21.02.1956
Neðri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

89. mál, almannatryggingar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég get nú að ýmsu leyti þakkað hv. þm. A-Sk. fyrir hans ræðu. Hann er yfirleitt maður óspar á ráðleggingar til sinna andstæðinga og bendir gjarnan á það, sem miður kann að fara í þeirra málflutningi, en hitt verð ég að segja, að æskilegt væri, að fulltrúi meiri hl. heilbr.- og félmn., sá sem valinn er til þess að hafa orð fyrir þeim virðulega nefndarmeirihluta hér í þessari hv. d., bæri nokkru næmara skyn á uppeldi barna og vandamál þau, sem í sambandi við það skapast, svo og um þær þarfir, sem öryrkjar og gamalmenni hafa í sinni lífsbaráttu.

Því miður virtist mér, að málflutningur þessa hv. ræðumanns mótaðist fremur af því, að hann teldi það öllu máli skipta, að ekki skyldi nú þurfa að greiða burt úr ríkissjóði einhverjar krónur, sem máske væri hægt að láta aðra aðila greiða. Í sambandi við afstöðu þessa hv. nefndarmeirihluta og hans frsm. til greiðslu barnalífeyris, þá verður hún ekki skilin öðruvísi en svo, að þessi hv. ræðumaður líti svo á, að það sé réttlátara að leggja á herðar einstæðra mæðra innheimtu á barnalífeyri barna sinna heldur en að til þess gæti komið, að slíkur lífeyrir yrði að lokum greiddur úr ríkissjóði, án þess að ríkissjóður gæti innheimt hann annars staðar frá. Ég verð að harma þessa afstöðu, bæði þessa hv. ræðumanns og þeirra, sem standa að málum með honum í þeirri lagasmíð, sem hér er á ferðinni.

Verð ég þá að víkja örfáum orðum að því, sem hann sérstaklega sagði um þær till., sem ég ásamt nokkrum öðrum þm. hef leyft mér að flytja og prentaðar eru á þskj. 346. Meginmál ræðu hans var um það, í hvert óefni væri stefnt þessari löggjöf, ef 2. brtt. okkar yrði samþ., till. um það, að árlegur ellilífeyrir fyrir hjón yrði 8400 kr. í grunn á ári og árlegur einstaklingslífeyrir yrði 5280 kr. á ári. Í fyrsta lagi dró hann í efa, að forseti ætti að bera þessa till. undir atkv., vegna þess að önnur till. frá öðrum aðila um lægri fjárhæð hefði verið felld. Ég ætla ekki að gefa forseta nein ráð í þessu efni. Hins vegar sé ég ekki annað en að þessi till okkar sé fullkomlega þingræðisleg og að öllu byggð á þingsköpum. Við höfum ekki áður gert till. um lægri upphæð, og þetta er okkar till.

Sú reginfirra, sem hv. þm. A-Sk. þóttist finna í okkar till. um lífeyrinn, er sú, svo að málið sé nokkru nánar rakið, að ef við miðum við einstakling, þá hefur einstaklingur nú í ellilífeyri 581 kr. á mánuði, miðað við vísitöluna 171. Samkv. frv., sem fyrir liggur, mundi hann fá 667 kr. En samkv. þessari till., sem hér liggur fyrir, mundi einstaklingslífeyrir verða 752 kr., og er þá ekki gengið lengra en svo, að um er að ræða hækkun frá því, sem nú gildir, þannig að hækkunin nemur eitthvað á milli 29 og 30% og er hreint ekki meiri en tilsvarandi verðhækkanir hafa orðið á fjölmörgum hlutum frá því, að þessi lífeyrir var ákveðinn. En það, sem hv. þm. A-Sk. virtist bera alveg sérstaklega fyrir brjósti, var það, að ef þessi tillaga yrði samþykkt, mundi öll löggjöfin fara í hreinasta brengl, því að einhvers staðar í annarri gr. væri gert ráð fyrir því, að verðlagssvæðin væru tvö, og með þessu mundi verðlagssvæðið verða eitt að því er varðar útborganir til ellilífeyrisþega, en þeir byggju hins vegar við lægri iðgjöld.

Þegar ég talaði fyrir þessari till. hér, þegar hún var á dagskrá áður, þá virtist mér þessi hv. þm. gera sér far um að reyna að taka eftir því, sem sagt var. En annaðhvort hefur honum ekki tekizt það sem skyldi eða þá að hann hefur fremur haft tilhneigingar til þess að afflytja mál en að skilja það eins og það lá fyrir. Ég tók það sérstaklega fram, að till. væri gerð í samræmi við þá skoðun okkar, að landið ætti að vera eitt verðlagssvæði. Hins vegar tók ég það einnig fram, að að þessari till. samþykktri stæði þeim mönnum, sem hér hafa með meiri hluta ákveðið, að verðlagssvæðin skyldu vera tvö, að sjálfsögðu opin leið til þess í meðferð þingsins að draga af þessu 25% í greiðslum á annað verðlagssvæði, eins og þeir vilja vera láta og eins og framkvæmt verður, ef frv. verður óbreytt samþykkt. Ég sé þess vegna ekki sérstaka ástæðu til þess að elta fremur ólar við þessa aths. hv. þm., enda hygg ég, að þessi hv. þm. hafi staðið að lagasetningu t.d. um áburðarverksmiðjuna, sem hér var á dagskrá í gær, þar sem í einni gr. sagði, að verksmiðjan skyldi vera hlutafélag, og í annarri gr., að hún skyldi vera sjálfseignarstofnun, svo að honum þyrfti ekki svo mjög að blöskra, þótt þessi breyting, sem gert er ráð fyrir í 2. brtt. okkar á þskj. 346, yrði samþykkt. Það yrði ekki meira ósamræmi í lögunum, þó að við engu öðru yrði hróflað, en t.d. í lögunum um áburðarverksmiðjuna, sem ég hygg að þessi hv. þm. hafi staðið að að samþykkja og ekki gert aths. þá um, þótt eitt ræki sig á annars horn. En sem sagt, það hefur rækilega verið á það bent, að þessi till. er gerð í fullu samræmi við þá skoðun okkar flm., að verðlagssvæðið eigi að vera eitt, og við erum þess vegna með flutningi þessarar till. í fullkomnu samræmi við okkar skoðun á málinu. Enda þótt aðrir hafi aðra skoðun og reynist vera hér í meiri hluta, þá hafa þeir alla möguleika til þess að gera ráðstafanir til þess að halda verðlagssvæðunum tveimur, enda þótt þessi till. yrði samþ.

Kem ég þá að því, sem hv. þm. sagði um 3. till. okkar, en hún varðar innheimtu á lífeyri barna, sem úrskurðaður hefur verið lífeyrir með til handa mæðrum. Þar telur hann vá fyrir dyrum, af því að í till. sé ekki sérstaklega tekið fram, að ríkissjóður eigi að lokum að borga þann halla, sem Tryggingastofnunin kynni að verða fyrir, ef till. yrði samþ.

Nú veit hv. þm. það, að það eru fjölmörg dæmi um það héðan af þingi, að á fjárlög eru teknar greiðslur til handa Tryggingastofnun ríkisins, þegar hún nær ekki saman endum um útgjöld og tekjur. Þess vegna er engin sérstök ástæða til þess að taka það fram í þessari .brtt., að ríkið skuli borga hallann. Auðvitað ber ríkið ábyrgð á rekstri Tryggingastofnunarinnar og hlýtur óhjákvæmilega að hlaupa undir baggann, ef Tryggingastofnunin væri nálægt því að komast í greiðsluþrot. Enn fremur hef ég bent á það hér, að et þessi háttur, sem þessi brtt. gerir ráð fyrir, yrði upp tekinn um greiðslur barnalífeyris, þá ætti Tryggingastofnunin ákaflega hæg heimatök um að koma fram hér á Alþ. þeim breytingum við lög eða tillögum um nýja löggjöf, sem sú stofnun teldi nauðsynlegar til þess, að innheimtan gæti gengið sem snurðulausast. Og ég er ekki í neinum vafa um, að á það mundi verða vel hlustað hér á þingi, hverjar aths. eða hverjar breytingar Tryggingastofnunin kynni að vilja láta gera, til þess að sú einfalda innheimta, sem hér er lagt til, gæti farið fram greiðlega. En sem sagt hv. þm. A-Sk. og þeir, sem honum fylgja að málum í þessu, vilja umfram allt, að ríkið og Tryggingastofnunin skuli vera gersamlega laus við að eiga nokkuð á hættu í þessum efnum, en þeim virðist vera langtum ósárara um það, þótt mæður viðkomandi barna kunni að þurfa að standa í ströngu um innheimturnar.

Ég þykist vita, að þeir muni vilja svara því til, að í lögunum sé mæðrunum gefinn kostur á að leita með sín mál til fógeta, ef aðrar leiðir bregðast. Og það er rétt. En sú leið stendur mæðrum ekki opin, fyrr — en þær hafa fengið synjun hjá sveitarstjórn um, að þessi lífeyrir sé greiddur, máske fyrst hjá barnsföður og síðan hjá sveitarstjórn.

Ég get ítrekað það, að það væri vissulega æskilegra fyrir uppeldi viðkomandi barna, að hv. þm. A-Sk. reyndi að setja sig betur inn í það, með hverjum hætti uppeldi slíkra barna getur gengið snurðulausast, jafnvel þó að það kostaði það, að hann sleppti nokkru af sinni nákvæmni um, hvar á að standa „og“ og hvar á að standa „að“ í frumvörpum, eða enn fremur þó að hann yrði að láta niður falla þá aths., sem er nú í meira lagi hjá honum, við brtt. frá sínum hv. flokksbróður, þar sem þessi hv. þm. hefur nú fundið út, að á einhverjum stað, þar sem stendur „má“, ætti fremur að standa „skal“. Það er sem sagt mín skoðun, að jafnvel þó að þessi lofsverða nákvæmni hv. þm. yrði í einhverju að lúta í lægra haldi fyrir almennum skilningi á þörfum fólks í landinu, þá væri það samt vinningur, ef hann mætti nokkuð komast á þeirri braut að tileinka sér þá skoðun, að fólkið í landinu sé meira virði en bókstafur í frv.