14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

122. mál, almannatryggingar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, liggur fyrir þessu þingi frv. til breytinga á gildandi lögum um almannatryggingar. Þetta frv. er til athugunar í heilbr.- og félmn. neðri deildar, og hefur n. ekki tekizt að skila áliti um málið. Nú er komið svo nærri jólahátíðinni, að sýnt þykir, að það stóra frv. verði ekki lögfest, áður en jólafrí er gefið. En svo er háttað um löggjöfina um almannatryggingar, að allmörg ákvæði þeirra laga eru bundin við áramót, þannig að sum ákvæði löggjafarinnar, sem eru allveigamikil, mundu falla úr gildi um n.k. áramót, ef ekkert væri að gert til þess að framlengja þau.

Það frv., sem hér er fram borið af heilbr.- og félmn. og nefndin flytur að beiðni félmrh., er um það, að þau ákvæði almannatryggingalaganna, sem bundin eru við áramót, skuli framlengjast þar til önnur og meiri breyting kann að verða gerð á lögunum síðar á þessu þingi. Um þetta fjallar 3. töluliður 1. gr. frumvarpsins.

Það hefur ætíð verið venja að láta greiðslu ellilífeyris og örorkulífeyris haldast í sömu hlutföllum og launagreiðslur til embættismanna, þannig að þegar ákveðið hefur verið af þinginu með lagabreytingum eða þáltill. að greiða uppbætur á laun embættismanna, hafa hliðstæðar uppbætur verið greiddar á ellilífeyri og örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. 1. töluliður 1. gr. þessa frv. fjallar um það, að þeirri sömu reglu skuli fylgt nú á næsta ári og venja hefur verið að undanförnu að þessu leyti.

Í lögum um sjúkrasamlög er sett ákveðið hámark þess, hvað ríkissjóður greiði hátt framlag á móti iðgjöldum hinna sjúkratryggðu. Nú þykir það sýnt, að kostnaður sjúkrasamlaganna fari vaxandi af ýmsum ástæðum, m.a. vegna hækkandi daggjalda á sjúkrahúsum, og þykir því óhjákvæmilegt að hækka nokkuð það hámark, sem ríkissjóður greiðir á móti iðgjöldum hinna sjúkratryggðu. Í 2. tölulið 1. gr. frv. er svo kveðið á, að grunnupphæð hámarksframlags ríkissjóðs og sveitarsjóðs skuli vera 90 kr. á ári í stað þess að ég ætla - að þetta hámark er nú 78 kr.

Af þessu leiðir óhjákvæmilega dálitla útgjaldaaukningu fyrir Tryggingastofnun ríkisins, og er gerð grein fyrir því í grg. þessa frv., hvernig sú útgjaldaupphæð er áætluð, og sé ég ekki þörf á að fara að lesa það upp, þar sem þetta liggur fyrir öllum hv. þingmönnum. — Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að eftir að þessari umr. er lokið, verði frv. vísað til 2. umr.