26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

89. mál, almannatryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það voru miklar vonir tengdar við endurskoðun tryggingalaganna. Frumvarps mþn., sem að þessum málum starfaði, var beðið með óþreyju. Skylt er að viðurkenna, að í frv. þessu felast nokkrar endurbætur. Veigamestar þeirra tel ég vera endurbæturnar á mæðralaununum, svo að nú fyrst geta þau kallazt mæðralaun meira en aðeins að nafni, og svo rýmkunin á skerðingarákvæðum lífeyrisins. En að því er tekur til ýmissa annarra atriða, álít ég, að það sé um mikla afturför að ræða. Er þá fyrst að nefna, að heilsugæzlukafli laganna er með öllu felldur niður, eftir að honum hafði verið frestað, frá því að hann var tekinn í lög árið 1946. Þetta eru mikil vonbrigði, því að nú höfðu flestir búizt við, að hann mundi að lokum koma til framkvæmda. Þetta er mikið undanhald í tryggingamálum landsins.

Þá er réttur til fjölskyldubóta skertur, þar sem fjölskyldubætur skulu nú fyrst greiddar með þriðja barni. Fjölskyldubæturnar, eins og þær eru nú, voru samkomulagsatriði í samningum við verkalýðsfélögin 1952. Hér er því um hrein brigðmæli að ræða. Það var alltaf gengið út frá því, að þessar réttarbætur yrðu til frambúðar, og skiptir þá engu máli, þó að ýmsir séu þeirrar skoðunar, að aðrar endurbætur á lögunum væru meira aðkallandi. Það hefði t.d. verið til lítils barizt, ef atvinnuleysistryggingarnar yrðu numdar úr lögum, um leið og núverandi samningar ganga úr gildi, en það væri hliðstæða.

Til þess að verkalýðssamtökin geti treyst ríkisvaldinu, þarf það að standa við skuldbindingar sínar í þeim skilningi, sem í þær er lagður, þegar samningar eru gerðir.

Þá var eitt mikilvægt atriði í frv., eins og það var lagt fram, til stórskemmdar á lögunum. Milliganga Tryggingastofnunarinnar um innheimtu barnsmeðlaga skyldi felld úr gildi. Það er til lítils að skírskota til þess, að mæðrunum skyldu tryggð barnsmeðlögin fyrir milligöngu sveitarfélaganna. Lagaákvæðin í því frv., sem lagt var fyrir um það efni af nefndinni, voru nákvæmlega eins og gömlu ákvæðin, frá orði til orðs, að því einu undanskildu, að nú áttu mæðurnar að geta leitað aðstoðar valdsmanns. Maður skyldi nú ætla, að slíkt þyrfti ekki að taka fram í lögum, — eða liggur það ekki í hlutarins eðli, að hverjum manni sé heimilt að snúa sér til valdsmanns, ef hann nær ekki rétti sínum? Mæðurnar hafa langa og sára reynslu af þessu fyrirkomulagi, sem ekki aðeins kostaði þær mikið erfiði og oft ærinn kostnað, heldur gerði þeim í sumum tilfellum ómögulegt að ná rétti sínum. Það þótti því mjög mikilvægur árangur, þegar milliganga Tryggingastofnunarinnar var lögfest, og nú átti að gera þennan mikla árangur í réttindabaráttu þessara kvenna að engu. Sem betur fer, hefur hv. Nd. leiðrétt þetta og horfið að hinn fyrra fyrirkomulagi.

Lífeyrisgreiðslur hafa ekki verið hækkaðar nema til samræmis við almennar launahækkanir opinberra starfsmanna og ekki nema um brot af þeim heildarlaunahækkunum, sem lögfestar hafa verið þeim til handa. Þær haldast ekki einu sinni í hendur við þær kjarabætur, sem verkamenn fengu í verkföllunum í vor. Nú eru gífurlega miklar verðhækkanir að fara fram og fram undan, og því er auðsætt, að kjör lífeyrisþega munn stórlega versna. Ég held, að allir hljóti að viðurkenna, að þeir megi sízt við því af öllum. Lífeyrisgreiðslur trygginganna eru svo hneykslanlega lágar, að þær nema ekki nema litlu broti af því, sem menn alveg nauðsynlega þurfa til lífsframfæris, þannig að mjög er fjarri því, að tryggingarnar nái tilgangi sínum. Þess vegna höfum við sósíalistar ár eftir ár borið fram till. um hækkun lífeyrisins, og við gerum það enn á þessu þingi.

Árið 1953 bar ég og hv. 6. landsk. fram frv. um, að persónugjöld trygginganna yrðu afnumin, en hið opinbera aflaði þessa fjár á sama hátt og fjár til annarrar almennrar þjónustu. Frv. þetta var afgreitt með velviljaðri rökstuddri dagskrá og vísað til mþn., sem gert var ráð fyrir að framkvæmdi heildarendurskoðun tryggingalaganna. Þeirri n. var þá beinlínis falið að taka þetta mál til athugunar. Það urðu mér því mikil vonbrigði, að n. minntist ekki á þetta og virðist alls ekki hafa leitt hugann að því. Þó er þetta ekki annað en það fyrirkomulag, sem nú er t.d. í Danmörku, þar sem eru að heita má engin önnur iðgjöld til trygginganna en sjúkrasamlagsgjöldin, sem eru mjög lág, m.a. vegna þess, að sjúkrahúsin eru að mestu rekin á kostnað hins opinbera.

Ég hef hér tölur frá 1952 um hlut hinna tryggðu í kostnaði trygginganna á Norðurlöndum. Þær tölur eru þannig: Í Danmörku greiða hinir tryggðu af heildarupphæð trygginganna 12.3%, í Finnlandi 6.9%, í Noregi 22.6% og í Svíþjóð 10%, en á Íslandi 24.4%. Á Íslandi er hlutur hinna tryggðu langhæstur. Nú er ætlazt til, að hlutur hinna tryggðu í útgjöldum trygginganna verði 32.5%. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndum er hlutur hinna tryggðu mjög smár, nema helzt í Noregi.

Nú er svo komið, að af tekjum ríkissjóðs eru hinir stighækkandi skattar orðnir aðeins örlítið brot. Á fátæku fólki hvíla nú tryggingagjöldin með miklu meiri þunga en tekjuskatturinn og verða nú tæplega 1840 kr. á ári fyrir hvern kvæntan mann í Rvík samkvæmt áætlun í greinargerð og núverandi sjúkrasamlagsiðgjöldum. Allt stefnir að því, að allar tekjur ríkisins verði lagðar á sem nefskattar og tollar.

Margt er fleira í frv., sem horfir frekar til óþurftar. T.d. tel ég fráleitt, að umboðin séu tekin af sjúkrasamlögunum úti á landi. Það er frámunalega óheppilegt, að ákveðið skuli vera með lögum, að sýslumenn og bæjarfógetar skuli annast umboðsstörf fyrir tryggingarnar. Þeir eru samningsaðili, og ef samningsaðila er fenginn í hendur óskoraður réttur, ef það er lagaskylda, að hann skuli hafa starfið með höndum, þá eru allar aðstæður til samninga orðnar ærið erfiðar. Það stappar nærri, að með þessu sé stjórn Félags héraðsdómara selt sjálfdæmi um þóknun fyrir þessi störf.

Margt fleira, sem aðkallandi hefur verið um mörg ár að leiðrétt yrði og þm. Sósfl. hafa gert tilraun til að fá leiðrétt, situr enn við sama samkvæmt þessu frv. Á ég þar við ýmis atriði varðandi lífeyri, fjölskyldubætur o.fl., og flyt ég till. um það, sem ég tel mestu máli skipta.

Ég vil að lokum minna á það, að á síðari árum hefur þróun trygginganna hér á landi dregizt allmjög aftur úr þróuninni á Norðurlöndum. 1954 höfðu útgjöld til þjóðfélagstrygginga og framfærslu á hvern íbúa á Norðurlöndum hækkað svo sem hér segir: Í Danmörku um 35%, í Finnlandi um 58%, í Noregi um 47% og í Svíþjóð um 40%, en á Íslandi aðeins um 14%.

1952 höfðu útgjöldin hér minnkað um 6% síðan 1948. Verkfallið 1952 hefur þó rétt þetta ofur lítið við með samningunum, sem gerðir voru um fjölskyldubæturnar. Allar þessar tölur eru leiðréttar vegna verðlagsbreytinga, þ.e. prósenttalan er miðuð við fast verðlag.

Í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef nú rakið, hef ég flutt nokkrar brtt. ásamt hv. 6. landsk. á þskj. 436. Margar þeirra eða svipaðar hafa verið fluttar í Nd., en sumar eru þó nýjar. Ég tek ekki hér upp mínar gömlu till. um breytingar á fjáröflun til trygginganna. Þetta er þó eitt stærsta og mikilvægasta málið, sem um er deilt í sambandi við almannatryggingarnar. En ég þykist sjá, að á þessu stígi sé tilgangslaust að freista þess að koma fram svo gagngerri breytingu. Í stað þess reyni ég að bera fram minni breytingar, sem flestar eru að mínum dómi mjög aðkallandi og margar áskoranir hafa borizt um, að samþykktar yrðu, og auk þess eina mjög stóra brtt., þá, að heilsugæzlukafli laganna verði tekinn upp í frv.

Brtt. við 8. gr. flyt ég ekki við þessa umr., þar sem ég vil fyrst fá úr því skorið, hvort heilsugæzlukaflinn verður samþykktur. En ef sjúkrasamlögin starfa áfr8m, mun ég leggja til, að þeim verði fengin í hendur umboð fyrir Tryggingastofnunina, eins og þau hafa haft hingað til. Þetta er mikils virði fyrir þau, og tel ég alveg fráleitt, að það sé lögfest, að sýslumenn o g bæjarfógetar skuli hafa þetta umboð. Það er í meira lagi óhyggilegt að lögfesta slíkan rétt fyrir viðsemjanda Tryggingastofnunarinnar.

Enn fremur mun ég leggja til, að samlögin felli úrskurð um bætur og bótagreiðslur. Nú er það svo, að mjög er kvartað undan því, að fólk úti á landi standi miklu verr að vígi en fólk í Reykjavík vegna þess, hve erfitt er fyrir það að sækja mál sín hjá Tryggingastofnuninni í Reykjavík.

Þá legg ég til, að ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækki í samræmi við það, sem ég hef áður sagt, og verði hinn sami alls staðar á landinu. Frá fjölmörgum samtökum hafa komið áskoranir um að ganga lengra í þessu efni en ég legg til. Ég tel vonlítið, að það fáist, en vil freista þess að fá Alþ. til að fallast á þessa hækkun. Þetta er um 13% hækkun frá því, sem nú er í frv.

Í öðru lagi legg ég til, að heimilt sé að greiða eiginkonum elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að óskertum lífeyri, þegar um er að ræða sérstakar kringumstæður, í stað 60%, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að þessi heimild sé ekki þrengri, og munu flestir vera sammála um það, sem nokkuð hafa fengizt við framkvæmd þessara mála.

Í þriðja lagi legg ég til, að fjölskyldubætur verði greiddar með öðru barni, eins og samið var um við verkalýðssamtökin 1952. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um það, að sjálfsagt sé að standa við þá skuldbindingu. En auk þess legg ég til, að börn ógiftra mæðra skuli fá fjölskyldubætur sem önnur börn, sömuleiðis þau börn í fjölskyldu, sem eiga framfærsluskyldan föður utan hennar. Það hafa komið kröfur um þetta frá kvennasamtökunum, og í erindi frá Mæðrafélaginu til Alþingis segir svo um þetta efni:

„Sagt er, að barnalífeyrir og fjölskyldubætur fari ekki saman. Fullnægjandi rök fyrir þessu hafa ekki verið færð. Barnalífeyrir eða meðlagsgreiðsla barnsföður er endurkræf og á í sjálfu sér ekkert skylt við bótakerfi trygginganna, því að þær annast aðeins milligöngu.“

Ég held, að það verði erfitt að mótmæla þessum rökum.

Auk þess flyt ég brtt. við 17. gr., að barnalífeyrir hækki nokkuð og verði hinn sami alls staðar á landinu. Þetta er annars til samræmis við till. mína um hækkun á elli- og örorkulífeyri. — Sömuleiðis legg ég til, að tvöfaldur barnalífeyrir verði greiddur vegna munaðarlausra barna, og mér virðist allt annað vera rökleysa.

Þá legg ég til, að skerðingarmark barnalífeyrisins verði miðað við það, að lífeyrir og aðrar tekjur nái almennu verkamannakaupi, miðað við dagvinnu. Kaupgjald er nú svipað í almennri vinnu um land allt og því eðlilegt, að miðað sé við Reykjavík. Þessi krafa hefur einnig komið frá kvennasamtökunum og er rökstudd þannig í þessu erindi Mæðrafélagsins, sem ég gat um áðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er álit okkar, að ef haldið er skerðingu á lágmarkslífeyri, eins og á sér stað um fyrrgreinda aðila, beri að hækka markið verulega, og skerðingar á barnsmeðlagi nefndra mæðra teljum við mjög óréttlátar. Það getur þó varla verið stór tekjulind að hafa föðurmeðlagið með barni sínu óáreitt af því opinbera. Við teljum þetta í fyllsta máta varhugaverða tekjuöflun fyrir það opinbera, og sama máli gegnir um öryrkja.“

Þá kem ég að stærstu till., þeirri að taka heilsugæzlukaflann upp í frv. Ég hef áður rætt um það mál, hversu ósæmilegt undanhald það er í tryggingamálum þjóðarinnar að falla frá honum, gefast beinlínis upp við það, sem talið var stærsta og merkasta nýmælið í lögunum 1946. Tillaga þess efnis befur að vísu verið felld af stjórnarflokkunum í Nd., en hér í þessari hv. d. hefur einn þm. Sjálfstfl., hv. þm. Barð., haldið langa ræðu og ágæta um það, hversu fráleitt það er að hverfa inn á slíka undanhaldsbraut nú, og hefur hinum sterku rökum hans um þetta efni ekki verið mótmælt. Aftur á móti var þessi ræða hans birt á áberandi stað í flokksblaði hans sem mikilvægt framlag án allra athugasemda. Það mætti því heita furðulegur tvískinnungur, ef flokksbræður hans snerust öndverðir gegn honum hér í deildinni, enda þótt afstaða þeirra í n. boði ekki gott. Ég taldi því alveg sjálfsagt að bera fram þessa till. í þeirri von, að hún ætti fylgi að fagna, og meira að segja ættu vonir að standa til, að meiri hluti væri fyrir henni í deildinni.

Því hefur verið haldið fram, að skilyrði fyrir framkvæmd heilsugæzlukaflans séu ekki fyrir hendi. Það er hart að þurfa að játa það, eftir að heill áratugur er liðinn síðan heilsugæzlukaflinn var tekinn í lög, enda þótt framkvæmd hans væri þá frestað. Þó er nú í því efni stiginn einn stærsti áfanginn, þar sem er heilsugæzlustöðin í Reykjavík. Og nú þegar eru til nokkur ný sjúkrahús, sem eiga að geta tekið að sér það hlutverk, sem heilsugæzlustöðvum og lækningastöðvum eru ætluð í þessum kafla, eins og landlæknir mun hafa bent á. En hér er um að ræða miklu meira en að játað sé, að skilyrði fyrir framkvæmd heilsugæzlukaflans séu ekki að fullu fyrir hendi. Hér er lagt til, að horfið verði frá þessari stórmerku löggjöf fyrir fullt og allt. Það er hið mikla undanhald. Mín till. er sú, að heilsugæzlukaflinn verði lögfestur og þegar í stað verði hafizt handa um þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru til þess, að hann geti komið til fullra framkvæmda, eins og hann er 1lugsaður. Ef þessi till. mín yrði samþ., væri líka hægt að setja bráðabirgðaákvæði, sem kveður á um það, hvaða háttur skuli á hafður, þar til heilsugæzlukaflinn kæmi til fullra framkvæmda, ef menn telja, að svo mikið skorti á skilyrðin til framkvæmda hans, að það sé nauðsynlegt.

Þá flyt ég till. um, að greiðsla fyrir læknishjálp utan sjúkrahúsa falli niður. Annar hv. þingmaður, hv. þm. Barð., flytur einnig sams konar till. Þetta er varatill., ef till. um heilsugæzlukaflann nær ekki samþykki.

Mér virðist, að frekar eigi að stefna að því að endurbæta sjúkratryggingarnar en að draga úr réttindunum, eins og gert er í þessu frv. Hér er aðeins lagt til, að ekki verði stigið skref aftur á bak í þessu efni. Það hefur verið sagt, að þetta gæti sparað sjúkrasamlögunum fé, sem hægt væri að nota til annars, en eftir undirtektum læknanna, sem mér er nokkuð kunnugt um, tel ég mjög vafasamt, að þetta hafi nokkur áhrif á það, að hægt verði að komast að betri samningum við þá, svo að ég er hræddur um, að þetta verði eingöngu til tjóns fyrir hina tryggðu, án þess að það hafi nokkur áhrif á samningana við læknana og þá ekki heldur á iðgjöld sjúkrasamlaganna.

Þá legg ég til, og það er líka varatillaga, að ríkissjóður og sveitarsjóðir skuli hvor um sig greiða jafnháa upphæð og persónuiðgjöldin nema til sjúkrasamlaganna. Ég tel, að hin almenna tryggingaskylda sé nú beinlínis í hættu vegna þess, hve iðgjöld sjúkrasamlaganna eru há. Þess vegna er nauðsynlegt, að miklu meiri styrkur af hálfu hins opinbera komi til. Þess er líka að gæta, að iðgjöldin hafa áhrif á vísitöluna, þannig að ríkið mundi fá talsvert aftur af þessu fé í lækkuðum útgjöldum. Ef þessi till. mín yrði samþ., ættu iðgjöld samlaganna að geta lækkað um að allt að helming.

Loks legg ég til, að fjölskyldubætur og barnalífeyrir megi fara saman. Nú fá allir fjölskyldubætur án tillits til tekna, ríkir sem fátækir. Þeir einu, sem eru útilokaðir, eru þeir, sem njóta barnalífeyris með börnum sínum, þ.e.a.s. oftast nær allra fátækasta fólkið og þeir, sem erfiðast eiga. Slíkt tel ég svo fráleitt, að það verði varla lengur staðið á móti því, að þetta verði lagfært. En því betra, því fyrr sem það er gert. Ég vona því, að hv. deildarmenn sjái sóma sinn í að samþykkja þessa till. mína.