07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar umr. um þetta mál var frestað, og gerði ég það vegna þess, að mér fannst ástæða til að svara nokkrum ummælum, sem féllu hjá hæstv. sjútvmrh. í sambandi við þetta mál.

Hæstv. sjútvmrh. þótti framkoma okkar minnihlutamanna í n. eða sjálfstæðismanna, eins og hann orðaði það, harla einkennileg í þessu máli. Þetta er mér alveg óskiljanlegt, að hæstv. sjútvmrh. skuli líta þannig á, því að afstaða okkar er alveg sérstaklega skýr í málinu, og hún markast, eins og ég þóttist þá taka mjög greinilega fram, af tveimur atriðum, sem við leggjum alveg sérstaka áherzlu á. Annað er það, að frv. þetta sé gersamlega óþarft, af því að allur sá réttur, sem þetta frv. veitir ríkisstj., sjútvmrh. einum, að mestu leyti, eins og ég kem að síðar, er alveg sams konar réttur og nú feist í löggjöf um þetta efni frá 1940 og reglugerð um hið sama. Þetta orkar ekki tvímælis, m.a. af því, að hæstv. sjútvmrh. hefur viðurkennt oftar en einu sinni, að þetta er svona.

Hitt atriðið var svo það, sem við leggjum áherzlu á, að í þessu frv. eða grg., sem því fylgir, er boðuð ný stefna í framkvæmd þessa máls, sem við lítum svo á að sé allvarhugaverð. Hæstv. ráðh. vildi nú andmæla þessu, því að hann sagði, að það fælist heldur ekkert í grg., sem benti í þessa átt. Þetta þóttu mér alveg sérstaklega einkennileg ummæli, því það stangast svo ljóslega og greinilega á við það, sem sagt er berum orðum í grg. Þar stendur, að með þessu frv. sé gengið inn á nýja braut. Það stendur enn fremur, að samkvæmt þessu fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, fái enginn útflytjandi einkarétt að útflutningi neinnar vörutegundar, og hverjum sem er gefist kostur á að sýna þar hæfni sína. Það er sagt í grg. enn fremur: að sjálfsögðu munu núverandi stofnanir halda áfram starfsemi sinni. - Og svo segir enn, að með þessu verði sköpuð samkeppni millí þeirra og annarra aðila, sem við útflutning fást. Það er einmitt þessi boðskapur í grg., sem við leggjum áherzlu á og vörum hæstv. ráðh., sem samkv. frv. á að vera einráður um afskipti af útflutningi sjávarafurða, við, að ganga í berhögg við vilja framleiðendanna og meina þeim að nota þau söluform, sem reynslan befur sýnt að bezt henta þeim til þess að halda uppi vöruverðinu.

Við í minni hl. sjútvn. stöndum ekki einir að þessu áliti, því að 7 af 10 aðilum, sem mál þetta var sent til umsagnar, hafa allir á grundveill þessarar nýju stefnu andmælt og lagt á móti samþykkt frv. Aðeins einn aðilinn af þessum 10 hefur mælt með samþykkt þess.

Það verður þess vegna ekki fram hjá því komizt, að það er mjög fjarri því, sem í þessari grg. stendur, að það sé ekki boðuð nein ný framkvæmd í þessum lögum eða breyting frá því, sem verið hefur. Fram hjá þessu kemst hæstv. ráðh. ekki. Hitt verð ég að virða við hann, að hann hefur við nánari athugun séð, hve varhugavert það er, — og þar með í rauninni tekið góðar og gildar okkar aðvaranir í þessu máli, — hve varhugavert það er að fara að gera ráðstafanir, sem ganga í berhögg við þrautreynda framkvæmd í höndum þeirra manna, sem eiga allt sitt undir því, hve vel takist um sölu þessara afurða.

Það var auðheyrt strax við 1. umr. þessa máls, að hæstv. ráðh. var nokkuð farinn að draga í land með það frá því, sem berum orðum er sagt í grg. frv., og enn þá skýrara kom þetta í ljós við fyrri hluta þessarar 2. umr. hjá honum, þar sem það virtist vera alveg skýrt, að hann ætlaði ekki að framkvæma þessi mál á þann veg eða á þá lund, sem lesa má út úr skýrum orðum grg. Ég verð að virða þetta við hæstv. ráðh., að hann skuli gera svo.

Það er nú líka þannig, að hæstv. ráðh. á ekki, eins og nú er komið, hægt um vik að koma fram því, sem sagt er í þessari grg., því að það er upplýst hér, að þeir, sem að saltfiskútflutningnum standa, standa allir að því sem einn maður að halda því skipulagi, sem verið hefur á sölu saltfisksins um hríð. Og ég upplýsti það hér við umr., að smiðshöggið á þetta hefði Samband ísl. samvinnufélaga rekið nýlega með því að verða með í þessum samtökum. Þess vegna er ekki hægt, þó að meiningin væri sú, að koma við neinni stefnubreytingu að því er snertir saltfisksöluna.

Ég býst einnig við, að sama sé upp á teningnum að því er snertir útflutning á saltsíld. Ég held, að allir síldarsaltendur og útflytjendur að saltsíld standi að því sem einn maður að fela síldarútvegsnefnd sölu saltsíldarinnar, svo að það er enginn þar líklegur til þess að sækja um leyfi til þess að flytja út saltsíld og hefja í því efni samkeppni við síldarútvegsnefnd.

Þarna eru því í þessum tilfellum báðum lokaðar leiðir að því, að það væri hægt, þó að vilji væri fyrir hendi til þess, að koma við neinni skipulagsbreytingu í framkvæmd þessa, nema þá, sem náttúrlega er þess eðlis, að það er ekki ástæða til þess að tala um það, að banna þessum félagssamtökum að flytja vörurnar út. Til þess kemur að sjálfsögðu ekki undir neinum kringumstæðum.

Hæstv. ráðh. talar um það hér í grg., að þetta skipulag, að útflutningur sé á einni hendi, hafi skapað tortryggni, skaðlega tortryggni, eins og það er orðað hér, sem hann ætlar að koma í veg fyrir með því að fela n. eftirlit með þessu og tryggja, að misnotkun geti ekki átt sér stað af hendi einstakra útflytjenda. Þessi tortryggni eða gagnrýni í þessu efni hefur í litlum mæli snúizt gegn síldarútvegsnefnd, en aftur allmikið borið á því, sérstaklega í einu blaði hér í Reykjavík, að gagnrýni hafi verið á starfsemi sölusamlags ísl. saltfiskframleiðenda. En þessu hefur nú verið svarað — að vísu ekki með neinum stóryrðum eða brambolti — þessari gagnrýni hefur verið svarað með því, sem er enn áhrifaríkara, og það er með því, að allír aðilar, sem standa að þessu sölufyrirkomulagi, hafa bundizt um það samtökum að standa nú eins og einn maður að þessu á þessu ári. Þar með virðist þessari gagnrýni og því, sem sagt er og þ. á m. hér í grg., vera andmælt á þann kröftuglegasta hátt, sem verið getur.

Hæstv. sjútvmrh. talaði nokkuð um það hér, að slík n. gæti beitt sér í því að rannsaka þetta og slá þetta niður. Mér skilst, að það sé, eins og nú er komið, alveg gersamlega ástæðulaust að vera með nokkra afskiptasemi í þessu og að gera nokkrar opinberar ráðstafanir til þess að tryggja þetta sölufyrirkomulag, því að það á að vera nægileg trygging fyrir því, að þeir menn, sem að þessu fyrirkomulagi standa, hafa vitanlega hver og einn allan aðgang að rekstri þessa félagsskapar og geta gert þar við sínar athugasemdir, ef þeim býður svo við að horfa.

Ég sé þess vegna ekki, hvernig opinber n., sem skipuð væri, ætti að neinu leyti að bæta þar um. Hins vegar finnst mér, að í því felist nokkurt vantraust á hæfni og hæfileikum þessara manna til þess að sjá um eigin hag.

Hæstv. ráðh. talaði um það hér allmikið í sambandi við þetta frv., að það væri mikill aðstöðumunur á því að láta n., eins og gert er ráð fyrir í frv., hafa með höndum þessi mál undir yfirumsjón ráðh., í stað þess að að undanförnu hafi þetta verið framkvæmt þannig, að einn maður hefði á hendi þetta eftirlit.

Ég vil benda hæstv. sjútvmrh. á það, að hann þarf ekki að flytja neitt lagafrv. eða fá neina nýja alþingissamþykkt til þess að koma á laggirnar n. til þess að gera þetta, því að í l. frá 1940, í 4. gr. þeirra, er það skýrt tekið fram, að ríkisstj. geti falið n., er hún skipar, að fara með það vald, er henni er veitt samkvæmt þessum lögum. Það þarf ekki að vera að gera neina alþingissamþykkt um það. Það liggur í skauti ríkisstj. að skipa slíka n. og láta hana fara með það vald gagnvart útflytjendunum, sem sú n. á að fara, sem ætlazt er til að verði lögfest í þessu frv. Þess vegna er, eins og áður hefur verið sagt, þetta frv. algerlega óþarft að því leyti, að það gerir hvorugt að auka vald ríkisstj. til áhrifa á þessi mál né að skerða vald ríkisstj. til áhrifa í sambandi við þetta mál.

Ég held, að ég hafi þá svarað þeirri gagnrýni, sem hann beindi að málflutningi okkar minnihlutamanna í sambandi við þetta mál.

En það er annað í þessu frv., sem fullkomlega er ástæða til að vekja athygli á og ég minntist ekki á í minni fyrri ræðu hér og ekki er heldur minnzt á í nál. okkar minnihlutamanna. Það er verulegt atriði, og ég skil vel og eiginlega eingöngu með tilliti til þess þá miklu sókn hjá hæstv. sjútvmrh., sem hann færir hér fyrir því að fá þetta frv. staðfest.

Samkvæmt þessu frv. er gerð sú höfuðbreyting, að í stað þess, að ríkisstj. nú samkv. gildandi l. fer öll með framkvæmd þessara mála allra, bæði sjávarútvegsins og landbúnaðarins, þá á nú að láta sjútvmrh. fá alræðisvald yfir öllum þeim málum í þessu efni, sem sjávarútveginn snerta. Það stendur, að ráðh., sem fer með sjávarútvegsmál, skipi n., hann skipi formanninn, og það er allt lagt í hans skaut. Þetta er markað enn skýrara með öðrum ákvæðum þessa frv., því að í 4. gr., eftir að komið er yfir það, að sjútvmrh. einn eigi að fara með alla framkvæmd allra þessara mála að því er sjávarútveginn snertir, þá stendur: „Ríkisstjórnin getur ákveðið, að aðrar vörur en sjávarafurðir megi ekki bjóða til sölu eða selja til útlanda nema að fengnu leyfi hennar og með þeim skilyrðum, er hún setur.“ Vald ríkisstj. í þessum útflutningsmálum öllum tekur aðeins til þess hluta af útflutningnum, sem er utan sjávarafurðanna og er þá aðallega sá litli hluti, sem fluttur er út af landbúnaðarvöru. Það er þessi mikla breyting, sem hér er gerð og ég ætla að ekki hafi getað farið fram hjá þeim mönnum, sem nú fjalla um þetta mál. En þetta er höfuðbreyting. Ég veit að vísu, að í framkvæmdinni er þetta í flestum tilfeilum þannig, að sá ráðh., sem þau málefni heyra undir, fer að langsamlega mestu leyti með þau mál. En þegar lögin um þetta voru sett 1940, þótti vera um svo stórt og mikilsvarðandi mál að ræða, að rétt væri og sjálfsagt, að þessi mál heyrðu undir ríkisstj. alla, hún bæri öll, einn fyrir alla og allir fyrir einn, ábyrgð á framkvæmd þeirra, þó að hún svo aftur skipti með sér verkum í þessu efni innan ríkisstj. Nú er frá þessu horfið, og það getur þó ekki verið byggt á því, að nú sé minna um varið um framkvæmd þessara mála en áður var, því að alltaf hefur þó verið þróun í þessu og vandinn í þessum efnum hefur sízt minnkað frá því, sem var fyrir hálfum öðrum áratug, að það var ákveðið, að þetta skyldi vera svona.

Ég vil vekja athygli á þessu, því að ef þetta frv. verður lögfest, þá eru allir aðrir ráðh. en sjútvmrh. dæmdir úr leik til afskipta af þessum málum, að því er sjávarútveginn snertir. Hinir ráðh. koma ekkert til, nema þegar um er að ræða að flytja út landbúnaðarafurðir, sem manni sýnist þó vera, miðað við útflutningsmagnið, — það er náttúrlega vandi á höndum í sambandi við söluna í báðum tilfellunum, en ef miðað er við útflutningsmagnið, þá ætti þó ekki að vera brýnni þörf á því að búa svona miklu betur um að því er þetta litla magn snertir.

Það má vel vera, — það veit ég að sjálfsögðu ekkert um, — að máske hafi þetta verið tekið upp í stjórnarsamninginn, þegar hann var gerður, að sjútvmrh. fengi þetta alræðisvald, þ.e.a.s. eins og það er markað innan ramma laganna. Út fyrir það getur hann að sjálfsögðu ekki farið. Þá er ekki undarlegt og verður í rauninni skiljanlegra, að hæstv. sjútvmrh. sæki það nú fast, að þetta frv., sem veitir honum þetta óskoraða vald, verði samþ. Og það verður enn fremur miklu skiljanlegra en það er miðað við eðlilega afstöðu til málefna, að sumir af þm. úr stjórnarflokkunum, þrátt fyrir það að þeir málefnalega séu okkur minnihlutamönnum alveg sammála, ætla samt og það af stjórnarhollustu einni saman að fylgja þessu frv. Ef þetta er svona, sem líklegt má telja, þá er nú þessi aðstaða skiljanlegri en ella.