07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru hér nokkur atriði, sem fram hafa komið í þessum umr., sem ég tel rétt að gera hér athugasemdir við.

Það var frsm. minni hl., hv. þm. Borgf. (PO), sem sagði hér, að afstaða þeirra minnihlutamanna til þessa frv. hefði markazt fyrst og fremst af tvennu: annars vegar af því, að frv. væri í sjálfu sér óþarft, og hins vegar af því, að í grg. frv. væri boðuð ný stefna, sem þeir teldu vera varhugaverða.

Ég vil nú víkja örlitið að þessari skilgreiningu hans á afstöðu þeirra. Hér hefur áður verið rætt nokkuð nm það, hvort þörf hefði í raun og veru verið á því að flytja það frv., sem hér liggur fyrir um skipulag afurðasölumála sjávarútvegsins. Ég hef haldið því fram, að það væri eðlilegt, að Alþingi sjálft setti í meginatriðum reglur um það, hvernig það vill skipa afurðasölumálum sjávarútvegsins. Hins vegar hef ég játað það, að ráðh. skortir ekki í dag heimildir til þess að skipa þessum málum á þá lund, sem hann kýs nú hverju sinni.

Vissulega geta menn haft misjafnar skoðanir á því, hvort réttara er að hafa þann háttinn á, að sjútvmrh, eins og verið hefur fram til þessa, hafi alveg óbundnar hendur um það, hvernig hann hagar afurðasölumálum sjávarútvegsins, hvort hann veitir einni útflutningsgreininni einkaréttaraðstöðu, en neitar annarri um það, eða yfirleitt hvaða skipulag hann vill hafa á þessu ýmist á þessu ári eða hinu, en sem sagt að halda sér við þá reglu, sem verið hefur, að ráðh. hafi alveg óbundnar hendur um framkvæmd málsins. Ég er hins vegar á hinni skoðuninni og hef túlkað hana m.a. með því að flytja þetta frv., að ég tel eðlilegt að reyna að skipa þessum málum á nokkurn fastari hátt en gert hefur verið að undanförnu og að láta hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins búa við sömu reglur um afurðasöluna, láta þær allar lúta einum lögum, einum reglum og reyna að koma þessu í nokkru fastara form en verið hefur. Ég tel svo óþarft að vera að deila mikið um þetta atriði við hv. þm. Borgf. eða þá minnihlutamenn í þessu máli. Ég veit það, að til eru þeir menn, sem með ráðherravald fara, sem óska eftir því að hafa sínar hendur sem allra minnst bundnar, að þeir geti hagað framkvæmdinni eins og þeim býður við að horfa í hvert eitt sinn. Aðrir eru aftur á hinni skoðuninni, og þar í hópi er ég, að ég álit miklu eðlilegra um jafnmikilsvert og þýðingarmikið mál eins og þetta, að Alþingi setji höfuðreglurnar og við þær sé reynt að binda sig í framkvæmdinni.

Þá var hitt atriðið, sem myndaði afstöðu þeirra minnihlutamanna, en það er, að í grg. frv. sé boðuð ný stefna um framkvæmd þessara mála, sem sé hættuleg. Að vísu sagði hv. þm. Borgf. fyrir hönd þeirra minnihlutamanna, að ég hefði hér í ræðu minni, þegar þetta mál var síðast til umræðu, viljað taka þetta að nokkru leyti aftur og í rauninni hefði ég boðað, að í frv. fælist engin ný stefna. Þetta hlýtur að vera á misskilningi byggt hjá hv. þm. Borgf. Ég hef ekki sagt það, að í frv. fælist engin ný stefna. Síður en svo. Ég hef einmitt túlkað það hér í mínum ræðum, að bæði grg. frv. og frv. sjálft boðar nokkuð aðra framkvæmd á þessum málum en verið hefur. Það boðar þá stefnu, að í stað þess að fela einum einstökum manni að hafa með höndum veitingu á öllum útflutningsleyfum, er ákveðið, að föst þriggja manna nefnd skuli hafa þessa yfirstjórn með höndum. Þetta er vitanlega mjög veruleg breyting, þegar það svo er enn fremur ákveðið, að þessi n. er ekki aðeins sett til stutts tíma, hún er sett í lög af Alþingi og á þá vitanlega í framtíðinni að skapa þessu miklu fastara form og það um lengri tíma. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að engin af þeim útflutningssamtökum, sem nú fara með sölu á sjávarafurðum, skuli hafa einkaréttaraðstöðu. Hér er vitanlega líka um talsverða breytingu að ræða, einkum og sérstaklega varðandi söluna á saltfiski, þar sem þau samtök, sem þar hafa aðallega annazt söluna, hafa undanfarið haft einkaréttaraðstöðu í þeim efnum.

Ég hef vitanlega ekkert tekið aftur í sambandi við þessa yfirlýsingu, því að hún er alveg ótvíræð og skýr, að það er ekki meiningin að veita neinum útflutningssamtökum einkaréttaraðstöðu.

Hitt er svo algerlega rangtúlkað, að því sé haldið fram í grg. eða því hafi verið hér haldið fram af mér, að allir, sem sækja um útflutningsleyfi, skuli fá útflutningsleyfi, og að þannig verði hér skapaður glundroði í sambandi við útboð á okkar vörum á erlendum markaði.

Þetta kemur ekki fram í grg., og þetta hefur ekki verið hér boðað af mér. Það er ranglega túlkað. Hins vegar geta allir vitanlega sótt um útflutningsleyfi, og sú nefnd, sem á að hafa með að gera framkvæmd þessara mála, verður að sjálfsögðu að meta það, hvort hún vill halda sér við einn aðalútflytjanda eða hvort hún telur rétt í einstökum tilfellum að víkja þar frá, af því að einhverjir aðilar, sem nú koma inn í útflutninginn, sýna svo ótvíræða yfirburði í sambandi við sína sölu. Það er þetta, sem hefur verið gert í öðrum greinum í sambandi við útflutning á sjávarafurðum.

Það kom hér fram í ræðu hv. þm. Borgf. og einnig í ræðu hv. þm. G-K., að nú hefðu framleiðendur að saltfiski talað á mjög ótvíræðan hátt um vilja sinn um skipulag þessara mála, og ekki aðeins það, að þeir hefðu hér haldið fund með sér og lagzt gegn þessu frv., sem hér liggur fyrir, heldur beinlínis hafi þeir nú með því að tilkynna ekki til Sölusambands ísl. fiskframleiðenda fyrir 1. marz, að þeir vilji ekki fela Sölusambandinu sölumeðferð á sinni framleiðslu, raunverulega falið Sölusambandinu að selja alla sína framleiðslu, a.m.k. á þessu ári. Þetta áttu að vera alveg sérstaklega þung rök og margendurtekin hér af formanni Sjálfstfl. í sambandi við þessar umr.

Ég hef áður sagt það hér, að þetta eru vitanlega afar léttvæg rök, þegar það er haft í huga, að hér er ekki deilt um það, hvort menn vilja segja sig úr þessum samtökum, hvort menn vilja leysa Sölusamband ísl. fiskframleiðenda upp eða ekki, og þegar þess er líka gætt, að þó að þessi ákvæði séu í lögum Sölusambandsins, þá hafa þau aldrei verið notuð. Fiskframleiðendur hafa aldrei verið spurðir fyrir 1. marz um það, hvort þeir ætluðu að fela Sölusambandinu sölu á sínum saltfiski á þessu ári eða ekki. Það er mér vel kunnugt um, því að ég hef aldrei nokkurn tíma þau ár, sem ég hef haft með þessi mál að gera, fengið neina fsp. frá þeim í þessa átt, og það gerðu þeir heldur ekki nú að þessu sinni. Þeir sendu engar fyrirspurnir út til manna um það, hvort þeir óskuðu eftir því að láta Sölusambandið eitt hafa með söluna á þeirra saltfiski að gera að þessu sinni eða ekki, svo að þetta út af fyrir sig sannar ekki nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) Jú, en ég veit það. Þegar farið er að segja mér frá, að þetta sé í lögum, þá kannast ég við það, en ég veit, að þeir hafa aldrei verið látnir gera þetta. Það hefur aldrei verið gengið eftir þessu. Þetta hefur því verið dauður bókstafur allan tímann og er það að sjálfsögðu eins enn. En það er eins og annað í sambandi við túlkun þessara mála, að þar skirrast menn vitanlega ekki við að rangtúlka þetta eins og þeir mögulega geta, ef það gæti orðið þeirra málstað eitthvað til framdráttar.

Því hefur verið haldið hér fram, að á þeim fundi, sem Sölusamband ísl. fiskframleiðenda boðaði til, hafi hvorki meira né minna en 900 og ég held 998 atkv. mælt gegn samþykkt þessa frv. og aðeins 4 verið á móti. Annar ræðumaður minnti hér á það, að undan hefði verið skotið því, að nærri 200 atkv. hefðu svo setið hjá. En þar er ekki öll sagan sögð. Hið rétta er, að á þessum fundi, sem hér var boðað til, — og það þótti nú rétt að haga honum þannig, að t.d. var mér ekki gefinn kostur á því að mæta á þeim fundi til þess að skýra það mál, sem hér lá fyrir, sem hefði þó verið mjög eðlilegt, og þegar rödd kom fram um það í stjórn samtakanna, þá var þetta kveðið niður af formanninum þar. (ÓTh: Þetta eru hrein ósannindi.) Þetta er rétt. (ÓTh: Það eru vísvitandi ósannindi.) Það er mér vel kunnugt um, að það kom fram í stjórn samtakanna, en það var hins vegar kveðið niður. En hitt stendur þó alveg óumdeilt, og það er það, að það þótti ekki fært að gefa mér kost á því að mæta á þessum fundi, þar sem þetta mál var til umræðu. En vitanlega var svo framkvæmdin sú, að fjöldamargir saltfiskframleiðendur víðs vegar að af landinu höfðu enga aðstöðu til þess að mæta á þessum fundi og mættu þar ekki.

Það er auðvitað vorkunnarmál út af fyrir sig, þó að þeir, sem hafa forgöngu um mál, vilji búa áfram við þau sérréttindi, sem þeir hafa einir notið. En hið rétta er það, að á þessum fundi vantaði um helming allra atkvæða þeirra, sem atkvæðisrétt áttu að eiga á þessum fundi. Það hefur verið birt í Morgunblaðinu, að á bak við þessi atkvæði hafi staðið saltfiskmagn, sem nemur 25 þús. tonna, og ég skal út af fyrir sig ekki vefengja, að það muni vera nokkurn veginn rétt. En hitt veit ég, að útflutningurinn á saltfiski á s.l. ári nam nærri b0 þús. tonna. Það veit ég, af því að um það hef ég alveg óræka skýrslu fyrir framan mig, og hvar eru þá hin 25 þús. tonnin, sem einnig áttu að leggja fram atkvæði á þessum fundi?

Vitanlega var það svo, að menn úr heilum landsfjórðungum höfðu enga aðstöðu til að mæta þarna, og þeir mættu ekki. Þarna voru engir fulltrúar frá heilum landsfjórðungum, og mjög stórir fiskframleiðendur höfðu ekki aðstöðu til þess eða kærðu sig ekki um að mæta á þessum fundi.

En það, sem svo eftir stendur í þessum efnum, er, að forustumenn þeir, sem hafa verið í stjórn saltfisksölusamtakanna nú um margra ára skeið, hafa haldið mjög fast í að hafa þarna einkaréttaraðstöðu og fá að búa þar við söluskipulag, sem aðrir framleiðendur hafa ekki ýmist fengið, þó að þeir hafi óskað eftir því, eða þá að þeir hafa ekki viljað koma á í sínum starfsgreinum slíku skipulagi.

Ég vil líka í þessu efni vekja athygli á því, að það var býsna athyglisvert að heyra það af munni hv. þm. G-K. (ÓTh), formanns Sjálfstfl., þegar hann sagði, að það, að skreiðarútflytjendur byggju ekki við sama skipulag og saltfiskútflytjendur, væri svo sem ekki honum að kenna, hann hefði raunverulega boðið þeim einkaréttaraðstöðu. En á hverju stóð þá? Það stóð á því, segir hann, að framleiðendurnir sjálfir vildu það ekki. Þeir óskuðu ekki eftir því. Og hann, eins og hann orðaði það, vildi ekki neyða þá til þess að taka upp þetta skipulag. Þar sýndi það sig, að fjöldamargir framleiðendur, sem standa að skreiðarframleiðslunni, þó að jafnvel þeir hefðu myndað með sér sölusamlag margir hverjir, óskuðu ekki eftir því að taka upp það skipulag að veita einum aðila einkaréttaraðstöðu til sölu á skreið. Þeir töldu hitt skipulagið eins æskilegt, að fleiri mættu koma að þessu verki, og það væri aðeins heilbrigt, að nokkrir útflytjendur ættu þarna kost á því að fylgjast með gangi þessara mála, og það væri ekki nein veruleg hætta á því, að um undirboð yrði að ræða eða tjón af völdum slíks.

Skreiðarsalan er ekki ómerkilegri en svo, að á s.l. ári var seld skreið úr landinu fyrir 103 millj. kr., að vísu af allmörgum aðilum. Í sambandi við söluna á skreið hefur einmitt ríkt það skipulag, sem ég hef hér boðað að ætti nú að taka upp einnig gagnvart saltfiski og öðrum útflutningsgreinum sjávarútvegsins, að þeir aðilar, sem hafa með söluna að gera, yrðu að afla sér útflutningsleyfa hverju sinni, opinberir aðilar yrðu að samþykkja sölur þær, sem fram fara, yrðu að samþykkja verðið og gætu sett skilyrði fyrir framkvæmd málanna í heild.

Hitt verð ég svo að segja að er alveg furðulegt, þegar því er haldið fram og það í fullri alvörn, að það sé eðlilegt að láta aðeins einn mann hafa með slíka yfirstjórn að gera eins og að velja á milli fjölmargra útflytjenda um það, hvort þeir fá heimild til þess að selja og fyrir hvaða verð og til hvaða landa hverju sinni, þegar um jafnmikinn útflutning er að ræða og t.d. á allri skreiðarframleiðslu landsmanna, sem s.l. ár nam 103 millj., og er nú í sambandi við útflutning á öllu fiskmjöli, sem nam s.l. ár um 67 millj. kr., og á öllu lýsi, sem nam að útflutningsverðmæti um 81 millj. kr. Það er vítanlega mjög óeðlilegt, að leyfi fyrir þessum útflutningi séu í höndum aðeins eins manns. Miklu eðlilegra er að skipa þessu á fastan hátt og fela þetta vald þremur mönnum, sem Alþingi hefur ákveðið að ættu að starfa í þessu.

Þá kom hér fram eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf., sem ég tel ástæðu til þess að víkja að með örfáum orðum, en það var, að í þessu frv. væri gert ráð fyrir þeirri meginbreytingu, að útflutningsmál sjávarútvegsins væru nú algerlega falin sjútvmrh. einum og aðrir ráðh. í ríkisstj. hefðu þar ekkert um að segja; að sjútvmrh. fengi sem sagt, eins og hann sagði hér, algert alræðisvald, en fram til þessa hefði það verið þannig orðað, a.m.k. í lögum, að ríkisstj. öll ætti hér hlut að máli.

Þetta er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. Borgf. Í þessum efnum er engin breyting gerð með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er kunnugt, að þegar út var gefin við myndun núverandi ríkisstj. yfirlýsing um skiptingu starfa ráðh., þá var það mjög greinilega fram tekið í því opinbera plaggi, að sjútvmrh. fari með sölu sjávarafurða úr landi, en það er líka jafnframt tekið þar fram, að landbrh. fer með sölu á landbúnaðarafurðum úr landi og iðnmrh. fer með sölu á iðnaðarvörum úr landi. Þetta er því allt saman opinberlega alveg ákveðið fyrir fram.

Frv. gerir því ekki ráð fyrir nokkurri breyt. í þessum efnum, hvorki frá því, sem hefur verið í framkvæmd, eða því, sem er yfir lýst. Hér er því ekki verið að færa sjútvmrh. neitt aukið vald frá því, sem verið hefur. Hann hefur haft möguleika til þess að ráða öllu um það, hvernig hefur verið staðið að þessum málum samkvæmt lögum og reglum og öllum venjum, og þetta frv. er því ekki flutt á neinn hátt til þess að auka þar við valdsvið hans eða skerða þar vald einhverra annarra.

Þá vildi hv. þm. G-K. gera hér mikið úr því, að siðasta ræða mín um þetta mál hefði verið mjög á aðra lund og í henni hefði verið allt annar tónn, eins og hann sagði, heldur en í fyrri ræðum mínum um málið eða í grg. frv., og bann reyndi svo að rökstyðja þetta með því að lesa nokkrar tilvitnanir í minar ræður. En það fór nú eins og vill verða, að hann sleit þar orð alveg úr samhengi og mistúlkaði alveg á hinn herfilegasta hátt.

Mín afstaða hefur verið alveg ljós og skýr í þessu frá upphafi, og það var einmitt eitt meginatriði í minni síðustu ræðu um þetta mál hér á Alþ. að lesa upp úr mínum fyrri ræðum til þess að sýna, hverju ég hefði haldið fram um tilætlunina með framkvæmd á þessum lögum, þar sem ég var þá að afsanna það, að tilætlunin væri sú að rífa niður samtök framleiðenda, eins og þeir sjálfstæðismenn hafa reynt að halda að mönnum að ætlunin væri.

Hv. þm. G-K. sagði, að nú hefði ég t.d. sagt, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem annazt hefði saltfisksöluna, hefði margt vel gert. En hann hefði nú einnig mátt muna það, að nákvæmlega það sama hafði ég sagt hér áður um þessi sömu samtök. Það var ekki í fyrsta skipti á þessum fundi. Ég hef sem sagt sagt það áður. Mér hefur aldrei komið það til hugar, — ég lýsti því reyndar yfir í sömu ræðu, — og ég mundi ekki hafa beitt mér fyrir því, ef ég hefði áfram verið umboðsaðili fyrir þau framleiðslufarartæki, sem ég stjórnaði um hríð, að þau segðu sig úr Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Ég álít þvert á móti, að saltfiskframleiðendur eins og aðrir framleiðendur eigi að hafa með sér framleiðendafélög, sem gjarnan vinni að sölu á sjávarafurðum, og reyni að byggja sig þar upp á eðlilegan hátt. Og ég tel að S.Í.F. hafi fulla aðstöðu til þess að sinna þessum hagsmunamálum saltfiskframleiðenda á eðlilegan hátt samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, þótt að lögum yrði, þó að það hafi ekki einkaréttaraðstöðu, eins og hv. þm. G-K. berst svo mjög fyrir að samtökin fái að hafa áfram.

Mér kemur því ekki til hugar að halda því fram, að þessi framleiðendasamtök hafi ekki margt vel gert. En ég hef líka lýst því hér yfir og ætla að halda mér við það, að ég tel enga ástæðu til þess að fara að draga hér inn í þessar umr. og rífast hér um margt það, sem þeir hafa líka illa gert eða þeim hefur tekizt illa með. Ég hef ekki farið í neinn slíkan tiltíning og ætla mér ekki að gera það, því að ég tel, að það sé með öllu óþarft í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir.

Þá minntist hv. þm, G-K. á það, að ég hefði látið hér orð falla um, að það væri álit manna, að það skipulag, sem nú ríkti í afurðasölumálunum, gæti ekki staðið til lengdar. Það er það, sem ég segi enn. Ég tel, að það sé með öllu óeðlilegt, að sala á saltfiski sé bundin þeim reglum, að þar gildi einkaréttaraðstaða, en um sölu á frosnum fiski megi ekki hafa sama háttinn á og um sölu á skreið megi ekki heldur hafa sama háttinn á, og sala á fiskimjöll, lýsi og öðru slíku eigi að lúta allt öðrum reglum. Ég tel miklu eðlilegra, að sala á öllum þessum greinum sjávarafurða eigi að fara fram með svipuðu skipulagi og það eigi að löggilda einu og sömu aðferð um söluform á þessu í öllum greinum.

Framleiðendur viðurkenna það almennt, að skipulag á þessu hefur verið lélegt, mjög lélegt, og þeir eru ábyggilega ekki margir framleiðendur, sem ekki viðurkenna, að það hljóti að verða mjög tímabundin sú framkvæmd að láta aðeins einn mann hafa með það að gera að veita útflutningsleyfi fyrir jafnmiklu af útflutningi sjávarafurða og nú á sér stað.

Þá var á það minnzt, að ég hefði sagt, að í ýmsum greinum hafi ríkt hér misrétti. Það er einmitt þetta misrétti, sem ég var núna að greina frá. Það hefur verið misrétti um skipulag í þessum málum á milli hinna ýmsu framleiðslugreina og milli hinna ýmsu aðila, sem með þessi mál hafa farið, og það á að breyta því. Það á að setja eina og almenna reglu yfir útflutning sjávarafurða.

Þá þótti það voðalegt, að ég hefði sagt, að samtök framleiðenda yrðu að víkja í sambandi við sölu á sjávarafurðum, ef það kæmi í ljós, að þau gætu ekki gert jafnvel og aðrir um söluna. Ég held mér við þetta og vil endurtaka það enn, að ég álít það með öllu rangt, jafnvel þó að svo sé komið einhverjum samtökum framleiðenda, að þau fari með sölu á allmiklu magni af framleiðslunni, að þá eigi ekki að láta þau komast upp með það að selja framleiðsluna á miklu lægra verði en sannanlega er hægt.

Ég álít, að í sambandi við sölu á útflutningsvörum landsmanna eigi þjóðarhagsmunir að gilda, en ekki sérhagsmunir einstakra hópa.

Að þessu leyti til verður vitanlega réttur framleiðenda í framleiðslusamtökum að takmarkast við hagsmuni heildarinnar. Þetta vitanlega þýðir ekki það, að með þessu sé ekki ætlazt til þess, að framleiðendur geti haft með sér samtök, sem vinni á eðlilegan hátt að sölu á þeirra framleiðsluvörum.

Ég hirði svo ekki að fara út í að ræða hér í löngu málí, þó að það væri svo sem á ýmsan hátt girnilegt, þær raunverulegu hótanir, sem fram komu hér hjá hv. þm. G-K. í nafni útvegsmanna, þar sem hann vildi gera mikið úr því, að ríkisstj. gæti ekki skipað þeim fyrir nema mjög takmarkað og að þeir hefðu nú tekið völdin af ríkisstj. í þessum málum. Ég er alveg fullviss um það, af því að ég hef kynnt mér vel afstöðu útvegsmanna til þessara mála, að þeir eru ekki óánægðir með þá skipan, sem ég hef hugsað mér og ég hef hér túlkað á þessum málum, þó að nokkrir þeirra séu að vísu óánægðir, — það er rétt, það veit ég um. Ég hef orðið var við það

frá upphafi, og ég veit ósköp vel, hve djúpt þau mótmæli rista, sem frá sumum þessara samtaka koma, þó að þau séu nú fram komin. Ég kannast t.d. mætavel við það, að þegar ég átti í samningum við útvegsmenn um rekstur sjávarútvegsins nú á þessu komandi árí, þegar ég átti í samningum við þá dagana fyrir jólin, þá var mjög gengið fast að ýmsum fulltrúum sjávarútvegsins með að eiga ekki neina samninga við ríkisstj. um rekstrargrundvöll bátaútvegsins á þessu ári nema með því meginskilyrði, að afurðasölulöggjöfinni yrði ekki breytt, með því meginskilyrði, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda skyldi áfram hafa einkaréttaraðstöðu í sambandi við sölu á saltfiski.

Ég vék að þessu nokkuð hér í umr. um þetta mál, þegar það bar á góma í Ed., og þegar einn af þm. Sjálfstfl. inntí margsinnis eftir því, hvort það væri ekki skilyrði frá hálfu útvegsmanna í sambandi við það, að þeir byrjuðu róðra upp úr áramótum, að sama skipulag skyldi gilda um sölu sjávarafurða og hefði verið og þar yrðu ekki gerðar breytingar á, þó að ríkisstj. hefði boðað nýtt frv. um skipan þeirra mála, þá ræddi ég þetta þar og sagði þá frá þessu, sem mér var fullkunnugt um, að ýmsir forustumenn Sjálfstfl. gengu þá mjög fast á útvegsmenn að rifta því samkomulagi, sem þeir þá raunverulega höfðu gert varðandi rekstrarafkomu bátanna á komandi ári, með því að setja nýtt skilyrði fram varðandi þessi mál. En það fór svo, að þeir útvegsmenn, sem gerðust þar talsmenn þessara forustumanna Sjálfstfl., sem höfðu áhuga í þessum efnum, urðu að láta í minni pokann. Hinir aðrir útvegsmenn tóku þar völdin og ákváðu að halda sér við gert samkomulag. Og þegar þeir höfðu fengið að sjá það frv., sem hér liggur nú fyrir, og hvaða skipan þessara mála var hér hugsuð, þá undu þeir sínum hag vel. Þeir sáu, að það var ekki meiningin að raska á neinn hátt því söluskipulagi, sem t.d. útvegsmenn hafa byggt sér upp í sambandi við sölu á frosnum fiski eða í sambandi við sölu á skreið eða öðru slíku. Og þeir lýstu því þar einnig margir yfir, að þeir teldu enga ástæðu til þess, að saltfisksalan færi fram með öðrum hætti en salan á öðrum afurðum.

Við þessar umr. lýsti ég því líka yfir, sem ég hef marggert síðan, að það hefði ekki verið mín meining á nokkurn hátt að ætla að veitast að samtökum framleiðenda. Það er algerlega rangtúlkað af nokkrum forustumönnum Sjálfstfl., sem reyna að halda því fram.

Hitt var svo annað mál, að ég taldi rétt, eins og ég hef hér sagt, að settar yrðu nokkru fastari reglur um framkvæmd þessara mála heldur en gilt hafa og að tök væru á því að koma hér við eðlilegu, opinberu eftirliti með framkvæmd málanna og einnig að ákveða sama söluform á öllum greinum sjávarútvegsins.

Og það er það sama, sem hér er svo aftur að endurtaka sig, að það eru nokkrir af forustumönnum Sjálfstfl., sem brjótast um á hæl og hnakka og eru mjög illir yfir því, að það er ætlað að framkvæma málið þannig, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda fái ekki að njóta þeirra sérréttinda, sem það hefur notið, þeirrar einkaréttaraðstöðu, að það verði sem sagt að beygja sig undir það, sem hin samtökin hafa þurft að búa við. Nokkrir forustumenn Sjálfstfl. mega ekki til þess hugsa og reyna að skapa allan uppsteyt, sem þeir geta, út af þessu, bæði hér á Alþingi og annars staðar. En ég fyrir mitt leyti, jafnvel þó að hv. þm. G-K. hafi hér uppi hótanir um það, hvernig útvegsmenn muni taka bæði þessum lögum og öðrum fyrirskipunum ríkisstj. varðandi þessi mál, er ekki vitundar ögn hræddur við þessar hótanir, af því að ég veit nefnilega miklu betur en hann um það, hver er afstaða framleiðenda til þessara mála almennt, og ég veit, að hann getur ekki, þó að hann vildi leggja sig fram, fengið þá til þess að fara út í neinar ógöngur í sambandi við þá skipan þessara mála, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri að sinni, en held nú, að það liggi mjög ljóst fyrir öllum, að það, sem lagt er til með þessu frv., er í rauninni ofur eðlilegt. Hér er ekki gert ráð fyrir því að svipta útvegsmenn aðstöðu til þess að eiga hér hlut að máli. Hins vegar er óneitanlega gert ráð fyrir því, að mjög vafasöm einkaréttaraðstaða í framkvæmd þeirra mála verði afnumin. Svo er það bara manna að gera það upp við sig, hvort þeir vilja endilega berjast með því áfram, að þessi sérstaða, sem skapazt hefur hjá S.Í.F., eigi hér að halda áfram öllu lengur en verið befur. Þeir, sem eru á því, að það þurfi endanlega að vernda þessa sérstöðu, verða vitanlega á móti þessu frv. í von um, að þeir geti þannig komið í veg fyrir, að þar verði breytt til, en hinum er eflaust líka ljóst, hvað við á að taka, sem vilja aftur styðja þetta frv.