02.02.1956
Neðri deild: 61. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

89. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. heilbr.- og félmn., þm. A-Sk. (PÞ), gerði í svarræðu sinni grein fyrir afstöðu sinni til þeirra brtt., sem ég hef flutt og ég gerði grein fyrir í minni framsöguræðu á dögunum. Ég vil víkja að þessu aftur á ný nokkru nánar.

Mér heyrðist á hv. frsm., að hann vildi ekki fallast á neina af mínum brtt. og mælti eingöngu með því, að frv. yrði samþ. með þeirri bráðabirgðabreytingu, sem felst í nál. meðnm. minna og er í raun og veru staðfesting á bráðabirgðaákvæðunum, sem lögfest voru í kringum áramótin.

Ég skal aðeins drepa á helztu brtt. minar og árétta nokkuð það, sem ég hef áður sagt um þær.

Það er í fyrsta lagi brtt. mín við 10. gr. Hún er um það, eins og þm. hafa sjálfsagt tekið eftir, að landið verði eitt verðlagssvæði. Þetta ]ýtur auðvitað að skipulagi trygginganna í þýðingarmiklu atriði, og ég byggi þessa brtt. mína á því, að þegar tryggingalöggjöfin var sett, var hæst kaupgjald hjá verkalýð höfuðborgarinnar, hæsta kaupgjaldið í Reykjavík. Þá var það algengt, að það væri nokkru lægra kaupgjald í kaupstöðunum úti um land og svo þriðja stig kaupgjaldsins úti um sveitir og í smærri kauptúnum, enn þá mun lægra. Ég hygg, að svæðaskiptingin að hafa tvö verðlagssvæði í tryggingalöggjöfinni hafi byggzt fyrst og fremst á þessari staðreynd og að ef sú stund rynni upp, að kaupgjaldið yrði eitt og hið sama um allt land, væri þar með fallið niður að hafa 25% lægri iðgjöld og lægri bætur á öðru verðlagssvæði trygginganna, en nú er einmitt svo komið. Þegar þessi endurskoðun fer fram, er þessi breyting á orðin, þessi þýðingarmikla breyting, að nú er sama kaupgjald um allt land, ekki aðeins þessi þrískipting, sem áður var, fallin burt, heldur líka þær leifar, sem eftir voru í formi tvískiptingar, og nú er eitt og sama kaupgjald um allt land.

Þegar svo er komið, finnst mér vera ranglátt að hafa 25% lægri bætur utan kaupstaðanna eða í öllum byggðarlögum, sem eru með færri íbúa en 2000 manns, eins og segir núna í frv., og legg til, að annað verðlagssvæði verði látið niður falla og landið þannig eitt verðlagssvæði. Á móti þessu hefur hv. frsm. ekki komið fram með neitt annað en að þær sveitarstjórnir, sem leitað hafi verið til um þetta og fallast á það, séu í meiri hluta, hinar sveitarstjórnirnar séu í minni hluta. Og þetta á að ráða. Það er vitanlegt, að fámennu sveitarfélögin eru fleiri en kaupstaðirnir í landinu, og ég veit í raun og veru ekki, hvenær leitað var umsagnar um þetta. Endurskoðunin er búin að taka yfir meira en tvö ár, en kaupgjaldsmismunurinn var felldur niður núna á s.l. sumri, svo að ég hef fulla ástæðu til þess að óska þess, að það verði leitað á ný til sveitarstjórnanna, eftir að breytingin á kaupgjaldinu hefur átt sér stað. Nú er eitt og sama kaupgjald um allt land frá því s.l. sumar. En hafi verið leitað til sveitarstjórnanna á hinu fyrra ári, sem endurskoðunin fór fram, þá er þar miðað við allt annað viðhorf.

Það er rétt, sem hv. 11. landsk. sagði hér áðan, að í frv. núna er gert ráð fyrir tiltölulega mjög lítilli hækkun á ellilífeyrisupphæðunum, eiga núna að vera 7200 á fyrsta verðlagssvæði og 5400 á öðru fyrir hjón, þegar þau fá bæði lífeyri, og aðeins 4500 kr. fyrir einstaklinga á fyrsta verðlagssvæði og 3375 kr. á öðru verðlagssvæði. Þetta eru litlar hækkanir og vafasamt, að þær séu hlutfallslegar við þær tekjuhækkanir, sem orðið hafa við nýja kjarasamninga og við endurskoðun launalaganna núna á þessu þingi. Ég hygg, að þessar tölur hafi verið komnar inn hjá mþn., áður en vitað var nokkuð um niðurstöður hjá þeirri mþn., sem hafði launalögin til endurskoðunar, og gæti því trúað, að þessar tölur væru orðnar úreltar, miðað við það, að gamalmennin fengju hlutfallslega hækkun eins og opinberir starfsmenn hafa nú fengið.

Ég hef því farið mjög hóflega í þessar sakir og lagt til, að í staðinn fyrir 7200 á fyrsta verðlagssvæði komi 8000 og í staðinn fyrir 4500 kr. á fyrsta verðlagssvæði fyrir einstaklinga komi 5000 og að tölurnar varðandi annað verðlagssvæði falli niður, sem eru 25% lægri. Ég tel, að það væri sízt of vel gert við gamalmennin fyrir það, þó að þessar tölur kæmu inn og annað verðlagssvæði félli niður. Það er viðurkennt, að Ísland er að dragast aftur úr að því er snertir tryggingamálin. Það er til fleira en eitt land í Evrópu, sem núna ver tvöfalt meira á einstakling en Íslendingar til tryggingarmála, þ. á m. er smáríkið Luxemburg. Ég held, að það sé 100% hærra á einstakling eftir skýrslum frá alþjóðavinnumálastofnuninni. Og það eru sérstaklega ellitryggingarnar, sem eru að dragast aftur úr hjá okkur, miðað við önnur lönd.

Þá gerði ég mjög að umtalsefni í minni framsöguræðu þá breytingu á 16. gr., sem gerð hefur verið samkvæmt frv., að fjölskyldubætur eiga nú ekki að greiðast nema með hverju barni, sem er umfram tvö í fjölskyldu. Ég deildi sérstaklega á að fella þarna annað barnið undan, því að það ákvæði komst inn samkvæmt tilboði frá ríkisstj. fyrir þremur árum, og þá var það þýðingarmikið atriði í lausn vinnudeilu, að fjölskyldubætur skyldu greiddar með hverju barni umfram eitt í fjölskyldu. Ég hef talið það óviðurkvæmilegt að fella þetta í burtu án viðræðna við þann aðila, sem þetta var upphaflega rætt við og tekið inn sem samkomulagsatriði við, en það voru verkalýðssamtökin.

Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj., sem raunar er aldrei við, þegar þessi mál eru rædd, ekki ómerkilegra mál en tryggingalöggjöfin, telji sig skylduga að svara því, á hvaða rökum hún byggir þessar vanefndir sínar, því að það er vitað mál, að þegar riftað er réttindum, sem urðu til þess að leysa viðkvæma deilu, þá getur slík brigðmælgi orðið til þess að skapa deilumálið á ný, vekja það upp aftur. Hins vegar kynni svo að vera, að hæstv. ríkisstj. hefði einhver gild rök fyrir sínu máli, og þá þyrftu þau að koma fram til þess að koma í veg fyrir, að deilur risu af þessu aftur.

Það er ekki því til að dreifa, — það eru 8 millj. kr., sem með þessum vanefndum eru sparaðar, — að þeim sé skilað aftur í frv. á neinn hátt, nema í sambandi við það, að tölur eru hækkaðar vegna aukinnar dýrtíðar, og það eru ekki neinar auknar réttarbætur í frv.

Ég tel það mjög vítavert, að þessi breyting skuli hafa verið gerð, og mín brtt. er því um það, að ákvæðið verði nákvæmlega í samræmi við áður gefin loforð hæstv. ríkisstj., og ég treysti því, að hv. alþingismenn vilji, að ríkisstj. standi við áður gefin loforð og láti ekki bjóða sér það, að þessu sé breytt án samkomulags við verkalýðshreyfinguna.

Ég skal hlaupa yfir margar af mínum brtt., sem voru líka að litlu leyti gerðar að umtalsefni af hv. þm. A-Sk., en ég gríp næst niður við till mína um 22. gr. Það er till., sem er um það, að ellilífeyririnn skuli skerðast, þegar tekjur ellilífeyrisþega eru orðnar 11/3 af fullum lífeyri. Ég tel alveg óviðunandi að skerða ellilífeyrinn, þó að menn hafi einhverjar smávægilegar hrafltekjur, og þess vegna er mín till. nú um það, að skerðingargreinin, 22. gr., falli alveg niður og að gamalmenni fái enga skerðingu á sinn ellilífeyri, hvað sem tekjum þeirra líður. Og ég segi: M.a. er þetta alveg hliðstæða við það, að að því er snertir fjölskyldubæturnar er núna ekki lagt til, að þar komi nein skerðing til greina. Maður, sem hefur 100 þús. kr. í tekjur og á að fá fjölskyldubætur, fær enga skerðingu á fjölskyldubæturnar eftir neinum hliðstæðum reglum og gamalmennin. Slíkt æpandi ósamræmi tel ég að ekki eigi að eiga sér stað í hinni nýendurskoðuðu löggjöf.

Ég hafði hugsað mér fyrst að bera fram varatill., ef svo ólíklega skyldi fara, að till. mín um að fella skerðingargreinina niður yrði felld, og þá var varatill. mín um það, að í staðinn fyrir, að það ætti að byrja að skerða við 11/3 hluta lífeyris, yrði það ekki gert fyrr en kominn væri 11/2 lífeyrir, miðað við þá upphæð, sem ég hafði lagt til, sem er nokkru hærri en í frv., og að aðrar breytingar í gr. yrðu í samræmi við það skerðingarákvæði. En ég hætti við að flytja þessa till. við þessa umr. og ákvað að gera það þá aðeins við 3. umr., ef brottfall á skerðingargreininni fengist ekki samþ. Og það byggðist á því, að um þær mundir, sem við vorum að ræða um þetta í n„ kom fram hugmynd um aðra tilhögun á skerðingu, sem ég hygg að hefði komið öðruvísi út og yrði í raun og veru minni skerðing undir þessum kringumstæðum, sem ég lofaði að taka til athugunar og ætla að láta athuga, áður en 3. umr. fer fram. En þætti ekki ráðlegt að fara inn á þá leið, sem þar var stungið upp á, er ég ákveðinn í að koma með mína varatill. um að hækka skerðingarmörkin þarna nokkuð frá því, sem nú er í 22. gr.

Í till. mínum er ekki komið á móts við þær óskir, sem bárust nefndinni úr mörgum áttum um það, að aftur yrði tekið upp í frv. ákvæði 27. og 28. gr. í núgildandi tryggingalögum, að Tryggingastofnunin annaðist áfram innheimtu á barnsmeðlögum til einstæðra mæðra, en léti ekki þessa innheimtu frá sér og í hendur sveitarstjórnanna eða oddvitanna úti um land, því að sú vanheimta, sem Tryggingastofnunin hefur orðið fyrir á þessari innheimtu, mundi þá lenda þar, sem síður skyldi, á hinum einstæðu mæðrum.

Ég var búinn að móta till. um það, að á eftir 23. gr. kæmi ný grein, og þeirri grein lýsti ég við fyrri umr. málsins. En greinin er um það, að þessi innheimta skuli áfram vera á hendi Tryggingastofnunarinnar. Með leyfi hæstv. forseta, er kannske rétt, að ég lesi hana upp, því að þó að enginn hæstv. ráðh. sé nú viðstaddur, eru þó kannske einhverjir af þm. viðstaddir, sem ekki voru þá hér í deildinni. Greinin er svo hljóðandi:

„Mæður, sem fá úrskurð yfirvalds um barnalífeyri með óskilgetnum börnum sínum, geta snúið sér til Tryggingastofnunarinnar með úrskurðinn og fengið lífeyrinn greiddan þar.

Þegar Tryggingastofnunin greiðir barnalifeyri samkv. 1. málsgr., á hún endurkröfurétt á hendur föðurnum.

Verði vanskil af hendi föður, skal innheimta kröfuna hjá dvalarsveit móðurinnar eða þess, er framfærslu barnsins annast í hennar stað, nema Tryggingastofnunin kjósi heldur að innheimta hana beint frá framfærslusveit föðurins, og telst fjárhæðin framfærslustyrkur veittur honum.

Um rétt dvalarsveitar á hendur framfærslusveit og framfærslusveitar á hendur barnsföður fer svo samkv. ákvæðum framfærslulaga.“

Ég hafði samt í n. fallizt á að flytja ekki þessa brtt. við 2. umr., ákvað þá í framsögu að lýsa þessari grein, og hef ég því nú gert það í annað sinn, til þess að aðrir þm. gætu þá tekið þessa till. mína upp, ef þeim sýndist svo í sambandi við afgreiðslu tryggingalagafrv. Hins vegar sá ég í n., að það mundi vera vonlaust verk að fá þessa till. fram, a.m.k. með meðmælum n., en n. var hins vegar tilleiðanleg til að fallast á breytingu á frv. um greiðslu meðlaga með óskilgetnum börnum, sem hér er til umræðu á eftir þessu frv., en það er breyting, sem leiðir af því, að þessari skyldu sé létt af Tryggingastofnuninni. Þar var gert ráð fyrir því, að barnsmóðir, sem ætti að innheimta meðlag sitt, skyldi snúa sér til oddvita, en ef hún fengi það ekki greitt hjá oddvita, skyldi hún snúa sér til yfirvalds, sem skyldi veita henni aðstoð. Þetta fannst mér ekki næg trygging fyrir því, að barnsmóðirin fengi sitt meðlag greitt viðstöðulaust eða viðstöðulítið, og þá var boðið, að því orðalagi skyldi breytt á þann veg, að þegar barnsmóðir hefði snúið sér til oddvita og ekki fengið greiðslu, bæri henni að snúa sér til yfirvalds, sem skyldi þá sjá um, að hún fengi barnsmeðlagið greitt. Og þannig er búið að flytja nú brtt. við það frv. Með því móti taldi ég, að hennar rétti væri betur borgið en með því einu að hafa borið fram þessa brtt. við tryggingalögin og fá það að mínu áliti vafalaust fellt og þannig ekkert réttaröryggi aukið við það.

Ég væri því fyllilega samþykkur, að einhver hv. þm. tæki upp þessa brtt. eða aðra nú undir afgreiðslu tryggingalagafrv., ef þeir líta svo á, að breytingin á hinu frumv. tryggi ekki örugglega rétt barnsmóður, en ég vil þó gera mér vonir um,að sú breyting tryggi nokkurn veginn hennar rétt, því að það er upplýst af viðkomandi aðilum, að þetta orðalag, að yfirvaldið skuli sjá um, að hún fái barnsmeðlagið greitt, þýði það, að greiðslan skuli fara fram undireins og hún hefur fullnægt því formsatriði að hafa leitað til oddvitans, og þá á meðlagið í öllum tilfellum að skila sér í hennar hendur.

Þá er ein stórbreyting, sem ég legg til enn og ég vil gera að umræðuefni, og það er um, að sjúkratryggingakaflinn falli niður og að inn komi hinn upphaflegi kafli um heilsuvernd, heilsuverndarkaflinn.

Menn segja eins og áður: Það var leitað til sveitarstjórnanna og þær vildu hafa sjúkrasamlögin sín. Ja, það er mjög eðlilegt. Sveitarstjórnirnar vilja hafa þessa stofnun heima hjá sér, og m.a. byggist það sjálfsagt á því sjónarmiði, sem hv. 11. landsk. túlkaði hér áðan, og það skil ég vel út af fyrir sig. En ókostir hinna mörgu og smáu sjúkrasamlaga hafa sýnt sig þannig, að þau eru ekki örugg til tryggingar þeim, sem veikjast, ef meira en eitt alvarlegt sjúkdómstilfelli á sér stað á félagssvæði hinna litlu sjúkrasamlaga. Þar að auki verð ég að segja það, að heilsugæzlan hefur, hygg ég, verið einn aðalþátturinn, meginþátturinn, glæsilegasti þátturinn í hugsjón trygginganna, og ég vænti þess því fastlega, að heilsugæzlan kæmist nú í framkvæmd samkvæmt sínum upphaflegu ákvæðum í aðalatriðum. En nú er gert meira en áður hefur verið gert. Þessu hefur verið þokað frá sér frá ári til árs, en nú á að taka það út úr tryggingalöggjöfinni.

Ég verð þó að segja, að mér virðist sem ýmislegt hafi nú þokazt í áttina í landinu til þess að gera þetta framkvæmanlegt frá því, sem var, þegar tryggingalögin voru sett. Hér í Reykjavík t.d. er komin upp sérstök heilsuverndarstöð, mannvirki upp á margar millj. kr., og það er byrjað að reka hana. Einmitt núna um þær mundir, sem endurskoðuninni lýkur, er þessi stofnun tekin til starfa. Þar virðast skilyrðin vera sköpuð, sem átti að skapa hér í höfuðborginni fyrir því, að heilsugæzlukaflinn gæti komið til framkvæmda, heilsugæzlan gæti hafizt. Að öðru leyti er svo hér geysilega mikið bákn, sjúkrasamlagsbáknið í Reykjavík, sem átti að hverfa, þegar skilyrði væru fyrir hendi um að framkvæma heilsugæzluna. Hér í Reykjavík virðist því vera alveg komin sú aðstaða, sem þurfti til þess að framkvæma þetta.

Að því er snertir sjúkrahúsakost úti um landið, hefur orðið geysilega mikil breyting, siðan tryggingalöggjöfin var sett. Mjög miklar umbætur hafa orðið á sjúkrahúsakosti, og úti um land hefur það vafalaust verið ætlunin, að heilsuverndarstöðvarnar væru annaðhvort beinn liður í starfi sjúkrahúsanna eða ættu þar sín heimkynni, miklu fremur en að það væru sérstakar stofnanir í smærri kaupstöðum og fámennari byggðarlögum.

Nú er búið að reisa mjög mörg sjúkrahús á seinustu árum og verið að reisa þau á öðrum stöðum. Það er nýtt sjúkrahús núna að taka til starfa í Neskaupstað. Það er komið upp geysivoldugt sjúkrahús á Akureyri, fjórðungssjúkrahús Norðurlands. Það er komið sjúkrahús á Blönduósi. Það er verið að reisa sjúkrahús á Sauðárkróki. Og það er verið sem sé að endurnýja sjúkrahúsakostinn um allt land.

Ég sé því ekki annað en að það hafi miðað mjög vel í áttina til þess að geta tekið heilsuverndarstarfsemina upp og að skilyrðin séu nú allt önnur til þess en áður var. En hér í Reykjavík virðist mér vera komin algerlega aðstaða til þess að sameina sjúkrasamlögin Tryggingastofnuninni og taka upp heilsuverndina í því formi, sem hún átti að vera samkv. heilsugæzlukaflanum.

Hv. frsm., þm. A-Sk., sagði, að Haraldur Guðmundsson, forstjóri trygginganna, hefði ekki lagt til, að þetta væri gert. Það er mikið rétt. En ef það á að skera úr fyrir hv. þm. og meðnm. hans um það að taka þessa till. ekki til greina, þá fyndist mér, að bezt samræmi væri í því, að hann tæki þá til greina allar aðrar till. Haralds Guðmundssonar og byggði á hans miklu reynslu, en það hefur ekki verið gert.

Þá skal ég enn fremur minna á það, að till. mín í sambandi við 38. og 39. gr. er um það, að sé um dauðaslys að ræða, þá er ákvæði um tiltölulega hærri dánarbætur til aðstandenda slíkra lögskráðra sjómanna en að því er snertir aðra. Þetta fékkst inn í sambandi við fiskverðssamninga verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda fyrir milligöngu ríkisvaldsins núna fyrir 3 árum, og þessar bætur til aðstandenda sjómanna eru margfalt hærri en til annarra. En bætur til annarra eru ákveðnar í gr. á undan, 38. gr. Till. mín er um það, að bæturnar verði þær sömu til aðstandenda manna, hvort sem þeir eru lögskráðir sjómenn eða ekki, því að fjölskylduástæður geta allar verið þær sömu í báðum tilfellum, og þá finnst mér uppbæturnar eigi að vera eins hjá öðrum en lögskráðum sjómönnum, og er till. mín um það og að 39. gr. þar af leiðandi falli niður.

Viðvíkjandi því, sem hv. 11. landsk. sagði hér áðan um breytingar á tryggingakerfinu, sem væru æskilegar, aðrar en þær, sem ég hef hér lagt til, en það eru verulegar breytingar á tryggingakerfinu, að verðlagssvæðið verði eitt, að heilsugæzlan komi til framkvæmda í staðinn fyrir sjúkrasamlögin, og fleira flyt ég till. um, sem snertir tryggingakerfið sjálft, þá vil ég að vísu taka undir það með honum, að það væri æskilegast, að hægt væri miklu meira að „decentralisera“ þetta skipulag allt saman, þannig að þýðingarmiklir þættir ættu sínar höfuðbækistöðvar úti um landið, ekki allt saman í Reykjavík. Og að einu leyti er stefnt í þessa áttina með breytingunum núna, þ.e. í sambandi við héraðssjúkrasamlögin, sem má stofna samkv. heimild í þessu frv., og þau eiga að annast sjúkradagpeningagreiðslurnar, en þær greiðslur hafa eingöngu farið fram hér í Reykjavík fram til þessa. En sannarlega er það rétt, að það væri æskilegt, að hægt væri að „decentralisera“ þetta enn betur.

Þá skal ég einnig taka undir það með honum, að ég tel það kannske óþarflega þröngt í 8. gr. að lögbjóða, að sýslumenn og bæjarfógetar skuli annast umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina. Ég tel ekki nauðsynlegt að hafa þetta lögfest. Það má vel vera, að reynzt hafi vel að hafa sýslumennina og bæjarfógetana sem umboðsmenn trygginganna, því að þeir eru í innheimtu- og umboðsstörfum fyrir ríkisvaldið að öðru leyti, og það falli vel inn í þeirra kerfi, það verði tiltölulega minni kostnaður við það, og þá má búast við því, þó að það væri ekki lögfest, að í mörgum tilfellum yrðu það þeir, sem samið yrði við. En hitt er líka staðreynd, að á ýmsum stöðum á landinu eru ágætir menn í þjónustu sjúkrasamlaganna, sem eru mjög kunnugir allri tryggingalöggjöfinni og hafa framkvæmd hennar með höndum frá degi til dags, og eins og bent var á hér áðan, hafa sjúkrasamlögin varla efni á að hafa slíka sérstaka starfsmenn, nema því aðeins að þeir gegni einhverjum öðrum störfum með, og þá færi langbezt á því, að það væru umboðin fyrir tryggingarnar.

Mér þætti það betra, ef fram kæmi till. og fengist samþ. um það, að það væri a.m.k. eitthvert svigrúm, að starfsmenn, sem nú gegna þessum störfum, gætu haldið þeim áfram, og það væri ekki endilega lögfest, að sýslumennirnir skyldu annast þessi störf. Þó að þeir séu til þess vel hæfir og líklegt, að kostnaður við innheimtuna í gegnum þeirra hendur sé hagkvæmur Tryggingastofnuninni, þá getur vel verið, að það sé möguleiki til að semja við sjúkrasamlögin um jafnhagkvæma innheimtu á þessu eins og með því að láta sýslumannsembættin annast þetta.

Ég vil vona, að brtt. mínar nái fram að ganga, og hefði ekkert á móti því, að það væri sannprófað, hvort hægt væri að fá samþykkta grein um, að tryggingarnar önnuðust innheimtuna áfram á barnsmeðlögunum, en þá væri hitt frv., sem hér með fylgir, í raun og veru óþarft. En mín skoðun var sú, að þegar vonlaust væri um að fá þetta fram, þá væri þó betra að fá rétt barnsmæðranna tryggðan gegnum breyt. á hinu frv., og menn hafa nú getað athugað þá brtt., því að hún liggur fyrir, að ég held, á prentuðu þskj. hjá þeim.