02.02.1956
Neðri deild: 61. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

89. mál, almannatryggingar

Frsm. (Páll Þorsteinsson) [frh.]:

Hv. 3. landsk. (HV) leggur til, að nokkur breyting verði gerð á hlutföllum gagnvart framlögum til Tryggingastofnunar ríkisins, þannig að ríkissjóður verði látinn greiða meira en lagt er til í frv., en að sama skapi létt á öðrum aðilum. Í þessu felst það, að hann leggur til, að tryggingarnar hvíli meira á framfærslusjónarmiði en verið hefur. En jafnframt því að leggja þetta til flytur þessi sami hv. þm. till. um að fella niður 22. gr. frv., eða m.ö.o. að afnema að öllu leyti skerðingarákvæði þau, sem takmarka lífeyrisgreiðslur. Milli þessara till. er ekki samræmi.

Þá leggur hv. 3. landsk. til, að kaflinn um heilzugæzlu verði látinn gilda áfram. Þessi kafli almannatryggingalaganna hefur ekki komið til framkvæmda þau 10 ár, sem lögin að öðru leyti hafa verið í gildi. Allan þann tíma hafa sjúkrasamlög verið látin starfa samkvæmt bráðabirgðaákvæðum, sem sett hafa verið um það efni.

Eitt af því, sem mþn., sem samdi þetta frv., hafði til athugunar, var það, hvort rétt væri að láta heilsugæzlukafla almannatryggingalaganna koma til framkvæmda eða að láta sjúkrasamlögin starfa áfram. Mþn. farast orð um þetta atriði í grg. frv. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjúkrahjálpin hefur verið á vegum sjúkrasamlaga, sem nú starfa í hverjum hreppi í landinu, og sérstök lög um heilsuvernd voru sett á síðasta þingi. Eitt hið þýðingarmesta atriði, sem n. hafði til athugunar, var að gera till. um tilhögun heilsugæzlunnar framvegis. N. átti ýtarlegar viðræður við stjórnir Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur um málið. Niðurstaða þeirra viðræðna varð sú, að læknarnir tjáðu sig andvíga því, að sjúkrahjálpin yrði skipulögð á þann veg, sem lögin gera ráð fyrir, og töldu heppilegast, að sjúkrasamlögin önnuðust sjúkrahjálpina með svipuðum hætti og verið hefur. N. leitaði álits sveitarstjórnanna um þetta atriði. Svörin voru þannig, að um 30 sveitarstjórnir vildu leggja áherzlu á framkvæmdaákvæði almannatryggingalaganna um heilsugæzlu. Nær 110 sveitarstjórnir voru ákvæðunum andvígar, en 25 svöruðu ekki þessu atriði. Nefndin er þeirrar skoðunar, að mjög yrði torvelt að framkvæma lagafyrirmæli, sem eiga svo litlu fylgi að fagna sem raun virðist vera á um þessi ákvæði og það því fremur sem læknarnir, er þessi ákvæði varða mest, voru þeim einnig gersamlega andvígir og töldu þau jafnvel óframkvæmanleg.“

Lækningastöðvar þær, sem lögin gerðu ráð fyrir að komið yrði upp í kaupstöðum, hafa hvergi verið reistar, og fullkominni heilsuverndarstöð hefur aðeins verið komið á fót í Reykjavík. Án slíkra stöðva er sú skipun, sem lögin gera ráð fyrir á læknishjálp utan sjúkrahúsa og heilsuvernd, ekki framkvæmanleg. Þetta ákvæði frv. er því sett að mjög vel athuguðu máli, og er það álit meiri hl. heilbr.- og félmn., að eðlilegt sé að fylgja þeim ákvæðum frv., sem að þessu lúta.

Hv. 3. landsk. lagði á það nokkra áherzlu undir lok ræðu sinnar, að hv. 4. þm. Reykv. (HG) hefði nokkra fyrirvara í sambandi við þetta frv. og að vegna þess, hve Haraldur Guðmundsson hefði mikla þekkingu og reynslu af tryggingastarfseminni, væri rétt að taka til greina þau atriði, sem hann benti á. Ég er hv. 3. landsk. alveg sammála um það, að hv. 4. þm. Reykv. hefur mikla þekkingu og reynslu í þessu efni. Hann var einn af aðalhöfundum tryggingalaganna, þegar þau voru sett 1946. Hann hefur verið forstjóri Tryggingastofnunarinnar þau ár, sem hún hefur starfað, og hann hefur nú að nýju kynnt sér þessi mál mjög rækilega sem einn af mþn.-mönnunum, sem sömdu það frv., sem hér er til umræðu. En einmitt vegna þess, að ég er hv. 3. landsk. sammála um þetta, vil ég vekja athygli hv. þdm. á því nú að síðustu, að Haraldur Guðmundsson leggur ekki til, að gerð verði breyting á þeim þremur atriðum, sem hv. 3. landsk. þm. telur sig leggja mesta áherzlu á, þ.e. að landið verði eitt verðlagssvæði, að skerðingarmarkið verði með öllu afnumið og að sjúkrasamlögin verði lögð niður. Ekkert af þessu hefur Haraldur Guðmundsson tekið upp í fyrirvara þann, sem hann lætur birta hér í grg. með frv.