27.02.1956
Efri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

89. mál, almannatryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að láta örfá orð fylgja frv. við 1. umr. hér í Ed. Þetta frv. til l. um almannatryggingar er, eins og hv. dm. vita, búið að ganga í gegnum Nd., taka þar nokkrum breytingum, hefur verið þar til meðferðar mjög lengi, og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að flytja hér langa framsöguræðu. Hvort tveggja er, að frv., eins og það var lagt fram í öndverðu, fylgir ýtarleg grg., og svo hefur hv. Ed. náttúrlega fylgzt með meðferð málsins í Nd. Þar voru gerðar nokkrar breytingar á frv., þó ekki nema ein, sem hægt er að segja að sé raunverulega stór efnisbreyting. Inn á það mun ég ekki fara hér að þessu sinni.

Þegar ég lagði málið fyrir Alþingi í fyrstu og flutti framsögu í Nd., benti ég á, að ég teldi ekki óeðlilegt, að heilbrigðis- og félagsmálanefndirnar í báðum deildum störfuðu að einhverju leyti saman að málinu. Þetta mun eitthvað hafa verið gert í upphafi, þegar málið var til meðferðar í Nd., en mér er ekki kunnugt um, hve mikinn árangur það kann að hafa borið um, að það flýtti fyrir afgreiðslu málsins. Ég veit, að hér í þessari hv. deild muni koma fram brtt. við frv. að meira eða minna leyti, eins og eðlilegt er með jafnumfangsmikið mál og hér er um að ræða, og þarf deildin sjálfsagt nokkurn tíma til þess að geta afgreitt frv. Hins vegar vildi ég láta þess getið, að ég fyrir mitt leyti legg nokkra áherzlu á, að þetta Alþingi, sem nú situr, gæti afgreitt þetta frv. frá Alþingi.

Það er kunnugt og hefur verið um mörg ár, að það væri alveg nauðsynlegt að gera víssar breytingar á almannatryggingalögunum, enda alltaf gert ráð fyrir því, að um þetta leyti færi fram gagnger endurskoðun á þeim eftir þann reynslutíma, sem nú hefur fengizt í kringum 10 ára skeið eða allt að því, og t.d. að afnema það, að á hverju þingi, eins og nú að undanförnu, þurfi ávallt að vera með löggjöf um viss ákvæði í almannatryggingalögunum til framlengingar. Þetta er óeðlilegt með mál eins og hér er um að ræða og getur alls ekki að mínum dómi gengið lengur, að svo sé ástatt um það atriði. Þetta var ekki óeðlilegt í fyrstu, meðan menn voru að átta sig á þessari löggjöf og hvers konar breytingar kynni að þurfa á henni að gera. En eftir svona langan reynslutíma tel ég, að það geti vart komið til mála. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og hefur inni að halda allmiklar breytingar frá fyrri löggjöf um þetta efni, en þó ekki í grundvallaratriðum, — það er mér óhætt að fullyrða, — m.a. fyrirbyggir, að það sé nauðsynlegt að vera með ný frv. og nýja löggjöf á hverju einasta Alþingi til þess að fleyta málinu fram næsta ár.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér þær breytingar, sem frv. sjálft, eins og það í öndverðu var lagt fyrir Nd., gerir á eldri lögum, né heldur að fara að rekja þær breytingar, sem hv. Nd. gerði á frv. og í meginatriðum eru ekki mjög stórfelldar.

Þessu frv. fylgja nokkrir dilkar, ef svo mætti orða það, eins og frv. til laga um breyt. á lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, frv. til laga um breyt. á framfærslulögum og frv. til laga um breyt. á heilsuverndarlögum. Ég vil aðeins nefna það, að þau munu koma hér í kjölfarið til hv. Ed.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða um einstök atriði. Það er þá eðlilegra, að það sé gert við 2. umr. málsins, því að ég vænti þess fastlega, að hv. Ed. vísi þessu máli til nefndar og taki þau störf, sem þar ber að vinna, föstum tökum, eftir því sem tími vinnst til þess. Mér er að vísu ljóst, að af ýmsum ástæðum verður dálítið erfitt um mikinn tíma til meðferðar á þessu frv. og öðrum, sem fyrir hinu háa Alþingi liggja, nú á næstu vikum, en þó vænti ég, að þetta frv. verði hér tekið til meðferðar, og veit enda, að hér í hv. deild eru menn, sem hafa mjög mikinn áhuga fyrir almannatryggingum, hafa starfað að þeim og munu vilja leggja mjög jákvætt til þessara mála.

Ég skal svo láta þessi fáu orð nægja sem framsögu um þetta frv. og leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og félmn.