06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

Endurskoðun varnarsamningsins

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. félmrh., þeim síðustu, vil ég aðeins taka það fram, að það er engin nýjung í því samkomulagi, sem nú hefur verið gert, samkv. því sem hæstv. utanrrh. las upp, að það sé á valdi íslenzku ríkisstj. einnar að kveða á um það, hvort erlent herlið skuli vera hér eða ekki. Fyrirmæli varnarsamningsins um það, samningsins frá 1951, eru alveg ótvíræð, enda kom ekkert fram hjá hæstv. utanrrh., sem benti til þess, að hann teldi hér vera um nýjung að ræða. Og eins er það síður en svo nýjung, að íslenzka ríkisstj. geti ákveðið, hvenær uppsagnarfrestirnir eigi að hefjast. Það vald hefur hún haft. Og fljótt á litið virðist sú ein breyting vera nú á samningnum frá því, sem verið hefur, að leita á samráðs við Bandaríkin ein um það, hvenær þessir samningar skuli hefjast, í stað þess að áður átti að hafa samráð við öll Atlantshafsríkin. Hvort það er svo styrkur Íslandi eða ekki, skal ég ekki segja. Í þessu efni eru mörg vafamál.

Þó vil ég taka það skýrt fram, að varðandi meginefni málsins er ég hæstv. utanrrh. þakklátur. Hann hefur varðandi það, sem mestu máli skiptir, fylgt eftir þeirri tili. til þál., sem við sjálfstæðismenn bárum fram nú fyrir tæpum mánuði, og komið í veg fyrir það, að varnarliðið yrði flutt burt frá landinu, og í verki gert að engu samþykkt Alþingis frá 28. marz. Þetta virðist vera ljóst, jafnvel við fljóta athugun, og fyrir það þakka ég hæstv. utanrrh. og tel, að hann eigi alþjóðar lof skilið fyrir, enda er vitað, að það var bein krafa meginþorra landsmanna, að þannig yrði farið að, eins og við sjálfstæðismenn lögðum til í till. okkar. Þó að stjórnarliðið hefði þá ekki geð í sér til að samþ. till., heldur reyndi að eyða henni, ber að meta hitt meira, að í framkvæmd hafa þeir um þetta farið eftir okkar ábendingum, og er það þeim sagt til verðugs heiðurs.

Það verður svo auðvitað að fyrirgefast, ef svo má segja, þó að reynt sé að gera þá nokkuð beisku pillu, sem þetta hefur verið fyrir suma, eilítið sætari með nokkrum umbúðum. Við þekkjum það, þegar á að fá niður í sjúkan maga eða óþekkan krakka holl læknislyf, þá er sett utan á það súkkulaði eða eitthvað annað, til þess að þetta gangi betur niður. Og mér virtist, að margt í þeim umbúðum, sem hæstv. utanrrh. hér var að gera okkur grein fyrir, væri þess eðlis, að það væri til þess að gera sumum, — ég skal ekki nafngreina þá, það er óþarft, — léttara að kingja því, sem þeir nú þurfa að kingja. Áð svo miklu leyti sem það nær ekki lengra, er það meinlaust. Það er engin ánægja fyrir okkur að sjá þessa menn kúgast meira en þeir þurfa, og þess vegna er það gott og lýsir stjórnvizku hæstv. utanrrh., ef honum hefur tekizt að friða sitt lið með þessum umbúðum.

En hins vegar verð ég að segja, að ég get ekki áttað mig til hlítar á því, hvort umbúðirnar eru að öllu leyti úr skaðlausu efni. Til þess þarf að efnagreina þær betur. Það þarf að gefast kostur á því að skoða nánar, hvað hér hefur verið gert, heldur en við eigum kost á með því að heyra nokkuð skjótlega upplesna tilkynningu í lok hinnar nokkuð löngu ræðu hæstv. utanrrh. Ég tel, að í því sambandi komi ýmis vafaatriði upp og athuga þurfi nánar, hvort allt það stenzt, sem hann um það sagði.

Nú er það kunnugt, að allir þm. nema sjálfstæðisþingmenn hafa átt þess kost að kynna sér þetta samkomulag, sumir nokkuð lengi, aðrir eitthvað skemur. Enginn okkar hefur hins vegar heyrt þetta. Þó að við höfum heyrt margt á skotspónum, höfum við hvorki leynt né ljóst tekið þátt í þessum umr., verið þar til kvaddir né fylgzt með því, sem gerzt hefur. Þess vegna tel ég það sanngjarnt, að áður en þessum umr. verði haldið áfram og áður en farið verður að telja ræðutíma minn eða annarra þeim til reiknings varðandi áframhaldandi umr., verði þessum fundi frestað eða meðferð málsins frestað.

Ég vildi óska þess, að umr. yrði frestað til morguns, okkur yrði gefið færi á því að ræða þetta mál á venjulegum þingtíma á morgun og hæstv. utanrrh. léti okkur til athugunar í té tilkynningu þá, sem hann nú hefur lesið, til þess að við mættum skoða hana og íhuga, hvað í henni felst.