21.02.1956
Neðri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

89. mál, almannatryggingar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo virðist á ræðu hv. 9. landsk. sem hann telji orðalag frumvarpa ekki miklu máll skipta, en það ætla ég, að dómstólar, sem eiga að dæma eftir lagasetningu af hálfu þingsins, muni telja það nokkru skipta jafnvel, hvort það stendur „má“ eða „skal“ í einni lagagrein, og hygg ég, að það væri hollt fyrir þennan hv. þm. að gera sér grein fyrir þessu á sem flestum sviðum í sambandi við lagasmiðina.

Það hefur verið rætt hér í þessari hv. d., hvernig fyrirhugað er samkv. tillögum heilbr.- og félmn. að sjá borgið hlut barnsmæðranna um meðlagagreiðslur, þannig að verði vanskil af hálfu föður, eigi barnsmóðir rétt á því að snúa sér til dvalarsveitar, og tregðist oddvíti dvalarsveitar við að greiða meðlagið, þá á barnsmóðirin að geta snúið sér til sýslumanns, þess manns, sem hefur á hendi umboð fyrir Tryggingastofnunina, og skal þá móðirin fá þar meðlagið greitt. Á þennan hátt er gert ráð fyrir því, að hlutur mæðranna verði tryggður. En í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. 9. landsk. um, að ríkið ætti að hlaupa undir baggann, ef skuldir stofnuðust vegna þessara viðskipta, og að sú regla hefði verið höfð á undanförnum árum að taka inn í fjárlög ýmsar greiðslur til Tryggingastofnunarinnar til þess að jafna halla, þá þykir mér rétt að láta það koma fram við þessa umr., að ein meginbreyting, sem þetta frv. felur í sér, er gagnvart fjárhagsgrundvelli Tryggingastofnunarinnar, þannig að iðgjöldin eða framlögin til Tryggingastofnunarinnar eru ekki ákveðin í krónutölu samkv. þessu frv., heldur á að jafna þeim niður árlega í vissum hlutföllum á þá aðila, sem framlögin greiða, í samræmi við þá áætlun, sem Tryggingastofnunin hefur gert og félmrh. staðfest, áætlun, sem á að sýna, hve mikilla tekna er þörf fyrir Tryggingastofnunina það ár, sem í hönd fer. En um leið og þessi meginbreyting er gerð á tryggingalöggjöfinni, er afnumið það ákvæði, að ríkið beri ábyrgð á rekstri stofnunarinnar. Rekstur stofnunarinnar á að bera uppi með þeim framlögum, sem aðilar inna af hendi hverju sinni, í samræmi við þá áætlun, sem gerð er um þarfir stofnunarinnar, og leggja í varasjóð svo sem tilskilið er í frv., en jafnframt er það fellt niður, að ríkið beri ábyrgð á fjárhag stofnunarinnar. Ég vildi láta þetta koma fram nú við lok þessarar umr. í tilefni af þeim orðum, sem féllu í ræðu hv. 9. landsk.