05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Eins og tilgreint er í nál. meiri og minni hl. sjútvn. á þskj. 298 og 309, var frv. það, sem hér er tekið til umr., sent til umsagnar tíu aðilum, sem ríkra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við sölu sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Allir hafa þessir aðilar látið n. í té umsagnir sínar, og eru margar þeirra mjög ýtarlegar. Eru þær allar prentaðar, að því leyti sem mestu máli skiptir, sem fylgiskjöl með nál. okkar í minni hl. á þskj. 309.

Sjö þessara aðila gera annað tveggja í umsögnum sínum að mæla gegn samþykkt frv. eða telja, að engin ný ákvæði séu þar fyrir hendi, sem ekki eru í löggjöf um sölu og útflutning á vörum frá 12. febr. 1940, og telja því frv. óþarft.

Síldarútvegsnefnd, sem eingöngu ræðir um útflutning saltsíldar, telur æskilegt, að það fyrirkomulag, sem verið hefur undanfarna rúma tvo áratugi, verði með sama hætti framvegis, að henni verði falin sala saltsíldar eins og verið hefur.

Alþýðusamband Íslands mælir hins vegar með samþykkt frv., og Samband ísl. samvinnufélaga telur í umsögn sinni, að heppilegt sé, að minnst tveir útflytjendur séu löggiltir til að hafa á hendi útflutning og sölu sjávarafurða.

Í aths. með frv. segir, með leyfi hæstv. forseta, á þskj. 193:

„Nú um nokkurt skeið hafa heyrzt mjög háværar raddir um, að breytinga væri þörf á því fyrirkomulagi, sem gilt hefur um sölu og útflutning sjávarafurða. Bera þær greinilega vott um allmikla óánægju, er skapazt hefur um ýmsa þætti í framkvæmd þessara mála, enda því nær eingöngu komnar frá þeim framleiðendum sjávarafurða, er mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þessi viðskipti.“

Síðan er getið um þá aðila, sem annast þessa sölu og útflutning, og síðan segir:

„Þetta fyrirkomulag hefur, eins og fyrr er sagt, ekki þótt gefast vel. Með þessu frv. er því gengið inn á nýja braut.“

Þetta eru aths. með frv. frá hæstv. ríkisstj. Ég leyfi mér að mótmæla því, að heyrzt hafi mjög háværar raddir um, að breytinga væri þörf á því fyrirkomulagi, sem gilt hefur um sölu og útflutning sjávarafurða. Sömuleiðis ber að andmæla þeirri fullyrðingu í grg. með frv., að það fyrirkomulag, sem nú gildir um sölu og útflutning sjávarafurða, hafi ekki þótt gefast vel.

Þó að við í minni hl. sjútvn. höfum allrækilega rökstutt till. okkar um frávísun á frv. í nál. á þskj. 309 og vitnað þar í umsagnir hinna ýmsu félagasamtaka máli okkar til stuðnings, vil ég þó segja hér nokkur orð til viðbótar.

Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda var stofnað á miðju ári 1932, eftir að mestu hörmungatímar höfðu gengið í sambandi við sölu á saltfiski og riðið mörgum fiskframleiðendum þá að fullu. Ég minnist þess, að á árinu 1931 voru send frá Breiðafirði til Ítalíu 2700 skippund af léttverkuðum smáfiski í umboðssölu, með því að engin leið var að fá fiskinn seldan á föstu verði. Voru háværar raddir á meðal kaupenda á Ítalíu um, að fiskbirgðirnar hér á landi væru miklu meiri en raun var á. Af þessari ástæðu héldu kaupendur að sér höndum og vildu ekki kaupa á föstu verði, þar sem þeir óttuðust verðfall. Aðalorsakir þessara fullyrðinga hinna erlendu kaupenda um óeðlilegar fiskbirgðir hér á landi og ótta þeirra um að kaupa fiskinn föstu verði voru þær, að margir seljendur voru með sama fiskmagnið í framboði við hina erlendu kaupendur. Þegar sala þessara 2700 skippunda af smáfiski var endanlega gerð upp,fékk seljandinn 26 kr. fyrir skippundið, sem voru aðeins 2/5 hlutar eða 40% þess verðs, sem Sölusamband ísl. fiskframleiðenda seldi sams konar fisk á, strax og það tók til starfa.

Það, sem mælir gegn því, að of margir aðilar séu að bjóða sömu framleiðsluvöruna á erlendum markaði, og er sama hvort um er að ræða saltfisk, saltsíld, frystan fisk eða aðrar sjávarafurðir, er hættan, sem af því leiðir, að hinir erlendu kaupendur þori ekki að festa kaup af þeirri ástæðu, að þeir óttast, að miklu meira vörumagn sé á boðstólum en raunverulega er. Getur þetta framboð margra manna á sama vörumagni orðið þess valdandi, eins og með smáfiskinn frá Breiðafirði 1931, að kaupendur þori ekki að festa kaup vegna rangra hugmynda um offramleiðslu og af ótta við verðfall í því sambandi.

Ég tel, að frv. það frá hæstv. ríkisstj., sem hér er til umr., geti, ef það verður lögfest, orsakað sams konar öryggisleysi með sölu og útflutning sjávarafurða og átti sér stað með saltfiskinn 1931.

Ég held, að það sé ekki ofmælt, að almenn ánægja sé ríkjandi með störf síldarútvegsnefndar, enda má segja, að öll sjútvn. sé sammála um það. Í nál. hv. meiri hl. sjútvn. á þskj. 298 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um síldarútvegsnefnd vill meiri hlutinn taka það fram sérstaklega, að hún hefur að verulegu leyti sérstöðu sem opinber stofnun, enda gerir meiri hl. ráð fyrir því, að heppilegast .reynist, að hún starfi áfram á svipaðan hátt og verið hefur, sbr. lög nr. 74/1934.“

En þó að hv. meiri hl. sjútvn. beri þessa frómu ósk fram í nál. sínu, getur hæstv. ráðh. eftir sem áður kollvarpað öllu starfi síldarútvegsnefndar eða látið væntanlega útflutningsnefnd sjávarafurða annast það.

Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að enginn síldarsaltandi óski breytinga á því fyrirkomulagi, sem nú gildir um sölu og útflutning á saltsíld. Það hefur sýnt sig, að þetta fyrirkomulag hefur tryggt bæði sjómönnum, útvegsmönnum og saltendum meira öryggi í framleiðslu og sölu saltsíldar á erlendum markaði en áður þekktist.

Sá háttur, sem síldarútvegsnefnd hefur haft, allt frá því að hún tók til starfa á árinu 1935, að selja fyrir fram mestan hluta framleiðslunnar, hefur fært okkur heim þau sannindi, að allir þeir aðilar, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við sölu saltsíldarinnar á erlendum markaði, hafa öðlazt meira öryggi með framleiðslu þessarar vörutegundar en áður átti sér stað.

Áður en síldarútvegsnefnd var stofnuð, lifðu síldarsaltendur í algeru öryggisleysi með sölu síldarinnar, sérstaklega ef veiði var góð og mikið var saltað. Eru mörg sorgleg dæmi frá hinum stóru síldarárum, er mikið var saltað, án þess að sala væri jafnframt tryggð á framleiðslunni.

Þessi háttur í framleiðslu síldarinnar orsakaði oft stórkostlegt verðfall á henni, þar sem hinir erlendu kaupendur höfðu í fullu tré við síldarsaltendur hér heima, með því að þeir voru sér þess meðvítandi, að saltendur áttu ekki margra kosta völ og neyddust því í flestum tilfellum til að selja þeim framleiðsluna á stórkostlega lækkuðu verði og með miklu tapi.

Margs konar fyrirgreiðslu hefur síldarútvegsnefnd fyrir saltendur, bæði með kaup á síldartunnum, salti og ýmsu öðru til söltunarinnar. Tel ég það mjög misráðið að hrófla við starfi síldarútvegsnefndar með því að gefa sölu á saltsíld frjálsa.

Sem útvegsmaður og eigandi vinnslustöðvar er ég meðlimur í nær öllum þeim félagssamtökum, sem útvegsmenn og vinnslustöðvar sjávarútvegsins standa að. Allt eru þetta frjáls samtök og opin öllum þeim, sem óska að gerast meðlimir þeirra vegna atvinnurekstrar á sviði sjávarafurða. Hæstv. sjútvmrh. er einnig meðlimur í þessum samtökum fyrir fyrirtæki þau, er hann veitir forstöðu. Höfum við haft ánægjulegt samstarf innan þessara félagssamtaka, bæði á stjórnarfundum og aðalfundum þeirra. Aldrei hef ég með einu orði orðið þess var á þeim fundum, sem ég hef setið með hæstv. ráðh., að heyrzt hafi mjög háværar raddir um, að breytinga væri þörf á því fyrirkomulagi, sem gilt hafi um sölu og útflutning sjávarafurða. Ég minnist þess ekki, að nokkru sinni hafi verið raddir uppi um það innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða Skreiðarsamlagsins, að þörf væri breytinga á því fyrirkomulagi, sem þessi samtök vinna við. Þar hefur ríkt einhugur um nauðsyn þess, að þessi félagssamtök mættu starfa áfram með sama hætti og hingað til, enda veit ég, að hæstv. sjútvmrh., sem mætt hefur á aðalfundum þessara samtaka, auk þess sem hann er stjórnarmeðlimur í öðru þeirra, veit af eigin raun, að engar raddir hafa heyrzt um, að þetta fyrirkomulag hafi ekki þótt gefast vel.

Á undanförnum 10 árum hefur útgerð vélskipaflotans gengið mjög erfiðlega viðast hvar á landinu og þá sérstaklega í sambandi við síldveiðarnar norðanlands. Til skuldaskila fyrir vélbátaeigendur var stofnað með lögum frá 1935 og í annað sinn með lögum frá 1950. Gera má ráð fyrir, að ekki verði langt að bíða þriðju skuldaskilanna fyrir vélbátaeigendur og þá ekki ólíklegt, eins og nú horfir, að togaraeigendur þurfi á sams konar aðstoð að halda.

Ef nú til viðbótar þeim miklu erfiðleikum, sem útvegsmenn hafa átt við að etja mörg undanfarin ár vegna aflaleysis og annarra vandræða í sambandi við útgerðina, á að svipta þá ráðstöfunarrétti á sölu afurðanna, virðist of langt gengið.

Hæstv. sjútvmrh. hefur um langt árabil haft togaraútgerð með höndum, auk þess sem hann veit glögg skil á útgerð vélbáta. Hann veit hug þeirra manna, sem útgerð og vinnslu sjávarafurða hafa með höndum, til frv., enda kemur hann berlega fram í umsögnum þeim um frv., sem borizt hafa sjútvn. frá hinum frjálsu samtökum útgerðarmanna og vinnslustöðva.

Ég verð að lýsa undrun minni yfir meðmælum hv. þm. Siglf. (ÁkJ) með samþykkt frv. á þskj. 298, sérstaklega eftir þær umræður, sem fram fóru í sjútvn. milli hans og hæstv. sjútvmrh., sem mættur var á fundinum. Marglýsti hv. þm. Siglf. yfir því við hæstv. ráðh., að frv. væri með öllu óþarft og ekki til þess fallið að koma á betri skipan en nú er á sölu og útflutningi sjávarafurða.

Eins og tekið er fram í nál. okkar minni hl. á þskj. 309, munum við, þá er séð er, að knýja á frv. fram þrátt fyrir andmæli þeirra félagssamtaka, sem hafa sölu og útflutning sjávarafurða með höndum, flytja við 3. umr. frv. brtt. við 1. og 2. gr. þess.