26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

89. mál, almannatryggingar

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til almannatryggingalaga, sem hér liggur fyrir á þskj. 401, er undirbúið af mþn., sem ríkisstj. skipaði í maí 1954. Hér er um að ræða, eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, heildarendurskoðun laganna frá 1946. Frv. felur að sjálfsögðu í sér ýmsar veigamiklar breytingar á gildandi löggjöf. Efni þess verður ekki rakið í þessari framsögu að nokkru marki. Frv. fylgir ýtarleg grg., sem innibindur m.a. álit og skýringar mþn., og málið hefur legið lengi fyrir þingi og hv. þm. gefizt tóm til að kynna sér það. Ég vil þó leyfa mér að víkja að örfáum breytingum, sem frv. felur í sér, miðað við þá löggjöf, sem gildir.

Ein meginbreytingin er í sambandi við fjárhagsgrundvöllinn, þ.e., hverjir skuli bera útgjöld lífeyristrygginganna. Til þessa hefur framlag ríkissjóðs og þátttaka annarra aðila verið ákveðið með lögum í krónutölu. Eftir frv. er hins vegar slegið fastri hlutfallslegri þátttöku þessara aðila. Fjárhæðin, sem ætlað er, að nota þurfi árlega, er áætluð fyrir fram, og það, sem skakka kann, er síðan ætlazt til að leiðrétt sé við áætlun næsta árs. Þetta er ákaflega stórt atriði, eins og augljóst er. Fram til þessa hefur alltaf verið nokkur óvissa um tekjur stofnunarinnar hverju sinni, sbr. það, að margsinnis hefur þurft að setja lög um þessi atriði, t.d. um framlag ríkissjóðs og einnig þátttöku annarra þeirra aðila, sem kostnaðinn bera. En eftir frv. má segja, að hallarekstur stofnunarinnar sé fyrirbyggður í framtíðinni, að það sé séð fyrir nægum tekjum til að standa straum af þeim gjöldum, sem lögin gera ráð fyrir, og einnig, að tryggt sé, að nokkurt fé leggist fyrir árlega til nauðsynlegra sjóða, er þá tryggi það varanlega, að lögin geti svarað til þess, sem til er ætlazt.

Með frv. er gert ráð fyrir töluverðri tilfærslu á bótum. Fjölskyldubætur með öðru barni eru felldar niður, en þar í móti eru aukin réttindi á ýmsum sviðum. M.a. er leyft að hækka verulega uppbót á lífeyri til þeirra öryrkja og gamalmenna, sem þurfa sérstakrar umönnunar vegna sjúkleika. Áður var heimilt að hækka venjulegan lífeyri um 40% undir þessum kringumstæðum, en þessi heimild er nú hækkuð í allt að 100%. Í sambandi við þetta er einnig sú breyting á gerð, að sveitarsjóðir skulu greiða að 2/5 hlutum þessa hækkun. Eigi að síður er þetta ákvæði til mikilla hagsbóta fyrir sveitarsjóðina, miðað við það, sem nú gildir. Þá er nokkuð rýmkuð skerðing elli- og örorkulífeyris vegna tekna og lífeyrir almennt hækkaður nokkuð til samræmis við launahækkanir, sem orðið hafa í landinu. Þá hækka mæðralaun verulega og barnalífeyrir fellur nú ekki niður, þótt ekkja giftist aftur.

Í stórum dráttum má segja, að frumv. feli í sér auknar bætur og aukin réttindi. Vitanlega verða menn ekki á eitt sáttir, hvar skuli nema staðar í þessu sambandi. Hitt liggur í augum uppi, að auknum bótum og auknum réttindum hljóta að fylgja auknar álögur vegna þessara mála, og verður að sjálfsögðu alltaf matsatriði, hvar numið skuli staðar og hvað hóflegt sé að heimta inn í þessu skyni. Um það bera líka vott ýmsar brtt., sem hér liggja nú fyrir, að mönnum sýnist sitt hverjum um þetta efni.

Þá er það mikil breyting, að heilsugæzlukafli laganna frá 1946 fellur niður, — það er lagt til að fella hann niður. Um þetta eins og raunar fleiri atriði var leitað álits sveitarstjórna og bæjarstjórna um allt land, og það kom alveg óvírætt í ljós, að þessir aðilar vildu halda því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum, þ.e.a.s. viðhalda sjúkrasamlögunum. Sama var og skoðun lækna, félagssamtaka þeirra, sem sögðu sitt álit um þetta mál. Hins vegar eru svo gerðar nokkrar breytingar á skipun sjúkrasamlaganna. Þeim hafði einkum verið fundið tvennt til foráttu, það fyrst, að smæstu samlögin væru svo lítil, að þau reyndust ekki fær um að standa undir sínum skyldum, ef um meiri háttar áföll af sjúkdómum væri að ræða, og það annað, að reikningsskilum frá hinum ýmsu sjúkrasamlögum, sem eru yfirleitt innt af höndum sem alger tómstundavinna í öllum hinum smærri samlögum, þótti nokkuð áfátt.

Það varð að ráði í mþn. að leitast við að bæta úr þessum ágöllum með myndun héraðssamlaga. Þeim eru ætluð þessi tvö meginhlutverk, að endurskoða reikninga samlaganna og framkvæma jöfnun milli þeirra eftir reglum, er nánar eru tilgreindar í frv. Í þessu sambandi er einnig tekin upp sú breyting, sem er töluvert þýðingarmikil og til mikilla þæginda fyrir landsbyggðina, að flytja afgreiðslu sjúkradagpeninganna frá aðalskrifstofunni í Reykjavík út til samlaganna. Þetta er rökstutt m.a. með því, að sjúkradagpeningarnir séu einn þáttur sjúkratrygginganna og eigi þess vegna að afgreiðast á sama vettvangi og önnur hliðstæð atriði, þ.e.a.s. hjá sjúkrasamlögunum.

Ég sé ekki ástæðu að tefja tíma og ræða ýtarlega einstök atriði frv. og fer ekki nánar út í þau. En ég hygg, að það megi segja um þetta frv. almennt, að það sé að formi og byggingu töluvert ljósara og einfaldara en þau lög, sem gilt hafa, og er það í rauninni ekki nema eðlilegt, þar sem þetta frv. er samið með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þessum málum í 10 ára starfi. En lögin 1946 voru að verulegu leyti frumsmíð.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur rætt þetta frv. ýtarlega á mörgum fundum. Hjá nefndinni lágu einnig fyrir erindi frá nokkrum félagssamtökum, sem jafnframt voru tekin til meðferðar. N. var ásátt um að mæla með samþykkt frv. með nokkrum breytingum, sem n. öll flytur og liggja hér fyrir á þskj. 580. En að öðru leyti hafa nefndarmenn þó óbundnar hendur að flytja brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Meginbrtt. í till. n. er við 23. gr. varðandi skerðingu lífeyris vegna tekna. Skerðing lífeyris vegna tekna var sett inn í lögin 1946 sem bráðabirgðaákvæði. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir því, að skerðingin haldist nú um ótiltekinn tíma. N. gat ekki fallizt á þetta, en leggur til, að skerðingin haldizt til ársloka 1960. Og eins og segir í nál., væntir n. þess, að ríkisstj. hafi þá látið fara fram í samráði við Tryggingastofnun ríkisins athugun á því, hvernig tiltækilegast þætti að afnema skerðingarákvæðin og hvaða lagabreytingar þyrfti að gera til þess samhliða að tryggja fjárhagsgrundvöll trygginganna. Þetta er í rauninni meginefnisbreytingin í till. nefndarinnar.

2. till. er nánast orðalagsbreyting, sem ástæðulaust er að ræða og skýrir sig sjálf.

3. till. á þskj. 580 er leiðrétting, hún er við a-lið 39. gr., þ.e., að lífeyrir ekkju eða ekkils, 50 ára eða eldri eða sem hefur tapað 50% af starfsorku sinni eða meira við fráfall maka, hækki til samræmis við almennan ellilífeyri. Þetta mun mega skoðast sem leiðrétting.

4. brtt. n. er í aðalatriðum afleiðing þeirrar breytingar, sem gerð var í hv. Nd., þegar tekið var inn í frv., að Tryggingastofnunin skyldi annast greiðslu meðlaga með óskilgetnum börnum.

N. var ekki sammála um aðrar breytingar en þessar fjórar á þskj. 580.

Till. á þskj. 581 frá hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. S-Þ. og mér mun að miklu leyti mega skoðast sem afleiðing af þeirri breytingu, sem gerð var í Nd. í sambandi við greiðslu meðlaganna. Er hún nauðsynleg, ef sú breyting annars stendur áfram í frv. og ef ekki verður fallizt á það, sem nú er lagt til í annarri brtt., að gefa Tryggingastofnuninni beinan aðgang að ríkissjóði með endurgreiðslu á þessum hlutum.

Síðasta brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 576 er um það, að við bætist ákvæði til bráðabirgða um, að ríkisstj. láti í samráði við Tryggingastofnun ríkisins og öryrkjafélögin í landinu fara fram athugun á því, á hvern hátt hagkvæmast verði nýtt starfsorka öryrkjanna o.s.frv. Um þessa brtt. vil ég segja, að hún hefur ekki verið verulega rædd í hv. n. Hér er að sjálfsögðu um hið þarfasta mál að ræða, en mér virðist fljótt á litið, að betur færi kannske á því, að þetta atriði væri sett fram í þingsályktunartill. heldur en að skeyta það við almennu tryggingalögin sem bráðabirgðaákvæði.

Önnur atriði í till. einstakra hv. deildarmanna, sem hér liggja nú fyrir, hafa verið rædd allýtarlega í n. og ekki fengizt um þau samkomulag. Ég mun ekki gera þær till. að umtalsetni að sinni. En eins og ég hef þegar tekið fram, leggur heilbr.- og félmn. til, að frv. verði samþ. með tilteknum breytingum, sem ég hef þegar gert grein fyrir, en einstakir nefndarmenn áskildu sér algerlega óbundnar hendur að öðru leyti.