06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

Endurskoðun varnarsamningsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Dagana 20.–24. f.m. fóru fram viðræður í Reykjavik af hálfu ríkisstjórna Bandaríkjanna og Íslands um endurskoðun varnarsamningsins frá 1951 á grundvelli 7. gr. samningsins og í framhaldi af ályktun Alþingis frá 28. marz s.l.

Viðræður þessar fóru fram með vinsemd og hreinskilni af beggja hálfu og leiddu til þess, að algert samkomulag náðist á milli þeirra aðila, sem þar ræddust við.

Af hálfu Bandaríkjamanna fylgdi þó sá fyrirvari, sem jafnan hefur fylgt, þegar þeir hafa við okkur rætt um þessi mál, að þeirra samþykki væri háð staðfestingu ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Samningamenn Bandaríkjanna héldu vestur um haf 25. f.m., og hefur samkomulagsuppkastið verið í athugun hjá Bandaríkjastjórn síðan, þar til í gær, að staðfesting barst á því hingað, að Bandaríkjastjórn hefði samþykkt samkomulagið í öllum atriðum, eins og frá því var gengið hér heima.

Samkomulagið var svo formlega staðfest með nótuskiptum í morgun.

Í upphafi viðræðnanna varð það að samkomulagi á milli þeirra, sem um málið fjölluðu, að heppilegast væri til farsællar úrlausnar á því að gefa ekki út neinar upplýsingar eða tilkynningar um viðræðurnar eða efni þeirra, þar til séð væri fyrir endalok málsins. Þess vegna hefur ekki verið skýrt opinberlega frá þessum viðræðum fyrr en nú. En nú er samtímis skýrt frá þeim hér á hv. Alþingi og í Washington.

Í upphafi samningaviðræðnanna var af Íslands hálfu á það minnzt, að áskilnaður sá, sem Íslendingar gerðu 1949, þegar þeir gengu í Atlantshafsbandalagið, væri enn í fullu gildi. Í þessum áskilnaði var m.a. tekið fram, að Íslendingar vildu ekki hafa erlent varnarlið í landi sínu á friðartímum og að þeir vildu sjálfir ráða því, hvort, hvenær og með hverjum hætti þeir leyfðu hersetu í landi sínu, ef til kæmi.

Af Bandaríkja hálfu var staðfest, að þeir hefðu á sínum tíma á þennan áskilnað Íslendinga fallizt og að þeir viðurkenndu, að þessi fyrirvari væri enn í fullu gildi.

Ég tek þetta ekki fram hér vegna þess, að í mínum huga leynist nokkur efi um það, að Bandaríkjamenn væru reiðubúnir að standa við sínar fyrri yfirlýsingar um það, að þeir mundu hverfa með herinn úr landi, þegar Íslendingar óskuðu þess samkv. ákvæðum varnarsamningsins. Við höfum þegar átt það mikil viðskipti við bandarísku stjórnina og Bandaríkjamenn, að við vitum, að við megum treysta orðum þeirra og yfirlýsingum, enda er það traust sá grundvöllur sem varnarsamningurinn frá 1951 hvílir á. Í þeim viðræðum, sem nú hafa farið fram við Bandaríkjamenn í sambandi við þessa endurskoðun, hefur þetta traust, sem þegar var til staðar, verið tryggt enn betur en áður, ef hægt er.

Ástæðan fyrir því, að ég hef minnzt á þetta hér nú, er sú, að ég vil, að Íslendingar viti, í hvaða anda og á hvaða grundvelli þær viðræður, sem við höfum átt við Bandaríkjamenn um þessi mál, fóru fram, jafnframt því sem ég vil nota tækifærið til þess að minna landa mína á, hvílíkur munur er á þeim nágrönnum, sem við Íslendingar eigum og þurfum að hafa samskipti við, og nágrönnum sumra annarra þjóða, sem þessa daga útheila blóði sona sinna og dætra til þess að öðlast frumstæðustu mannréttindi, án þess þó að hljóta þau. Þetta eru staðreyndir, sem við Íslendingar gjarnan mættum hafa í huga, þegar við fyllumst samúð með þeim, sem nú berjast fyrir frelsi sínu.

Hinn 18. marz árið 1949 fóru fram útvarpsumræður hér á Alþingi um vantraust, sem borið hafði verið fram á þáverandi ríkisstj. Í þessum útvarpsumræðum var nokkuð rætt um fyrirhugaða þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Þáverandi utanrrh. skýrði frá því, að hann hefði þá nýlega átt tal við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi um það mál. Utanrrh. Íslands hefði þá komizt svo að orði, að sú skoðun væri ákaflega rík bæði hjá fylgjendum þáverandi ríkisstj. og stjórninni sjálfri, að það væri of dýru verði keypt að láta hermenn dveljast hér á friðartímum fyrir það öryggi, sem við slíkt fengist. Sami ráðh. skýrði einnig frá því í þessum útvarpsumræðum, að hann ásamt tveim öðrum ráðh. úr ríkisstj. hefði tjáð utanrrh. Bandaríkjanna í marzmánuði 1949, að ekki kæmi til mála, að útlendur her fengi að hafa aðsetur á Íslandi á friðartímum né yrðu þar leyfðar erlendar herstöðvar.

Á þessi sjónarmið Íslands var fallizt. En þessi orð sýna, hversu ríkt það var í hugum Íslendinga, að það mætti ekki koma fyrir, að erlendur her yrði hér á landi á friðartímum. Var jafnvel efazt um það, að öryggið, sem fyrir slíkt fengist, væri þess virði, að það væri slíku verði keypt. Eftir að fallizt hefði verið á þennan áskilnað, gerðust Íslendingar aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

En þó að Íslendingar hafi þegar við stofnun Atlantshafsbandalagsins lagt á það ríka áherzlu, að hér væri ekki varnarlið á friðartímum, voru þeir engu að siður raunsæir. Þegar svo var litið á, að öryggi landsins kynni að vera í hættu, ef hér væri ekki varnarlið, þó að stríð væri ekki skollið á, voru þeir fúsir sjálfra sín vegna að taka þessi fyrri ummæli sín til endurskoðunar.

Varla var liðið meira en rúmt ár frá því, að höfð voru ummæli þau, sem ég vitnaði til, þegar ástandið í heimsmálunum var orðið þannig, að menn gátu búizt við því, að heimsstyrjöld kynni að brjótast út þá og þegar. Styrjöld hafði skollið á í Kóreu, Berlín var einangruð, voldugur her var kominn að landamærum Júgóslavíu, og óeirðir voru víða í Asíu. Þá var öllum ljóst, að lítið þyrfti út af að bera til viðbótar til þess, að heimsstyrjöld kynni að brjótast út.

Þrátt fyrir ákveðnar yfirlýsingar rúmu ári áður en þetta gerðist tóku Íslendingar afstöðu sína til yfirvegunar á ný og komust þá að þeirri niðurstöðu, að þótt það væri neyðarráðstöfun að taka varnarlið hér í landið, samrýmdist það ekki hagsmunum þjóðarinnar og öryggi landsins að hafna slíku. Þess vegna var varnarsamningurinn gerður 1951.

Ég segi þetta ekki hér til þess á neinn hátt að deila á þá, sem að þessu stóðu og þarna tóku sínar fyrri yfirlýsingar til endurskoðunar. Ég álít, að þetta hafi verið rétt og sjálfsagt og að hagsmunir lands og þjóðar hafi krafizt þess.

Sjálfur tók ég og minn flokkur þátt í þessum aðgerðum. Þetta er gott og glöggt dæmi þess, hvernig okkur ber að hegða okkar aðgerðum eftir því, hvernig ástæður eru í heiminum á hverjum tíma og hverjar þarfir lands og þjóðar eru.

Um leið og varnarsamningurinn var gerður 1951, var því lýst yfir og þjóðinni heitið því, að varnarliðið skyldi hverfa úr landi, strax og friðarhorfur og ástand í heimsmálunum leyfðu slíkt.

Á s.l. ári gerðust ýmsir þeir atburðir, sem vöktu þá von í brjóstum manna, að kalda stríðinu væri að linna og friðartímabil væri að renna upp. Við Íslendingar fögnuðum þessu að sjálfsögðu, og við sannfærðumst um, að nú væri friðsamlegra í heiminum en um langt skeið áður.

Við vorum ekki einir um þetta. Meðal annars í Bandaríkjunum var þessi skoðun mjög ríkjandi og mjög haldið á lofti. Og hún var eitt megininntakið í kosningabaráttu þeirri, sem háð var þar á þessu ári í sambandi við forsetakjör og fleiri kosningar.

Þegar svo var komið, að Íslendingar voru orðnir sannfærðir um, að friðvænlegra væri í heiminum nú en jafnvel á árunum eftir stríðið, þegar menn gerðu sér beztar vonir, þá töldu margir landsmenn, að nú væri tími til kominn að standa við það fyrirheit, sem þjóðinni var gefið, þegar varnarsamningurinn var gerður árið 1951. Þess vegna var það, að Alþfl. og Framsfl. áttu í félagi frumkvæði að því, að samþykkt var á Alþingi hinn 28. marz s.l. ályktun þess efnis, að varnarsamningurinn skyldi endurskoðaður í því skyni, að varnarliðið hyrfi úr landi, en Íslendingar tækju sjálfir að sér rekstur varnarstöðvanna.

Ég vil leggja á það ríka áherzlu, að þótt það hafi verið tilgangurinn, að varnarliðið hyrfi úr landi og væri hér ekki lengur, fylgdi því ekki sú hugsun, að varnarstöðvarnar skyldu lagðar niður. Þvert á móti: það var tilætlunin, að Íslendingar tækju við þeim og önnuðust rekstur þeirra, þannig að varnarstöðvarnar væru þess ávallt og án fyrirvara umkomnar að taka við varnarliði og fullnægja tilgangi sínum, ef svo kynni að fara í framtíðinni, að friðarhorfur breyttust þannig, að öryggi og þarfir landsins krefðust þess, að hér kæmi varnarlið á ný.

Í útvarpsræðu, sem ég flutti nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar í sumar, tók ég þetta fram. Ég gat þess þar, að okkur bæri að fenginni reynslu að hafa fulla varúð í sambandi við ákvörðun um brottflutning varnarliðsins úr landi. Við ættum að mæta réttmætri tortryggni í garð einræðis- og ofbeldisafla með því að hafa varnarstöðvarnar jafnan viðbúnar til þess að gegna hlutverki sínu.

Í framhaldi af þessu var hafinn undirbúningur að endurskoðun varnarsamningsins í því skyni, sem ég hef þegar minnzt á.

Á seinustu vikum hafa orðið snögg umskipti í heiminum, sem ekki var hægt að sjá fyrir 28. marz að mundu verða nú, frekar en hægt var 1949, þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið og yfirlýsing var gefin um, að hér skyldi aldrei vera varnarlið á friðartímum, að sjá fyrir, að hér mundi eftir rúmt ár þörf á varnarliði þrátt fyrir gefnar yfirlýsingar. Það var heldur ekki hægt að sjá það fyrir í vor eða sumar, þegar var verið að undirbúa endurskoðun varnarsamningsins, að málum mundi skipast sem orðið er nú.

Ástand það, sem nú ríkir í alþjóðamálum, er svo alvarlegt, að ég tel það ekki á nokkurs manns færi að spá fyrir um í dag, til hvers það kann að leiða.

Í Ungverjalandi standa enn yfir mjög alvarleg átök. Alvarlegra þó allt ég að ástandið sé fyrir botni Miðjarðarhafs. Í Ungverjalandi er barizt í landinu sjálfu. Það hefur enn ekki farið svo, að ungversku átökin hafi breiðzt út fyrir landamæri Ungverjalands. Vonandi verður það ekki, en um það skal ekkert fullyrt að þessu sinni. En fari svo, að þau átök, sem þar eru nú, ættu eftir að breiðast til nágrannalanda Ungverjalands, að ég tali nú ekki um, ef þau ættu eftir að breiðast út til Austur-Þýzkalands, þá er víst, að mikil alvara er á ferðum, alvara, sem getur leitt til þess báls í Evrópu og jafnvel öllum heiminum, sem ekki verður fljótlega slökkt.

Um Miðjarðarhafið vonum við að vísu, að Sameinuðu þjóðunum takist að ráða fram úr þeim málum, en á því er meira en lítill vafi. Það er mjög erfitt að átta sig á, hvað þar er í raun og veru að gerast, hvað það er, sem þar er í undirbúningi, og hvers við megum vænta í framtíðinni.

Að mínu mati er ástandið í heimsmálunum nú alvarlegra en það var 1951 þegar varnarlið var kvatt til Íslands, og ég tel, að nú séu ekki tímar til þess að ræða um það að senda varnarliðið úr landi, eins og á stendur. Slíkt væri að mínu viti til þess bæði að stofna öryggi landsins í hættu og ekki síður að bjóða hættunni heim, bæði til okkar sjálfra og þeirra annarra ríkja, sem við erum í samstarfi við í Atlantshafsbandalaginu.

Menn kunna að vísu að segja: Það tekur yfir ár, frá því að ákveðið er, að varnarliðið skuli á ákveðnum tíma vera horfið úr landi, þangað til sá dagur kemur, er það á að vera farið. — Þetta er að vísu rétt. En það er mikið starf og kallar á mikinn undirbúning að flytja varnarliðið úr landi og búa svo um varnarstöðvarnar sem með þarf eftir brottflutning þess. Slíkur undirbúningur verður ekki hafinn án þess, að byrjað sé snemma og þegar í upphafi frestsins. Sú byrjun hlýtur að hafa það í för með sér, að varnirnar taka að veikjast og smáveikjast, þangað til varnarliðið er alveg horfið. Það er að mínum dómi hvorki rétt né skynsamlegt fyrir Íslendinga, eins og nú stendur á, að stofna til slíks. Réttara er að bíða og sjá, hverju fram vindur, meðan slík óvissa ríkir sem nú er.

Af þessum ástæðum er það megininntak þess samkomulags, sem nú hefur verið gert um varnarmálin, að ekki skuli haldið áfram viðræðum um brottför varnarliðsins frá Íslandi og frestir þeir, sem ákveðnir eru í 7. gr. varnarsamningsins, skuli ekki fara að líða, fyrr en önnur hvor ríkisstjórnin tilkynnir þar um.

Jafnframt þessu er undirstrikað: Það er markmið Íslendinga, að hér sé ekki varnarlið á friðartímum. Að því skal unnið og undirbúningur að því hafinn þegar í stað, að þessu marki verði náð svo fljótt sem friðarhorfur í heiminum leyfa slíkt.

En um leið og rætt hefur verið um þetta meginatriði í varnarmálunum, hefur einnig verið á það minnzt, að á sjálfum varnarsamningnum eru ýmsir annmarkar, sem nauðsynlegt er að ráða bót á, jafnvel þótt að því sé stefnt, að varnarliðið hverfi héðan svo fljótt sem frekast eru tök á. Um þessa annmarka hefur verið rætt og gert samkomulag annars vegar í því skyni að ráða bót á þeim og hins vegar í því skyni að undirbúa þá frambúðarstefnu, sem hér skuli fylgt í þessum málum: að varnarlið sé hér ekki, þegar ófriðarástand í heiminum krefst ekki slíks.

Það, sem fyrst verður fyrir í þessum efnum, er, að ákveðið var, þegar varnarsamningurinn var gerður í upphafi, að hér skyldi verða ákveðinn fjöldi varnarliðsmanna. Þessi fjöldi var ákveðinn miðað við ástandið eins og það var þá. Talan var lausleg ágizkunartala, enda erfitt að byggja undir hana fastan grundvöll. Síðan þessi tala var ákveðin, hafa ýmsar breytingar orðið á ástandinu í alþjóðamálum. Það hefur m.a. runnið upp tímabil, þegar menn töldu friðarhorfur góðar, svo góðar, að þær hefðu ekki í annan tíma um langt skeið verið betri. Á þessum tíma voru engar ráðstafanir gerðar til þess að fækka þessu liði eða draga úr vörnunum í samræmi við breytt ástand. Mér er næst að halda, að ef þannig hefði verið frá málum gengið í upphafi, að komið hefði verið á sérstöku samstarfi á milli ríkisstj. Íslands og Bandaríkjanna, sem miðaði að því, að ríkisstjórnirnar væru á verði um að draga úr varnaraðgerðum, eftir því sem ástæður frekast leyfðu, þá hefðu á því tímabili, sem liðið er, síðan varnarsamningurinn var gerður, verið búið að draga það mikið úr fjölda þeirra varnarliðsmanna, sem á Íslandi dveljast, að við hefðum um langt skeið undanfarið naumast vitað af því, að hér væri nokkur varnarliðsmaður.

Það hefði líka verið nauðsynlegt að gera, um leið og varnarsamningurinn var gerður, ráðstafanir til þess að þjálfa og undirbúa Íslendinga til þess að taka sjálfir rekstur varnarmannvirkjanna algerlega í sínar hendur, eftir því sem tímar leyfðu. Í varnarsamningnum eru ekki gerðar neinar ráðstafanir, sem gera ráð fyrir því, að Íslendingar skuli taka þetta að sér. Þó liggur það í augum uppi, að þar er um svo fjölbreytt störf að ræða, ólík þeim störfum, sem Íslendingar hafa vanizt, að talsvert mikinn og langan undirbúning þarf til þess, að Íslendingar geti þar allt í sínar hendur tekið.

Þess vegna hafa, jafnhliða því sem samið hefur verið um, að ekki skuli eins og sakir standa haldið áfram viðræðunum um brottför varnarliðsins, verið gerðar ráðstafanir til þess, að komið verði upp sérstakri samstarfsnefnd með ábyrgum aðilum frá ríkisstjórn Íslands og ríkisstjórn Bandaríkjanna. Hefur nefndin það hlutverk með höndum að fylgjast með ófriðarhorfum í heiminum og gera tillögur til ríkisstjórna beggja landa um það, hverjar þarfir séu hér fyrir varnir, og undirbúa Íslendinga undir að taka í eigin hendur allan þann rekstur, sem nauðsynlegur er í varnarstöðvunum á þeim tímum, sem varnarliðs er ekki þörf.

Þetta er megininntak þess samkomulags, sem gert hefur verið. Eins og menn heyra, miðar það annars vegar að því, að umr. um brottför varnarliðsins verði ekki haldið áfram, eins og ástatt er, og hins vegar, að Íslendingar verði búnir undir það að taka málið í sínar hendur, strax og ástæður leyfa.

Samkomulag það, sem gert hefur verið, er því fólgið í tveim erindum, sem utanrrn. Íslands og ambassador Bandaríkjanna hér hafa skipzt á í dag.

Fyrra samkomulagið er orðrétt svo hljóðandi: „Viðræður hafa farið fram milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um endurskoðun varnarsamningsins og brottflutning varnarliðsins. Í viðræðum þessum hafa verið höfð í huga hin hefðbundnu sjónarmið varðandi dvöl varnarliðs á Íslandi, sem lýst var yfir af hálfu ríkisstj. Íslands, er það gerðist aðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Jafnframt hefur verið haft í huga, að úrslitaákvörðun um, hvort varnarlið dvelji í landinu, er hjá ríkisstjórn Íslands.

Viðræðurnar hafa leitt til samkomulags um, að vegna ástands þess, sem skapazt hefur í alþjóðamálum undanfarið, og áframhaldandi hættu, sem steðjar að öryggi Íslands og Norður-Atlantshafsríkjanna, sé þörf varnarliðs á Íslandi samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins.

Hafa ríkisstj. Íslands og Bandaríkjanna því ákveðið:

1) að viðræðum um endurskoðun varnarsamningsins að því er varðar brottflutning varnarliðsins verði ekki haldið áfram, þangað til tilkynning er gefin samkvæmt 2. tölulið hér á eftir;

2) að 6 mánaða frestur sá, sem um ræðir í 7. gr. varnarsamningsins, hefjist, þegar önnur ríkisstj. tilkynnir hinni þar um;

3) að fastanefnd kynni sér varnarþarfir með hliðsjón af ástandi í alþjóðamálum og geri till. til ríkisstj. um, hverjar ráðstafanir skuli gera í þessum efnum.“

Lengra er fyrra samkomulagið ekki. — Hið síðara hljóðar orðrétt þannig:

„Komið verði á fót fastanefnd í varnarmálum Íslands, er skipuð sé ekki fleiri en þrem ábyrgum fulltrúum frá hvorri ríkisstj. um sig og sé hlutverk nefndarinnar:

1) að ráðgast við og við um varnarþarfir Íslands og Norður-Atlantshafssvæðisins, að athuga hverjar ráðstafanir gera þurfi vegna þeirra og að gera till. til ríkisstjórnanna beggja í þeim efnum með hliðsjón af hernaðarlegu og stjórnmálalegu viðhorfi á hverjum tíma;

2) að undirbúa, að svo miklu leyti sem hernaðarlegur viðbúnaður leyfir, að Íslendingar taki í ríkari mæli en áður að sér störf, er varða varnir landsins, á meðan völ er á hæfum mönnum til slíkra starfa, svo og að tryggja, að menn séu æfðir í þessu skyni;

3) að vinna að lausn mála, er varða stefnuna í almennum meginatriðum í samskiptum Íslendinga og varnarliðsins.“

Lengra er síðara samkomulagið ekki. Sérstaklega vil ég taka fram, að aðrir samningar en þeir, sem hér hafa verið tilgreindir, hafa ekki verið gerðir.

Því hefur verið varpað fram, að vísu í ágizkunarformi af aðilum, sem reynt hafa að kynna sér þetta mál, á meðan á samningunum hefur staðið, að Íslendingar væru með þessu að fjarlægjast Norður-Atlantshafsbandalagið og samtök þess.

Ég vil nota tækifærið til þess að mótmæla algerlega slíkum fréttaflutningi sem þessum. Ekkert hefur verið gert og ekkert felst í þessu samkomulagi, sem á nokkurn hátt fjarlægir okkur Atlantshafsbandalaginu. Það er okkur Íslendingum ekki síður ljóst en öðrum þeim þjóðum, sem að Atlantshafsbandalaginu standa, að okkur er nú á því mikil nauðsyn að hafa sem bezt og nánast samstarf innan Atlantshafsbandalagsins og að þjóðir þess séu vel á verði um samtök sín. Að veikja þessi samtök, eins og ástandið er í heimsmálunum, væri áreiðanlega að auka hættuna fyrir þjóðir þær, sem að Atlantshafsbandalaginu standa.

Við Íslendingar mundum þess vegna ekki aðeins bregðast samstarfsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu, heldur einnig okkur sjálfum og okkar öryggi, ef við nú á þessum tímum gerðum ráðstafanir til þess að veikja þessi samtök. Því fer víðs fjarri, að þessu samkomulagi sé á nokkurn hátt ætlað að gera slíkt.

Ég vil sérstaklega benda á það, að samkvæmt 7. gr. varnarsamningsins er gert ráð fyrir því, að endurskoðun á varnarsamningnum með það fyrir augum að slíta honum byrjar á því, að leita ber umsagnar Atlantshafsbandalagsins. Eins og þetta er sett upp í samningnum, er það í rauninni meira form en efni, vegna þess að hér er aðeins gert ráð fyrir bréfaskiptum, en ekki viðræðum. Það samkomulag, sem hér er gert, breytir að vísu engu í ákvæðum 7. gr. varnarsamningsins. En sú samstarfsnefnd, sem stofnuð verður samkvæmt þessu samkomulagi og á að fylgjast með ástandinu í heimsmálum og gera till. til ríkisstj. beggja í andanna um, hvað gera skuli, mun að sjálfsögðu hafa samráð og samstarf við Atlantshafsbandalagið í sínu starfi, eftir því sem nauðsynlegt þykir og tilefni kann að gefast til. Ég vil því alveg sérstaklega nota tækifærið til þess að mótmæla þeim fréttum, sem bornar hafa verið héðan í erlendum blöðum, að við Íslendingar séum nú að gera ráðstafanir til að fjarlægjast Atlantshafsbandalagið, því að slíkt er með öllu rangt og tilefnislaust.