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir, ekki viljað fallast á neinar verulegar efnisbreytingar á frv. Það er aðeins tekin þarna hin sjálfsagða breyting, sem slegið var fastri með bráðabirgðaákvæði núna um áramótin, og svo að gildistökuákvæðið verði fært til samræmis við þann tíma, sem nú er verið að afgr. frv. á, og að frv. skuli taka gildi sem lög frá 1. apríl n.k. Annars er reynt að standa á frv. eins og meiri hl. mþn. gekk frá því, og býst ég við, að um það séu samtök milli stjórnarflokkanna beggja, a.m.k. hef ég lítið orðið var við, að nokkur bilbugur sé á mönnum úr hvorugum flokknum til breytinga, jafnvel þótt hægt sé að gera grein fyrir skynsamlegum ástæðum til breytinganna.

Ég hef, þótt ég gerði mér ljóst, að það mætti búast við því, að allar brtt. yrðu strádrepnar, eins og tíðast er um till. frá minni hl. í þessari virðulegu samkomu, leyft mér að flytja á þskj. 269 ekki færri en einar 13 brtt. og þar að auki ýmsar varatill. við frv.

Fyrsta brtt. mín er við 10. gr. frv., upphafsgreinina í II. kafla þess. Þar er gert ráð fyrir því, að landinu sé áfram skipt í tvö verðlagssvæði og að á fyrsta verðlagssvæði skuli teljast kaupstaðir landsins og kauptún með 2000 íbúum eða fleiri, þ.e.a.s. öll byggðarlög neðan við 2000 íbúa eiga að vera á öðru verðlagssvæði, með lægri bætur og lægri iðgjöld. Nánar tiltekið skulu iðgjöldin vera 1/4 lægri á öðru verðlagssvæði en á fyrsta verðlagssvæði með örfáum undantekningum.

Þessa afstöðu, að halda áfram svæðaskiptingunni og hafa þannig mismunandi rétt og skyldur hinna tryggðu, byggir mþn. á umsögn, sem henni hafði borizt frá sveitarstjórnum. Meiri hluti þeirra að tölu til hafði látið í ljós, að þær vildu, að landinu væri skipt í tvö verðlagssvæði, og þetta er þá þannig, að úr kaupstöðunum hafa yfirleitt komið fram óskir um, að landið yrði eitt verðlagssvæði. en úr sveitahreppunum hefur yfirleitt verið látið í ljós, að þeir vildu sleppa með fjórðungi lægri iðgjöld og þá aftur vinna það til að vera með fjórðungi lægri bætur til fólks þar.

Aðaltill. mín við þessa gr. er sú, að greinin orðist svo: „Landið skal vera eitt verðlagssvæði.“ Þar með væri þessi leiða skipting og það misrétti, sem af henni leiðir, úr sögunni. Þó að þessi till. sé ekki orðmörg, tel ég hana vera stóra brtt., gerbreytingu í raun og veru á framkvæmd trygginganna í landinu. Það skal að vísu játað, að mþn. er þó ekki harðari á réttmæti þessarar skiptingar en svo, að hún fellst á, að það sé nauðsynlegt að heimila sveitarfélögum, ef þau sækjast eftir því, þrátt fyrir lögfestingu skiptingarinnar, að færast til milli verðlagssvæða, ef rökstuddar óskir þess efnis koma frá hlutaðeigandi sveitarstjórn. Ég játa fyllilega, að það er betra en ekki, að þetta heimildarákvæði sé inni í gr., ef aðaltill. mín á annað borð fæst ekki samþ. um, að allt landið skuli vera eitt verðlagssvæði.

Það er sem sé ekki útilokað, að sveitarfélög, sem sækja fast að vera á fyrsta verðlagssvæði, en er annars ætlað samkvæmt íbúatölu að vera á öðru, geti um það sótt og kannske fengið því til vegar komið að færast á fyrsta verðlagssvæði og taka þannig á sig full iðgjöld og njóta fullra réttinda.

Hins vegar gerir n. sýnilega ekki ráð fyrir því, að neinar umsóknir verði um það að færast af fyrsta verðlagssvæði og á annað, því að það er fastlega bundið, að til fyrsta verðlagssvæðis teljast kaupstaðir og byggðir með yfir 2000 íbúum.

2. brtt. mín er svo við 13. gr. Þar er auðvitað gert ráð fyrir því, að verðlagssvæðin séu tvö, en að öðru leyti fjallar gr. um, að ellilífeyrir skuli greiðast þeim, sem orðnir eru 67 ára, og árlegur ellilífeyrir skuli vera, eins og þar segir, fyrir hjón, þegar bæði hjónin fá lífeyri, 7200 kr. á fyrsta verðlagssvæði og 5400 kr. á öðru verðlagssvæði og fyrir einstaklinga 4500 kr. samkv. frv. á fyrsta verðlagssvæði og 3375 kr. á öðru verðlagssvæði. Þessum tölum var þó breytt í bráðabirgðabreyt. núna um áramótin með tilliti til hækkaðs kaupgjalds í landinu og hækkaðra launa fastlannaðra starfsmanna, þannig að lífeyrir fyrir hjón, þegar bæði fá lífeyri, skuli hækkaður úr 7200 kr. í 7488 kr. á fyrsta verðlagssvæði og 5616 kr. á öðru verðlagssvæði og einstaklingalífeyririnn hækki úr 4500 kr. í 4680 kr. á fyrsta verðlagssvæði og 3375 kr. á öðru í 3510 kr. Þessi tölubreyting er nú tekin upp í brtt. meiri hl. og á þannig að staðfestast í löggjöfinni. — Ég hef lagt til í minni 2. brtt., að í stað 7200 kr. á fyrsta verðlagssvæði komi 8000 kr., þ.e.a.s. fyrir hjón, þegar bæði fá lífeyri, 8000 kr. í grunn, og auðvitað hef ég engar till. um lægri upphæðir á öðru verðlagssvæði, því að ég hef áður lagt til, að það verðlagssvæði falli burt og allar bætur verði miðaðar að öðru leyti við það, sem á við fyrsta verðlagssvæði. Upphæðin 4500 kr. í þessari gr. til einstaklinga hækki upp í 5000 kr., fyrir 7200 komi 800Ð og fyrir 4500 komi 5000 sem grunnupphæðir.

Ég hef látið standa í niðurlagi greinarinnar, þar sem segir: „Nú frestar maður töku lífeyris, og fær hann þá 7.5% í viðbót fyrir hvert heilt ár, sem líður, án þess að hann taki lífeyrinn.“ Ég sé að vísu, að þetta ákvæði er miklu þýðingarmeira fyrir embættismenn ríkisins og fastlaunamenn en fyrir verkamenn með stopula atvinnu. Það er auðveit reikningsdæmi fyrir embættismanninn, sem veit sig vera í embætti til sjötugs, að ákveða að taka ekki lífeyrinn, fyrr en hann verði sjötugur, fresta því í 3 ár. Hann verður á því tímabili á sínum fullu launum, og með frestuninni hækkar hann þarna lífeyri sinn um milli 20 og 30%, þegar hann byrjar svo að taka hann, eftir að hann hefur látið af embætti. En þetta er ekki eins örugg réttarhót fyrir tímavinnuverkamanninn eða verkakonuna, því að þegar fólk er komið á þennan aldur og á að stunda erfiðisvinnu daglaunamannsins, er mjög hætt við því, að vinna verði meira eða minna stopul. Það er ekki gerlegt fyrir það fólk að ákveða langt fram í tímann, hvort það hafni lífeyri eða ekki. Það getur lent í því atvinnuleysi, að það stæðist alls ekki við að slá frá sér þeim möguleika að fá lífeyrinn strax 67 ára gamalt, og veit ekki um það fyrr en eftir á, hvernig atvinnuástandið hefur leikið þetta fólk. En hafi það verið svo heppið að hafa sæmilegar atvinnutekjur, getur það eftir dúk og disk vaknað upp við það, að ellilífeyrir hafi verið skertur, eða m.ö.o., að þetta gamla fólk, sem er búið að þræla alla sína ævi, sé búið að vinna af sér ellilífeyrinn sinn að meira eða minna leyti og kannske algerlega fyrir þjóðfélagið.

Í einstökum tilfellum hefði það sem sé verið til bóta að taka ákvörðun um að fresta töku lífeyris til þess að fá hann síðar hækkaðan. En það getur líka verið ómögulegt að ráða í framtíðina fyrir verkamanninn eða verkakonuna, svo að þetta ákvæði er einskis virði, og þegar maður svo á hinu leitinu lítur á skerðinguna á lífeyrinum, getur þetta orðið svo, að með verkafólk almennt sé mjög illa farið að því er þessi ákvæði snertir.

3. brtt. mín er við 15. gr. Í þeirri gr. segir: „Greiða má eiginkonum elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 60% óskerts einstaklingslífeyris, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“ Ég hef lagt til í þessari brtt., að greinin orðist svo: „Greiða má eiginkonum elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að óskertum einstaklingslífeyri, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“ Þær sérstöku ástæður yrði auðvitað tryggingaráð að meta hverju sinni, en ég hækka þetta úr 60% takmörkun og í það, að þar eigi að skera úr sem hámark óskertur einstaklingslífeyrir.

4. brtt. mín er svo við næstu gr., 16. gr. Þar segir, að fjölskyldubætur skuli greiddar foreldrum með hverju barni, þar með talin stjúpbörn og kjörbörn, sem eru umfram tvö í fjölskyldu og eru á fullu framfæri foreldra. Við þetta atriði geri ég mína fyrstu brtt. við þessa gr., en annars geri ég einar þrjár eða fjórar brtt. við 16. gr.

Þetta ákvæði, sem gilt hefur nú, ég held síðan 1952, að fjölskyldubætur skyldu greiddar með öðru barni, er nú fellt niður og sett inn ákvæði um það, að þær skuli aðeins greiddar umfram tvö börn í fjölskyldu. Hvernig kom þetta ákvæði inn í lögin? Það kom þannig inn í lögin, að haustið 1952 var mikil vinnudeila hér á landi, og þá var ríkisstj. komin í það mál og hún bar fram á síðasta stigi deilumálsins nokkrar till. um réttarbætur, sumar þess eðlis, að það skyldi lögfesta rétt til handa verkamönnum, sem þeir lögðu mikið upp úr. Þar á meðal var þetta í tilboði frá ríkisstj. Þá hugsuðu verkamenn með sér: Það eru þó varanlegar bætur, sem ríkisstj. býður okkur til lausnar deilunni með þessu, að fjölskyldubætur skuli tryggðar með börnum, sem eru umfram eitt í fjölskyldu. — Og reiknað var, að þetta yrði réttarbót upp á einar 8 millj. kr. Nú lætur ríkisstj., sem er að mestu leyti skipuð sömu mönnum sem gáfu þetta drengskaparloforð og buðu þetta fram, setjast á rökstóla menn í umboði þessara manna í ríkisstj., að forminu til kannske annarrar ríkisstj. að vísu, og þá er gerð till. um að fella niður þessi réttindi, sem voru samkomulagsatriði um lausn á viðkvæmu deilumáli, án þess að um þetta sé talað orð við verkalýðssamtökin, sem voru hinn aðilinn að samkomulaginu. Þetta kalla ég ódrengileg vinnubrögð, sviksemi af hendi ríkisvaldsins, sem gersamlega bregzt því, sem lofað var, bregzt þeim vonum, sem þarna voru vaktar, þeirri vissu, sem menn þóttust hafa fengið. Ég trúi því ekki, þegar athygli hæstv. ríkisstj. er vakin á þessum brigðmælum, að hún leggi ekki svo fyrir sína menn í nefndum þingsins og í þingflokkunum að breyta þessu ákvæði aftur til fulls samræmis við algerar efndir. Henni hlýtur að vera það ljóst, að þegar þetta löggjafaratriði varð til þess að leysa deilu, þá getur það hæglega orðið til þess, þegar það er vanrækt, að koma af stað deilu. Og hverjir ættu sök á því, ef svo færi? Auðvitað sá, sem sveik. Auðvitað sá, sem brást gefnum loforðum. Menn segja svo sem eins og í varnarskyni við þessi brigðmæli: Ja, það hefur enginn lofað því, að þetta löggjafaratriði skuli standa að eilífu. — Það má kannske til sanns vegar færa. En það reiknuðu allir með því, að þessi réttarbót stæði meira en eitt eða tvö ár, hún stæði lengur en til næstu endurskoðunar á löggjöfinni, að það yrði ekki notað fyrsta mögulegt tækifæri til þess að vanefna þetta heit.

Ég minni nú í sambandi við þetta á annað stórmál, sem er sama eðlis. Í vinnudeilunni s.l. vetur gerði ríkisstj. svipað drengskaparbragð til lausnar viðkvæmu deilumáli. Þar var boðið upp á að brúa það bil, sem annars virtist erfitt að brúa milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna, að það skyldu verða lögfestar á næsta þingi atvinnuleysistryggingar, stórkostlegt hagsmuna-, réttinda- og öryggismál verkalýðssamtakanna, sem lengi hafði verið barizt fyrir. Og það var þá reiknað með því, að þegar það væri komið inn í löggjöf landsins, atvinnuleysistryggingar komnar á, væri því máli borgið um alla framtíð, og menn standa enn á þessu augnabliki í þeirri meiningu. En eru nú verkalýðssamtökin örugg um, að þarna sé ekki verið að leika í enn stærri stíl sama leikinn, gefa verkalýðssamtökunum hátíðlegt loforð um lausn á deilu með ákveðnu löggjafaratriði, ákveðinni lagasetningu og svo verði hún sett á, það verði staðið við það, en atvinnuleysistryggingalöggjöfin verði felld úr gildi eftir 2–3 ár, það verði bara sett nefnd á laggirnar til þess að athuga þessa löggjöf, og hún verði síðan í stjórnarumboði látin leggja til, að löggjöfin sé felld niður? Hvað halda menn, að verkalýðssamtökin segðu um slíka orðheldni? Ég er hræddur um, að þjóðin yrði að viðurkenna það, að þetta væri brigðmæli, þetta væri að hlaupa frá þeim grundvelli, sem hefði verið lagður til lausnar deilumálinu, og vitað er í því stórfellda tilfelli, að þá mundi það leiða til þess, að vinnufriður væri rofinn. Það er svo stórkostlegt atriði, að um það væri ekki að efast. Ég segi um þetta atriði, þegar nú á að ganga frá því, að þá er vinnufriðnum teflt í nokkra hættu út af vanefndunum. Ég skal ekkert fullyrða um, hvað verður, en vinnufriði er teflt í hættu með svona aðförum.

Menn segja, að þessi upphæð, sem þarna sé spöruð með þessari breytingu, allt upp í 8 millj. kr., hafi aftur verið gefin í endurbótum á tryggingunum við þessa endurskoðun. Það má vel vera, að einhver hluti hennar sé aftur gefinn með réttarbótum, en varla þá öðrum réttarbótum en þeim, sem sjálfsagt var við endurskoðun að veita án tillits til þessa loforðs. T.d. þær hækkanir, sem verða á ellilífeyri og öðrum bótum frá gildandi löggjöf og eru afleiðing af vaxandi dýrtíð í landinu, hækkuðum vinnulaunum verkafólks og opinberra starfsmanna; eru ekki réttarbætur, sem áttu að borgast með því að fella þetta ákvæði niður. Það eru réttarbætur, sem verkamönnum átti nú að áskotnast og öllum hinum tryggðu bara sem afleiðing af breyttum þjóðfélagsháttum á þeim tíma, sem endurskoðunin fer fram. Ég fæ ekki betur séð en að hækkun á ellilífeyri og öðrum bótum sé mestmegnis, ef ekki að öllu leyti, bara tilfærsla til samræmis við aukna dýrtíð og hækkaðar tekjur hjá öðrum og að það sé ekki í gegnum þær hækkanir verið að skila þeim 8 millj., sem þarna eru ranglega teknar út úr tryggingunum.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta atriði, en ég vildi gera það ljóst, bæði hæstv. ríkisstj. og meðnefndarmönnum mínum og öllum hv. þm., að verkalýðssamtökin þykjast grátt leikin af aðila, sem þau hafa treyst, með því að rifta þessu gerða samkomulagi úr verkfallinu 1952.

Því kemur að 2. mgr. 16. gr. Það er ákvæði, sem þær frú Auður Auðuns og Rannveig Þorsteinsdóttir lögðu áherzlu á að fengist fellt niður. Ég er þeim sammála um, að það fer betur á því, að þessi mgr. sé felld niður, og ég legg það til í minni 4. brtt.

Þá legg ég enn fremur til, að við 1. mgr. komi þessi viðbót: Auk þess fái einstæðar mæður fjölskyldubætur eftir sömu reglum — þ.e.a.s. strax umfram eitt barn í fjölskyldu.

Síðasta brtt. mín við 16. gr. er svo bein afleiðing af þessu, að fjölskyldubætur eigi að greiðast strax með öðru barni. Þá verða ákvæðin þannig:

Árlegar fjölskyldubætur skulu vera sem hér segir: Með öðru barni í fjölskyldu kr. 400.00, með þriðja barni í fjölskyldu kr. 600.00, með hverju barni umfram þrjú í fjölskyldu kr. 1200.00.

5. brtt. mín er við 17. gr. Þar stendur í næst síðustu mgr., að árlegur barnalífeyrir með hverju barni skuli vera 2400 kr. á fyrsta verðlagssvæði og 1800 kr. á öðru verðlagssvæði. Þessar tölur báðar eru búnar að standa lengi óbreyttar, hafa sennilega gleymzt, og þess vegna tel ég fulla ástæðu til þess, að grunntalan þarna verði hækkuð. Auðvitað bind ég mig aðeins við töluna, sem á við fyrsta verðlagssvæði, en í samræmi við aðrar till mínar fellur hin síðari og lægri niður, og er þá brtt. mín þessi: Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera kr. 2700.00 — í staðinn fyrir kr. 2400.00 og 1800.00 og gilda fyrir landið allt.

Síðasta mgr. 17. gr. er á þessa leið: „Heimilt er að hækka barnalífeyri vegna munaðarlausra barna um allt að 50%.“ Í brtt. minni segir: Tvöfaldur barnalífeyrir skal greiddur vegna munaðarlausra barna.

Þá er næsta brtt. mín við 19. gr. Í 19. gr. segir, að fæðingarstyrkur skuli vera 900 kr. við hverja fæðingu. Þetta má segja að sé í senn hækkun og lækkun, því að þetta var að grunnupphæð 600 kr., er nú fært í 900 kr. Hins vegar er ekki reiknað með þeim aðstöðumun, sem þarna getur verið um að ræða, og fellt niður ákvæði, sem vernduðu konur í þeim tilfellum, og er það til hins verra. Þess vegna vil ég bæta við 19. gr. svo hljóðandi mgr.: Móðir, sem missir atvinnutekjur sínar vegna barnsburðar, skal auk þess fá 600 kr. viðbótarfæðingarstyrk.

Það er óneitanlegt, að aðstöðumunur getur þarna verið mikill. Einstæð móðir missir alveg niður allar sínar atvinnutekjur fyrir og eftir barnsburð og meðan á honum stendur. Aðrar konur geta verið þannig settar, t.d. í fastri stöðu, að þær fái áframhaldandi greidd laun meðan á barnsburði stendur og fyrir og eftir. Og er það ekki í samræmi við þessa gerólíku aðstöðu, að aðeins sé greidd 900 kr. upphæð í öllum tilfellum.

Þá kem ég að 7. brtt. minni, sem er við 21. gr. Hún er aðeins smávægileg breyting og afleiðing af því, að ég lagði til, að landið yrði eitt verðlagssvæði. Hún er um það, að orðin „og verðlagssvæðunum“ falli niður úr þeirri grein.

Þá er komið að 22. gr. frv. Hún er um það, að fullur elli- og örorkulífeyrir skuli því aðeins greiddur, að aðrar tekjur hlutaðeiganda fari ekki fram úr því marki, sem síðar segir í greininni, þ.e.a.s. fari ekki fram úr 11/3 hluta lífeyris, ef um einstaklinga er að ræða, fari ekki fram úr fullum lífeyri, ef um hjón er að ræða, og ekki fram úr 13/4 hlutum hjónalífeyris, þegar um hjón er að ræða og aðeins annað fær lífeyri. Þetta er sem sé greinin um skerðingarmörkin, um skerðingu ellilífeyris til einstaklinga og hjóna.

Mín till er auðvitað sú, að skerðingin falli niður, eins og fyrirheit var gefið um, þegar tryggingalöggjöfin var sett. Það var talað um, að skerðingin ætti einungis að vera fyrstu fimm árin, nú er hún búin að gilda 10 fyrstu árin, og þetta þá réttlætt með því, að þá væri fólk að byrja að greiða sín tiltölulega hærri iðgjöld en áður hafi verið greidd til þess að skapa sér rétt til ellilífeyris. Nú er þetta byrjunartímabil liðið og það tvöfalt meira að segja, og allir væntu þess, að skerðingarnar yrðu niður felldar og að menn fengju fullan ellilífeyri, eftir að þeir hefðu náð 67 ára aldri, siðan yrði hjá þeim, sem tekjuháir væru, skorið af þessu meira og minna eftir tekjuhæð að skattlagningarleiðum. Á þeim reglum byggir tryggingalöggjöfin að mörgu leyti, t.d. algerlega að því er snertir allar fjölskyldubætur. Milljónamæringurinn fær fjölskyldubætur, hátekjumaðurinn, sem hefur 100 þús. í tekjur á ári, fær sínar fjölskyldubætur óskertar. Enginn í nefndinni hefur tekið í mál nein skerðingarákvæði, sem þar skuli lögfest. Það er bara, þegar um gamalmennin er að ræða. Þetta er brot á öllu réttlæti, þetta er stórkostlegt missmiði á frv. og alveg óviðunandi að ganga þannig frá því. Úr því að ekki eru skerðingarákvæði um fjölskyldubætur, eiga ekki heldur að vera nein skerðingarákvæði að því er snertir ellilífeyrinn. Ég vil því vona, að þessi till., sem er ein af mínum aðalbrtt. við frv., nái samþykki. Skerðingin á ellilífeyri einum út af fyrir sig er á engan hátt réttlætanleg.

Ég hafði hugsað mér að bera fram ekki aðeins þessa till. um niðurfellingu greinarinnar og þar með burtfall skerðingarinnar, heldur hafði hugsað mér það sem aðaltill. og síðan varatill. um það, að í staðinn fyrir „hluta lífeyris“ kæmi 11/2 lífeyri — í staðinn fyrir „13/4 hlutum lífeyris“ kæmi: tvöfaldur lífeyrir — og í staðinn fyrir „fullum lífeyri“ kæmi: fullum einstaklingslífeyri, og enn fremur, að þegar tekjur hafi náð jafnhárri upphæð og 31/3 lífeyris hjóna, skuli í þess stað koma: þreföldum lífeyri. En meðnm. mínir voru tilleiðanlegir til að athuga til 3. umr. breytingar á greininni, ef hún yrði nú ekki felld niður, breytingar, sem hugsanlegt væri að samkomulag gæti náðst um að aðaltill. fallinni. Ég kýs auðvitað langhelzt, að mín aðaltill. verði samþ.

Út af þessum hugleiðingum um að athuga greinina nánar, þegar séð væri, hvort aðaltill. yrði samþ. eða ekki, hætti ég við að bera fram minar varatill. við þessa grein við þessa umr. og er ákveðinn að gera það við 3. umr., ef ekki tekst svo giftusamlega til, að við í nefndinni allir getum fundið einhverja samkomulagsleið um efni og innihald greinarinnar, ef hún á annað borð á að standa. En mikið legg ég sem sé upp úr því, að aðaltill„ sem nú er borin fram um niðurfellingu 22. gr., nái samþykki og að skerðing á ellilífeyri verði þannig úr sögunni. Hins vegar teldi ég einsætt, ef þingmeirihluti er fyrir skerðingu á ellilífeyri, að þá athugaði sá sami þingmeirihluti, hvort hann teldi þá ekki rétt að setjast niður og semja einhverjar skerðingarreglur um fjölskyldubætur til stórefnamanna, stóreigna- og hátekjumanna. Þá væri þó stefnt að meira samræmi í lögum og skerðingarnar ekki aðeins látnar ná til gamalmenna.

9. brtt. mín er við 24. gr. Greinin er um það, hvernig þungi trygginganna skuli hvíla á þeim aðilum, sem eiga að bera þann þunga uppi. Þar segir, að útgjöld lífeyristrygginganna skuli eftirtaldir aðilar bera og skuli framlög og iðgjöld þeirra ákveðin með það fyrir augum, að kostnaðurinn skiptist í þeim hlutföllum, sem hér greinir: að ríkissjóður skuli alltaf bera 33% af kostnaðinum, hinir tryggðu 33% eða jafnt og ríkið, sveitarsjóðir 19% og atvinnurekendur 15%.

Haraldur Guðmundsson, forstjóri trygginganna, bendir á, að með þessari skiptingu verði þunginn af tryggingunum aukinn á hinum tryggðu og fari jafnvel fram úr því marki, sem reiknað hafði verið með sem hámarki frá öndverðu, eða um 4% af meðaltekjum manna. T.d. dugir ekki að leggja 4% af lágmarksverkamannatekjum, ef byrði hinna tryggðu er ætluð 33%. Það er því í samræmi við till. Haralds Guðmundssonar, fyrirvara hans hér fyrir aftan, þegar ég legg til, að þessari till. verði breytt sem hér segir: að ríkissjóður beri 40%, hinir tryggðu 30% í staðinn fyrir 33%, sveitarsjóðir 15% og atvinnurekendur 15%. Till. gengur sem sé út á það, að ríkið taki á sig nokkra aukningu af byrðunum, það sé létt dálítið á hinum tryggðu, um 3%, og enn fremur að létt sé á sveitarsjóðum, sem margir eru í fjárþröng af því, hve ríkið gengur nærri tekjustofnum þeirra, og að atvinnurekendur og sveitarsjóðir séu þá jafnir hvor með sín 15%. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að það að ákveða þetta svona í hlutföllum á þessa fjóra aðila sé til bóta til þess að þurfa ekki að lenda í því bjástri, sem við höfum lent í frá ári til árs, að vera alltaf vegna breytts verðlags í landinu að ákveða breytingar á tryggingalöggjöfinni að því er framlög til hennar snertir. Með þessu er ákveðið, að þessir aðilar skuli bera uppi allan kostnað af tryggingunum í ákveðnum hlutföllum, og gerir það óþarft að vera þá að taka það til athugunar við hver áramót, hver tekjuþörfin sé, og afgreiða sérstakan frumvarpsböggul með í ársbyrjun alltaf.

Þá er ég kominn að því, sem raunar sést ekki af mínum brtt. af vissum ástæðum, og það er það, að ég hafði í n. lagt til, að eftir 23. gr. í þessum kafla kæmi ný grein, sem yrði 24. gr. og væri á þessa leið:

„Mæður, sem fá úrskurð yfirvalds um barnalífeyri með óskilgetnum börnum sínum, geta snúið sér til Tryggingastofnunarinnar með úrskurðinn og fengið lífeyrinn greiddan þar.

Þegar Tryggingastofnunin greiðir barnalífeyri samkvæmt 1. málsgr., á hún endurkröfurétt á hendur föðurnum.

Verði vanskil af hendi föðurins, skal innheimta kröfuna hjá dvalarsveit móðurinnar eða þess, er framfærslu barnsins annast í hennar stað, nema Tryggingastofnunin kjósi heldur að innheimta hana beint frá framfærslusveit föðurins, og telst fjárhæðin framfærslustyrkur veittur honum.

Um rétt dvalarsveitar á hendur framfærslusveit og framfærslusveitar á hendur barnsföður fer svo samkvæmt ákvæðum framfærslulaga.“

Þessi brtt. mín átti að kippa því í liðinn, sem mörgum hefur þótt mjög til hins verra samkv. frv., eins og það nú liggur fyrir, það er niðurfelling á 27. og 28. gr., að mig minnir, í gildandi tryggingalögum og er þess efnis í stuttu máli, að við niðurfellingu þessara greina er ætlazt til þess, að mæður, sem hafa úrskurð yfirvalds um barnalífeyri, fái ekki lífeyrinn greiddan í gegnum tryggingarnar, eins og verið hefur, heldur skuli þær snúa sér til oddvitans í sinni dvalarsveit og reyna að kría meðlagið út þar. Nú er það alveg vitað, að mörg sveitarfélög eru oft og tíðum í fjárþröng, atvinnuástand og aðrar ástæður geta leitt til þess, og þannig fullvíst, að öll skuldheimta á hendur slíkum sveitarfélögum er erfið. Ef það er niðurstaðan, að Tryggingastofnuninni hafi með öllum sínum styrk og sinni aðstöðu, sínu bolmagni, ekki tekizt að innheimta þessi meðlög, þá er alveg víst, að þetta yrði mjög svo mikill vonarpeningur hjá þeim stúlkum, sem nú yrðu í staðinn að taka innheimtuna í sínar hendur og eiga hana við ekki fésterkari aðila en sum sveitarfélögin eru. Öll kvennasamtökin höfðu í sínum till. vikið að þessu atriði og verið með ákveðnar till. um það, að Tryggingastofnunin annaðist þessa þýðingarmiklu þjónustu áfram. En samkvæmt frv., eins og það liggur fyrir, eru greinar gildandi tryggingalöggjafar um þetta atriði felldar niður og síðan gerð breyting á lögum um meðlög með óskilgetnum börnum og þeim ákvæðum breytt þannig, að móðirin skuli sækja þennan rétt sinn í hverju tilfelli á hendur sveitarstjórn í dvalarsveit sinni. Ég hafði siðan valið hinni nýju grein til þess að koma þessum réttindum aftur inn í tryggingalagafrv. það form, sem gilti hjá tryggingunum fyrir nokkrum árum og starfsmenn í stofnuninni sögðu mér að hefði gefizt Tryggingastofnuninni miklu betur en fyrirkomulagið, sem nú hefur verið í gildi hin síðustu ár, þ.e.a.s. fyrirkomulag, sem leiddi til þess, að Tryggingastofnunin á úti stórar upphæðir, ég held að það séu milljónaupphæðir, af þessum sökum. Gamla fyrirkomulagið hafði gefizt betur, það hafði verið alveg öruggt fyrir barnsmæðurnar og Tryggingastofnunin hafði orðið fyrir minna afhroði, meðan það gilti, Ég lagði því til, að hið eldra fyrirkomulag, sem byggðist á því, að Tryggingastofnunin annaðist þessa þjónustu, yrði aftur upp tekið. Þá gerðist það í nefndinni, og það vil ég gera áheyrendum ljóst, að meðnm. mínir tóku fram frv., sem á að afgreiðast nokkurn veginn samtímis tryggingalagafrv., frv., sem er um breytingar á innheimtu á meðlögum óskilgetinna barna, en þar segir, að barnsmóðir, sem hefur úrskurð yfirvalds, geti snúið sér til oddvita til þess að innheimta meðlagið. Verði tregða á innheimtu hjá oddvitanum, þá segir í greininni, að hún eigi að leita aðstoðar yfirvalds nm innheimtuna. Nú liggur fyrir yfirlýsing um það, að þessu orðalagi í því frv. skuli breytt á þann veg, að í þessu tilfelli skuli bætast inn í, að ef tregða er á greiðslu hjá oddvita, þá skuli yfirvaldinu skylt að sjá um, að barnsmóðirin fái greiðslu á meðlaginu. — Þegar þessi breyting hafði fengizt inn í það frv. með samkomulagi við alla meðnm. mína, gerði ég upp dæmið þannig: Hvort er nú betra að sætta sig við þá orðalagsbreytingu og þann rétt, sem það veitir barnsmóður í sinni dvalarsveit um að ná meðlaginu, eða að halda fast við þessa brtt. við tryggingalagafrv., vitandi, að hún eins og allar brtt. mínar verður felld, og þá verður að sitja við hið óbreytta frv. og það réttleysi, sem það orðalag skapar barnsmóður? Ég tók því þann kostinn að segja við mína meðnm.: Ég fell frá till. um nýja grein á eftir 23. gr. um, að Tryggingastofnunin annist þessa innheimtu, og mun heldur fylgja hinn frv. svo breyttu, þannig að ákveðið sé í því, að yfirvaldið skuli sjá um greiðslu henni til handa.

Þetta er ástæðan fyrir því, að í mínum brtt. er enginn stafur um það, hvernig skuli verða við þessum margendurteknu kröfum allra samtakanna um að taka 27. og 28. gr. núgildandi tryggingalaga aftur upp í frv. Ég tel, að þessu máli sé betur borgið með þeirri breytingu, sem ég hef nú fengið tryggða á frv. um meðlagsgreiðslur óskilgetinna barna, heldur en að setja þessa mína fyrri till. undir atkvæði og láta fella hana og verða svo við svo búið að láta standa.

Þá er komið að því efnisatriði, sem hv. frsm. meiri hl. gat um, að upphaflega hefði verið ráð fyrir því gert, að sérstakur kafli um heilsuvernd kæmi til framkvæmda eins fljótt og verða mætti, en að kaflinn um slysatryggingar, þar með öll ákvæðin um rekstur sérstakra sjúkrasamlaga, skyldi aftur niður falla, þegar heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda. Það er alveg áreiðanlegt, að ég er ekki einn um að hafa gert mér vonir um, að heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda og slysatryggingarnar féllu niður í því formi, sem þær hafa verið, þegar lögin yrðu endurskoðuð. Ég taldi því ekki koma annað til mála en að leggja til, og það geri ég í minni 12. brtt., að í stað IV. kafla (sjúkratryggingar) komi nýr kafli: Heilsugæzla, með 24 greinum. Og í brtt. mínum er síðan allur sá kafli tekinn upp og þar í öllum aðalatriðum byggt á heilsugæzlukaflanum, eins og hann var í tryggingalöggjöfinni, þegar hún var sett, með nauðsynlegum breytingum. Þetta er að mínu áliti, auk till. um, að landið sé eitt verðlagssvæði og að skerðing ellilífeyris falli niður, þriðja meginbreytingartill. mín við frv., að sjúkrasamlögin skuli niður falla og heilsuverndarkaflinn koma til framkvæmda.

Ég veit ekki betur en að frá öndverðu hafi verið stefnt að því að skapa smám saman skilyrði til þess, að heilsugæzlan yrði möguleg. Það er búið að koma á fót í mörgum kaupstöðum landsins heilsuverndarstöðvum. Hér í Reykjavík er búið að byggja fyrir nokkrar millj. kr. heilsuverndarstöð, og þetta átti að vera hyrningarsteinninn undir því, að hægt væri að taka upp heilsugæzluna sem einn lið í tryggingunum, og ég vil segja: Það var frá mínu sjónarmiði og margra annarra höfuðhugsjónin með tryggingunum að koma á heilsuvernd og heilsugæzlu í staðinn fyrir þennan sífellda eltingarleik lækna við sjúkdómana, eftir að þeir eru komnir í algleyming. Því miður er nú ekki látið við það sitja í þessari endurskoðun að hafa það eins og í tryggingalöggjöfinni hefur verið, alltaf sífelld ákvæði um, að heilsuverndarkaflanum sé frestað, framkvæmd hans sé frestað enn þá. Það var þó við það unandi frá ári til árs, einkanlega meðan gagnger endurskoðun var fram undan. En nú er slegið striki yfir allan kaflann og hann numinn burt úr tryggingalöggjöfinni, svo að hans sér þar ekki stað lengur. Það sem sé virðist vera alveg horfið frá því að hugsa til þess, að tekin verði upp heilsugæzla í landinu og komið upp Heilsuverndarstöðvum smám saman um landið, allt til þess að gera þetta framkvæmanlegt, og það er það, sem mér finnst vera stórkostlegasta sporið aftur á bak, stökk aftur á bak, að mþn. skuli leggja til, að heilsugæzlukaflinn sé felldur niður.

Um þetta atriði er vitnað til þess, að sveitarstjórnirnar hafi verið spurðar og yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaganna hafi svarað: Við viljum halda í okkar sjúkrasamlög, við viljum ekki fá heilsugæzlukaflann í framkvæmd. — Nú viðurkenndi hv. frsm. meiri hl., hv. þm. A-Sk. (PÞ), það, að það væri veikur punktur í tryggingunum, hin litlu og getulitlu sjúkrasamlög, þau þyrftu ekki að verða fyrir meira áfalli en að einn maður væri sjúkur á samlagssvæðinu um lengri tíma og þá væri samlagið í rauninni gjaldþrota. Í þessu er engin trygging, og það var það, sem var fyrir fram séð og vitað. En heldur en að hverfa frá þessu byrja hinir vísu menn í mþn. að leggja höfuðin í bleyti: Hvernig er hægt að lappa við þetta, hvernig er hægt að fyrirbyggja, að þessi örsmáu og getulausu sjúkrasamlög verði eitthvað svolítið getumeiri? Jú, það er gert með því að klúðra saman héraðssjúkrasamlögum. Það má vera, að þau verði eitthvað getumeiri, þoli t.d. tvö eða þrjú sjúkratilfelli langvarandi, en það er áreiðanlegt, að það getur líka farið svo, að þeirra fjárhagslega geta rísi ekki undir og þau séu í rauninni gjaldþrota á tiltölulega skömmum tíma. Það er líka ákaflega mikill þyrnir í augum almennings, að sjúkrasamlögin eru sums staðar orðin stórbákn, mannfrek og rándýr, og fólk stendur a.m.k. í þeirri meiningu, að með því að hafa Tryggingastofnunina sér, sjúkrasamlag, eins og t.d. hér í Rvík, sér, þá séu þarna tvö skrifstofubákn orðin til, sem ekki séu fullkomlega nauðsynleg og væri hægt að komast af að mestu leyti með annað þeirra, ef horfið væri að því ráði, sem lofað var, að leggja sjúkrasamlögin niður og taka heilsugæzlustarfsemina upp. Það verður ákaflega erfitt að sannfæra fólk um, að með því að hafa sjúkrasamlögin áfram auk tryggingakerfisins alls sjálfs, verði ekki að heimta hærri iðgjöld af hverjum einstökum tryggðum. Það er því alveg áreiðanlegt, að hvað sem sveitarstjórnunum í einkanlega sveitahreppunum líður, sem ekki vilja missa af sínum litlu sjúkrasamlögum, vilja hafa þau heima hjá sér sem sjálfsagðar stofnanir, þá er það ósk einstaklinganna í landinu, ekkert síður til sveita en í kaupstöðum, að heilsugæzlukaflinn komi til framkvæmda. Ég er því alveg viss um, að þegar ég legg það til, er ég með sennilega langsamlega mikinn meiri hluta þjóðarinnar á bak við mig, hvað sem svörum sveitarstjórnanna í hinum smærri sveitarfélögum líður.

Eins og gefur að skilja, flyt ég engar brtt. við kaflann um sjúkratryggingarnar. Ég vil helzt, að sá kafli hverfi allur með samþykkt till. um, að heilsugæzlan sé tekin upp. En verði aðaltill. mín felld, legg ég þó til, að breyt. sé gerð á 52. gr. í þeim kafla, og legg til, að stafliður b í 52. gr. hljóði svo:

„Almenn læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá samlagslækni sjúklings eða öðrum lækni, ef slíkar vitjanir eru heimilaðar í samþykktum samlagsins. Samlagsmenn greiða þó 5 kr. fyrir hvert viðtal á lækningastofu og 10 kr. fyrir hverja vitjun.“ Þetta er svona í greininni, en þarna vil ég að bætist við: „Nemi greiðslur hins tryggða samkvæmt þessu hærri upphæð á ári en nemi iðgjaldi hans, þá endurgreiðir Tryggingastofnunin upphæðina gegn kvittunum frá lækni eða læknum.“

Það hefur verið lögð mikil áherzla á það, að sagt er, fyrst og fremst til þess að firra læknana óþægindum af tilefnislausum vitjunum og viðtölum, að heimila þeim í þessari grein að taka 5 kr. gjald fyrir hvert viðtal og 10 kr. gjald fyrir hverja vitjun. Það má vel vera, að það sé réttlætanlegt að gera þetta að fenginni reynslu, að læknarnir séu oft ónáðaðir að tilefnislausu og að hugsunin sé að draga úr þessu kvabbi með þessari greiðslu, 5 kr. og 10 kr. gjaldi, en í mörgum tilfellum getur það verið svo, að þetta sé vegna tíðra sjúkdóma á heimili og að þessi gjöld, 5 og 10 kr. gjöldin, komi til með að verða allhá upphæð hjá fjölskyldu, sem á við mikla vanheilsu að stríða. Þá sé ég ekki nokkra ástæðu til annars en að tryggingarnar standi við sína skyldu gagnvart slíkri fjölskyldu og láti í té alla sína þjónustu án nokkurs aukagjalds og endurgreiði þannig þessa friðunarpeninga til læknanna. Ef til vill hefði verið eðlilegra að fara aðra leið, það játa ég, og það er að neita um þessi gjöld, því að þarna hverfa 5 kr. og 10 kr. ofan í vasa læknis við hvert einasta viðtal eða hverja einustu vitjun, og þetta verða auðvitað peningar, sem ómögulegt er að hafa eftirlit með til skatts og yrðu þá aukatekjur hjá læknum, sem fæstir eru nú alveg blásnauðir menn og ég sé ekki neina ástæðu til, að sé hyglað á þennan hátt, enda er ekki látið í veðri vaka, að sú sé ætlunin. Það hefði mátt velja þarna um þetta tvennt, að leggja til, að þessi nýju gjöld væru ekki heimiluð, greinin felld niður, eða þá láta Tryggingastofnunina, eins og ég legg til, endurgreiða þetta í þeim tilfellum, þegar sýnilega væri um vitjanir og viðtöl að ræða að fullu tilefni vegna sjúkleika. Þetta er vitanlega ekkert stóratriði. Hin stóru atriðin hef ég þegar gert að umtalsefni.

Þá er hér að lokum 13. brtt. mín. Hún er við 59. gr., um það, að síðasti málsliður þeirrar greinar orðist svo:

Ef hlutaðeigandi er algerlega tekjulaus, er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða honum sjálfum allt að 20% lágmarksbóta.

Þetta er svo í greininni, að ef hlutaðeigandi er algerlega tekjulaus, sé Tryggingastofnuninni heimilt að greiða honum sjálfum allt að 10% lágmarksbóta. Þessi smágreiðsla er tvöfölduð samkvæmt minni till., og hún er nú ekki nema 66 kr. mánaðarlega á einstakling samkvæmt frv. og yrði þannig 130 kr. rúmar samkvæmt minni till. Þetta er til þess, að þegar bótaþegi dvelst ú sjúkrahúsi eða annarri hliðstæðri stofnun, þar sem tryggingarnar eða ríkisframfærslan greiða fyrir hann að nokkru eða öllu leyti og bótagreiðslur vegna algers tekjuleysis falla niður, þá er þetta svona til þess að tryggja, að viðkamandi hafi einhverja aura milli handa, t.d. tóbaksmaður geti fengið sér neftóbak eða eitthvað svoleiðis, geti sent frá sér bréf eða eitthvað því um líkt. Útgjaldaatriði fyrir tryggingarnar er þetta ekkert, og þarna er ekki heldur um að ræða nema smáaura til þeirra, sem algerlega tekjulausir eru, og get ég því ekki ímyndað mér annað en að menn vilji lagfæra það á þann hátt, að þetta nái þeim tilgangi, sem ætlunin er með ákvæðinu.

Nú hef ég gert grein fyrir þeim brtt., sem ég hef séð ástæðu til að flytja við þessa umræðu, en eins og ég gat um áðan, mun ég, svo framarlega sem ekki verður samkomulag um breytingar á 22. gr., ef svo fer, að till. mín um niðurfellingu gr. verði ekki samþykkt, við 3. umr. bera fram nýja till. við 22. gr. og ef til vill við nokkur önnur atriði frv.

Að öðru leyti get ég látið máli mínu lokið og óska þess, að frv. verði samþykkt í þessari hv. deild, eins og ég hef lagt til, og tel þá, að tryggingalöggjöfin hefði orðið fyrir verulegum endurbótum við þá endurskoðun, sem fram hefur farið, og við meðferð Alþingis.

Þær till., sem ég legg höfuðáherzlu á, eru því fyrst og fremst þessar þrjár: að landið verði eitt verðlagssvæði, að skerðing á ellilífeyri verði burt felld og að heilsugæzlukaflinn verði tekinn upp og samþykktur og framkvæmdur eins fljótt og verða má, í stað þess að stiga það stóra skref aftur á bak að nema hann úr gildi út úr tryggingakerfinu og ætla sér að halda áfram með sjúkrasamlögin, sem aðeins voru þó upphaflega hugsuð sem bráðabirgðaatriði.