20.02.1956
Neðri deild: 73. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

89. mál, almannatryggingar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Við umr. um frv. um breyt. á l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna gerði ég það atriði að umtalsefni, sem við hv. þm. Borgf. höfum leyft okkur að flytja um brtt. á þskj. 355, þ.e. um greiðslu barnalífeyris með óskilgetnum börnum og börnum fráskilinna kvenna og ekkna. Við ræddum þá allýtarlega, hvernig þessu væri varið og hver vandkvæði væru á því, ef barnsmæður ættu að þurfa að snúa sér til oddvita þeirrar sveitar, þar sem þær dveljast, og síðan ættu þeir að innheimta gjaldið hjá barnsföður og njóta til þess styrktar yfirvalds um innheimtuna. Við gerðum þá allýtarlega grein fyrir, hver vandkvæði hlytu að verða, fyrst og fremst fyrir barnsmæður, að þurfa að hlíta slíkri meðferð.

Það er ekkert vafamál, að ef þessu verður þannig fyrir komið, mun það verða í framkvæmdinni, að mæðrum mun ganga seint og allerfiðlega að fá þessar greiðslur, enda þótt lagalega eftir þessu frv., ef að lögum verður, eigi þær rétt á því. Og enn torveldara mun þó reynast fyrir oddvita að innheimta þessi gjöld, enda er það viðurkennt af þeim, sem um þetta mál hafa fjallað, að þessi till. um, að oddvitar greiði þessi meðlög, en Tryggingastofnun ríkisins annist það ekki, er beinlínis gerð út frá því sjónarmiði, að innheimtan gangi bæði seint og erfiðlega og að þetta fé muni ekki innheimtast. Ég drap á það einmitt, að það væri dæmi um það, að lítil sveitarfélög hefðu alls ekki getað fengið þetta fé greitt, og getur það numið á ári svo að skiptir mörgum þúsundum króna, og sjá allir, hvernig það muni verka á hag fámennra og efnalítilla sveitarfélaga, fyrir utan hitt atriðið, sem er engan veginn veigalitið, að barnsmæður skuli þurfa að standa í því að fá þetta greitt, sem verður þeim vafalaust torvelt og veldur þeim miklum óþægindum og leiðindum. Og það er þó sannarlega það atriði í þessu, sem gjarnan má taka mikið tillit til, enda hefur sá félagsskapur kvenna, sem hefur látið þetta málefni til sín taka, bæði með samþykktum og skrifum um þetta mál, rækilega á það bent, hvað óheppilegt væri að breyta til frá því, sem áður var. Oddvitar, sem komu hér saman á fund, þegar þetta mál var til undirbúnings, og ræddu einmitt um þetta atriði, greiddu allir atkv. á móti því, að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp, hver einn og einasti, og kunnast má þeim vera einmitt um það, hvernig slík innheimta mundi ganga. Það leiðir einnig af þessu fyrirkomulagi, ef það ætti að lögbjóða, að oddvitarnir greiddu þetta og innheimtu svo, þá leiðir af því ógurlega mikla skriffinnsku, sem ekki er vert að innleiða, þegar þá er fyrir fram vitað, að það getur ekki annað en valdið óþægindum og erfiðleikum, sem rétt er að spara sér.

Hv. 9. landsk. þm. var að gera grein fyrir þeim brtt., sem þeir nokkrir flytja, þar sem þetta atriði einnig felst. Á brtt. okkar hv. þm. Borgf. og brtt. þeirra, sem um þetta atriði fjallar, er ekki mikill munur. Hvað greiðslurnar áhrærir og fyrirkomulag á því, er það alveg það sama. Aðeins er okkar till. nokkru fyllri um endurkröfuna á hendur barnsföður, nokkru ýtarlegri um það efni, en annar munur er þar ekki á. En brtt. okkar hv. þm. Borgf. fjallar eingöngu um þetta atriði, ekki um hin önnur, sem hv. 9. landsk. þm. var að gera grein fyrir.

Mér þykir og okkur hv. þm. Borgf. því æskilegra og óskum þess, að hv. d. gæti fallizt á okkar brtt. og samþ. hana. Hún er nokkru ýtarlegri, og ég ætla, að það sé vel fyrir þeim atriðum séð upp á endurgreiðsluna að ræða. Þess vegna teljum við æskilegast, að hún yrði samþykkt. Um hin önnur atriði brtt. þeirra félaga, þá kemur þessi brtt. okkar ekki þeim neitt við, svo að það er hægt að gera samþykkt um það alveg sjálfstætt.

Af því að þetta mál var hér áður ýtarlega rætt, einmitt þessi atriði, bæði af mér og hv. þm. Borgf. nokkuð, og einnig hefur nú hv. 9. landsk. þm. drepið frekar á ýmis atriði, sem þetta snerta, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði meira. Það liggur ljóst fyrir, hvað í þessu felst, og ég vil vona, að hv. d. samþykki þess vegna okkar till. Ég ætla, að það verði farsælasta lausnin á þessu máli.