05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jóefsson):

Herra forseti. Það hefur nú verið, frá því að þetta mál fyrst var lagt hér fyrir hv. Alþ., heldur einkennileg máltúlkun frá hálfu sjálfstæðismanna í sambandi við þetta mál. Þeir hafa jöfnum höndum sagt, að í þessu frv. fælist ekkert nýtt og því í rauninni væri með öllu þýðingarlaust að samþykkja frv., en að hinu leytinu aðvara þeir svo þunglega við því að samþ. þetta frv., sem ekki breytir út af fyrir sig að þeirra áliti nokkrum sköpuðum hlut. Þetta eitt út af fyrir sig er auðvitað harla einkennilegt.

Síðan hefja þeir upp mikinn áróður — ekki aðeins hér á Alþ., heldur einnig utan þings — um það, að nú standi til að svipta útvegsmenn sjálfsforræði í sambandi við afurðasölumálin, nú eigi að taka af þeim þann rétt, sem þeir hafa haft til þess að skipuleggja sig í sölufélögum og hafa með sölu á sínum afurðum að gera.

Nú vita þessir menn, sem þessum áróðri hafa haldið uppi, að þetta er með öllu rangt. Ekkert slíkt felst í því frv., sem hér liggur fyrir, og ekkert slíkt feist heldur í grg. fyrir frv., en ég hef hér á Alþ. hvað eftír annað gefið yfirlýsingar um alveg hið gagnstæða. Ég hef beinlínis lýst því yfir, eins og auðveldast er að sanna með því að tilfæra hér kafla úr mínum ræðum, að það væri ekki hugmyndin með hinu nýja skipulagi í sambandi við sölu á sjávarafurðum að skerða á neinn hátt samtök fiskframleiðenda frá því, sem verið hefur með gildandi reglum, eða að ganga á eðlilegan rétt þeirra til þess að geta farið með sölu á afurðum sinna meðlima, aðeins þetta, að félagssamtökin byggju öll við alveg sérstök kjör, sem önnur framleiðendasamtök hafa ekki getað fengið sér til handa.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því að gera aðstöðu hliðstæðra framleiðendafélaga alveg sambærilega.

Þegar hv. þm. Snæf. (SÁ) minnist hér á framleiðendasamtök, eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og samtök skreiðarframleiðenda, sem ég hafi setið á aðalfundum hjá og hafi starfað í, þá hefði hann gjarnan mátt minnast á það líka, að þessi stóru samtök búa við nákvæmlega það skipulag nú í dag í sambandi við sína afurðasölu, sem það frv., sem hér er til umræðu, gerir ráð fyrir að taka upp í öllum greinum, og því skipulagi verða þessi samtök að beygja sig fyrir í öllum aðalatriðum, sem ég hef hér túlkað að rétt væri að taka upp í öllum framleiðslugreinum. En S.Í.F., sem fer með saltfisksölumálin, hefur notið hér algerra sérréttinda. Það hefur fengið einkaaðstöðu í sambandi við útflutning á saltfiski, sem hinir aðilarnir hafa ekki fengið, og þeir telja það alveg lífsskilyrði, að þeir hafi einir allra þetta einkasölufyrirkomulag, á sama tíma sem form. Sjálfstfl., sem fór áður með afurðasölumálin í ríkisstj., taldi enga nauðsyn á því að beita sér fyrir því eða koma því í gegn, að skreiðarsamlagið fengi einkasölurétt eða hliðstæðan rétt og saltfisksalan hefur nú í dag. Eða var það kannske það, að skreiðarframleiðendur í landinu óskuðu alls ekki eftír þessu skipulagi? Hafði það þá reynzt þannig í saltfiskinum, að þeir vildu alls ekki endurnýja það, þegar til skreiðarsölunnar kom?

Ég held fyrir mitt leyti, að það sé ofur eðlilegt, að saltfiskframleiðendur í landinu hafi með sér framleiðendasamtök eins og S.Í.F. Það er sjálfsagður hlutur. Ef saltfiskframleiðendur eru alveg einhuga um að fela þessum samtökum sölu á allri sinni framleiðslu, þá mundu að sjálfsögðu þessi samtök fá útflutningsleyfi og fá rétt til þess að selja allan saltfiskinn.

En það er nú ekki það, sem dugir samkvæmt kenningum þeirra sjálfstæðismanna. Það þarf að lögbinda það á einn eða annan hátt, að þessi félagssamtök hafi sérstöðu, þau elgi að hafa einkarétt, á sama tíma sem aðrir hafa það ekki. Ég tel enga þörf á þessu. Hitt tel ég miklu eðlilegra, að þeir, sem annast saltfisksöluna, búi þarna við hlíðstæða aðstöðu og aðrir, verði að lúta sama eftirliti frá hálfu hins opinbera eins og aðrir og að þeir eigi að sætta sig við það.

Til þess að taka af allan vafa í þessum efnum, þykir mér rétt að lesa hér upp nokkur orð úr fyrri ræðum mínum um þetta mál. Í framsögu minni fyrir málinu komst ég m.a. að orði á þessa leið; þegar ég hafði rakið efni frv. og tilgang, þá sagði ég þannig: „Nú vaknar að sjálfsögðu sú spurning, hvort með þessu nýja skipulagi eigi að leggja niður þau sölusamtök framleiðenda, sem starfað hafa hér á undanförnum árum, eða hvort á einn eða annan hátt eigi að gera þeim ókleift um starf. Til þess er ekki ætlazt á neinn hátt í sambandi við þetta nýja skipulag. Að sjálfsögðu geta framleiðendur haft sín framleiðslusamtök, og þeir geta áfram unnið að sölu á sínum framleiðsluvörum. En þeir verða, í hverri greininni sem um er að ræða, að afla sér nauðsynlegra útflutningsheimilda, hafa fengið samþykki útflutningsstjórnarinnar fyrir verði og fyrir því, hvert selt er og með hvaða skilmálum selt er hverju sinni.“

Það er þetta, sem skreiðarframleiðendur og þeir, sem selja frosna fiskinn, verða að gera núna. Ég sagði enn fremur:

„Og þessi samtök, ef þau vilja taka að sér útflutninginn, verða að undirgangast það að veita þessum stjórnskipuðu aðilum allar þær upplýsingar, sem þeir óska eftir í sambandi við afurðasöluna.“

Það er vitanlega aðeins eðlilegur hlutur, um jafnþýðingarmikil mál og afurðasöluna, að þar áskilji hið opinbera sér rétt til þess að fylgjast með því, sem gert er, og hvort það er í samræmi við þjóðarhagsmuni. Og ég tel það mjög óeðlilegt, ef forustumenn slíkra samtaka sem þessara eru að skorast undan því að leggja fram gögnin á borðið við opinbera aðila eða vilja sýna það, svo að ekki verður um villzt, hvernig þeir vinna að þessum málum.

Ég sagði hér einnig í minni ræðu fyrr um þetta mál: „Það skipulag, sem hér er gert ráð fyrir, mundi vitanlega veita S.Í.F. rétt til þess að halda áfram saltfisksölu, svo lengi sem það getur rekið saltfisksölumálin á hinn heppilegasta hátt að dómi útflutningsnefndar og svo lengi sem þessi samtök vilja hlíta almennu eftirliti um sín mikilvægu störf.“

En því er vissulega ekki að neita, að það hefur allmjög borið á því, að þeir menn, sem fara með forustu í þessum samtökum, kveinki sér undan því, að opinbert eftirlit verði með þeirra störfum, og það tel ég, eins og ég hef sagt hér áður, merg málsins í þessum efnum, að þeir, sem hér hafa sig mest í frammi, eru að kveinka sér undan því, að haft sé eðlilegt opinbert eftirlit með þessari starfsemi. Hér er ekki verið að taka eðlilegan rétt af neinum. Ég hef einnig lýst því yfir hér í þessum umræðum áður, að það er síður en svo tilætlunin að fara að gefa nú öllum kost á því að taka svo að segja hömlulaust þátt í því að bjóða út á erlendum mörkuðum framleiðsluvörur Íslendinga og skapa þar þannig einhvern glundroða. Ég hef hins vegar sagt, að það væri mín skoðun, að jafnan ætti að hafa sem fæsta aðila í sambandi við útboð á þessum framleiðsluvörum okkar. Það væri að vísu heilbrigt að hafa þarna takmarkaða samkeppni til þess að skapa aðhald, en hitt væri ekki æskilegt, að þarna væru að verki allt of margir aðilar. Það er því alger blekking, sem reynt er hér að halda á lofti, að nú eigi að fara að umturna því skipulagi, sem hér hefur verið, og taka upp skipulagsleysi fyrri ára, með því að nú eigi að heimila öllum að komast inn í þessi sölumál og þannig að Íslendingar eigi að undirbjóða hver annan á erlendum mörkuðum. Þetta er algerlega rangt með farið.

Það er því sannast mála, að andstaða sú, sem fram hefur komið við þetta frv., er grundvölluð á röngum forsendum. Því hefur jafnan verið haldið fram í ýmsum samþykktum, sem gerðar hafa verið, að hér eigi að brjóta niður frjáls samtök framleiðenda. Þetta er rangt. Þetta er þveröfugt við það, sem lýst hefur verið hér yfir. Þetta er aðeins upptuggin áróðursaðferð af hálfu sjálfstæðismanna, sem eru að slást um allt annað. Þeir eru að reyna að koma ákveðnum aðilum undan því að þurfa að komast undir opinbert eftirlit með slík stórmál eins og þarna eru á ferðinni. Það er það, sem um er slegizt.

Þá spurði þm. G-K. að því, hvort ég vildi enn halda því fram, að það væri til staðar óánægja margra framleiðenda með það skipulag, sem ríkt hefur hér í afurðasölumálunum, eins og fram hefði komið áður í ræðu hjá mér og í grg. fyrir frv., nú, eftir að sýnt væri, að t.d. engir þeirra, sem eru í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, hefðu sagt sig úr þeim samtökum nú fyrir 1. marz. Já, ég fullyrði það, að skoðun mín í þeim efnum er alveg óbreytt. Ég veit fyllilega vel um það og eins vel og hann um það af langri reynslu í þessum efnum, að það er mjög fjarri því, að framleiðendur séu almennt ánægðir með það skipulag, sem er ríkjandi í afurðasölumálunum. Og þær samþykktir, sem gerðar hafa verið eða viðbrögð manna í þessum efnum afsanna ekkert af því, sem ég hef sagt um þetta. Mér hefði t.d. ekki komið til hugar í sambandi við þau fyrirtæki, sem ég hafði áður veitt forustu, þegar ég kom fram sem félagsmaður í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, að segja þau fyrirtæki úr þessum framleiðendasamtökum. Ég álít, að þessi framleiðendasamtök eigi að vera. Ég álít, að þau eigi að starfa. Og mér hefði ekki komið til hugar að beita mér fyrir neinni úrsögn úr þeim og ekki úr neinum af þessum sölusamtökum. Vitanlega sannar það ekkert, þó að þau og önnur félagssamtök framleiðenda hafi ekki nú fyrir 1. marz sagt sig úr S.Í.F. En hitt er svo annað mál, að þessir aðilar geta eftir sem áður verið á þeirri skoðun, að S.Í.F. geti unnið að saltfisksölumálunum bæði á annan hátt en gert hefur verið og einnig eftir þeim reglum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir og grg. sú, sem því hefur fylgt, en sjá hins vegar ekki ástæðu til þess að vera með allt það brambolt, sem Sjálfstfl. hefur staðið fyrir til mótmæla í sambandi við þetta frv. Það er ábyggilegt, að það er líklega alveg einróma álit framleiðenda í landinu, að framleiðendasamtökin eigi rétt á sér og þau eigi að starfa. En hitt er svo annað mál, að það eru líka margir þeirrar skoðunar, að það þurfi að verða allveruleg breyting á framkvæmd þessara mála í höndum hinna einstöku framleiðendasamtaka frá því, sem verið hefur, og alveg sérstaklega í sambandi við framkvæmd þessara mála hjá S.Í.F., sem þó hefur, eins og ég hef einnig lýst hér yfir áður, gert margt vel í sambandi við sölumál saltfisks.

En það mun vera mjög almennt álit saltfiskframleiðenda, að S.Í.F. hafi ekki verið byggt upp eða ekki starfað nú um langan tíma sem eðlileg framleiðendasamtök, hafi verið um of byggt upp að ofan frá, frá mönnum, sem voru löngu komnir út úr raunverulegum hagsmunum þeirra, sem að framleiðslunni stóðu og framleiðsluna áttu.

Eitt aðalefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er það, að gert er ráð fyrir því með þessu frv., að lögskipuð verði þriggja manna nefnd, sem á að hafa í umboði ráðherra yfirstjórn með þessum afurðasölumálum. En framkvæmdin hefur verið sú, eins og ég hef lýst hér áður, að með þetta verkefni hefur farið einn einasti maður í umboði ráðherra. Ég tel, og ég er alveg sannfærður um það, að það er almennt skoðun framleiðenda, að verkefni þessa aðila hafi farið svo stórkostlega vaxandi á undanförnum árum, að það sé ekki forsvaranlegt að láta aðeins einn mann hafa með þessi mál að gera, að veita öll útflutningsleyfi og ráða um það raunverulega, hvort selt er til þessa lands eða hins í fjölmörgum tilfellum og hvort þetta eða hitt skilyrðið er sett í sambandi við þá sölu, sem fram er að fara. En nú er þessu svona fyrir komið um t.d. söluna á öllu fiskimjöli úr landinu, öllu lýsi og allri skreið og raunverulega miklum hluta af frosna fiskinum, að einn maður hefur með það að gera að veita útflutningsleyfi og lita eftir þessum málum í umboði ráðherra. Það er miklu eðlilegra að fela þetta víðtæka starf fastri nefnd þriggja manna, sem skapi sér fast form í þessum efnum, og er ég þó ekki að segja á neinn hátt með þessu, að sá maður, sem með þessi störf hefur farið, hafi unnið óeðlilega að þeim. En hitt er svo aftur augljóst mál, að það er engan veginn eðlilegt að fela svona viðtæk störf einum manni. Um þessi atriði þurfa vitanlega að skapast fastar og mótaðar reglur, og það er betra, að föst nefnd, sem vinnur í þessu frá ári til árs, hafi með þetta að gera, heldur en að það kerfi sé, sem nú er.

Þetta tel ég fyrir mitt leyti þýðingarmikla breytingu, og meðan ég hef sem ráðherra yfirstjórn þessara mála með höndum, tel ég miklu eðlilegra, að þannig sé haldið á málunum, heldur en eins og gert hefur verið.

Í beinu framhaldi af þessari skipulagsbreytingu kemur svo það, að til þess er ætlazt, að þessi þriggja manna nefnd, sem á að vera til ráðuneytis ráðherra þeim, sem hefur með yfirstjórn afurðasölumálanna að gera, kynni sér sem allra bezt afurðasölumálin sem heild, hvernig þau ganga fyrir sig í einstökum greinum, svo að m.a. hægt sé að létta af þeim skefjalausa áróðri, sem oft og einatt hefur komið upp um það, hvernig þetta gengi, þar sem brigzlin hafa gengið á víxl um það, að í frammi hafi verið höfð hin herfilegustu svik eða mistök í afurðasölumálunum, eins og alþjóð er kunnugt. Ég teldi t.d., að það væri ólíkt betra fyrir saltfiskframleiðendur eða samtök þeirra að geta unnið að þeim sölumálum, sem þeir hafa með að gera, í samráði við slíka fastskipaða nefnd, sem fylgdist með sölunum hverju sinni og hefur lagt blessun sína á það verð, sem samþykkt hefur verið, og þær sölur, sem fram hafa farið, þannig að framleiðendasamtökin verði ekki á neinn hátt með réttu sökuð um misferli, nema þá það, sem hið opinbera hefur lagt beinlínis blessun sína yfir, heldur en að liggja undir slíkum áróðri, eins og nú hefur verið, og áburði á ýmsan hátt, sem allir kannast við.

Það er rétt, eins og ég tók fram hér strax í upphafi þessa máls, að samkvæmt gildandi lögum hefur sjútvmrh. heimild til þess að setja flestar eða allar þær reglur um framkvæmd afurðasölumálanna, sem felast í þessu frv. Ég hefði því vel getað unnið að framkvæmd þessara mála á þann hátt, sem hér er markað í þessu frv., án þess að leggja fram sérstakt frv. um málið á Alþingi. En ég taldi réttara, að Alþ. sjálft stæði að því að lögfesta í meginatriðum þær reglur, sem það vildi að unnið yrði eftir í sambandi við afurðasölumálin, þótt hins vegar hendur þeirra yrðu ekki bundnar um of, sem með framkvæmdina eiga að hafa að gera. Ég taldi þetta miklu réttara en að hafa þann hátt, sem hefur verið á undanförnum árum, að ráðherra hefur svo að segja getað ráðskað í þessum málum eins og honum hefur dottið í hug hverju sinni. Af þeim ástæðum er það m.a., sem ég taldi rétt að slá því föstu, að engin útflutningsgrein skyldi búa við önnur almenn kjör en aðrar útflutningsgreinar, þær skyldu allar sætta sig við hið sama, en ekki að skapa einni algera sérstöðu, eins og nú hefur verið.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, en segja aðeins það, að sú andstaða, sem hér hefur komið fram, bæði hér á Alþingi og einnig í þeim samþykktum, sem pantaðar hafa verið eða mjög hefur verið unnið að af hálfu eins stjórnmálaflokks að fá fram í ýmsum samtökum, er að verulegu leyti fram komin eða grundvölluð á röngum forsendum. Því er haldið fram, að það eigi að framkvæma þessi mál á allt aðra lund en hér hefur verið lýst yfir og ætlunin er, og það er verið að mótmæla því, sem alls ekki stendur til að framkvæma. En hins vegar er reynt að fara í felur með það, sem er hið sanna, að það er veruleg óánægja með það hjá tilteknum mönnum og hópum manna, að það skuli eiga nú að fara að líta eftir framkvæmd þessara mála, sem þeir hafa hingað til komizt upp með að vinna að án eftirlits hins opinbera.