14.12.1955
Neðri deild: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

122. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í fyrsta lagi vil ég segja, að mér þykir einkennilegt hjá hv. 2. þm. Reykv., ef hann telur sig gera það fyrir ríkisstj. að greiða atkvæði á móti söluskattinum. Það er alveg nýr skilningur á því máli hjá honum. Það er æskilegt að fá það bókað í þingtíðindin, að þetta sé þannig. Hann sagði, að það yrðu að vera hér björgunarsveitir til að greiða atkvæði á móti málum ríkisstj., þar með söluskattinum. — Hæstv. forseta vil ég segja, að ef hann vill ávíta einhvern, þá ætti hann að snúa sér til þeirra, sem eru fjarverandi og vanrækja skyldur sínar, en ekki til þeirra, sem viðstaddir eru, og gleyma ekki að áminna þá seku, næst þegar þeir koma í deildina.