14.03.1957
Efri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég á sæti þeirri hv. n., sem fjalla mun um þetta mál, þannig að ég get verið stuttorður um það efnislega á þessu stigi meðferðar þess. Þó vil ég ekki láta þessari 1. umr. um þetta frv. ljúka svo hér í hv. þingdeild, að ekki komi fram nokkrar athugasemdir við það og nokkur andmæli gegn ýmsum þeim staðhæfingum, sem hæstv. sjútvmrh., er lagði málið fyrir, lét sér um munn fara.

Það er fyrst að athuga við þetta mál, að það er fyrst og fremst liður í pólitískri herferð kommúnista á hendur framleiðslunni og í sókn þeirra fyrir auknum áhrifum á íslenzk efnahags- og viðskiptamál. Það er þess vegna hin mesta firra, þegar hæstv. sjútvmrh. lætur að því liggja, að sjálfstæðismenn hafi vakið pólitískan úlfaþyt um hagsmunamál útflutningsframleiðslunnar. Það, sem gerzt hefur, er það, að Sjálfstfl. hefur tekið upp hanzkann og tekið sér stöðu við hlið framleiðenda, sem svo að segja allir í einum kór hafa mótmælt þessu frv., sem fyrst og fremst er verið að reyna að knýja fram af hæstv. sjútvmrh. kommúnista.

Þetta er það, sem raunverulega hefur gerzt, en ekki hitt, að sjálfstæðismenn hafi að fyrra bragði hafið pólitískan úlfaþyt um þessi mjög svo þýðingarmiklu mál, þ.e.a.s. skipulag útflutningsframleiðslunnar.

Ég vil fyrst leyfa mér að vekja athygli á því, áður en ég minnist lauslega á nokkur efnisatriði málsins, að í hv. Nd. hefur sú n., sem um málið hefur fjallað, þ.e.a.s. sjútvn., leitað álits allra þeirra aðila um það, sem það fyrst og fremst snertir, þ.e.a.s. fyrirsvarsmanna útflutningssamtaka sjávarútvegsins. Þessir aðilar eru, með leyfi hæstv. forseta:

1. Síldarútvegsnefnd.

2. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda.

3. Alþýðusamband Íslands.

4. Félag síldarsaltenda á Suðvesturlandi.

5. Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi.

6. Samband ísl. samvinnufélaga.

7. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

8. Samlag skreiðarframleiðenda.

9. Landssamband ísl. útvegsmanna.

10. Fiskifélag Íslands.

Allir þessir aðilar hafa orðið við þeim tilmælum hv. sjútvn. Nd. að láta í ljós álit sitt á þessu frv. Og niðurstaðan hefur orðið sú, eins og sést á fylgiskjölunum, sem fylgja nál. sjútvn. Nd., að aðeins einn aðilinn, Alþýðusamband Íslands, mælir með samþykkt frv. Síldarútvegsnefnd lýsir því yfir sem sinni skoðun, að hagkvæmast sé, að sala og útflutningur síldar verði áfram eins og verið hefur nú um skeið í höndum eins aðila, og mælir gegn því, að frá því ráði verði horfið.

Samband ísl. samvinnufélaga telur heppilegast, að minnst tveir útflytjendur séu löggiltir til að hafa á hendi útflutning sjávarafurða, en allir hinir sjö aðilarnir mótmæla því harðlega, að sá háttur verði á hafður, sem lagður er til í frv. þessu, og mótmæla því, að frv. verði samþykkt.

Ég álít, að það gefi bezta hugmynd um það, hversu gagnlegt þetta frv. muni vera sjávarútveginum og útflutningsframleiðslunni, hvernig þeir aðilar, sem með þau mál fara nú, hafa snúizt við því, og þeir hafa, eins og ég sagði, allir í einum kór mótmælt frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ranglega frá skýrt, að ríkisstj. sé í stríði við framleiðendur, hún vilji þvert á móti styðja samtök framleiðenda. Hvernig stendur þá á mótmælum allra þessara aðila, sem nú fara með stjórnina á útflutningi sjávarafurða? Ef það er raunverulega þannig, og ef það er hægt að lesa það út úr efni þessa frv., að ríkisstj. vilji styðja samtök framleiðenda, hvers vegna er þá verið að mótmæla þessu frv.?

Getur hæstv. ráðh. gefið gleggri skýringar á því ? Getur verið, að þessi samtök framleiðenda séu að mótmæla auknum stuðningi, auknum skilningi á starfi þeirra og þýðingu þeirra fyrir hagsmuni sjávarútvegsins og þess fólks, sem að því starfar? Það er frekar ótrúlegt a.m.k.

Nei, það verður vissulega að ætla, að framleiðendurnir sjálfir og þau samtök, sem þeir hafa myndað, beri gleggst skyn á það, hvað er þeim fyrir beztu, og það er staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að þau samtök, sem nú fara með stjórn útflutningsmálanna, hvort á sínu sviði, eins og ég gat hér að ofan, hafa fyrst og fremst verið byggð upp af framleiðendunum sjálfum. Sums staðar hefur stuðningur ríkisvaldsins komið til og ábending um það, að slík samtök væru heppileg, og ríkisvaldið átti þátt í því að setja löggjöf, sem lagt hefur grundvöllinn að starfsemi þessara félagssamtaka. Þetta á t.d. við um Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem stofnað var, þegar samkeppnin í útflutningnum var að setja sjávarútveginn á hausinn. Þetta á við um síldarútvegsnefnd, og þetta á við um ýmis fleiri samtök, sem nú fara með stjórn útflutningsmála sjávarútvegsins. En það er gegn þessum samtökum, sem hæstv. ríkisstj. hefur ráðizt með flutningi þess frv., sem hæstv. ráðh. var að mæla hér fyrir og taldi fyrst og fremst vera til þess að koma öruggari og fastari skipan á útflutningsmál sjávarútvegsins.

Ég vil þessu næst minnast á það, að skv. lögum frá 1940 um sölu og útflutning á vörum og reglugerð um sama efni er ríkisstj. veitt mjög viðtækt vald yfir útflutningnum, þ. á m. á sjávarafurðum, og það hefur verið talið af þeim, sem bezt skyn bera á, að ekki séu í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, nokkur þau ákvæði, sem fyrrgreind lög og reglugerð fela ekki í sér, það sé ekki um neinar sérstakar nýjungar að ræða í sjálfri lagasetningunni, að öðru leyti en því, að gert er ráð fyrir í þessu frv., að ráðherra skipi valdamikla nefnd, sem hafi yfirstjórn allra þessara mála.

Á þeim tíma, þeim rúmlega hálfum öðrum áratug, sem ríkisstj. hefur haft þetta vald, hefur þróunin yfirleitt gengið í þá átt, að framleiðendurnir hafa falið félagssamtökum sínum að sjá um sölu afurða sinna. Þannig er það nú, að framleiðendur saltfisks hafa myndað samtök, er nefnast Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og annast sölu á saltfiski. Freðfiskssalan er að mestu leyti í höndum tveggja félagssamtaka, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem algerlega er byggð upp af eigendum hraðfrystihúsa og fiskiðjuvera í landinu, og Sambands ísl. samvinnufélaga, sem hefur annazt sölu afurða þeirra frystihúsa, sem sambandskaupfélögin eiga víðs vegar nm land. Þá hefur Samband skreiðarframleiðenda í sínum höndum sölu á um 70% af allri skreiðarframleiðslunni. Þau samtök eru byggð upp af skreiðarframleiðendum og eru einna yngst þessara samtaka, þar sem skreiðarframleiðslan hefur fyrst færzt verulega í aukana á síðustu árum. Og loks er það síldarútvegsnefnd, sem sér um sölu á allri útfluttri saltsíld. Þessir aðilar hafa í umboði framleiðendanna og undir stjórn þeirra annazt sölu á íslenzkum sjávarafurðum úr landi.

Það er, hygg ég, óhætt að segja, að framkvæmd þess viðtæka valds, sem ríkisstj. hefur samkv. lögunum frá 1940 og hún raunar hefur haft nokkru lengur á einstökum sviðum, hefur yfirleitt farið þannig úr hendi, að fimm síðustu árin hafa ekki komið fram till. á Alþingi um nýja skipan þessara mála. Og það er athyglisvert, að allan þennan tíma hefur þó t.d. núv. hæstv. sjútvmrh. átt sæti á Alþingi. Hann hefur þrátt fyrir það ekki séð ástæðu til þess að flytja frv. um skipulagsbreytingu á þessum málum, og hann hefur meira að segja sjálfur verið þátttakandi í samtökum saltfisksútflytjenda, og að því er vitað er, þá hefur ekki frá honum heyrzt sérstök gagnrýni á starfshætti þeirra samtaka.

Á það hefur verið bent, að það, sem fyrst og fremst vakir fyrir hæstv. sjútvmrh. með flutningi þessa máls hér nú, sé að koma á stefnubreytingu í meðferð þess valds, sem ríkisstj. hefur haft og henni er ætlað að hafa framvegis í þessum málum. Það er það, sem samtök framleiðenda hafa verið að mótmæla. Þau hafa lýst yfir, eins og greinilega kemur fram í umsögnum þeirra, sem eru fskj. með nál. sjútvn. Nd., að milli ríkisvaldsins og samtakanna hafi verið hin bezta samvinna á undanförnum árum, nú sé því hins vegar lýst yfir, að ætlunin sé að breyta mjög verulega til um framkvæmd þessa valds, sem ríkisstj. hefur í sinni hendi og mun hafa áfram í sinni hendi. Á það er m.a. bent, að í grg. fyrir frv., sem hæstv. ríkisstj. flytur, er greinilega að þessu vikið. Þar er m.a. komizt að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt þessu fyrirkomulagi fær enginn útflytjandi einkarétt á útflutningi neinnar vörutegundar, en hverjum sem vill gefst kostur á að sýna hæfni sína og möguleika þá, sem fyrir hendi eru.“

Það er þetta, sem samtök framleiðenda eru að mótmæla. Þau hafa leitt rök að því, bæði saltfiskframleiðendur og síldarframleiðendur og raunar framleiðendur allra sjávarafurða leggja áherzlu á það, að heppilegra sé, að útflytjandinn sé einn, og meira að segja Samband ísl. samvinnufélaga lýsir því yfir í sinni álitsgerð um frv., að það telji rétt, að útflytjendur séu ekki færri en tveir. En það hefur á sama tíma og það lýsir þessu yfir falið Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda að annast sölu á sínum fiski á þessu ári, þ.e.a.s., það hefur lýst því yfir, að á þessu stigi málsins telji það æskilegast, að útflytjandi saltfisksins sé einn.

Það er óþarfi að vera að lesa upp úr álitsgerðum þessara samtaka þau ummæli, sem hniga 1 þá átt, sem ég hér hef gert, en ég tel þó rétt að minnast á nokkur þessara ummæla.

Sölusamband ísl. fiskframleiðenda kemst t.d. að orði m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Fengin reynsla hefur sýnt, að öruggasta leiðin að þessu marki (að því að fá sem hæst verð fyrir afurðirnar) er einmitt sú, að framleiðendur standi óklofnir að sölusamtökum sínum og að öll sala á erlenda markaði sé á einni hendi. Samkeppni margra útflytjenda um sölu á einni og sömu vöru á sama markaði og oft og tíðum samtímis til eins og sama kaupanda eða innflutningsaðila getur aldrei orðið til að halda uppi vöruverðinu, heldur hlýtur slík samkeppni jafnan að leiða að meira eða minna leyti til undirboða og verðfellingar, og það því fremur sem framboðið er meira. Auk þess fær hinn erlendi kaupandi oftast ranga hugmynd um hinar raunverulegu birgðir í landinu, þegar boð berast honum úr öllum áttum, enda þótt það sé í raun réttri einungis svo, að fleiri aðilar eru samtímis að bjóða út sama vörumagnið, en reynsla hefur leitt í ljós, að það verkar ávallt sem hemill á kaupendur, ef þeir halda, að miklar birgðir séu fyrir hendi. Álita verður því, að það mundi að verulegu leyti veikja aðstöðu Íslendinga um saltfisksölur, ef einstökum aðilum yrði leyfður útflutningur á saltfiski, jafnvel þótt í smáum stíl væri.“

Þetta segir Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, og á aukafundi þess, sem haldinn var hinn 8. febr. s.l., voru samþykkt eindregin mótmæli gegn því frv., sem hér liggur fyrir, og ályktunin samþ. með 802 atkv. gegn 4, en Í95 atkvæðaseðlar voru auðir.

Það er af þessu ljóst, hversu einhuga útflytjendur saltfisks eru í andstöðu sinni gegn þessu frv. Í áliti Félags síldarsaltenda á Suðvesturlandi er komizt að orði m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér viljum þegar í upphafi lýsa þeirri skoðun vorri, að bezt fari á því, að sala sjávarafurða til útlanda sé á sem fæstra höndum, og að framboð margra aðila á þeim vörum hafi oftlega valdið stórtjóni. Að öðru leyti munum vér í þessu bréfi voru halda oss eingöngu við sölufyrirkomulag saltsíldar.“

Í lok umsagnar sinnar kemst Félag síldarsaltenda á Suðvesturlandi svo að orði á þessa leið: „Vér viljum enn fremur leggja áherzlu á, að nú hagar svo til um sölu saltsíldar, að aðeins fá lönd eru kaupendur að henni og meginhluti sölunnar á sér stað með milliríkjasamningum. Mælir þetta mjög gegn framboði margra aðila eða fleiri en eins. Í þeim tilfeilum, sem salan fer fram á annan hátt, er víst að kaupendur, auk framleiðenda hér heima, telja hag sínum betur borgið, þegar við einn aðila er að skipta með saltsíldarkaup, sem getur þá tryggt þeim, að undirboð verði ekki gerð.

Með tilliti til framanritaðs leyfum vér oss að mæla eindregið gegn því, að umrætt frv. verði samþykkt.“

Er þá komið að áliti Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi. Í álitsgerð þess um frv. hæstv. ríkisstj. eða hæstv. sjútvmrh. er m.a. komizt að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Þar eð vér berum traust til núv. síldarútvegsnefndar og teljum, að starf hennar hafi orðið að miklu gagni, einkum vegna þess, að framboðið hefur verið á einni hendi og nefndinni hefur tekizt að halda vel á síldarsölumálunum, þá mótmælum vér mjög eindregið framkomnu frv. um sölu og útflutning sjávarafurða, að því leyti sem það snertir útflutning þeirrar greinar sjávarútvegsins, saltsíldarframleiðslunnar, sem vér höfum með höndum. Vér leyfum oss því að mæla eindregið gegn því, að umrætt frv. verði samþykkt.“

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna telur einnig upp allmörg atriði, sem stofnunin telur mæla gegn samþykkt þessa frv., og segir síðan:

„Að öllu þessu athuguðu leggjum vér til, að frv. það, er hér um ræðir, verði ekki samþykkt.“ Samband ísl. samvinnufélaga hafði, eins og ég gat um áðan, lýst því yfir, að það teldi heppilegast, að minnst tveir útflytjendur séu löggiltir til að hafa á hendi útflutning á öllum sjávarafurðum, en stjórn Sölusambandsins lýsti ekki yfir neinum stuðningi við frv., og í álitsgerð hennar felst þvert á móti andstaða við efni þess og eðli. Samlag skreiðarframleiðenda telur upp fjölmörg rök, sem mæli gegn frv., og lýsir því að lokum yfir, að „vér teljum umrætt frv. á engan hátt vera til bóta fyrir sölu sjávarafurða, heldur til hins gagnstæða, og mælum eindregið á móti lögfestingu þess.“

Loks kemur yfirlýsing frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands. Í niðurlagi umsagnar Landssambandsins er m.a. komizt að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef margir eru um að selja sömu vöruna, virðist kaupendum oft og tíðum, að um miklu meira framboð sé að ræða en í raun og veru er, og hefur það áhrif til lækkunar á söluverði afurðanna. L.Í.Ú. leggur höfuðáherzlu á, að sala sjávarafurða verði í höndum félagssamtaka framleiðenda sjálfra, og telur afkomu sjávarútvegsins velta á því, að sem bezt takist til um sölu afurðanna, og telur því, að það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar, ef fulltrúar, sem ekki eiga sameiginlega hagsmuni með framleiðendum, verði settir til úrslitaáhrifa í sölumálum sjávarútvegsins. Þar sem téð frv. felur í sér þessa hættu, skorar stjórn L.Í.Ú. á Alþingi að samþykkja ekki umrætt frv.“

Álit Fiskifélagsins er mjög stutt, en þó greinilegt. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í niðurlagi þess:

„Svo sem segir í athugasemdunum, er meginhluti útflutnings fiskafurðanna í höndum samtaka framleiðenda sjálfra eða aðila, sem studdir eru af þeim, og hefur svo verið um langa hríð. Telja verður, að þetta fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt, enda er ekki kunnugt um annað en að framleiðendur yfirleitt hafi talið það henta sér bezt.“

Ég hef þá getið og rifjað upp ummæli í álitsgerðum samtaka framleiðenda um þetta frv., sem hæstv. sjútvmrh. hefur nú lagt fyrir hv. þd. Það kemur greinilega fram af þeim, að því fer fjarri, að meginstaðhæfing hæstv. ráðh. fái staðizt, því fer víðs fjarri, en meginstaðhæfing hans og rök fyrir frv. eru þau, að megn óánægja ríki með núverandi skipulag á útflutningsmálum sjávarútvegsins. Samkvæmt þeim álitsgerðum, sem hér liggja fyrir, frá öllum þessum samtökum, kemur ekkert fram um þessa óánægju. Þvert á móti er það kjarni þeirra, að telja verður, að þetta fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt, enda er ekki kunnugt um annað en að framleiðendur yfirleitt hafi talið það sér bezt henta, eins og segir í niðurlagi álitsgerðar Fiskifélags Íslands. Þetta er raunverulega kjarni allra álitsgerðanna frá samtökum útflutningsframleiðslunnar.

Það kemur einnig mjög greinilega í ljós á atkvæðagreiðslunni innan Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, að þar er ekki um mikla andúð að ræða á því skipulagi, sem ríkir í þessum efnum. Aðeins fjögur atkvæði koma fram gegn ályktun, þar sem frv. er mótmælt. Ef allt logaði nú í óánægju innan þessara samtaka sjávarútvegsins, hvernig ætlar þá hæstv. ráðh. að fara að skýra þá staðreynd, að aðeins fjögur mótatkvæði koma fram? Hvernig ætlar hann að fara að skýra þá staðreynd einnig, að í þessum samtökum öllum, sem ég hér hef minnzt á, eru það menn úr öllum stjórnmálaflokkum, sem standa að mótmælunum gegn frv. hæstv. ráðh. Ég veit ekki, hvort það eru margir kommúnistar, sem að þeim standa. Ég hygg, að þeir muni vera einhverjir, en ég veit fyrir víst, að það eru menn úr öllum hinum stjórnmálaflokkunum, það eru sjálfstæðismenn, Alþýðuflokksmenn og framsóknarmenn, og er þó sambúðin ekki svo góð milli sjálfstæðismanna annars vegar og tveggja fyrrgreindra stjórnarflokka hins vegar, að það sé það, sem knýr þá til samvinnu og samstöðu um þessi mál.

Nei, hitt mun sanni nær, að þessir menn viti, hvað hentar bezt hagsmunum sinnar atvinnugreinar og hagsmunum þjóðarinnar í heild, og þess vegna hafi þeir þá ábyrgðartilfinningu að skipa sér saman í eina fylkingu, þegar um það er að ræða að taka afstöðu til þessa frv.

Ég vil svo að lokum, því að ég ætlaði mér ekki að fjölyrða mjög um þetta mál á fyrsta stígi þess, aðeins minna á, að það, sem trúlegast er orsök þess, að þetta mál er flutt hér á Alþingi nú í þeim búningi, sem raun ber vitni, er sú, að á undanförnum árum hefur flokkur hæstv. núv. sjútvmrh. oft og einatt haft uppi gífuryrði um framkvæmd á stjórn útflutningsmála okkar. Hann hefur að vísu ekki getað fundið stóryrðum sínum stað með rökum, og framleiðendur, hvar í stjórnmálaflokki sem þeir hafa staðið, hafa haldið áfram að byggja upp samtök sín, og þeir hafa haldið áfram að fela þessum samtökum að annast stjórn á útflutningsmálum sínum. Meira að segja núv. hæstv. sjútvmrh. hefur verið einn þeirra manna, sem hafa tekið þátt í þessum samtökum, hefur setið fundi þeirra ár eftir ár án þess að bera fram gagnrýni og mótmæli á starfsháttum samtakanna, þvert á móti lýst yfir ánægju sinni með starfshætti þeirra. Þegar á allt þetta er litið, fer ekki hjá því, að það hljómi hálfhjákátlega, þegar hæstv. ráðh. ætlar nú að fara að telja þingi og þjóð trú um, að hér sé um að ræða eitthvert stórkostlegt umbótamál fyrir sjávarútveginn, eitthvert stórkostlegt réttlætismál, sem hann ætli sér að knýja fram í hreinni andstöðu við svo að segja alla sjávarútvegsafurðaframleiðendur í landinu. Þetta hljómar hálfhjákátlega, og ég býst við, að hæstv. ráðh. eigi erfitt með að sannfæra fleiri en hv. þm. hér á Alþingi um það, að hann standi í einhverri heilagri réttindabaráttu fyrir sjávarútveginn með flutningi þessa frv.