14.03.1957
Efri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að tekin verði upp nokkuð breytt skipan á reglum þeim, sem í gildi hafa verið um sölu og útflutning sjávarafurða.

Þetta mál hefur nú verið rætt hér allýtarlega á Alþingi og einnig rætt talsvert mikið í blöðum, svo að ég sé ekki ástæðu til þess hér við 1. umr. málsins að fara um það mjög mörgum orðum, en mun reyna að gera hér grein fyrir nokkrum aðalatriðum málsins, en væntanlega yrðu þá ýtarlegri umr. hér, þegar málið kemur úr nefnd.

Eins og kunnugt er, hafa aðalreglur þær, sem í gildi hafa verið um útflutning og sölu sjávarafurða, verið þannig, að nokkuð mismunandi skipulag hefur gilt um sölu hinna einstöku útflutningsvara sjávarútvegsins. Þannig hefur t.d. aðeins ein stofnun haft með að gera sölu á öllum saltfiski landsmanna nú um nokkurra ára skeið, þ.e. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem hefur haft einkarétt til útflutnings á saltfiski. Á svipaðan hátt hefur verið einn aðill, sem haft hefur með að gera sölu og útflutning á saltaðri síld frá landinu, en það er síldarútvegsnefnd, sem er að hálfu leyti opinber stofnun, þar sem Alþingi kýs hana að meiri hluta til. En síldarútvegsnefnd hefur einnig fengið löggildingu sem einkaútflytjandi venjulega árlega frá viðkomandi sjútvmrh.

Sala á frosnum fiski hefur verið með þeim hætti, að það hafa aðallega þrír aðilar farið með sölumálin, þ.e. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, en í þeim samtökum eru langsamlega flest frystihús landsins, Samband ísl. samvinnufélaga, en það hefur með að gera rekstur margra frystihúsa í landinu, og þriðji aðilinn hefur svo verið fiskiðjuver ríkisins.

Nokkur dæmi eru til þess á undanförnum árum, að fleiri aðilar hafi haft með að gera sölu á lítils háttar eða nokkrum hluta af frosna fiskinum, en það er fyrst og fremst um þessa þrjá aðila að ræða.

Sala á skreið hefur verið í höndum skreiðarsamlagsins og í höndum Sambands ísl. samvinnufélaga og einnig í höndum nokkurra annarra stærri skreiðarframleiðenda í landinu.

Útflutningur og sala á öðrum sjávarafurðum, eins og fiskimjöli, lýsi og ýmsum öðrum afurðum, hefur svo verið í höndunum á ýmsum aðilum, mörgum í hverri grein fyrir sig.

Það er því augljóst af þessu, að það hafa ekki gilt sömu reglur um fyrirkomulag varðandi útflutning og sölu hinna einstöku greina sjávarútvegsins, þar er allmikill munur á, sums staðar er um einkaréttaraðstöðu að ræða, en í öðrum tilfellum eru tiltölulega fáir, sem annast útflutninginn, og í enn öðrum tilfellum eru aðilarnir margir.

Með þessu frv. er lagt til að koma á samræmdu skipulagi í þessum efnum, þannig að sömu ákvæði gildi um útflutning og sölu á öllum helztu greinum sjávarútvegsins, og þá gert ráð fyrir því, að enginn aðili fái einkaleyfísaðstöðu, en stefnt verði að því að samtök framleiðenda geti farið með sölumálin, en þurfi þó að leita eftir útflutningsleyfum til sérstakrar stjórnar útflutningsmála, sem samþykkir þá þær sölur, sem leyfðar verða hverju sinni.

Eins og núgildandi lagaákvæði eru, hefur í raun og veru sjútvmrh. alveg óbundnar hendur um það, hvaða reglur hann vill setja um útflutning og sölu sjávarafurða. Það má segja, að með lögunum frá 1940, sem sett voru á stríðsárunum, hafi sjútvmrh. ótakmarkað vald í þessum efnum. Hann hefur svo notað þetta vald á undanförnum árum eins og honum hefur þótt henta í hverju tilfelli um sig, en tiltölulega lítið fastar reglur hafa skapazt af þessum ástæðum.

Með þessu frv. er lagt til, að Álþingi setji nú með löggjöf fastar nokkrar aðalreglur í þessum efnum, m.a. með því að ákveða, að föst þriggja manna n. skuli hafa með höndum yfirstjórn þessara mála í umboði ráðh. og hún skuli veita öll útflutningsleyfi, fylgjast með öllum útflutningi, fylgjast með aðstöðu í markaðslöndunum og geta krafið alla útflytjendur um allar þær upplýsingar, sem hún telur að máli skipti í sambandi við afurðasöluna.

Á undanförnum árum hefur sjútvmrh. komið þessum málum fyrir á þá lund, að hann hefur falið einum manni að gefa út öll þau útflutningsleyfi, sem veitt hafa verið, en útflutningsleyfi hefur þurft að fá í sambandi við allan útflutning annan en útflutning á saltfiski og saltaðri síld. Það hefur sem sagt verið í höndum eins manns að hafa úrslitavald um það, hvort sala var leyfð eða leyfð ekki og með hvaða skilyrðum fyrir útflutningi, sem numið hefur mörg hundruð milljónum króna. Ég hygg, að það séu flestir útflytjendur á einu máli um það, að ekki sé eðlilegt að búa við skipulag eins og þetta til frambúðar, en hitt sé miklu eðlilegra, að þetta mikla vald verði sett í hendur fleiri manna og reynt verði að samræma þær reglur, sem unnið er eftír í þessum efnum. Og að því miðar þetta frv. einnig.

Þá er það svo a.m.k. í þeim tilfeilum, þar sem útflytjendur sjávarafurða hafa nú haft einkaréttaraðstöðu, einkaleyfisaðstöðu, að þá má segja, að þeir hafi með öllu verið eftirlitslausir af hálfu hins opinbera. En með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að einnig þeir aðilar, sem þannig hafa unnið á undanförnum árum, verði látnir lúta sömu ákvæðum og aðrir hvað eftirlit snertir og þeir séu skyldir að gefa útflutningsstjórn allar þær upplýsingar, sem hún óskar eftir, varðandi gang sölumálanna. Þetta tel ég mjög mikilsvert atriði, bæði fyrir hið opinbera og eins fyrir þau framleiðendasamtök, sem taka að sér afurðasöluna sjálfa. Það er alkunna, að uppi hefur verið mikil tortryggni á því, hvernig á þessum málum hefur verið haldið, og ýmsu haldið fram um það á undanförnum árum, hvort vel eða illa í einstökum tilfellum hefur verið staðið að þessum málum, og ég tel, að það væri á allan hátt bezt fyrir þessi samtök sjálf, sem fara með framkvæmd málanna, að vinna þannig í beinu samstarfi við opinbera nefnd, sem þyrfti í hverju einstöku tilfeill að samþykkja það, sem gert er í sambandi við útflutning og sölu sjávarafurða.

Ég ætla svo að víkja að örfáum atriðum, sem fram hafa komið í almennum umr. um þetta mál að undanförnu, þeim þeirra, sem ég tel að skipti nokkru máli um afstöðu þm. til frv.

Því hefur verið haldið fram, að það sé ekki þörf á því að lögleiða það frv., sem hér liggur fyrir, af þeim ástæðum, að í frv. felist engar nýjar heimildir fyrir ríkisstj. varðandi framkvæmd þessara mála frá því, sem verið hefur.

Um þetta atriði er enginn ágreiningur við mig eða ríkisstj., sem stendur að flutningi þessa frv. Okkur er það ljóst, að núgildandi lagaákvæði heimila þeim ráðh., sem fer með útflutning sjávarafurða, í rauninni allt það vald, sem hægt er að veita einum aðila varðandi þau mál.

Með þessu frv. er því ekki verið að leita eftir neinum nýjum heimildum. En ástæðan til þess, að rétt þykir að setja þau lagaákvæði, sem eru bundin í þessu frv., er sú, að ég er þeirrar skoðunar, að Alþingi eigi í meginatriðum að slá föstu með lagasetningu því skipulagi, sem það telur eðlilegt að hafa á þessum málum, en ekki hafa þau svo laus að segja svo að segja í einni setningu, að ráðh. sá, sem fer með þessi mál, geti farið með þau að eigin vild.

Ég tel miklu eðlilegra, að Alþingi slái föstu í löggjöfinni nokkrum meginatriðum, eins og t.d. því, að sérstök þriggja manna útflutningsstjórn hafi yfirstjórn þessara mála með höndum, veiti öll útflutningsleyfi og geti fylgzt með framkvæmd hinna þýðingarmiklu afurðasölumála.

Þá hefur því nokkuð verið haldið fram, að með þessu frv. væri verið að boða nýja afstöðu til félagssamtaka framleiðenda, og jafnvel hefur það verið sagt í því efni, að hér væri verið að boða útvegsmönnum stríð á hendur af hálfu ríkisstj.

Hér er vitanlega mjög ranglega frá skýrt. Ég hef þvert á móti margsinnis lýst því yfir, að það er mín skoðun, að það beri á allan hátt að styðja á eðlilegan hátt félagssamtök framleiðenda, sem vilja taka að sér sölu á framleiðsluvörum þeirra, enda er ekki gert ráð fyrir því í því nýja skipulagi, sem hér er boðað, að svipta þessi félagssamtök á neinn hátt eðlilegri aðstöðu til þess að fjalla um þessi mál.

Það er að vísu rétt, að það er gert ráð fyrir því, að þau félagssamtök, sem til eru og notið hafa algerra sérréttinda fram yfir önnur félagssamtök eða framleiðendasamtök, njóti ekki þeirra sérréttinda áfram, heldur verði að búa við þær almennu reglur, sem öðrum framleiðendasamtökum er ætlað að búa við og önnur framleiðendasamtök hafa þurft að búa við á undanförnum árum.

Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem hefur haft einkaleyfi til útflutnings og sölu á öllum saltfiski, getur að sjálfsögðu haldið áfram að starfa sem samtök saltfiskframleiðenda, og það mun að sjálfsögðu fá leyfi til þess að annast saltfisksölu áfram. Og sé málunum þannig háttað, að allir saltfiskframleiðendur í landinu óski eftir því að veita þeim samtökum umboð sitt til þess að annast söluna, þá vitanlega verður það einkaútflytjandi í reynd.

En ég tel, að það sé eðlilegt að segja við Sölusamband ísl. fiskframleiðenda það sama og sagt er við Samlag skreiðarframleiðenda eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða önnur framleiðendasamtök: Þið getið unnið að sölumálum á ykkar sviði undir eðlilegu eftirliti ríkisins með því að sækja um útflutningsleyfi hverju sinni, en þið þurfið ekki að hafa nein sérréttindi fram yfir önnur framleiðendasamtök.

Þá hefur því stundum verið haldið fram, að með þeirri stefnubreytingu, sem hér er boðuð, sé hætta á því, að skapað verði hér öngþveitisástand í sambandi við útboð á sjávarafurðum á erlendum markaði, með því að margir aðilar bjóði út sömu vöruna og valdi þannig undirboðum og skaða fyrir landsmenn sem heild.

Þetta tel ég að sé líka rangt, því að það er ekki á neinn hátt boðað hér í sambandi við þessa skipulagsbreytingu, að stefna beri að því að fjölga stórlega útflytjendum. Ég álít, að það sé rétt að fara þar varlega í og dreifa útflutningnum ekki á allt of margar hendur. En hins vegar álít ég, að heilbrigð samkeppni nokkurra aðila geti komið að miklu gagni, og tel, að framleiðendur hafi beinlínis sýnt það, þar sem þeir hafa fengið að ráða þessum málum alveg óhindrað sjálfir á undanförnum árum, að þeir líta einmitt svona á. Það var t.d. mjög athyglisvert, þegar skreiðarútflutningur kom til sögunnar fyrir nokkrum árum, þá áttu framleiðendur skreiðar kost á því að fá einkaréttaraðstöðu í sambandi við útflutning á skreið fyrir sitt skreiðarsamlag, á hliðstæðan hátt eins og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hafði haft í saltfisksölumálunum, en fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, sem jafnframt var sjútvmrh., hefur upplýst, að þó að hann hafi boðið framleiðendum upp á þessi kjör, hafi þeir svarað neitandi og ekki óskað eftir því, að neinn aðill fengi einkaleyfisaðstöðu í sambandi við útboð og sölu á skreið, en óskuðu einmitt eftir því að byggja þarna upp á þeim megingrundveili, sem markaður er með þessu frv. Þeir gátu þar byggt upp sín sölusamtök, Samlag skreiðarframleiðenda, þar gat Samband ísl. samvinnufélaga sameinað sína aðila undir einum útflutningi, og þar gátu ýmsir aðrir útflytjendur að skreið einnig fengið að athafna sig. En allir þessir aðilar þurftu að sækja um útflutningsleyfi hverju sinni og fá viðurkenningu þess manns, sem til þess var skipaður af ráðh. að hafa þar eftírlit með útflutningnum og verðlagi hverju sinni.

Ég tel einmitt, að það, sem þarna gerðist af frjálsum vilja framleiðenda, hafi sýnt það, að þeir drógu mjög í efa, að rétt væri að fara í það einkaréttarhorf, sem hafði þó verið í gildi í saltfisksölunni um margra ára skeið.

En á það hefur nú verið bent, að framleiðendur hafi sagt sitt allt um þetta frv. og mælt gegn því og að af þeim ástæðum sé rétt, að Alþingi fari sér hægt um það að setja þessi lög.

Það er nú í fyrsta lagi, að ég tel, að málið hafi verið mjög ranglega túlkað á þeim fundum, þar sem málið hefur verið rætt af ýmsum aðilum, þar sem því hefur beinlínis verið haldið fram, að hér væri verið að ganga á eðlilegan rétt framleiðslufélaga og að af því séu ýmsar samþykktir, sem gerðar hafa verið, ekki rökréttar út frá því, sem efni málsins segir til um. Einnig er það, að sá eini aðilinn, sem haldið hefur hér fund um málið, samtök saltfiskframleiðenda, sem notið hafa nokkurra sérréttinda, — það var svo sem ekki óeðlilegt, að þau félagssamtök reyndu að spyrna við fótum og vildu halda áfram í sín sérréttindi. En þó er það svo, að samþykktir hjá saltfiskframleiðendum segja enn þá harla lítið um það, hvernig raunveruleg afstaða saltfiskframleiðenda í landinu er.

Á það hefur verið bent, að á þessum fundi Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem haldinn var um málið, hafi atkv. fallið þannig, að þeir, sem voru þar umboðsmenn fyrir um 25 þús. tonna af saltfiski eða greiddu þar atkv. í krafti 25 þús. tonna af saltfiski, hafi verið málinu andvígir, en hins vegar hafi miklum mun færri, eða þeir, sem fóru þar með atkv., sem samsvöruðu 6–8 þús. tonnum, hygg ég, setið hjá eða verið málinu hlynntir. Þessar tölur eru vægast sagt mjög villandi, í fyrsta lagi vegna þess, að það er augljóst þeim, sem til þekkja, að á þessum fundi koma hvergi nærri fram öll þau atkv., sem að eðlilegum hætti hefðu átt að koma fram í þessum samtökum. Saltfiskútflutningurinn á s.l. ári nam rétt um það bil 50 þús. tonna, svo að greinilegt er, að á þetta hefur vantað akvæðamagn frá nærri helmingnum af þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, og þó er sennilegt, að þegar miðað er við tölur aðilanna sjálfra, hafi vantað mikinn meiri hluta, því að nokkrir þeir stærstu, sem heima eiga hér í nágrenni við fundarstaðinn, voru vitanlega mættir, en hinir smærri, sem heima eiga víðs vegar úti á landi, höfðu enga aðstöðu til að mæta. Auk þess er svo það, að þeir, sem eiga verulegan hlut að máli, sjómennirnir á fiskiflotanum, eru hér ekki beinir aðilar að, þó að þeir séu rökformlega eigendur að rámlega heimingi alls fiskafla í landinu. En þeir eiga sér ekki neinn atkvæðisrétt um þessi mál í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, en frá þeim hafa einmitt komið á undanförnum árum allverulegar umkvartanir um það, hvernig haldið væri á þessum afurðasölumálum.

Þau önnur framleiðendafélög, sem látið hafa til sín heyra um þetta frv., hafa verið harla fáorð um það, og sýnilega láta þau flest þeirra málið ekki verulega til sín taka, þar sem líka skipan sú, sem frv. gerir ráð fyrir, breytir yfirleitt sáralitlu í framkvæmd afurðasölumálanna hjá þeim. En það er sem sé staðreynd, að nokkur pólitískur úlfaþytur hefur orðið út af frv. þessu, og það fer ekki leynt, að einn stjórnmálafl. hefur sérstaklega staðið að þeim úlfaþyt og ekki aðeins nú, þegar frv. kom fram, heldur einnig hér á Alþ. nokkru áður en það kom fram.

Ég þykist vita það, að einmitt hv. þm. hér í þessari d. kannist við það um þetta mál, sem dróst hér nokkuð inn í umr. dagana fyrir jólin, þegar var verið að semja við útvegsmenn um rekstrargrundvöll báta og togara á þessu ári, að þá leyndi það sér ekki, að vissir menn hér lögðu á það mikla áherzlu og höfðu beitt sér mjög fast fyrir því hjá bátaútvegsmönnum, að þeir settu einmitt skilyrði fyrir öllu samkomulagi við ríkisstjórnina um það, að frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði ekki gert að lögum. Hins vegar fóru þeir leikar þá svo, að útvegsmenn urðu ekki við þessum óskum ýmissa forustumanna Sjálfstfl. Þeir neituðu eftir alllangar og miklar umr. í sínum félagssamtökum að gera það að neinu skilyrði, þó að þeir hefðu kynnt sér frv. og lesið það allt saman eins og það liggur hér fyrir, þar sem þeir litu svo á, að hér væri ekki á neinn hátt skert aðstaða þeirra félagssamtaka, sem þeir annars báru nokkuð fyrir brjósti.

Það er rétt, að það komi skýrt fram, að sá ágreiningur, sem hér hefur komið upp varðandi þetta mál, snýst auðvitað fyrst og fremst um það, hvort á áfram að veita tilteknum sölusamlögum sérréttindi fram yfir það, sem önnur sölusamtök hafa, hvort þau eiga að vera áfram undanþegin eðlilegu opinberu eftirliti í sambandi við það mikilvæga verkefni, sem þau annars hafa með höndum fyrir þjóðarbúið.

Um það er ágreiningurinn, en ekki um þær reglur, sem þetta frv. boðar um nokkru fastari framkvæmd þessara mála, því að það hygg ég að flestir verði að viðurkenna, að á slíku er vitanlega full þörf.

Eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, sé ég ekki ástæðu til þess að rekja hér þetta mál öllu lengur, án þess að sérstakt tilefni gefist til við þessa umr., en tel hins vegar eðlilegt, að aðalumr. um málið verði eftir að það hefur hér verið athugað í n. og tillögur og greinargerðir manna koma fram hér og afstaða þeirra til málsins.