05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég hef við 1. umr. þessa máls fært allskýr rök að því, hvers vegna ég framkvæmdi eins og ég hef framkvæmt þær heimildir, sem nú eru í gildandi lögum, og ég skal ekki tefja þessar umræður með því að endurtaka það. Ég tel, að ég hafi gert mína skyldu með því að gefa þær skýrslur, sem ég þá gaf, þar sem ég varaði við því, sem nú er fyrirhugað. Ef mínar aðvaranir verða ekki teknar til greina, þá sætti ég mig við það, eins og aðrir menn verða að gera hér á hv. Alþ., en ég hef þó gert skyldu mína.

Hv. þm. Borgf. (PO) og hv. þm. Snæf. (SÁ) hafa báðir — bæði í ýtarlegu nál. og með mjög greinargóðum málflutningi hér — skýrt mönnum frá sínum skoðunum í málinu, og ég hef í sjálfu sér litlu við það að bæta. Ég er alveg sammála þeim og tel, að þeirra rök séu sterk, haldgóð, enda ómótmælt.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er ekki sú, að ég vilji gera neina tilraun til að seinka meðferð þessa máls. Ég tel jafnvel til bóta, að ef þetta á að ná fram að ganga, þá nái það fyrr en síðar lögfestingu, svo að óvissan, sem ríkir í þessum málum, skaði okkur ekki meira en nauðsyn krefur. Ég get ekki dulið ótta minn um afleiðingar frv. í framtíðinni. En ef menn, eins og ég segi, vilja ekki meta þau rök, sem ég hef fært fram, þá er ekkert víð því að segja. Ég bæti aðeins því við, að ég tel, að dráttur á málinu geti skaðað okkur enn meira, því að ég hygg, að það sé þannig komið högum sjávarútvegsins og fjármálalífi þjóðarinnar, að við þurfum að selja okkar vörur fyrr en síðar. En það er áreiðanlega víst, að meðan hinn erlendi kanpandi veit ekki, hvernig þessu máli reiðir af, né getur gert sér grein fyrir þeim nýju viðhorfum, sem þá skapast, mun fremur af því leiða sölutregðu en hitt.

Ég kvaddi mér þess vegna ekki hljóðs til þess að hefja hér með málalengingum neinar tilraunir til að tefja framgang þessa máls. Aðeins vildi ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvort hann enn treysti sér að staðhæfa það, sem hann áður staðhæfði og greinilega kemur fram í grg. frv. sjálfs, að það sé mjög megn og almenn óánægja með þá skipan mál. anna, sem fram að þessu hefur ríkt, og að þessarar óánægju gæti mest hjá þeim, sem mest eiga undir, að vel fari um sölu afurðanna. En hæstv. ráðh. rökstuddi þessi ummæli fyrst og fremst með þeirri óánægju, sem ríkti í garð þeirra, sem fara með saltfisksöluna.

Nú liggur það fyrir, eins og hv. minnihlutamenn hafa báðir skýrt frá, að saltfiskframleiðendur virðast einhuga um að breyta í engu til, a.m.k. á þessu ári, frá þeirri skipan, sem fram að þessu hefur ríkt. Lög Sölusambands ísl. fiskframleiðenda eru þannig, að þeir meðlimir félagsins, sem ekki tilkynna fyrir 1. marz árlega, að þeir óski ekki eftir að vera meðlimir, eru af sjálfsdáðum meðlimir án nokkurra frekari ráðstafana. Og ég hef um það rétta vitneskju frá hv. þm. Borgf. o.fl., að þessa tilkynningu hefur ekki einn einasti fiskframleiðandi gefið. Nú spyr ég hæstv. ráðh.: Er það nú líklegt, ef jafnalmenn óánægja ríkti í þessum efnum, að enginn, ekki einn einasti fiskframleiðandi óskaði eftir að vera laus með sína vöru? Er það hugsanlegt, að það geti átt sér stað? Ég þarf ekki að spyrja. En hvaða galdramenn eru það, sem halda þarna um stjórnvölinn, ef enginn, sem er sáróánægður með meðferð málanna, hefur djörfung til þess að segja: Ég vil heldur vera laus. — Það er þó sannarlega enginn glæpur, ef ég á vörn og treysti ekki þeim, sem er að selja hana, fyrir góðri meðferð minna mála, eða trúi kannske bara á aðra skipan án nokkurs mats á mönnunum, sem þar eru að verki, — það er sannarlega enginn glæpur, þó að ég segi: Ég vil heldur vera laus, ég vil reyna nýja skipan. — Ég segi: Er til öruggari vitneskja um það, að mennirnir, sem hér eiga allt í húfi, trúa ekki á nýja skipan málanna, en biðja þvert á móti um afskiptaleysi Alþingis af þessum málum, enda er það dómur minn a.m.k. sem kunnugs manns þessum málum, að það fylgi viss og kannske nokkuð mikil hætta þeirri óvissu, sem nú á að innleiða í þessum efnum. Þessari fsp. leyfi ég mér að beina til hæstv. ráðh.

Ég leyfi mér að beina þeirri smáfyrirspurn til hv. frsm., hvort hann geti gefið mér á því skýringar, að í bréfi, sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur skrifað n., sjútvn., segir Sambandið: Ég tel farsælast, að hér séu a.m.k. tveir útflytjendur, m.a. á saltfiski. — Ef þetta er skoðun Sambandsins, og hér eru engin aular að verki, — þetta eru þrautreyndir og mjög hæfir viðskipta- og verzlunarmenn, hvernig stendur þá á því, að þeir gerðu ekki ráðstafanir til þess að vera lausir með sinn saltfisk á árinu 1957? Ef það er rétt og nauðsynlegt, að það séu tveir söluaðilar, því er það þá ekki rétt á árinu 1957, eins og það er rétt á árinu 1958? Og ég leiði athygli hv. frsm. n. að því, að þegar Sambandið er búið að gefa þessa umsögn, að það sé heppilegast, að það séu tveir aðilar, þá ekki aðeins lætur það undir höfuð leggjast að losa sinn fisk með einfaldri tilkynningu til Sölusambands ísl. fiskframleiðenda um það, að það óski eftir að vera laust með sína vöru, heldur gerir það þvert á móti jákvæðar ráðstafanir til að tilkynna fisksölusamlaginu, að þeir óski ekki eftir að vera lausir, þeir ætli að halda áfram að vera þátttakendur. Getur hv. þm. gefið mér skýringu á þessu? Ég get í raun og veru sjálfur enga skýringu fundið aðra en þá, að þeir, sem bera ábyrgð á hagsmunum útflytjenda, segi: Við viljum ekki hætta á breytingu á þessari skipan. Við teljum ríkjandi skipulag að öllu þessu athuguðu farsælast. Við teljum það kannske það eina, sem sé æskilegt. — Það sé þess vegna þeirra vilji, að engu verði breytt frá því, sem er. Hins vegar hafi þeir — kannske fyrir áhrif annarra, sem síður þurfa að gæta hagsmuna fiskframleiðendanna og hafi fleiri tillit að taka, t.d. pólitískt tillit — látið til leiðast að svara, að þeir vilji helzt hafa tvo.

Mennirnir, sem bera ábyrgðina á fisksölunni, segja: Jú, í orði viljum við hafa tvo, en við gerum bara samtímis ráðstafanir til þess, að við getum ómögulega verið annar þeirra, því að við bindum okkur hjá fisksölusamlaginu. Er til skýrari umsögn um þetta? Er til gleggri vottur um innri mann, er til gleggri vottur um ábyrgðartilfinningu og þekkingu þeirra manna, sem þarna eru að tala?

Ég hef náttúrlega margt annað um þetta mál að segja. Ég hef þó sagt það, sem mér finnst mestu máli skipta. Ég aðvara gegn því, sem í uppsiglingu er. Ég hef gert skyldu mína með að aðvara með þeim rökum, sem mér hafa fundizt réttust; hvort sem mér hefur auðnazt að leggja þau fram jafnskýrt og hægt er kannske með nánari undirbúningi undir slíkan málflutning. Ég gerði það við 1. umr. Mínir flokksbræður hafa gert það hér í dag á þann hátt, sem ég tek undir. En málþóf um málið tel ég til bölvunar. Ég óska aðeins eftir skýringum á þessum atriðum. Annað, sem á milli bar, hafði ég talað um við hæstv. sjútvmrh. hér við 1. umr. og að sönnu ekki fengið svör, en ég fæ áreiðanlega heldur engin svör um það nú.