27.02.1956
Efri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

89. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja búizt við því, að hæstv. ráðh. mundi ræða nokkuð ýtarlegar um þetta mál hér í þessari hv. deild, svo mjög sem mér finnst þetta frv. raska grundvallaratriðum laganna, gagnstætt því, sem hann hélt fram í sinni stuttu ræðu. En það kann að stafa af því, að hann hefur haldið sína aðalframsöguræðu um málið í Nd., þar sem það hefur fengið ýtarlega meðferð og verið svo að segja allan þingtímann.

Vart mun nokkurt þingmál snerta jafnmarga aðila og það mál, sem hér er til 1. umr. Hinn smæsti og veikasti þjóðfélagsþegn á ef til vill alla lífsafkomu sína undir því, hversu þessu máli er skipað, og hinum, sem sterkari eru og bera eiga byrðarnar af framkvæmdinni, er ekki alveg sama um, hversu með málið er farið. Það er því engin furða, þó að einmitt um þetta mál verði allmiklar umræður hér á Alþingi og að sitt sýnist hverjum. Er það og vei, að málið sé rætt frá öllum hliðum og sem allra flest sjónarmið komi fram undir umr., ef vera mætti, að það gæti leitt til sem allra réttlátastrar niðurstöðu, þar sem saman gæti farið möguleikinn til þess að mæta sanngjörnum og réttlátum kröfum hinna tryggðu án þess þó að íþyngja um of gjaldþoli þeirra aðila, sem bera eiga uppi kostnaðinn, því að án þess, að þetta tvennt fari saman, ná lögin ekki tilgangi sínum.

Áður en ég sný mér að hinum einstöku greinum frv., vildi ég mega fara hér nokkrum orðum almennt um tryggingamálin og þróun þeirra á undanförnum árum.

Sú skoðun, að allir menn séu bornir til jafnréttis til þess að lifa mannsæmandi lífi, er að festa dýpri og dýpri rætur meðal allra menningarþjóða, en frumskilyrði til þess að tryggja þennan rétt einstaklinganna eru almannatryggingar, og því er það, að því öruggari, traustari og mannúðlegri sem lagafyrirmæli og framkvæmdir almannatrygginganna eru, því betur er þessi réttur tryggður einstaklingunum, hvernig sem heilsu þeirra andlega og líkamlega er farið eða hver sem efnahagur þeirra kann að vera á hverjum tíma. Þetta er kjarni almannatrygginganna, sem við megum aldrei missa sjónir af, þegar lögunum um þær skal breyta til hins betra. Hinn má ekki heldur gleyma, að með því að uppfylla þessar skyldur við þegna þjóðfélagsins er það sjálft sem oftast að bjarga verðmætum, sem annars færu forgörðum, því að í langflestum tilfellum er þjóðfélagið með þessu að hjálpa hinum veika til sjálfsbjargar, er að gera þegnana betri og traustari en ella til þess að vera með í því að halda uppi og auka framleiðslu landsins á ýmsum sviðum og bæta þar með þjóðarhaginn. Þessi þáttur tryggingamálanna er engu minna virði en hinn, en enn sem komið er, hefur honum ekki verið sinnt sem skyldi, og frv. það, sem hér er til umræðu, gerir ekki ráð fyrir því, að á því verði mikil breyting. Er þess þó full þörf, að hér verði gerð miklu stærri átök í framtíðinni en gert hefur verið hingað til.

Íslenzka þjóðin hefur frá öndverðu gert sér ljósar þessar skyldur við þegnana, því að allt frá fornöld var það lögum samkvæmt skylda ættanna að sjá fyrir fjórmenningum, en kæmi á móti réttur til að taka arf eftir þá. Hér var því komið á frá upphafi vissu formi almennra trygginga í samræmi við aldarandann og í samræmi við efnahag þjóðarinnar á hverjum tíma. Þetta form trygginganna hefur að líkindum aðallega breytzt og brugðizt vegna þess, að fjárhagsgrundvöllurinn hefur ekki verið nógu öruggur, arfalóðið jafnan verið léttara en byrðin af framfærslunni, einkum þó á þrengingartímum, sem gengu á vissum tímabilum yfir þjóðina. Taka því tryggingarnar smátt og smátt á sig annað form. Er þá framfærsluskyldan færð meira og meira yfir á sveitarfélögin, án þess þó að erfðarétturinn sé látinn fylgja með, enda oftast lítið á þeim að græða, sem þannig eru framfærðir.

Reynslan af þessu formi trygginganna var jafnan hin ömurlegasta, og því er það, að jafnskjótt og þjóðinni vex fiskur um hrygg og saman fer að fara meira frelsi í athöfnum og betri efnahagur, hefst baráttan fyrir nýrra og betra formi trygginganna með þeim árangri, að sett er hér á Alþingi heilsteypt og að mörgu leyti mjög fullkomin tryggingalöggjöf, sem þjóðin hefur síðan búið við og nú hefur verið endurskoðuð með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur. Löngu áður höfðu þó starfsmenn ríkis og ríkisstofnana svo og einstakra annarra atvinnuveitenda fengið með lögum eða með samningum annað og heppilegra tryggingaform, sumpart í formi lögboðinna eftirlauna og sumpart í formi lífeyrissjóða, sem hvort tveggja tryggði sæmileg lífskjör, þegar kraftarnir voru þrotnir, og stundum jafnvel betri lífskjör en á meðan viðkomandi var í starfi fyrir full laun. En þó að þær umbætur snertu jafnan þá, sem bezta höfðu aðstöðu í þjóðfélaginu, verður því ekki neitað, að þær voru undanfari almennra umbóta í tryggingamálunum og þvinguðu beinlínis fram heildarlöggjöfina um almennar tryggingar, eins og þær munu framvegis knýja fram umbætur á lögunum um almennar tryggingar, unz ósamræmið á milli þessara tryggingaforma er að fullu afmáð, og að því ber að stefna, að það verði sem fyrst. En til þess að svo megi verða, verður frv. það, sem hér er til umræðu, að breytast mjög verulega, og er varla að vænta, að slíkt náist í einu átaki. Þær umbætur, sem gerðar hafa verið á tryggingalöggjöfinni á hverjum tíma, hafa að sjálfsögðu mætt margvíslegri andstöðu, en þessi andstaða hefur ávallt markazt af einni og sömu ástæðunni, þ.e., að samfara umbótunum sé ekki séð nægilega fyrir fjárhagslegum þörfum trygginganna og án þess að saman fari umbætur á löggjöfinni, sem hafi í för með sér meiri eða minni ný útgjöld, og öflun nýrra tekna til þess að mæta þeim útgjöldum, verði hin nýju ákvæði tryggingalaganna dauður bókstafur, loforð til fólksins, sem ekki verði uppfyllt. Slík afstaða hefur jafnan verið túlkuð af Alþfl. og einnig af Sameiningarflokki alþýðu, Sósfl., sem hrein andúð gegn umbótum á tryggingalöggjöfinni, en þetta er mjög rangur dómur. Lög nr. 50 1946, um almannatryggingar, sem enn eru í gildi og hafa ekki tekið verulegum breytingum á þessu tímabili, voru samin og undirbúin af mþn. og frv. síðan flutt af heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar á þinginu 1945 samkv. ósk þáverandi félmrh.

Samkomulag var um það á milli þáverandi stjórnarflokka, að frv. skyldi verða að lögum á því þingi, og þingnefndir beggja deilda höfðu samvinnu um að athuga það og gera á því nauðsynlegar breytingar. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar varð þó ekki sammála um afgreiðslu málsins. Lagði meiri hl. n. til, að frv. yrði samþykkt með allmiklum breytingum, en minni hl., hv. þm. Str., Hermann Jónasson, sem þá var í stjórnarandstöðu, lagði til, að frumvarpinn yrði vísað frá með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Deildin telur, að mál þetta þurfi nánari athugunar við og nauðsynlegt sé, að þjóðin kynnist því og ræði það, áður en því er ráðið til lykta, síðan verði það tekið til úrlausnar í sambandi við þær ráðstafanir, er gera þarf til stefnubreytingar í fjárhags- og atvinnumálum til þess að skapa tryggingunum traustan fjárhagslegan grundvöll. Væntir d. þess, að fullkomin tryggingalöggjöf, byggð á öruggum fjárhagsgrundvelli, verði nánar undirbúin svo fljótt sem verða má, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Rökstudda dagskráin var felld gegn atkv. framsóknarmanna, þar sem stjórnarflokkarnir gátu ekki fallizt á, að málið þyrfti frekari undirbúning en það hafði þá þegar fengið, og þar sem sú ríkisstj., sem stóð að samþykkt frv., skuldbatt sig til þess að tryggja nauðsynleg fjárframlög til greiðslu á öllum skuldum til trygginganna og taka upphæðirnar inn á fjárlög, var ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja frv.

Síðan þetta gerðist er liðinn nærri áratugur. Ég hygg, að það sé ekkert ofmælt, að allan þennan tíma hafi efnahagskerfi þjóðarinnar verið sjúkt að áliti hv. þm. Str. og sá sjúkdómur hafi heldur farið vaxandi en hitt með ári hverju. Ef Alþ. hefði því fallizt á það fyrir tíu árum að vísa þessu merka máli frá, byggt á þeim forsendum, að tryggja bæri fyrst og fremst heilbrigt efnahagskerfi þjóðarinnar eftir forskrift formanns Framsfl., og þingið síðan haldið sig við þá ákvörðun í málinu, er hætt við því, að hér hefði engri almannatryggingalöggjöf verið komið á enn þá. Þetta raskar þó á engan hátt þeirri höfuðnauðsyn, að tryggja verður fjárhagsgrundvöll trygginganna, ef lögin eiga að vera nokkuð annað en pappírsgagn, loforð, sem ekki verður uppfyllt, og frá mínu sjónarmiði er engan veginn gengið svo örugglega enn frá því atriði sem skyldi, engin tilraun gerð til þess í frv. að bæta þar nokkuð um frá því, sem er í gildandi lögum.

Samkv. frv. skal skipta útgjöldunum hlutfallslega á milli þeirra aðila, sem gjöldin eiga að greiða, og er nokkurn veginn haldið sömu hlutföllum og verið hefur, svo að segja má, að hér verði lítil breyting á. Enn fremur er haldið því ákvæði, að ríkissjóður skuli bera ábyrgð á framlagi sveitarfélaganna, svo sem nú er, en hins vegar er fellt niður það ákvæði, að ríkissjóður skuli bera ábyrgð á greiðsluhalla trygginganna, þegar tryggingasjóðirnir hrökkva ekki lengur til að mæta töpum, og þegar svo er komið, er auðsætt, að áætla verður iðgjöldin svo há, að öruggt sé, að ekki geti verið um töp að ræða og að mögulegt sé að auka verulega tryggingasjóðina.

Svo lengi sem iðgjaldagreiðendur hafa fullar hendur fjár, er þetta auðvelt. En jafnskjótt og efnahagsástæður breytast, kann þetta að verða allt erfiðara, og vel gæti það efnahagsástand skapazt, ef illa árar, að skera yrði niður bæði hjá sveitarsjóðum og hjá ríkissjóði margvísleg gjöld, sem almenningur þó teldi nauðsynlegt að inna af höndum. Og hvaða trygging er þá fyrir því, að framlög til trygginganna yrðu þar undanskilin? Það er því höfuðnauðsyn að skapa tryggingasjóðunum tekjur, sem ekki eru háðar efnahag iðgjaldagreiðenda á hverjum tíma, og að auka svo tryggingasjóðina, að í þeim sé jafnan ekki minni upphæð til vara en eins árs útgjaldaupphæð trygginganna.

Fyrir þessu var því miður ekki séð í upphafi, og engin tilraun er heldur gerð til þess með frv. þessu að gera hér nokkrar umbætur. Sú stefna, sem tekin var hér upp, að sjá ofsjónum yfir rekstrarafgangi trygginganna og ganga á sjóðina, svo sem gert hefur verið hin síðari ár, er röng og leiðir ekki til neins góðs, enda er sú stefna ekki í neinu samræmi við þá yfirlýsingu, að það sé höfuðnauðsyn að tryggja fjárhagslegan grundvöll stofnunarinnar. Ef horfið yrði nú að því ráði að auka verulega tryggingasjóðina, svo sem ég hef hér minnzt á, og helzt með nýjum tekjustofni, er væri óháður efnahag iðgjaldagreiðenda, mundu tryggingarnar ekki einasta vera öruggar um að geta jafnan staðið við loforð sín til bótaþega, heldur mundu þær og verða efnahagskjölfesta þjóðarinnar, sem megna mundi hvort tveggja í senn að leysa efnahagsvandræði einstaklinganna og þá einkum hinna fátækustu og aðstoða ríkissjóðinn og sveitarfélögin undir fjöldamörgum kringumstæðum til þess að koma áfram nauðsynlegum framkvæmdum, sem annars yrðu að bíða vegna fjárskorts og með því torvelda eðlilega þróun atvinnumálanna.

Mþn. sýnist alveg hafa gengið fram hjá þessu mikilvæga atriði í uppbyggingu tryggingakerfisins, sem framtíðinni er ætlað að búa við, og form. n., sem fór þar með umboð flokks, sem 1946 vildi vísa málinu frá á þeim forsendum, að fjárhagsgrundvöllur trygginganna væri svo ótraustur samkv. ákvæðum frv., sem þá var hér til umr., að ekki væri formandi að lögfesta það, gerir hér engan ágreining og setur þá heldur engar till. fram í þá átt að skapa traustari efnahagsgrundvöll fyrir tryggingarnar.

Eins og kunnugt er, stóðu hér á landi mjög harðar vinnudeilur í árslok 1952 milli launþega og atvinnurekenda. Slíkt fyrirbrigði var engin nýlunda með þjóð vorri, því að allt síðan árið 1916 hefur þjóðin átt slíku að venjast í minni eða stærri mæli. Þetta hefur jafnan verið einn meginþáttur í hinni pólitísku baráttu vinstri flokkanna í landinu til þess að tryggja sér fylgi alþýðunnar, þótt árangurinn hafi ekki ávallt verið svo sem til var ætlazt. Og jafnan höfðu þó þessar deilur verið leystar að lokum með mismunandi ágóða eða tapi fyrir deiluaðila, eins og gengur og gerist, þegar um vinnudeilur hefur verið að ræða. En í þetta skipti er tekinn upp alveg nýr og áður óþekktur háttur til þess að jafna deiluna. Ráðh. sá, sem fór með félagsmálin og fer með þau enn og hafði það hlutverk að beita sér fyrir því að koma á sáttum, ef leitað var til ríkisstj. í deilunni, gerir sér lítið fyrir og semur, örþreyttur og uppgefinn, á einni nóttu við Alþýðusambandið um að verja nærri tveimur tugum milljóna króna úr tryggingasjóðunum, sem einnig heyrðu undir hans rn., til þess að koma á samkomulagi og mæta kröfum launþeganna. Og þetta er gert án þess að leita til þingsins, sem þó sat að störfum, eða til þeirra manna, sem mest höfðu barizt fyrir því að koma tryggingamálunum í viðunandi horf. Og allt þetta gerræði er framið skömmu eftir að sami hæstv. ráðh. hefur fengið Alþ. til þess að fallast á að fresta löglegum bótum til gamalmenna á þeim rökum, að stofnunin hafi ekki bolmagn fjárhagslega til þess að inna þær skyldur af hendi, sem kostuðu þó ekki nema sem svarar helmingnum af þeirri upphæð, sem hér var ausið út. Aldrei höfðu almannatryggingarnar fengið slíkt áfall, aldrei höfðu nokkrir menn brugðizt þeirri hugsjón, sem á bak við þær stendur, svo hrapallega sem þeir hæstv. ráðh. og Hannibal Valdimarsson gerðu þá nótt. Þá nótt var það lóðið þyngra á vogarskálinni að tryggja. þeim mönnum í fylkingunni, sem sóttu fram og hæst voru launaðir, viðbætur, sem aðeins urðu kjarabætur á yfirborðinu, en ekki raunverulegar, en hitt, að standa við gefin loforð til gamla fólksins. Þá nótt var lambið sannarlega tekið frá þeim fátæka til þess að færa það á borð hins ríkari. Þá nótt var farið inn á þá braut, sem hlaut að lenda í algeru hruni fyrir tryggingarnar fjárhagslega, ef ekki yrði af henni snúið. Og þetta var gert af hæstv. ráðh. þess flokks, sem vildi vísa málinu frá, vegna þess að fjárhagsgrundvöllurinn var ekki nógu tryggur 1945.

Samkv. lögunum frá 1946 skyldi næstu fimm ár, eða til loka ársins 1951, skerða elli- og örorkulífeyri eftir ákveðnum reglum, en að þeim tíma liðnum skyldi skerðingarákvæðið falla niður. Rökin, sem færð voru fyrir því, að rétt væri að skerða ellilífeyrinn svo sem að framan greinir, voru þau, að lífeyrisþegi hefði ekki greitt nema fá ár til trygginganna og gæti því ekki að tryggingarétti krafizt fullra bóta, þó svo að hann væri þá kominn yfir aldurstakmarkið. Á þessi rök var þá fallizt. En það var hins vegar aldrei gert ráð fyrir því, að skerðingin yrði ákveðin um aldur og ævi, svo sem nú er gert í þessu frv. Með því ákvæði, et að lögum verður, er gamla fólkið svipt rétti, sem það hafði fyllstu ástæðu til þess að ætla að það fengi að halda í framtíðinni. Að vísu hefur skerðingarákvæðið verið framlengt frá ári til árs síðan 1951, en því jafnan borið við, að það væri vegna þess, að endurskoðun laganna stæði fyrir dyrum og fyrr en henni væri lokið, þætti ekki rétt að afnema að fullu skerðingarákvæðið, því að þá þyrfti m.a. að sjá tryggingunum fyrir nýjum tekjum og þá jafnframt að athuga gaumgæfilega allan fjárhagsgrundvöll trygginganna. Og það var einmitt með þetta fyrir augum, að sett var inn í tryggingalöggjöfina ný grein 1948, sem mælir svo fyrir, að heildarendurskoðun laganna skuli hraðað svo, að niðurstöður hennar liggi fyrir Alþ. því, er saman skyldi koma 1949. Var endurskoðunin einmitt gerð með það fyrir augum fyrst og fremst að tryggja svo fjárhagsgrundvöllinn, að ekki þyrfti að framlengja skerðingarákvæðið hvað snertir ellilífeyrinn. Alþfl. fór þá með félagsmálin í ríkisstj. Ef treysta hefði mátt því öllu, er hann hefur sagt um tryggingamálin og baráttu hans fyrir umbótum á þeim, hefði mátt ganga út frá því sem öruggu, að hann léti hraða endurskoðun laganna, m.a. til þess að tryggja, að þetta ákvæði félli ekki niður. En þegar ráðh. flokksins nærri ári síðar fer úr ríkisstj., hefur hann ekkert gert í því að láta endurskoða lögin, svo sem lög mæltu þó fyrir um. Þegar aftur er tekin við ríkisstj., sem þingmeirihluta á á bak við sig, fellur það í hlut Framsfl. að fara með tryggingamálin, og hefur verið svo jafnan síðan.

En þó að ýmsar nýjar leiðir væru farnar í efnahagsmálunum, var ekkert sinnt um að ljúka endurskoðun tryggingalaganna, og það er ekki fyrr en 7. maí 1954, eða fimm árum síðar en endurskoðuninni skyldi lokið samkv. lögum, að hæstv. ráðh. tekur á sig rögg og skipar mþn. til þess að framkvæma endurskoðunina. Er n. sérstaklega falið að athuga gaumgæfilega fjárhagslegan grundvöll trygginganna, að hafa hliðsjón af samþykktum alþjóðavinnumálastofnunarinnar um lágmarksákvæði almannatrygginga svo og samningum aðildarríkja Evrópuráðsins, að leita umsagna og till. hjá bæjarstjórnum og hreppsnefndum í landinu og öðrum þeim aðilum, sem n. álítur gagnlegt að hafa samráð við um tryggingalöggjöfina og framkvæmd hennar, og semja síðan frv. til heildarlaga um tryggingarnar. Form. nefndarinnar var skipaður skrifstofustjóri félmrn. Verður að líta svo á, að sú stefna, sem nú skal marka með frv., sé a.m.k. engan veginn í andstöðu við Framsfl.

Þegar lögin frá 1946 um almannatryggingar voru sett, urðu að sjálfsögðu allmiklar umræður um þau hér á Alþ. og ágreiningur um mörg atriði þeirra. Innan þáverandi stjórnarflokka, sem komið höfðu sér saman um afgreiðslu málsins, var nokkur ágreiningur og í sumum atriðum allverulegur ágreiningur um málið, Var sá ágreiningur einkum fólginn í því, að báðir samstarfsflokkar Sjálfstfl. vildu ganga miklu lengra í bótagreiðslum en gert var. En Sjálfstfl. leit jafnan svo á, að það væri höfuðverkefni sitt í sambandi við afgreiðslu laganna að tryggja, að bótaþegar fengju örugglega þær bætur, sem ákveðnar yrðu í frv., því að flokknum var ljóst frá upphafi, að án þess voru lögin fólkinu einskis virði, en flestar till. samstarfsflokkanna voru þess eðlis, að þær veiktu fjárhagskerfi trygginganna, en styrktu það ekki. Aðrar till. þeirra svo og till. stjórnarandstöðunnar, Framsfl., fóru hins vegar í gagnstæða átt, þótt ekki fengist fyrir þeim meiri hluti. Með tilliti til afstöðu hv. formanns Framsfl. í hinni rökstuddu dagskrá var barátta hans fyrir þeim tillögum allt. í senn skiljanleg, sanngjörn og réttlát. Það vekur því enn meiri undrun, að flokkurinn skuli nú, þegar hann fer með þessi mál og lætur fara fram heildarendurskoðun laganna, ekki minnast einu orði á þá stefnu, sem hann þá barðist fyrir að tekin væri upp til þess að tryggja efnahagsgrundvöll trygginganna. Þrátt fyrir þennan ágreining um afgreiðslu málsins, sem ég hef hér lýst, var fullt samkomulag um að samþykkja lögin með þeim breytingum, sem Sjálfstfl. ýmist bar fram eða gat fallizt á. Hefur sá flokkur síðan einn allra flokka í þinginu staðið við þau heit að tryggja það, að löggjöfin væri raunhæf fyrir fólkið í landinu.

Ágreiningur Framsfl. um afgreiðslu málsins var ekki einasta sá, sem fram kom í rökstuddu dagskránni, er ég hef hér áður minnzt á, heldur og í eftirfarandi atriðum:

1) Að landinu væri skipt í tvö verðlagssvæði, en með því væri framið misrétti á mönnum eftir búsetu.

2) Að mismunur væri gerður á því, hvort hinir tryggðu væru launþegar eða atvinnurekendur, og í því fælist óþolandi ranglæti.

3) Að iðgjöldin væru ekki að einhverju leyti tekin með hundraðshlutagjaldi af tekjum manna.

Önnur ágreiningsatriði voru þýðingarminni og skulu ekki rakin hér.

Þegar svo heildarendurskoðunin er loksins framkvæmd undir forustu Framsfl. og ráðherra flokksins leggur að endurskoðuninni lokinni fram stjfrv. um breytingar á löggjöfinni, hlýtur það að vekja allmikla undrun, að það er engin tilraun gerð til þess að koma á þessum umbótum, sem 1946 þóttu svo mikils virði, að rétt þótti að vísa málinu frá vegna þess, að þær till. fengjust ekki samþykktar. Nú er látin niður falla af flokksins hálfu baráttan fyrir því að hafa allt landið eitt verðlagssvæði, baráttan fyrir því, að menn skyldu hafa sama rétt, hvar sem búseta væri. Ranglæti, sem svo mjög var túlkað að verið væri að fremja á fólkinu 1946, er orðið að réttlæti 1956. Sama er að segja um annað ágreiningsatriðið. Það er ekki lengur neitt ranglæti að dómi Framsfl., að atvinnurekendur skuli ekki sitja við sama borð og launþegar hvað snertir tryggingarákvæði laganna. Einnig þetta hefur breytzt á einum áratug.

Hvað er þá eftir af áhuga Framsfl. fyrir umbótum á tryggingalöggjöfinni? Ef dæma skal eftir frv., sem hér er til umr., verður ekki séð, að það sé neitt annað en það að svipta gamla fólkið þeim rétti til ellilífeyris, sem því var tryggður með lögunum frá 1946, ef þeim hefði ekki fyrir aðgerðir Framsfl. verið breytt hvað þetta atriði snertir, og svo hitt, að fella niður heilsugæzlukaflann. Í því sambandi vil ég mega spyrja þá menn, sem að þessari breytingu standa: Er það álit þeirra, að það sé rangt að standa við gefin loforð um greiðslu óskerts ellilífeyris til fólksins, sem greitt hefur árum saman iðgjöld til trygginganna, m.a. í trausti þess að fá að njóta bótanna, þegar ellin færist yfir? Eða er það rangt að vinna að því í sambandi við heilbrigðisstjórnina, að látin verði í té skipuleg heilsugæzla, er nái sem bezt til allra landsmanna? En með því frv., sem hér liggur fyrir, er breytt skyndilega frá þeirri stefnu, sem svo örugglega var mörkuð í þessa átt með lögunum 1946. Og þetta er gert á sama tíma sem Alþ. sendir fulltrúa í Norðurlandaráð til þess að vera þar fremstir í fylkingu með hinum Norðurlandaþjóðunum að koma á skipulegri heilsugæzlu um allan heim til þess á þann hátt að draga úr sjúkdómum, sem þjá mannkynið, og öllu því böli og allri þeirri sorg, sem sjúkdómum er jafnan samfara. Og þetta er ekki gert vegna óbærilegs kostnaðar, því að vitað er, að vel og viturlega skipulögð heilsugæzla kostar þjóðina minna, þegar öllu er á botninn hvolft, en óskipulagt heilsugæzlufúsk, heldur stafar þetta beinlínis af því, að ráðherra, forstjóri Tryggingastofnunarinnar og tryggingaráð hafa allir bognað fyrir stéttarvaldi læknanna og látið þannig hrekja sig nauðuga af réttri leið inn á brautir, sem hvort tveggja eru í senn óskynsamlegri og dýrari, þegar til lengdar lætur, fyrir þjóðfélagið. Það er sannarlega kaldhæðni örlaganna, að sá stjórnmálaflokkurinn, sem árum saman áttí allan sinn vöxt og veldi undir stéttvísinni í landinu, skuli nú verða að beygja sig fyrir þessu sama valdi og sætta sig við, að einmitt það skuli þoka einu mesta áhugamáli flokksins af réttri braut.

Af því, sem ég hér hef bent á, er ljóst, að með frv. því, sem hér er til umr., er stigið stórt spor aftur á bak frá því, sem unnizt hefur í tryggingamálunum. Ég mun því undir meðferð málsins í nefnd gera tilraun til þess að koma fram nokkrum breytingum á frv., þótt mér hins vegar sé ljóst, að þar muni verða allmiklir erfiðleikar á, eftir þá meðferð, sem málið hefur þegar fengið, einkum og sér í lagi ef það er rétt, að hæstv. ráðh. leggi á það áherzlu, að sem allra minnst sé hróflað við frv., og að hann muni beita sér fyrir því, að það verði samþ. sem mest óbreytt, eins og það nú liggur fyrir. En auk þeirra atriða, sem ég þegar hef bent á, skal ég geta hér nokkurra annarra, er ég tel að breyta þurfi í frv., áður en það er gert að lögum.

Í I. kafla frv. er svo mælt fyrir, að stofnuninni skuli stjórna fimm manna tryggingaráð, kosið af Alþ., ásamt einum forstjóra, er ráðherra skipar. Samfara þessu skuli svo ráðinn skrifstofustjóri, sérfræðingar og deildarstjórar. Er þetta sama fyrirkomulag og verið hefur, nema hvað við er bætt nauðsynlegum starfsmönnum vegna aukinna starfa. Eins og kunnugt er, ræður þessi stofnun orðið yfir tugmilljóna króna sjóðum, og framkvæmd þessara mála snertir svo að segja hvert einasta mannsbarn í landinu. Ég tel bæði skylt og sjálfsagt, að yfirstjórn stofnunarinnar sé breytt þannig, að tryggingaráð, sem kosið er af Alþ. og ber alla ábyrgð á rekstri stofnunarinnar, skipi forstjóra hennar, einn eða fleiri, eftir því sem þurfa þykir. Þarf þessi skipan ekkert að auka fólkshald stofnunarinnar, þar sem forstjórarnir, ef fleiri væru en einn, tækju að sér að sjálfsögðu störf, sem nú eru ætluð undirmönnum forstjórans. Það yrði t.d. mjög eðlilegt, að tryggingafræðingur væri forstjóri og einnig tryggingalæknir, þannig að sérþekking væri fyrir hendi í sjálfri stjórn stofnunarinnar.

Þá gerir frv. ráð fyrir því að lögbinda sýslumenn og bæjarfógeta sem umboðsmenn trygginganna. Þetta ákvæði tel ég að nái ekki nokkurri átt, því að þótt reynslan hafi sýnt, að þeir hafa að jafnaði verið sæmilegir umboðsmenn og sumir hverjir mjög góðir, þá eru þó dæmi til hins, að þeir hafa reynzt þannig, að óverjandi væri að tryggja svo umboð þeirra, að því verði ekki riftað nema með lagabreytingum. Mér er m.a. kunnugt um, að þau dæmi eru til, að umboðsmaður hefur alveg gagnstætt fyrirmælum laganna haldið bótagreiðslum, þar til viðkomandi sveitarfélag hefur gert full skil á sínum gjöldum til trygginganna, og þetta orsakað það, að bótaþegar hafa ekki fengið á réttum tíma sínar greiðslur, auk ýmissa annarra mistaka í framkvæmd. Má nærri geta, hversu miklu erfiðara þar verður fyrir fólkið að ná rétti sínum gagnvart slíkum mönnum, ef búið er að löggilda þá sem umboðsmenn. Auk þess er það ekkert til að spara útgjöld, nema síður sé, því að svo lengi sem þessum mönnum er ekki ætlað að inna störfin af hendi án aukagjalds, verður ekki hægara að semja um þóknunina, þegar lagabreytingu þarf til þess, að hægt sé að skipta um umboðsmann.

Ákvæði í II. kafla um heimild til þess að mega flytja héruð á milli verðlagssvæða er til bóta, en ég teldi eðlilegast, að sú heimild yrði gerð víðtækari, þannig að héruðin gætu á fjögurra ára fresti ákveðið það sjálf, hvaða verðlagssvæði þau vildu tilheyra.

Í sama kafla er haldið ákvæði um það, að elli- og örorkulífeyrir skuli lúta sömu reglum, bæði hvað snertir skerðingu og viðbæti. Tel ég, að þessu ákvæði þurfi að breyta. Elli- og örorkulífeyrir lúta hvor um sig algerlega óskyldum lögmálum. Þegar bótaþegi hefur t.d. greitt iðgjald til trygginganna allt sitt líf frá 16 ára aldri til 67 ára, er það ranglæti að skerða ellilífeyri hans, hvernig svo sem efnahag hans eða heilsu hans er farið. Þetta á ekkert skylt við lífeyri öryrkja, sem greiða verður, þótt hann hafi lítið eða ekkert greitt til trygginganna, hafi hann t.d. verið öryrki frá fæðingu. Það er hins vegar engan veginn nóg að setja sérákvæði um örorkulífeyri, heldur þurfa ákvæðin um örorku að vera miklu víðtækari en þau eru nú í frv., m.a. um skyldu trygginganna til þess að sjá þeim fyrir skólum og vinnu við þeirra hæfi. Þjóðin glatar hér tugum þúsunda dagsverka á ári hverju með því að vanrækja þessi mál. Með því að koma á fót öryrkjaskólum, þar sem þeim væri kennt að mæta erfiðleikum lífsins með þeim starfskröftum, sem þeir eiga yfir að ráða, og með þeirri aðstoð, sem eðlilegt og sjálfsagt er að láta þeim í té, miðað við orku þeirra á hverjum tíma, og með því enn fremur að koma upp öryrkjaheimilum, þar sem öryrkjunum er skapaður samastaður og starf við þeirra hæfi og þar sem þeir væru jafnframt þjálfaðir til sjálfsbjargar, væri ekki einasta fyrirbyggt, að tugum þúsunda dagsverka væri lengur á glæ kastað á ári hverju, heldur mætti þannig draga mjög úr þeim kostnaði, sem tryggingarnar hljóta jafnan að hafa vegna öryrkjanna. En langmesti vinningurinn yrði þó í því fólginn, að með þessu skapaðist meðal öryrkjanna sjálfra meiri lífsgleði, þeir mundu þannig sætta sig betur við hin hörðu og hrjúfu lífskjör, sem þeir hafa verið dæmdir til, og það eitt út af fyrir sig er svo mikils virði, að torvelt er að meta það til fjár. Fyrir þá litlu og veiku viðleitni, er ég hef reynt að sýna til þess að skilja kjör þessa fólks, hef ég fengið margvíslegar áskoranir um að halda áfram baráttunni fyrir bættum kjörum þess. Þetta fólk myndar ekki með sér stéttarfélag til þess að bæta kjör sín. Þetta fólk notar ekki verkfallsréttinn til að skapa sér betri lífskjör. Eina von þess er, að einhverjir fáist til þess að skilja, að það á líka rétt til þess að lifa og starfa. Og Tryggingastofnunin á fyrst og fremst að hafa á því fullan skilning, en af frv. verður ekki séð, að mþn. hafi þótt þetta atriði nokkurs virði.

Tekið er upp í ákvæði frv. að greiða fullan barnalífeyri til 16 ára aldurs með börnum, þótt móðirin giftist og komist í hátekjur. Hér er ekki verið að skera bæturnar við nögl sér, svo sem gert er víða á öðrum stöðum. Er þetta þveröfugt við það, sem á sér stað um konur, sem taka eftirlaun, en missa þau, ef þær giftast. Hér er farið inn á mjög varhugaverða braut, og er þess vænzt, að þetta verði leiðrétt

Þá er enn haldið þeirri reglu að greiða fullar bætur með börnum til 16 ára, en láta þau þegar á seytjánda ári greiða fullt iðgjald til trygginganna. Þessu ákvæði þarf að breyta. Gæti komið til greina að draga úr bótunum á aldrinum 14–16 ára, þar sem vitað er, að flestir unglingar afla þó nokkurra tekna á því aldursskeiði, og lækka jafnframt iðgjöld unglinganna til trygginganna á aldrinum 16–20 ára, eða beinlínis að fara síðari leiðina, ef hin þykir ekki fær. Í hinu er engin sanngirni, að greiða fullar bætur með heilbrigðu barni til 16 ára, en krefja fyrir það fullt gjald þegar á seytjánda ári.

Þá þarf nánar að athuga ákvæðið um það, hverjir skuli undanþegnir iðgjaldagreiðslum. Eftir að skattalögunum var breytt og sparifé undanskilið framtali til tekju- og eignarskatts, er ekki rétt, að framtal tekju og eigna sé viðmiðun á sama hátt og áður var. Eigi maður ekki aðrar eignir en sparifé og hafi ekki aðrar tekjur, á það eitt út af fyrir sig ekki að geta leyst hann undan eðlilegum greiðslum til trygginganna, ef þær eignir og tekjur eru meiri en hinna, sem verða að gefa þær upp til skatts, af því að féð er ekki ávaxtað á banka. Einnig þarf nánar að athuga ákvæði frv. um vinnumat barna, unglinga og gamalmenna og iðgjaldagreiðslur í sambandi við vinnu þeirra.

Í III. kafla frv. er haldið sömu reglu um skilgreiningu þeirra, sem slysatryggðir eru, eins og nú er í lögunum, en einmitt þetta ákvæði er eitt af þeim, sem valdið hafa miklum ágreiningi öll árin síðan lögin voru sett.

Í IV. kafla er sett inn nýtt ákvæði um, að greiða skuli til lækna sérstakt gjald fyrir sjúkravitjanir og viðtöl. Er furðulegt, að nefndin skuli leggja til að heimila einni stétt að skattleggja þannig almenning, en hér hefur hún einnig sýnilega bognað fyrir stéttarafli læknanna. En það er engum aðila til sóma að lögfesta þetta ákvæði.

Haldið er sömu reglu og í l. um mismunandi greiðslu sjúkradagpeninga til hinna tryggðu eftir því, hvort um er að ræða launþega eða atvinnurekanda. Einnig þetta ákvæði hefur valdið mikilli deilu og megnri óánægju. Og öðru hjóna, hvort heldur það er maðurinn eða konan, eru ekki ætlaðir sjúkradagpeningar, ef hitt getur á einhvern hátt séð fyrir því, að heimilið líði ekki skort. Verður ekki annað sagt en að hér sé viðhaldið úreltu og óvenjulegu tryggingaákvæði, sem þarf að breyta. Eða hvað mundu menn segja um það að greiða út iðgjöld til brunatrygginga og fá því aðeins tryggingaféð greitt, ef eignin ferst í eldi, að sannað sé, að eigandinn komist ekki af nema að fá upphæðina greidda? Og ýmis önnur ákvæði eru í þessum kafla, er frekari athugunar þurfa við.

Í V. kafla er gert ráð fyrir að halda því ákvæði í lögunum að greiða ekki ellilífeyri til bótaþega, ef hann dvelur af öðru en heilsufarsástæðum erlendis í meira en tólf mánuði. Þetta ákvæði þarf að afnema. Í þessum kafla eru auk þess ýmis ákvæði, sem athuga þarf nánar en gert er.

Atriði þau, sem ég hef í ræðu minni bent á, sýna, að mjög flausturslega hefur verið unnið að heildarendurskoðun laganna og að þar er gengið fram hjá mörgum veigamiklum atriðum, sem taka hefði átt upp í frv., að mörgum ákvæðum er þar haldið, sem umbóta er þörf, og að önnur eru niður felld, sem ekki átti að afnema.

Eins og sést á nál. á þskj. 270, hafði heilbr.-og félmn. beggja deilda samvinnu um athugun á frv. í upphafi, og var sú vinnuaðferð sjálfsögð í svo veigamiklu máli. Lásu nefndirnar saman frv., og gerðu nm. þá þegar sínar aths. við þær greinar, er þeim þótti eitthvað athugavert við og nauðsynlegt að fá breytt til batnaðar. Er mér óhætt að fullyrða, að nm. þessarar hv. d. sinntu þessum yfirlestri og þeirri athugun, sem þar fór fram, engu síður en nm. hv. Nd. En það einkennilega gerist, að þegar þarf að fara að ræða þessi mál og vinna úr athugasemdunum til þess að komast að samkomulagi um breytingar, lýsir hv. formaður neðrideildarnefndarinnar því yfir, að hann vilji ekki hafa frekari samvinnu við heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. um afgreiðslu málsins. Hvað hér hefur legið á bak við, skal ég engum getum að leiða, en þessi málsmeðferð er sannarlega ekki til eftirbreytni.

Ég mun að sjálfsögðu fylgja frv. til 2. umr. og n. og gera þar, eins og ég áður hef sagt, tilraun til þess að koma fram nauðsynlegum umbótum. Verði hins vegar engum breytingum komið þar við, tel ég eðlilegast að vísa málinu frá vegna hins takmarkaða undirbúnings, sem það hefur fengið í mþn., því að að mínu áliti er tryggingalöggjöfin óbreytt betri en hún verður, ef frv. þetta er samþ. án breytinga.