07.03.1957
Neðri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. N-Þ. sagði varðandi Samband ísl. samvinnufélaga, leiði ég aðeins athygli að því, að það hlýtur að vega þyngra, sem þessir ágætu menn gera, heldur en það, sem þeir láta í ljós í bréflegri umsögn. Þeir hafa skrifað, að þeir telji, að það eigi að vera minnst tveir útflytjendur, en í verkinu hafa þeir tryggt, að þeir geti ekki orðið annar, og skal ég svo láta útrætt um það.

Ég vissi nú sannast sagna ekki, hvaða erindi hann átti í lónið, hv. 2. landsk. þm. Ég held hann hafi minnt, að hann væri kominn í pontuna sem barnakennari og væri hér með fræðslu handa mönnum, sem lítið þekktu þetta mál.

Hv. síðasti ræðumaður svaraði honum varðandi innflutnings- og útflutningsverzlunina, svo að ég skal ekki endurtaka það, enda er hann mér færari um það, en það er auðvitað rétt og óhagganlegt, sem hann þar um sagði.

Það eru skrýtin rök, sem hv. 2. landsk. færir hér fram, að fiskframleiðendur hafi ekki mætt á þessum fundi. Sjómennirnir séu þeir raunverulegu framleiðendur. Þeir hafi bara selt fiskinn. Svo leyfi kaupendurnir sér að mæta og fjalla um það, hvernig fara eigi með fisksöluna úr landi. Þetta eru of hláleg rök til að bera þau hér fram.

Ég verð að stikla á stóru og hlaupa yfir flest í þessari stuttu athugasemd. Ég sé nú ekki, að þetta samvinnufélag útgerðarmanna eða fisksölusamlagið sé nein glæpasamkunda, þó að það leyfi sér að kaupa þak yfir höfuð sér. Ég veit ekki til, að það sé neinn meinbugur á því. Það var veitt fjárfestingarleyfi fyrir því húsnæði og til afnota fyrir skrifstofuhúsnæði, og ég hygg, að það geti þá sætt eins mikilli gagnrýni fyrir að sitja í dýru húsnæði og sér óhentugu. Er það svona til merkis um, að þessi maður veit lítið, hvað hann er eiginlega að tala um og hver er kjarni málsins.

Hv. þm. sagði, að ágreiningur um fiskverð væri oft á milli sjómanna og útvegsmanna, hann væri óheppilegur og honum mætti auðvitað eyða með nánari þekkingu beggja aðila á hvors annars hag. Ég fellst á, að það er mjög heppilegt, að báðir aðilar hafi sem mestar upplýsingar um kjarna málsins. En við sjáum í dag, hvort það er einhlítt. Hér stendur yfir þjóðhættuleg deila á milli sjómanna og skipaeigenda. Hverjir eru þessir skipaeigendur? Það er ríkið með ríkisskip og strandferðaskipin, það er Samband ísl. samvinnufélaga með sína 20 þús. meðlimi og Eimskipafélagið með sína 14–15 þús. meðlimi. Allur almenningur á að eiga aðgang að því, sem þar er kjarni málsins. En það virðist ekki hafa nægt til að hindra þá deilu.

Ég skal svo ekki svara þessum hv. þm. meira, enda er lítil þörf fyrir löng svör honum til handa. Ég hefði kunnað betur, að hæstv. ráðh. hefði haldið sína löngu og óheilu ræðu, meðan ég hafði lengri tíma til andsvara en örstutta athugasemd.

Hæstv. ráðherra leggur á það megináherzlu, það gerði að sumu leyti hv. 2. landsk. líka, — að allir eigi að lúta einum reglum um útflutning og útflutningsréttindi. Og ég er sammála þessu. Ég veit ekkert um, hvað hv. 2. þm. landsk. veit um þetta, en ég er alveg sannfærður um, að hæstv. ráðh. hlýtur að vera að gera tilraun til þess að villa mönnum sýn. Það er gersamlega útilokað, að það hafi farið fram hjá honum, sem er kjarni þessa máls, að ég fyrir mitt leyti hef viljað láta útgerðarmenn og fiskeigendur njóta sama réttar og sama frelsis. Sömu reglur hafa gilt um skreiðina og fiskinn. En eins og ég áður sagði, þar sem allir saltfiskeigendur hafa viljað standa saman, hef ég viljað og getað verndað það. En þar sem skreiðareigendur hafa ekki óskað sjálfir eftir að standa saman, hef ég ekki viljað þvinga þá. Það getur ekki farið fram hjá útvegsmanni, sem þó er þetta kunnugur verzlunarviðskiptum sem hæstv. sjútvmrh. er, að þetta mál liggur alveg ljóst fyrir. Það er um það að ræða: mega útvegsmenn ráða eða mega þeir ekki ráða?

Þá er það líka meginvilla hjá hæstv. ráðh., að hann geti ekki ráðið nm framkvæmd þessara mála nema með nýjum lögum. Og vil ég einnig segja hæstv. ráðherra það, að þó að þessi lög verði sett, þá getur nýr ráðh. farið með þau eins og hann vill. Það er þess vegna ekki búið að tryggja neina festu í framkvæmdinni, sem hann er alltaf að tala um. Á enga lund.

Ég vil svo ekki fara langt út í það, sem ég áður er búinn að margskýra, að hæstv. ráðh. hefur með ótvíræðum orðum sagt, að heildarsamtök útvegsmanna verði að víkja í einstökum tilfellum fyrir hverjum einum, sem þá stundina geti selt fyrir hærra verð. Orðrétt ummæli hans um þetta eru þau, „að heildarsamtökin verða þrátt fyrir allt að víkja til hliðar með leyfi fyrir öðrum, ef aðrir geta staðið sig betur í sambandi við söluna en samtök framleiðenda kunni að gera í einstökum tilfeilum“. Það er einmitt þetta, sem okkur ber á milli málefnalega, að ég óttast, að ef menn með lítið magn í einstökum tilfellum geta spillt því trausti, sem heildarsamtökin hafa, þá geti það orðið þjóðhættulegt og til stórskaða fyrir landsmenn alla.

Nú lifa framleiðendur á því, að heildarsamtök þeirra segja t.d.: Ef þið kaupið af mér í dag 100 þús. tonn, þá skal ég ábyrgjast ykkur, að enginn annar skal koma við hliðina á ykkur eftir hálfan mánuð og undirbjóða ykkur. Ég skal ábyrgjast það og ég skal standa við það, því að ég ræð fisksölunni á Íslandi. — Þetta segja heildarsamtökin. Ef aftur á móti annar kemur eftir hálfan mánuð með útflutningsleyfi, er býður t.d. fyrir 10 pund lægra tonnið, þá er öryggið horfið og verðið fallið. Íslendingar og engir aðrir borga þann brúsa. Það er afar hættulegt, ef sjútvmrh. hefur ekki gert sér grein fyrir þeim voða, sem þarna kann að vera á ferð. Þessum voða vona ég að sé afstýrt í þetta skiptið, vegna þess að saltfiskeigendur ætla allir að standa saman.

Ég vil svo alveg sérstaklega gera það þinginu kunnugt, að það eru alveg staðlausir stafir, að nokkur rödd hafi komið fram um það í stjórn fisksölusamlagsins að bjóða ráðh. að mæta á þeim fundi, sem þar var haldinn, og að þessi rödd hafi verið barin niður af formanninum. Það er skárri maðurinn, sem ráðh. heldur að hann sé orðinn. Ég hefði t.d. kannske ekki verið mjög hræddur við að koma og tala þar við hann, þó að útgerðarmenn heyrðu. Ég hefði ekki verið mjög hræddur við það, og ég gat komið þar alveg eins og hann. Ég bað um, að mér yrði gert aðvart, ef hann hætti sér á fundinn, svo að við gætum leitt saman hesta okkar. En hann mætti ekki, hvernig sem á því stóð. Ég vona, að hann sé ekki orðinn svo fínn, að hann geti ekki mætt hjá útvegsmönnum, ef hann hefur tíma til þess, þó að hann kallist ráðherra í dag. Ef hann er orðinn svo fínn, þá held ég, að það væri tími til að færa hann úr „úniforminu“.

Ég árétta enn, að minn vilji hefur verið sá, að framleiðendur stæðu saman, en ef þeir hafa ekki viljað standa saman, þá hafa þeir fengið að ráða því. Það getur ekki verið, að þessi kjarni málsins fari fram hjá ráðh., og fari hann ekki fram hjá ráðh., þá er ráðh. að tala utan við allt efníð meginpart af sinni ræðu.

Hæstv. ráðh. réðst alveg óþarflega hér að útvegsmönnum, og ég vil mótmæla þeim ásökunum, sem hann þar ber á þá. Hann segir, að þeir segi við sig allt annað undir fjögur augu en þeir segja með sínum atkvæðum niðri á sölusamlagsfundi og með sinni þátttöku í sölusamlaginu. Hann segir, að þeir hafi margsagt við sig, þegar hann var að semja við þá fyrir áramótin, að þeir kæri sig ekkert um nein sérréttindi, eins og hann kallar það, þ.e.a.s. nein einkasöluréttindi fyrir saltfiskinn. En ef þeir kæra sig ekki um það, af hverju standa þeir þá allir saman um saltfiskinn? Það er alveg óþarfi fyrir ráðherrann að koma hér upp í þingsalinn og bera útgerðarmenn þeim brigzlum, að þeir séu þær kvígur, að þeir þori ekki að segja við hann það, sem þeir meina, óg ég veit, að hann segir það ósatt.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mér þetta tækifæri og sýnt mér þolinmæði og skal ekki misnota það meira.